Miðvikudagur 23.03.2011 - 07:45 - 7 ummæli

Athyglissjúkur arkitektúr?

Það hefur lengi verið markmið metnaðarfullra fyrirtækja að skapa sér ímynd með arkitektúr. Þau ráða færa arkitekta til þess að hanna byggingu yfir höfuðstöðvar sínar og vanda til verka þannig að húsið hýsi ekki aðeins starfssemina heldur verði tákn um stöðugleika fyritækisins og kennileiti þess um langa framtíð.

Flestir þekkja Seagram Building í New York (1957)  eftir Philip Johnson og Mies van der Rohe eða Chrysler Building á sama stað (1928-1930) eftir William von Allen.  Báðar byggingarnar hafa verið táknmyndir fyrirtækjanna  um áratugaskeið.

Í Reykjavík eru byggingar af þessum toga og nefni ég tvö góð dæmi; höfuðstöðvar Sjóvár í Kringlunni eftir Ingimund Sveinsson og Landsbankahúsið í Austurstræti eftir Guðjón Samúelsson.

Fyrirtækin lögðu metnað sinn í byggingarlistina sem átti að verða táknmynd fyrirtækisins. Þetta var ekki auglýsingamennska heldur arkitektúr sem sýndi metnað, vönduð vinnubrögð og stöðugleika þeirra sem að standa.

Þessi hugmynd þróaðist áfram  til verri vegar. Margir þekkja hús á borð við McDonalds hamborgarastaðina við þjóðvegina víða um heim. Allt með sama laginu og efnisvali. Sömu húsin fyrir sömu fyritækin allstaðar og oftast hálf leiðinlegt.  Stundum gengur þetta svo langt að arkitektúrinn víkur og eftir stendur nánast bara auglýsingin, táknmyndin.

Ég var staddur í Bandaríkjunum fyrr í mánuðinum og þá urðu á vegi mínum nokkur hús sem varla geta kallast byggingalist. Ég tók myndir af þeim og birti tvær hér með færslunni.

Eins og sjá má af myndunum eru þetta auglýsingaskilti með einhverri starfsemi innaní frekar en byggingar í hefðbundnum skilningi.  Ef þetta er arkitektúr þá er hann misnotaður  eða besta falli arkitektúr með athyglissýki.

Önnur myndin er af veitingastað með humar sem sérgrein. Byggingin (auglýsingaskiltið) er um 100 km frá ströndinni en samt er þar að finna vita fyrir sjófarendur(!) og utaná húsið er málaðar öldur  sem brotna á grjótgarði.  Hitt húsið er gjafabúð sem selur drasl. Utan á húsinu er geimskutlulíkan í hlutföllunum c.a. 1:4.

Mér var spurn: Hvað er þetta, auglýsingalist eða byggingalist?

Auglýsingaþátturinn eða ímyndin hefur þarna tekið völdin af byggingalistinni. Í markaðsþjóðfélaginu hefur sölumennska lagt umhverfið að fótum sér. Byggingalistin víkur fyrir auglýsingum sem eru stórar og klossaðar, hugsaðar fyrir fólk sem þeysist um í bílunum sínum á um 50 km hraða. Arkitektinn Jan Gehl hefur skrifað um þetta bækur og haldið fjölda fyrirlestra.

Bílasamfélagið og auglýsingamennskan hefur meiri áhrif á umhverfið en margan grunar og þau áhrif virðast ekki alltaf vera til bóta.

Húsið er byggt yfir gjafabúð sem selur drasl. Utan á húsinu er geimskutlulíkan í hlutföllunum c.a. 1:4. Allt gert til þess að ná athygli vegfarenda.

Auglýsingaflóðið er ráðandi í umhverfinu, manneskjan er ekki sjáanleg. Auglýsingarnar eru svo margar og stórar að maður tekur nánast ekki eftir þeim.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Er þetta hús sem Arni synir myndina af ekki skólabókardæmi um vistvæna hönnun…BREEAM…? Grundunin. þakefnið endurnotað efni svo sem gluggar og fl. Þetta er reglulega sveitó og vistvænt í mínum augum.

  • Mér finnst þetta dæmi sem Árni sýnir vera mun betra en t.d. þessir steingeldu flísaklæddu kassar sem N1 hefur verið að byggja út um allt land. Þarna er í það minnsta verið að reyna að gera eitthvað áhugavert þó kannski vanti uppá fágunina.

  • Árni Ólafsson

    Tívolíarkitektúr er náskylt fyrirbrigði.
    Hér er eitt dæmi úr þjóðgarði á Íslandi.
    http://www.teikna.is/Ymislegt/Tivoli-Skaftafell-2010.jpg

  • Ég er ósammála því að þetta sé ekki arkitektúr. Ég er kannski ekki hrifinn af þessu en ef campell-súpudósin hans Andy Warhol er myndlist þá er þetta líka arkitektúr.

  • Bestu dæmin um þetta finnst mér vera í bókinni Learning from Las Vegas eftir Venturi. Þar talar hann um hugtökin „duck“ (þar sem húsið er beinlínis auglýsingaskilti, t.d. pulsubar sem lítur út einsog pulsa osfrv.) og „decorated shed“ sem Venturi sjálfur varð frægur fyrir síðar meir.

    Dæmin sem þú nefnir Hilmar í þessari skemmtilegu færslu sýnist mér vera úr báðum flokkum. Í Reykjavík eru fá dæmi um „ducks“ en nokkrar byggingar hér gætu talist til „flúraðra kassa“.

    Hefur annars enginn íslenskur arkitekt gert tilraun til að þýða þessi hugtök Venturi?

    Svo er ég hjartanlega sammála þér um þessa skiltavæðingu, sem er venjulega dæmi um óþroskaðan kúrekakapítalisma að mínu mati.

  • stefán benediktsson

    Mér finnst gaman að svona byggingum, kannski ekki hægt að kalla þetta arkitektúr, meira svona disneylandismi, en aftur á móti finnst mér hörmulegt að horfa á skiltaskóga eins og þá sem maður upplifir í Ameríkunni.

  • Arkitekt skrifar

    Jan Gehl segir að maðurinn sé gerður fyrir 5 km hraða á klukkustund. Ef hann fer hraðar þarf að breyta umhverfinu í samræmi við það. Þessvegna eru skilti sem á að vera hægt að lesa á meiri hraða en 5 km/klst stærri. Ef bíll ekur á 50 km/klst þá þurfa skiltin að vera einsog sýnt er á myndinni að ofan. Ef hann fer enn hraðar þarf að stækka skiltin enn meir. Fyrir bíl á 100 km/klst þurfa skiltin að vera gríðarstór. Af þessum ástæðum á að banna atglýsingaskilti meðfram þjóðvegum og jafnvel líka skilti sem eru hönnuð til aflestrar af fólki á mikilli ferð í bílum.

    Vonandi verða felliskiltin í þéttbylinu hér á landi aflögð sem fyrst. Þau eru líka alltaf á hættulegustu stöðunum við gatnamót og slíkt.

    Þessi þjóðvegaskilti, einkum í Bandaríkjunum, eru einhver sú mesta sjónmengun sem til er á byggðu bóli.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn