Miðvikudagur 09.02.2011 - 15:20 - 3 ummæli

Bálfararstofa Gufuneskirkjugarði

Í Gufuneskirkjugarði hefur risið þjónustuhús sem er fyrsti áfangi í stærra verki sem hýsa á kirkju, kapellu og bænahús ásamt bálfararstofu og byggingu fyrir erfidrykkjur.

Verkefnið er hannað af  Arkibúllunni sem vann verkið í samkeppni árið 2005.

Þó aðeins sé búið að byggja lítinn hluta af heildinni  verður maður þess áskynja að þarna er eitthvað á ferðinni sem vert er að skoða nánar. Strax þegar afstöðumyndin er skoðuð sér maður að vel er að verki staðið.  Afstöðumynd bygginga skiptir meira máli en nokkurn grunar. Það er synd hversu lítið er fjallað um afstöðumyndir þegar talað er um arkitektúr. Á afstöðumyndinni sést hvernig bygging virkar í umhverfi sínu. Ef húsið hefur ekki samhljóm með umhverfinu er betra heima setið en af stað farið.

Eins og hér má sjá eru bifreiðastæði og aðkoma gesta sunnan við byggingarnar og  snúa frá kirkjugarðinum. Þau tæp 200 bifreiðastæði með tilheyrandi umferð hefðu án efa valdið truflun á þeirri ró sem þarf að skapa á slíkum stað.  Aðkoman og bifreiðastæði sunnan bygginganna er böðuð sól og í góðu skjóli fyrir norðanáttinni. Milli bílastæðanna og Hallsvegar er allhá hljóðmön sem hlífir aðkomunni fyrir óþægindum vegna bifreiðaumferðar á Hallsvegi.

Vestast á svæðinu þar sem landið rís hæst, aðeins afsíðis, er gert ráð fyrir sérstakri byggingu þar sem boðið er til erfidrykkju. Erfidrykkjuhúsið er með góðu útsýni til norðurs í átt að Esjunni.

Þegar horft er á þá byggingu sem þegar er risin fær maður á tilfinninguna að hún vísi til spennandi framtíðar þarna í jaðri Gufuneskirkjugarðs.  Efnisvalið og arkitektónisk nálgun gefur fyrirheit um spennandi byggingasamstæðu sem tilhlökkun er að sjá fullbúna í framtíðinni.

Það má kannski bæta því við að það undrar mig oft hvaða byggingar vekja athygli í umræðunni og hvaða  byggingar gera það  ekki.  Sumar eru alltaf að þvælast fyrir manni á sýningum og í prentmáli og á kynningum alls  konar. Aðrar, jafngóðar eða betri sér maður aldrei nokkurs  staðar.  Ég nefni til dæmis skólabyggingu í Borgarnesi sem er mikið hampað.  Í mínum augum er þar á ferðinni ágætis bygging sem ber samt ekki af öðrum byggingum eins og mætti halda miðað við þá athygli sem henni er veitt. Það er mikið til af góðum íslenskum arkitektúr sem er umfjöllunar virði. Af nógu öðru er að taka. Þjónustuhúsið í Gufuneskirkjugarði er eitt þeirra og er ég þar að hugsa um viðbrögð byggingarinnar við umhverfinu,  afstöðuna, arkitektóniska nálgun, efnisval og starfræna þætti í smáu og stóru og ekki síst anda staðarins.

Myndirnar sem fylgja færslunni eru fengnar af heimasíðu teiknistofunnar:

http://www.arkibullan.is/

Arkibúllan er arkitektastofa í eigu Hólmfríðar Ósmann Jónsdóttur og Hrefnu Bjargar Þorsteinsdóttur skólasystrum frá Arkitekthögskolen í Osló.

Afstöðumynd. Aðkoma er frá austri með bifreiðastæðum sunnan við byggingarnar. Friðhelgi kirkjugarðsins er ekki raskað þó þarna komi um 200 bílar þegar mest er.  Bílastæðið er einfalt og auðratað er um það auk þess sem byggingarnar veita því skjól fyrir norðanáttinni.  Aðkoman er á góðum degi sólbjört og skjólgóð. Sunnan bílastæðisins kemur mön sem hindrar sýn að og frá Hallsvegi og stoppar umferðagný. Vestast er bygging sem nýta á til erfidrykkju. Hún stendur hæst og er með útsýni til norðurs að Esjunni.



Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Einar Jóhannsson

    Þær byggingar sem best eru ljósmyndaðar fá mestu umfjöllunina. Það er að segja að ljósmyndarinn er stærsti örlagavaldurinn þar, ekki arkitektinn. Byggingar verða í sjálfu sér ekki betri þó þær séu vel ljósmyndaðar en oft eru byggingarnar fallegri á ljósmyndinni en í veruleikanum.

  • Guðmundur Jónsson

    Á þetta að koma í stað Fossvogskapellu og –kirkju? Hvenær er áætlað að framkvæmdum við þessar vönduðu byggingar ljúki? Það þarf að gerast áður en Gufuneskirkjugarður fyllist.

  • Margrét

    Holtagrjótið í forgrunni einnar myndarinnar og unnið basaltið á veggjum byggingarinnar spila fallega saman. Svo kemur hvít steinsteypan og bindur þetta saman í tærum hreinleika þar sem hugurinn leitar til andans sem andstæðu efnisins. Frábært verk og frábær umfjöllun.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn