Mánudagur 18.03.2013 - 11:47 - 33 ummæli

Aukin landþörf í þéttbýli

005_04_04_800

Síðunni hefur borist eftirfarandi grein frá Sigurði Thoroddsen arkitekt. Sigurður er einn reyndasti skipulagsmaður íslendinga. Hann vann nánast alla starfsæfi sína hjá Skipulagi rikisins (nú Skipulagsstofnun),  mestan hluta sem aðstoðarskipulagsstjóri. Hér skrifar hann athyglisverða grein um þróun skipulagsmála í Reykjavík frá 1927 til dags dató. Hann talar um þétta og dreifða byggð. Þetta er fróðleg grein þar sem minnt er á ýmislegt sem varpar ljósi á þróunina undanfarna áratugi í tiltölulega stuttu máli. Myndin efst í færslunni sýnir skipulag borgarinnar frá 1927.

—–

Umræður hafa verið um þéttleika byggðar í Reykjavík og víða annarsstaðar á landinu og telja margir að  þétt byggð sé  eftirsóknarvert fyrirkomulag og  tefla fram ýmsum rökum. Helstu kostir séu styttri vegalengdir milli íbúðar og vinnustaðar  og þar með ódýrara vegakerfi.  Auk þess sé  þétt byggð  manneskjulegri, meira aðlaðandi og hvetji til aukinna  samskipta milli manna. Önnur rök hafa líka verið sett fram s.s. hagstæðari  almenningssamgöngur,  skjólmyndun og betri  þjónusta af ýmsu tagi.

Aðrir telja að hæfileg blöndun  dreifðrar og þéttrar  byggðar sé eftirsóknarvert   og kynna ýmis rök. Helstu kostir séu að þarfir fólks séu ólíkar   og að ekki séu allir steyptir í sama mótið.  Sumir óski að búa mjög þétt og aðrir ekki.   Gera þurfi ráð fyrir nýjum og breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu og tækniframförum.  Hér á eftir mun ég almennt fjalla  um aukna landþörf  og þróun byggðar sem verið  hefur í  Reykjavík og  öðrum sveitarfélögum.

Forsagan

Fyrsta heildarskipulag Reykjavíkur, Skipulagsuppdráttur af  Reykjavík innan Hringbrautar,  var samþykkt 15. desember 1927.  Það  var unnið af samvinnunefnd um skipulagsmál  sem í voru fulltrúar frá skipulagsnefnd ríkisins og bæjarstjórn  Reykjavíkur.  Fulltrúi skipulagsnefndar í samvinnunefndinni var Guðjón Samúelsson, og er hann talinn aðalhöfundur  skipulagsins.  Í  skipulaginu,  er   gert ráð fyrir  íbúðarbyggð í formi svokallaðrar randbyggðar 3-4 hæða, þannig  að  hús  séu sambyggð meðfram  hliðum reitsins. Einnig var  gert ráð fyrir stakstæðum íbúðarhúsum. Við höfnina  var lagt til að hafa  fiskhús,  vöruskemmur og athafnasvæði fyrir  útgerð.   Þessi skipulagsáætlun  var  barn síns tíma og  tók mjög mið af  þeim áætlunum sem  unnar voru í Vestur Evrópu á þessum tíma.  Vegna deilna hlaut  skipulagsuppdrátturinn   ekki formlega staðfestingu ráðherra en engu að síður var farið  eftir honum  næstu árin.  Sú byggð sem samkvæmt honum reis  myndi  í dag teljast vera tiltölulega þétt. 

Næstu byggingaráfangar eftir að svæðin samkv. skipulaginu  frá 1927 voru fullbyggð  eru:  Norðurmýri austan Snorrabrautar, Melarnir í Vesturbænum,  Langholtshverfi og  síðar reis  byggð i Árbæ,  Breiðholti, Grafarvogi  og ýmsum  Austursvæðum  n.t.t. Selási , Grafarholti og Norðlingaholti.    Sammerkt með síðari uppbyggingu í Reykjavík  þ.e. austan Snorrabrautar er að byggðin hefur smám saman orðið dreifðari auk þess sem gerð hafa verið stór útivistarsvæði, s.s. í Laugardal,,  Fossvogsdal og Elliðaárdal.  Hliðstæð þróun varð í Hafnarfirði og síðar  í öðrum sveitarfélögum  á Höfuðborgarsvæðinu.

Fyrsta Aðalskipulagið og ný hugtök   

Fyrsta hefðbundna aðalskipulagið í landinu var  Aðalskipulag Reykjavíkur  1962-1983, og var það staðfest  1967. Það var  unnið af dönskum sérfræðingum, þeim  PeterBredsdorff  arkitekt/prófessor og Anders Nyvig umferðarverkfræðingi. Skipulagið  olli straumhvörfum í meðferð skipulagsmála í landinu.  Í aðalskipulaginu er funktionalisma í fyrsta sinn  kerfisbundið  beitt við skipulagsgerð, þ.e að hvert byggðahverfi fékk  sitt  afmarkaða og skilgreinda hlutverk. Ennfremur var  flokkun gatna innleidd, en það er skipting gatnakerfisins  eftir hlutverki og umferðarþunga.  Þessi skipulagsáætlun byggðist  á því  að bíllinn hefði tilekið hlutverk. Árið 1964 voru skipulagslög endurskoðuð og hugtökin svæðis- aðal- og deiliskipulag innleidd. Síðan hefur í aðalatriðum verið stuðst við  þessa  hugmyndafræði og gefist vel.

Aðalskipulagsáætlunin frá 1967  hefur verið endurskoðuð fjórum   sinnum  eða Aðalskipulag  Reykjavíkur 1984-2004  staðfest 1988, Aðalskipulag Reykjavíkur  1990-2010 staðfest  1992, Aðalskipulag Reykjavíkur  1996-2016 staðfest  1997 og Aðalskipulag Reykjavíkur   2001-2024  staðfest 2002. En í síðastnefnda aðalskipulaginu er að hluta gert ráð fyrir blandaðri byggð atvinnu og íbúða.  Allar framangreindar skipulagsáætlanir eiga það hinsvegar sammerkt að byggjast að verulegu leyti á hinu upphaflega  Aðalskipulagi  Reykjavíkur  frá 1967.

Nú er í undirbúningi  endurskoðun  Aðalskipulags Reykjavíkur sem gilda mun  fyrir skipulagstímabilið  2010 til 2030. Í þessu skipulagi er fyrst og fremst gert ráð fyrir þéttingu núverandibyggðasvæða og skilgreind sérstök þéttingarsvæði. Ekki er gert ráð fyrir nýjum hverfum utan núverandi  byggðar, en þess í stað  lögð  áhersla á sem mesta blöndun íbúðar- og atvinnusvæða innan byggðarinnar. Þetta er gert, eins og segir í texta,  til að stuðla að sjálfbærri þróun borgarumhverfisins. Lagt er til að almenningssamgöngur verði bættar og að  byggðar verði 14.500 íbúðir á skipulagstímabilinu,    aðallega í fjölbýlishúsum  og að  um 2500 íbúðir verði reistar miðsvæðis á næstu 3- 5 árum. Markmiðið er  að leggja sérstaka áherslu á leiguíbúðir með aðkomu Borgarsjóðs  og að  draga sem mest úr notkun einkabílsins. Væntanlega verða engin  bílastæði, enda það heimilt samkv. skipulagslögum. 

Þróun síðustu áratuga

Á undanförnum árum  hafa orðið  miklar breytingar á byggðamynstri í átt til dreifðari byggðar.  Ástæður fyrir þessu hafa lengi verið mönnum ljósar, en þær eru fyrst og fremst aukin  velmegun fólks,  sérstaklega  eftir  loksíðari heimstyrjaldarinnar. En bættur  efnahagur  hafði   í för með sér að fjölskyldur gátu  búið  í stærra húsnæði, eignast bíl  og   valið sér búsetuform og staðsetningu  eftir óskum hvers og eins. Þannig að landþörf í þéttbýli hefur  nokkurn veginn haldist í hendur við efnahag   þjóðarinnar.  Tækni á ýmsum sviðum hefur fleygt fram og heimilistæki ýmiskonar tekin í notkun,  sem hafa  auðveldað fólki lífið. Þetta er ekki  séríslenskt fyrirbrigði, því hliðstæð  þróun hefur verið í öllum hinum vestræna heimi.

Hin aukna  bílaeign gerði fólki  kleift að sækja  vinnu, þjónustu og frítímaiðju  úr  meiri fjarlægð en áður. Einkabíllinn  gerðifólki mögulegt  að fara hvert sem var,  á hvaða tíma sem hentaði.  Þetta hefur verið  greinileg þróun á Höfuðborgarsvæðinu,  þ.e.  að fólk sækir nú vinnu  og þjónustu í allt að 10-20 km fjarlægð frá búsetustað.  Dæmi eru um  enn meiri fjarlægðir s.s.  frá  sveitarfélögum  utan Höfuðborgarsvæðisins.

Skoðanakannanir hafa leitt í ljós  að mikill meirihluti fólks  vill búa í sérbýli,  ef það á annað borð  hefur efni á því. Fólk vill  hafa sér lóð fyrir sig  og aðgang að opnum svæðum í næsta nágrenni.   Hinsvegar er eðlilegt að verslunar-  og þjónustukjarnar séu þéttbyggðir  til hægðarauka fyrir viðskiptavini.  Því er ekki að neita að  í Reykjavík  og öðrum þéttbýlistöðum vilja sumir fremur  búa  í miðbæjarkjörnum vegna nálægðar við þjónustu,  en gera jafnframt athugasemdir við að þar sé of mikið af fólki með tilheyrandi truflun, einkum og sérílagi um nætur og  helgar. Þetta fólk vill m.ö.o. búa í göngufæri við þjónustuna en dreymir jafnframt um kyrrðina og náttúruna sem fylgir dreifðri   byggð.

En víkjum aftur að ástæðum þess að byggð hefur orðið dreifðari þ.e. að landþörf  hefur aukist. Fyrst ber að nefna að með bættum efnahag hafa íbúðir stækkað,  og fjöldi íbúa á íbúð dregist saman, eða að íbúðaflötur og hvern íbúa hefur aukist.  Þetta hefur haft í för með sér að fjöldi íbúða hefur vaxið miðað við sama íbúafjölda, þ.e. að landþörf á íbúa hefur aukist.  Til einföldunar hefur meðalfjölskyldustærð minnkað  þ.e. að fjölskyldur eiga nú   færri börn en áður, auk þess sem fleiri einstæðir búa í hverri íbúð. Ennfremur flytur unga fólkið  í auknum máli að heiman,  vegna  möguleika á  að afla sér tekna, og  margir sem eru í framhaldsnámi búa í sérstökum námsmannaíbúðum. Almenn menntun,  ekki síst kvenna,  hefur aukist, þannig að atvinnuþátttaka ernú  meiri. 

Aldraðir búa  yfirleitt ekki hjá börnum  sínum eins og áður tíðkaðist,  og hafa fjölmörg heimili fyrir þá  verið byggð. Ennfremur er  heilsufar eldri borgara betra,  þannig að margir kjósa að búa lengur  í eigin  húsnæði,  en þá er yfirleitt um 1-2 íbúa á íbúð að ræða. Allt hefur þetta áhrif á þann veg að landrýmisþörf  hefur aukist.

Meðal nýtingarhlutfall,  sem er hlutfallið  milli  flatarmáls bygginga og lóðaflatarmáls hefur dregist saman, það er  að lóðir hafa stækkað á hverja flatarmálseiningu íbúða.  Íbúðir eru  nú  öðruvísi hannaðar,  öll herbergi stærri og tæknin allt önnur. Ýmsar þjónustustofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga eru í og við íbúðarhverfi, s.s.leikskólar, barnaheimili,  grunnskóla, framhaldsskólar og sjúkrastofnanir  og þurfa lóðir þeirra að vera af tiltekinni stærð til leiks og ýmissa athafna. Allt kallar þetta á aukið  landsvæði. Þessi aukna landþörf á íbúa hefurekki einungis  komið fram í Reykjavík heldur einnig í öllum  öðrum  sveitarfélögum.

Fram hefur komið að bílaeign landsmanna hefur margfaldast,  eða  frá því að vera  122 bílar á hverja1000 íbúa árið 1960 í að vera um 760 bílar á hverja 1000 íbúa árið 2012.  Frá 1960 til þessa dags hefur bílaeign landsmanna  rúmlega sex faldast  á hverja 1000 íbúa.  Til fróðleiksmá geta  þess getið að árið 1960 voru landsmenn 176.000, en eru nú  320 þúsund eða tæplega tvöföldun.

Þessi stóraukna bílaeign hefur algjörlega breytt samskiptum manna,  þ.e varðar flutning á fólki,  vörum og þjónustu.Bylting hefur orðið í ferðafrelsi og hreyfanleika almennings og einkabíllinn  er orðinn eins hvert annað heimilistæki sem fólk vill og getur ekki verið  án. Umferðarkerfi bæði utan þéttbýlis og innan hefur tekið algjörum stakkaskiptum.  Varðandi bílastæðin var aðalreglan sú  að lóðarhafar voru  skyldugir  að gera ráð fyrir tilteknum  fjölda bílastæða  á  eigin lóð.   Nú hefur skipulagslögum illu heilli verið breytt á þann veg  að  mögulegt er  að byggja hús og/eða heilu hverfin án bílastæða ef sveitarstjórn ákveður það.

Bent hefur verið á að bílar mengi, en á síðustu árum hafa orðið  stórstígar framfarir í átt til sparneytnari og  umhverfisvænni bíla, og hafa yfirvöld hvatt til kaupa á slíkum bílum  með lækkun gjalda.  Vonandi sjáum við fram á það að innan skamms verði komnir  á markað umhverfisvænir bílar á hagstæðu verði,  sem nýta innlenda orku s.s. rafmagn, metan eða vetni. Slíkir bílar þurfa að lágmarki að komast 500 km á einni hleðslu og áfylling ekki taka meira en 5 mínútur.  

Almenningssamgöngur hafa af augljósum ástæðum lotið í lægra haldi  fyrir einkabílnum og munu  ekki, miðað  við óbreyttar aðstæður,  geta keppt við hann. Almenningsvagnakerfið getur ekki veitt  þau þægindi sem einkabíllinn veitir, og á þetta sérílagi við á Íslandi þar sem allra veðra er von. 

Eins og rakið  hefur verið  hefur byggð í þéttbýli  orðið dreifðari og eru áhrifavaldar fyrst og fremst efnahagslegs og félagslegs eðlis. Við búum í gjörbreyttu þjóðfélagi  og valkostir til búsetu margfalt meiri. Miklar framfarir og umbætur hafa verið á sviði samgangna og einkabíllinn orðinn almenningseign. Vegna bættra samgangna er nú litið á  Höfuðborgarsvæðið,  Suðurnes, Suðurland  og Vesturland sem eitt markaðsvæði. Lóðaframboð til úthlutunar hjá sveitarfélögum hefur stóraukist, þannig að fólk hefur úr miklu fleiri kostum að velja. Málið er að sveitarfélögin eru í innbyrðis samkeppni um fólkið og þá þurfa þau hvert um sig að hafa sem fjölbreytilegastar tegundir lóða til úthlutunar, s.s. einbýlishúsalóðir, raðhúsalóðir  og fjölbýlishúsalóðir.

Þétting byggðar

Skipulagsyfirvöld í Reykjavík boða nú breytta  stefnu í tillögu að  Aðalskipulagi  Reykjavíkur 2010-2030,  á þann veg aðþau hyggjast  þétta  núverandi byggð,   og blanda saman  í auknum mæli íbúðarbyggð og atvinnustarfsemi. Hið réttaætti að vera  að skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafi hyggju að  bjóða framlóðir þar sem gert sé  ráð fyrir framangreindri þéttingu og samblöndun. Málið er að sveitarfélög bjóða fram tiltekna vöru eða  þjónustu, þ.e. lóðir,   en byggja ekki neitt sjálf   nema götur, lagnir og stofnanir,  enáeinstökum lóðum  byggja  einstaklingar og fyrirtæki sem hafa fengið lóðir úthlutaðar eftir auglýsingu.

Reykjavíkurborg þéttir ekkibyggð sjálf, eins og fram hefur  komið, og ef enginn sækir um lóð verður ekkert byggt. Almenningi erí sjálfsvald sett hvort hann  sækir um lóð í Reykjavík eða  öðru sveitarfélagi. Við búum sem betur  fervið frjálst  markaðskerfi, þannig   að  þeir sem hafa hug á að byggja,  geta sótt um   lóðir í því sveitarfélagi sem þeim  hentar, allt eftir efnum og aðstæðum.  Enginn er skyldugur að byggja eða búa í tilteknu sveitarfélagi og ef  viðkomandi bæjarfélag  þróast yfir í að vera spennitreyja um athafnir fólks, flytur það einfaldlega annað. 

Búseta í nánd við vinnustað

Kynntar  hafa verið hugmyndir  í tilteknum sveitarfélögum að blanda saman íbúðum og vinnustöðum í nýjum og/eða þegar byggðum hverfum  en ekki  tekist sem skyldi. Dæmi um slíkt eru:  Norðlingaholt og Úlfarsfellshverfi í Reykjavík.  Ennfremur við Auðbrekku í Kópavogi og miðbæ Garðabæjar. Málið er að  slík samblöndun  hentar í mörgum tilfellum ekki vel  þar sem þarfirnar eru ólíkar. Atvinnustarfsemi þarf tiltekið rými til vaxtar og henni getur fylgt hávaði og önnur mengun, en  íbúðarbyggð hefur aðrar þarfir.   

Sérfræðingarnir telja að fólk vilji fyrst og fremst búa í grennd við sinn vinnustað. Þetta ermisskilningur, því það er miklu fleiri og flóknari atriði sem skipta máli þegar fólk velur sér búsetu.  Kjarnafjölskyldan  samanstendur af 3-4 persónum eða foreldrum sem vinna bæði  úti, yfirleitt á sinn hvorum staðnum og börnin 1-2  eru í sinn hvorum skólanum, þannig að fjölskyldan þarf í það minnsta að faraá 3-4 staði á morgnana og  kvöldin. Of langt yrði að telja upp alla  þá þætti sem skipta máli þegar fólk velur sér stað til búsetu,  en nefna má atriði eins og vinnustaði og skóla,  eins og áður sagði.  Einnig tengsl við fjölskyldu,  fasteignaverð (fyrir þá sem kaupa sér fasteign) lóðagjöld, gatnagerðargjöld, opinber gjöld,  veðurfar, útsýni, skjól- og skuggamyndun,opin svæði og gróður, afþreyingu, ýmis áhugamál,  skemmtanalíf, félagslíf,   öryggismál, leiksvæði barna, leikskóla,  grunnskóla, framhaldsskóla ognálægð við þjónustu af ýmsu tagi.   Ennfremur   mengunarhætta vegna hávaða og ólyktar, umferðartengsl og  almenningssamgöngur.

Dæmi eru um það á Vesturlöndum  að  yfirvöld hafi í tilraunaskyni  skipulagt heilu borgarsamfélögin  frá grunni, samkvæmt þeirri hugmyndafræði  að fólk vilji  búa sem næst sínum vinnustað. Skipulagðar voru borgir  með öllu tilheyrandi, þ. e. íbúðarsvæðum, vinnustöðum og þjónustu. Þessar hugmyndir  reyndust hinsvegar   skýjaborgir  og varð niðurstaðan sú  að þeir sem bjuggu í viðkomandi borg fengu smám saman vinnu annarsstaðar en þeir sem unnu í hugsjónaborginni komu annarsstaðar  frá. Fólk vill hafa  val um hvar og hvernig það vill búa.  Dæmi um slíkt er t.d. Vällingby í nágrenni Stokkhólms.

Verslun og þjónusta

Yfirbyggðir stórmarkaðir eru komnir til að vera og kaupmaðurinn á horninu heyrir  brátt sögunni til.   Stórmarkaðirnir   bjóða fram mikið vöruúrval af ýmsu tagi á tiltölulega litlu svæði, og næg bílastæðián gjaldtöku. Þetta hentar  ágætlega í okkar risjótta veðri.Á Höfuðborgarsvæðinu  er ekki alltaf sól,  blíða og logn frekar en annarsstaðar í okkar harðbýla landi. Við búum  ekki við sömu aðstæður og þeir í Kaupmannahöfn eða Barcelona.

Niðurlag

Flestir óska að  búa við tiltölulega friðsæld, hafa rúmt umsig,hafa eigin lóð,   eiga  bíl og hafa þar með algjört ferðafrelsi hvert og hvenær  sem er. Almenningssamgöngur henta ágætlega fyrir þá sem fara eingöngu milli tveggja til þriggja staða á fyrirfram ákveðnum tíma. Almenningsvagnar eru hinsvegar nauðsynlegir og  góð viðbót við það umferðarmynstur sem er í þéttbýli. 

Það eru ekki nema  100 ár frá því að þjóðin fór að vakna úr doða og sinnuleysi  liðinna alda.Nútíma tækni og  kunnáttu barst  frá  á nágrannalöndunum og þjóðin aðlagaði  hana að íslenskum aðstæðum.Þjóðin hefur efnast,  menntunarstig margfaldast  og  stórstígar framfarirorðið t.d. á sviði skipulagsgerðar,  hönnunar mannvirkja og mannvirkjagerðar.   Hin aukna landþörf í Reykjavík og öðrum þéttbýlisstöðum  á undanförnum árum og áratugum er ekki  tilviljun, hún  er fyrst og fremst afleiðing framfara og þróunar í landinu.

—–

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (33)

  • Þakka þér fyrir vakninguna, Sigurður. Hún hefur hreyft við mörgum.

  • Grein Sigurðar lýsir vel forsögunni. Hugmyndirnar um sem stjórnuðu útþenslu borgarinnar eru kynntar eins og þetta hafi bara verið ágætis hugmyndir og að þær hafi virkað eins og til var ætlast. Margt var gott í hugmyndunum jú og þetta er vel útlistað.

    Sagan sýnir þó að vandinn er ærinn og rándýr, sérstaklega þegar litið er til þess sem geðist síðustu árin fyrir hrunið, uppundir 30 árum frá því að Danska planið var lagt fram, og löngu eftir að veikleikar plansins (þrátt fyrir kostina sem það stóð fyrir) voru löngu kunnir og gagnrýndir á opinberum vettvangi. Eitt var að stefnunni var ekki breytt, heldur líka að lítið var gert til að taka við því neikvæða, sem fólk fann að, og var (eins og fyrr segir) gagnrýnt. Og það gerðist á tímabili sem gaf sig út fyrir að vera sérstaklega vistvænt, nýbúið að setja í gang staðardagskrá og alles.

    Eitt er að aldrei var gert uppgjör við prinsippin eða veikleikarnir sérstaklega teknir fyrir og fundnar lausnir á þeim hrun, sem hefði getað spornað við að bólan hefði getað sett eins slæm ör á landið og efnahag einstaklinga, sveitarfélaga og ríkis og hún gerði.

    Það sem útskýrir þó vöntun á uppgjöri, ekki bara þá, en jafnvel enn í dag er síðasta málsgrein greinarinnar:

    „Hin aukna landþörf í Reykjavík og öðrum þéttbýlisstöðum á undanförnum árum og áratugum er ekki tilviljun, hún er fyrst og fremst afleiðing framfara og þróunar í landinu.“

    Það var nefnilega það, skipulag er afleiðing! Þetta er viðhorf sem skýrir margt.

    Nýja aðalskipulagið segist reyndar vera að gera upp við mistökin: snúið er við blaðinu með að skipta sér ekki af vandamálunum sem búið er að búa til síðustu 40 árin og byggja nýbyggingar á dýrasta landinu í borginni. Mætti ætla að þetta væri stórmál sem þarf að ræða fyrir opnum tjöldum. Verst að kortunum er haldið svo þétt að brjóstinu að loksins þegar plönin eru kynnt og drögin lögð með fjárfestingum á landi, er varla nokkur tími til að gagnrýna plönin. Er þetta nýja túrbínutrix borgarskipulagsins eða bara vinnubrögð sem löng hefð er fyrir?

    Það er hægt að gera hlutina með ýmsum hætti.
    Hér má t.d. líta nýþýdda verklýsingu sem notuð hefur verið fyrir vinnusmiðjur í arkitektadeild listaháskólans og skipulagsdeild Lbhí:

    http://scibereykjavik.wordpress.com/2013/03/15/endurhonnun-hofudborgarsvaedisins/

    Þessi verklýsing er frjáls til afnota hverjum sem er. Líka Reykajvíkurborg, og þó helst sameinuðu höfuðborgarsvæði sem ég vona að komi á dagskrá nýs alþingis: (
    http://scibereykjavik.wordpress.com/2013/03/08/competition-or-cooperation/)

    Annars tek ég gjarna á móti upplýsingum sem gætu betrumbætt lýsinguna sem er í stöðugri endurskoðun.

  • Það eru tækifæri fyrir bæði Gehl væðingu 101 og þróun í úthverfunum.

    Hálfbyggð hverfi í jöðrum höfðborgarinnar er birtingarmynd íslenska draumsins um eigið húsnæði og skammsýna gróðahyggju. Hverfisgatan og nágrenni er önnur birtingarmynd skipulagsklúðurs stjórnvalda.

    Ekta íslenskt pólitískt fúsk að klára ekki þéttingarverkefnin í 101 en eyða 25 árum í flugvallaráráttuna. Nýtt hverfi fyrir utan gisið 101. Tugir hektara hafa verið teknir undir byggð á flugvallarstæðinu en þéttleikinn er samt ekki hafður skv. formúlunni. Háskólasvæðið er sérkafli. Afhverju var ekki haldin samkeppni um aukna íbúðarbyggð í nágrenni HÍ? Í staðinn er verið að steypa enn eitt bókasafnið á öld rafrænna upplýsinga.

    Þægilegra er að skammast í fortíðinni og tala um framtíðarbyggð í mýri.

  • Egill Helgason

    Það er ekkert offors hér á ferðinni. Hugmyndirnar sem greinarhöfundur mælir fyrir eru einfaldlega fornlegar.

    Þróunin hefur verið sú að vel menntað fólk, já hinar skapandi stéttir eins og það er kallað í BNA, sækjast frekar eftir miðborgarumhverfi en að búa í úthverfum.

    Fyrir þessu eru ýmsar ástæður, ákveðinn lífstíll, nálægð við menningu og þjónustu, hækkandi bensínverð, umhverfissjónarmið – jú, þéttar borgir eru umhverfisvænni en dreifðar – áhugaleysi um að eyða miklum tíma til að fara til og frá vinnu.

    Það er enginn að tala um að banna úthverfi eða lífsstílinn þar, hann þykir einfaldlega ekki jafn eftirsóknarverður og á árunum þegar hugmyndir greinarhöfundar voru að mótast.

    Þetta sést á húsnæðisverði í miðborgum sem hvarvetna hefur hækkað mikið umfram það sem gerist í jöðrunum, það er alþjóðleg þróun.

    Og það er sjálfsagt að svara þessu með auknu framboði húsnæðis nær miðjunni. Það er enginn að tala um Kaupmannahöfn eða Barcelona í því sambandi, það er bara sett fram til að rugla umræððuna, heldur einungis þéttleika eins og á Skólavörðuholti.

    Reykjavík er afar dreifð borg og heldur áfram að vera það – kannski finna þeir sem hér skrifa athugasemdir einhverja huggun í því? Óvíða fer meira pláss undir umferðarmannvirki en hér. Ég er hræddur um að mörgum myndi bregða í brún ef þeir skoðuðu gömul aðalskipulög sem vitnað er til í greininni, þau gerðu ráð fyrir að eldri byggðin í Reykjavík væri úrelt og ætti helst að fjarlægja hana.

    En staðreyndin er nú samt sú að við höfum gengið mjög hressilega á byggingalandið. Byggðin þandist óskaplega út á bóluárunum – held jafnvel að talan sé 30 prósent á stuttum tíma. Þetta var mestallt á útjöðrunum.

    Þannig að Sigurður þarf ekki að örvænta. En víst er að þessi útþensla var sérlega óhagkvæm og gekk mjög á hentugt byggingaland á höfðuborgarsvæðinu.

    Setningar eins og að „yfirbyggðir stórmarkaðir séu komnir til að vera“ eru náttúrlega eins og langt aftan úr fortíðinni. Þessi þróun gerðist fyrir mörgum áratugun Í erlendum borgum hefur þvert á móti verið þróun í aðra átt síðustu árin, til búða sem selja lífræna gæðavöru hvers uppruni er rekjanlegur.

    Annað sem er gamaldags er áherslan á kjarnafjölskylduna. Hún heyrir nefnilega að vissu leyti sögunni til líka. Mjög margt fólk býr einsamalt núorðið, það hefur ekki gifst, er fráskilið, samkynhneigt – samkvæmt sjálfri Hagstofunni er kjarnafjölskyldan í minnihluta þegar sambúðarform eru skoðuð.

  • Steinarr Kr.

    Frábær grein. Tel að margir sem hér skrifa athugasemdir geri greinarhöfundi upp skoðanir. Ég var aðallega að lesa þarna út sögulegt samhengi og upptalningu á staðreyndum. Lítið um skoðanir.

    Offors 101 manna er ekki nýtt og þeirra innlegg bætir engu við umræðuna.

    Fyrir utan Gísla Martein gruna ég að enginn íbúi í 107 hafi verið spurður um fyrirætlanir um þéttingu byggðar þar, sem er algerlega óþörf.

    Hilmar fær þakkir fyrir að birta þessa grein.

  • Guðrún Bryndís

    Stefnan í skipulagi Reykjavíkur núna er áþekk þeim skipulagsárásum sem koma átti á með randbyggðri Torfu og háhýsum í miðbænum og var mótmælt.

    Skoðanirnar sem koma fram eru mjög skiptar – sem betur fer. Langaði annars að minna á að í umræðunni um þéttingu byggðar er oft og iðulega vísað í skýrslu um búsetuóskir og að allir vilji búa miðsvæðis. Það skiptir oft máli að kíkja á það sem kemur fram í skýrslum, því það er oft mjög ólíkt því sem túlkað er í umræðunni.

    Það voru gerðar tvær skýrslur með fjögurra ára millibili, þannig er hægt að bera saman breytingar á afstöðu fólks. Eftir að fyrri skýrslan kom út var byrjað á að tala um þéttingu byggðar og að allir vildu í Vatnsmýrinni búa.

    Árangurinn af þeirri umræðu er ágætlega lýst í skýrslunni:

    Af 7 nýbyggingasvæðum voru eftirtalin svæði vinsælust; Vatnsmýri 22%, Úlfarsárdalur 20% og Miðborg og Sléttuvegur 17%. Vatnsmýri hefur dalað var með 39% árið 2003 en Úlfarsárdalur er hástökkvari í vinsældum fór úr 9% árið 2003 í 20% árið 2007.

    Það gæti verið fróðlegt að sjá sambærilega könnun endurtekna og þá um leið hvað íbúum höfuðborgarsvæðisins finnst um samgöngustefnu borgarinnar, fækkun bílastæða og gjaldtöku, fækkun akreina til að búa til pláss fyrir forgangsakstur. Þetta eru borgargæðin sem á að ná fram með þéttingu byggðar.

    http://reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/frettir/2008/pdf/Konnun-busetuoskir-lokaskyrsla-des-jan08.pdf

    • Magnús Birgisson

      Flott innlegg. Mig grunar hinsvegar að það sé búið að skemma úthverfin, sérstaklega Úlfarsárdal, með óvild í þeirra garð innan Borgarráðs. Því er úitkoma úr skoðanakönnun vart marktæk á þessum tíma. Einn borgarfulltrúi sagði á borgarráðsfundi um daginn að Úlfarsárdalur og Grafarholt væru „skrítin hverfi“…annað svona ofaní dal…hitt svona uppí holti. Þetta eru miklar mannvitsbrekkur….

      Hver vill byggja í hverfi þar sem er opinber stefna að minnka niður í 1/3 af upphaflegri stærð. Eða skera niður alla þjónustu, t.d. uppbyggingu íþróttamannvirkja osfrv.

    • Hildur Guðjónsdóttir

      Magnús Birgisson.

      Það er borgarráð þarf að gera til þess að ná til baka allri fjárfestingunni í Úlfarsárdal er að fá fólk til þess að flytja þangað.

      Það gerir maður með þvi að byggja íþróttamannvirkin og skólana. Koma fyrir þjónustu eins og bakaríum, kaffihúsum, pósthúsum, áfengisverslunum, bókasafni, menningarhúsi, hverfisknæpum og öllu því sem er svo eftirsóknarvert í 101:

      Að setja það sem komið er á ís er ámælisvert sem engir aðrir en aumingjar láta yfir sig ganga.

      Og hana nú!

  • Magnús Birgisson

    Það er áberandi hér í athugasemdum að þeir sem eru ósammála Sigurði nota orð einsog úrelt sjónarmið, einfeldningslegt, rödd úr forneskju, ekkert fylgst með umræðum, grein frá 7. áratugnum osfrv. osfrv.

    Það er greinilegt að þeir sem vilja eiga umræðuna taka því illa þegar aðrar skoðanir heyrast og reyna að því að gera lítið úr þeim. Mönnum yfirsést þó að Sigurður hefur líklega hefur meiri þekkingu á þessum málum en flestir.

    Ekkert fer hinsvegar fyrir málefnalegum athugasemdum með tilvísanir í raunveruleikann.

    Raunveruleikinn á Íslandi er nefnilega sá að íbúar á höfuðborgarsvæðinu hefur valið nágrannasveitarfélögin og úthverfin. Þetta heitir að kjósa með fótunum…og tugir þúsunda hafa kosið með fótunum…bara á síðustu 20 árum.

    Borgaryfirvöld ætla sér að snúa þessari þróun við með því annarsvegar að setja hengingaról um lífæðar úthverfanna, samgönguæðarnar og hinsvegar með fjáraustri og niðurgreiðslum í 101/107 sem eiga sér fáan líka. Ætli lóðakaup í 101/107, bara á síðustu 6 mánuðum, séu ekki farin að nálgast 2 milljarða !!. Og á þessum lóðum á að byggja leiguíbúiðir „með aðkomu borgar“ fyrir litlar fjölskyldur og tekjulágar!!

    • Guðmundur Kristján Jónsson

      Ef raunveruleikinn er sá að íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa kosið sér búsetu í úthverfum, hvaða ástæður liggja þá að baki þeim mun sem sjá má á fasteignaverðum. Af hverju skyldi fermetraverð miðsvæðis í borginni vera umtalsvert hærra en annars staðar í borginni?

      Svarið er að einfalt og í beinu samhengi við fasteignaverð í öðrum borgum um heim allan – framboð á fasteignum miðsvæðis annar ekki eftirspurn.

    • Magnús Birgisson

      Þú svarar spurningu þinni sjálfur Guðmundur en tekur ekki röksendafærsluna til enda. Það er alveg satt að það er umfram eftispurn eftir íbúðum í miðbænum enda hefur ekki verið hægt að mæta eftirspurninni með auknu framboði.

      Í úthverfum og nágrannsveitarfélögum hefur eftispurninni einfaldlega verið mætti með framboði. Þessvegna hækkar íbúðaverð þar ekki eins hratt eins og í 101/107.

      Fólki fækkaði í 101/107 á síðasta ári en fjölgaði í öllum öðrum hverfum RVK. Þau sveitarfélög þar sem fólkfjölgun er hröðust eru Kópavogur og Hafnarfjörðu.

      Ef eftirspurn í 101/107 væri eins mikil og fólk héldi væri íbúðaverð þar tvöfalt eða þrefalt á við það sem það er annarsstaðar. Svo er ekki….það er 20-30% hærra. Það eru nú öll ósköpin. Og nú á stýra öllum nýbyggingum í Rvk á lítið svæði í 101. Nú verður gaman að sjá hvað það gerir fyrir íbúðaverð þar…eða annarsstaðar.

    • Guðmundur Kristján Jónsson

      Ég veit ekki hversu vel þú hefur kynnt þér aðalskipulag Reykjavíkur sem nú er í vinnslu Magnús en þar kemur hvergi fram að að nú eigi að ,,stýra öllum nýbyggingum í Rvk á lítið svæði í 101´´. Fram til ársins 2030 er gert ráð fyrir 6800 íbúðum í Vatnsmýri, 2000 íbúðum í miðborginni sjálfri og 3400 íbúðum í Elliðárvogi. Í þessu tilliti er verið að tala um sirka 60 íbúðir per hektara í 3-5 hæða húsum.

      Ef vel tekst til þá verður unnt að nýta allan infrastrúktúr sem fyrir er mun betur, draga úr vegalengdum og minnka kostnað við samgöngur sem og umhverfisáhrif. Einnig er marg sannað að þéttari byggð skilar sér undantekningalaust í skilvirkari almenningsamgöngum, eitthvað sem allir græða á.

      Getum við ekki verið sammála um að þessi þróun sé hið allra besta mál?

      Ps. Nú veit ég af eigin reynslu úr byggingariðnaðinum að enn er nægt framboð af byggingalóðum og húsnæði víðsvegar um stór-höfuðborgarsvæðið fyrir þá sem hugnast stærra húsnæði í dreifðari byggð og því engin ástæða til að leggja sérstaka áherslu á að auka það framboð enn fremur á næstu árum.

    • Guðmundur Kristján Jónsson

      Ég tek það þó fram að þó að mér lítist ekki illa á fyrirhugaða þéttingu byggðar á þeim svæðum sem ég nefni hér að ofan þá er auðvitað ekki laust við að manni finnist skipulagsyfirvöld vera að byrja á vitlausum enda með því að þétta byggð þar sem hún er nú þegar þéttust.

      Maður veltir fyrir sér hvort ekki væri nær að þétta byggð í úthverfunum þar sem hún er dreifðust og síðan meðfram stofnæðum, auk þess að leggja áherslu á atvinnusköpun í úthverfunum sjálfum til að draga úr umferð á milli borgarhluta.

    • Magnús Birgisson

      8800 íbúðir fyrir vestan læk en 3400 í „Elliðaárvoginum“ segir eiginlega allt og á sama tíma er engin framtíðarsýn til staðar um hvort, hvað og hvernig halda má áfram uppbyggingu og þróun þar sem 3/4 borgarbúa búa í dag. Jú…ég lýg…það á að reyna að þröngva skóurum til að opna verkstæði í úthverfum.

      Og allt þetta byggir á hugmyndafræði sem þegar nánar er skoðað gengur ekki upp rölfræðilega né hugmyndafræðilega.

      Þétting misvæðis ætti að fara fram í austurborginni þar sem landfræðileg og lýðfræðileg miðja höfuðborgarsvæðisins er. 101/107 er ekki „miðja“ heldur nes og borgaryfirvöld sem hrekja þá í önnur sveitarfélög sem vilja byggja rúmt af því þeir hafa efni á því er bara ávísun á lægra meðalútsvar í framtíðinni og þá færri sem standa undir öllum partýunum í 101, hvað sem þau heita…“Food and Fun“, Airwaves, RIFF og FIFF og Harpa og ég veit ekki hvað…..

  • Mér sýnist Sigurður ganga ansi langt í að tala fyrir þeirri einsleitni sem var ríkjandi hér í skipulagsmálum á árum áður. Hann aðhyllist greinilega eitt form búsetu, sem er auðvitað allt í lagi, en við þurfum ekki að vera sammála honum.

    „Nú hefur skipulagslögum illu heilli verið breytt á þann veg að mögulegt er að byggja hús og/eða heilu hverfin án bílastæða ef sveitarstjórn ákveður það.“ Maður veltir því fyrir sér hvaða áhrif gamla skipulagsreglugerðin hafði sem gerði ráð fyrir lágmarksfjölda bílastæða við hús. Var það hún sem neyddi okkur til að leggja meirihluta byggingarlandsins undir bílastæði? Þau voru síðan opin öllum til ókeypis afnota, greidd af samfélaginu og kostnaðurinn ósýnilegur. Allir hafa orðið að taka þátt í kostnaðinum óháð afnotum og valið ekkert. Samkvæmt Bílastæðasjóði er um 3.000 gjaldskyld bílastæði á höfuðborgarsvæðinu af kannski 300-600.000 bílastæðum. Samkvæmt því er um 0,5-1% bílastæða með gjaldskyldu. Gaman væri að fá sýn hagfræðinga á því hvað það þýðir að útdeila gæðum með þessum hætti.

    Hvað er annars að því að fólk getur keypt íbúð án bílastæðis (eða leigt það til lengri eða skemmri tíma) og verði gefin kostur á að hætta að taka þátt í að niðurgreiða bílastæði nágrannans? Þetta er gert í borgum í nágrannalöndum okkar og gefst vel. Þeir sem eiga bíl leigja eða kaupa stæðið undir hann en neyða ekki aðra til að taka þátt í kostnaðinum við það.

  • Þakka verður Agli og Hallgrími fyrir ábendingar um hvað aðrar hugmyndir en þeirra eru fornar og vitlausar. Rörasýn miðbæjarfulltrúa hinna talandi stétta er fullkomnlega inn og sjónarmið um kosti úthverfa eru algerlega át. Meirhluti borgarbúa eru taldir vera í einhverskonar úthverfahelvíti af því að skipulagið er ekki eins og í mörghundruð ára gamalli Parísarborg eða á Manhattan eyju. Þá er nú Hverfis- og Skúlagötuhimnaríkið betra.

    Byggðarþétting í Skuggahverfinu er bara búin að standa yfir í hálfa öld. Lítið sem ekkert gengur að þétta byggð við Hverfisgötu og Laugaveg. Lækjargatan er gisin og berrössuð. Slippurinn og nágrenni tekur næstu tíu ár. Holtin og Túnin tekur annað eins. Flest af þessu kostar meira heldur enn skapandi geta borgað og óvíst er hversu hratt villuráfandi sauðir koma af heiðum í sæluríkið 101. Á meðan vilja borgaryfirvöld flýta sér út í blauta mýrina með drauminn um fullkomið nýtt hverfi fyrir alla úthvefisbúa sem bílaus á að sækja þjónustu í Kringluna og drykki á Austurvöll.

    Það voru ekki lítil lætin á sínum tíma vegna þéttingar byggðar á Bernharðstorfunni eða í Grjótaþorpinu eða um Ráðhúsið. Næst verður vesen um stækkun Landsspítalans. Borgaryfirvöld ættu að verja meiri tíma til að bæta skipulag 101 frekar en að sturta peningum ofan í mýrina.

    Andið með nefinu og klárið Gelh væðinguna við Ráðhúsið.

  • „Skoðanakannanir hafa leitt í ljós að mikill meirihluti fólks vill búa í sérbýli, ef það á annað borð hefur efni á því. Fólk vill hafa sér lóð fyrir sig og aðgang að opnum svæðum í næsta nágrenni.“

    Maður veltir fyrir sig gildi svona skoðanakannana, hvort það eigi að skipuleggja heilu borgarhverfin samkvæmt einhverjum svona draumum.

    Hver vill ekki búa í sérbýli? Spurningin svarar sér eiginlega sjálf.

    Ég vildi mjög gjarnan búa í sérbýli (ég sé fyrir mér nett 2ja hæða timburhús) með lóð út af fyrir mig (gæti hugsað mér að prófa t.d. matjurtarækt) og hafa aðgang að opnum svæðum. En ef þessi ídeal aðstaða þýðir steindautt svefnhverfi, félagslega einsleitni og þarmeð hálfgildings einangrun í borgarlandinu, plús ógnarlöng ferðalög í vinnu og í alla þjónustu þá finnst mér hún of alltof dýru verði keypt.

    Fyrir nú utan að þarfir fólks eru mismunandi eftir því hvar það er statt á lífsleiðinni. Það getur verið alveg ídealt fyrir fólk að búa einmitt svona (einbýlishús, lóð, tvöfaldur bílskúr) á einhverju ákveðnu skeiði, t.d. í svona 20 ár, en svo breytast þarfirnar.

    Þannig að ég geri athugsemdir við svona „einfeldningslegar“ skoðanakannanir. Það þarf að búa til skoðanakannanir sem laða fram heilsteyptari mynd af hugmyndum fólks, hvað það þarf (fremur en hvað það lætur sig dreyma um), gildismati, forgangsröðun o.s.frv.

  • Einar Einarsson

    Hressandi að heyra ný (gömul(!) sjónarmið í skipulagsumræðunni. Hún hefur verið nokkuð einslait undanfarið.

    Ef fólk vill búa þar sem rúmt er um það þá má fólk þá ekki gera það? Og ef það kostar tvo bíla á hvert heimili þá er sjálfagt að leyfa fólki eð gera það. Aðalatriðið er að hafa val og Sigurður rökstyður það á fordómalausan og upplýsandi hátt.

    Það á ekki að þvinga neinn til neins.

    Ég þakka greinina.

  • Helgi Hallgrímsson

    Þetta eru algjörlega úreld viðhorf sem Sigurður talar fyrir hérna og í raun bara réttlætingarpistill um hið skelfilega 60′ úthverfaskipulag sem hefur tröllriðið öllu undanfarna áratugi.

    Guð. Gauti Jónsson: Hver hefur talað fyrir því að þvinga menn úr sérbýlum?

    • Ég held þessu ekki fram. Bendi bara á að yfirlýsingar skipulagsyfirvalda hafa bent til þess að ekki eigi að bjóða upp á nýtt sérbýli í komandi aðalskipulagi. Sigurður er ekki að réttlæta eldra skipulag heldur að rifja upp ástæðurnar fyrir því. Reyndar hef ég ekki séð kannanir á óskum borgarbúa um búsetuhætti. Væri ekki ráð að byrja á að rannsóknum í þá veru áður en menn ákveða að fólk vilji búa svona eða hinsegin?

  • Egill Helgason

    Þetta er eins og rödd úr forneskju. Sigurður hefur greinilega ekkert fylgst með umræðum um skipulagsmál siðustu áratugina, heldur lifir í eldgömlum hugmyndum um úthverfaskipulag. Það sem er að gerast á Vesturlöndum er að það sem kallað er í Bandaríkjunum „the creative classes“ vilja fá húsnæði inni í borgum, í alvöru borgarumhverfi, þetta hefur meðal annars leitt til þess að borgir sem hafa upp á slíkt að bjóða hafa forskot á hinar og dafna betur, borgir eins og Boston, Seattle, New York, San Fransisco – svo við horfum til Bandaríkjanna.

    Merkilegt að menn skuli bregðast svona við þegar farið er að ræða um þéttari byggð, sem varla verður þó þéttari en gróin og falleg hverfi í Skólavörðuholti. Hvað eru þeir að verja?

  • Í athugasemdunum hér á undan sýnist mér það hafa farið fram hjá sumum að Sigurður Thoroddsn talar fyrir fjölbreytni en ekki einsleitni. Yfirlýsingar skipulagsyfirvalda um að nú skuli hætt að taka tillit til þeirra sem vilja byggja í sérbýli og þvinga menn til sambýlis lýsa ráðstjórn, sem ég hélt að væri ekki við lýði lengur. Til viðbótar því sem Sigurður bendir á um misjafnar þarfir og væntingar má líka benda á að þær eru misjafnar eftir aldri einstakilnganna. Fín grein.

  • Sigurður segir í grein sinni:

    „Kjarnafjölskyldan samanstendur af 3-4 persónum eða foreldrum sem vinna bæði úti, yfirleitt á sinn hvorum staðnum og börnin 1-2 eru í sinn hvorum skólanum, þannig að fjölskyldan þarf í það minnsta að faraá 3-4 staði á morgnana og kvöldin.“

    Einmitt þess vegna vilja margir ekki búa í úthverfi, með tilheyrandi bílferðum í vinnu, framhaldsskóla, tómstundaiðkun, félagslíf, o.fl.

    Veit Sigurður ekki hvað kostar þessa kjarnafjölskyldu að reka tvo bíla í dag?

    Það er vissulega næs að hafa eigin garð, en það er ekki draumur allra. Margir kjósa frekar meiri nánd við iðandi götulíf. Enda hafa vinsældir gömlu hverfanna í 101 og 107 aldrei dvínað.

  • Jón Ólafsson

    Það þarf að vera pláss fyrir alla í borgarskipulaginu. Sjónarmið Sigurðar standa ekki í veginum fyrir hugmyndum Gehl sem Sigurður þekkir auðvitað betur en margir. Það er öllum holt að lesa og hugleiða pistil Sigurðar

  • Daníel jakobsson

    Mér leið pínulítið eins og ég væri að lesa grein frá 7 áratugnum. Ég held með fullri virðingu að þú hafir rangt fyrir þér. Ég hef það á tilfinningunni að fólk vilji meira og meira geta valið það að vera án bíls. Það vill hafa verslun og þjónustu nálægt sér.

    Illa staðsettar verslanir umkringar bílastæðum sem virka nánast eins og múr er ekki eitthvað sem ég vil sjá meira af. Og auðvitað er það í lagi að geta valið það að hafa ekki bílastæði með íbúðinni sem þú kaupir. Sérstaklega þar sem það lækkar verð á íbúðinni.

    Ég held og vona að alvöru borgargötur þar sem gangandi og hjólandi vegfarendur séu a.m.k. í jafn miklum rétti og þeir akandi sé framtíðin.

  • Ėg held að Sigurður hefði gott af námskeiði hjá Jan Gehl.

  • Magnús Birgisson

    Big like…

    Öfga og formdómalaus umfjöllun sem einfaldlega strippar núverandi borgaryfirvöld og skilur þau eftir nakin á berangri…

    Útverfahatrið, einkabílafordómarnir og sjálfshyglin er hugsanaháttur sem vonandi verður hent á haugana í næstu kosningum…

    ps. Er það bara ég eða finnst engum þeir vera staddir í hliðrænum heimi þar sem upp er niður og niður er upp þegar menn eru af fullri alvöru farnir að tala um göngubrú frá Kópavogi yfir í 101 fyrir einn milljarð króna !!

  • Sveinbjörn

    Holl lesning sem varpar ljósi á heildarmyndina og þróunina.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn