Miðvikudagur 27.09.2017 - 11:53 - 13 ummæli

Bensínstöðvar á höfuðborgarsvæðinu

Ég sá áðan mynd sem einn helsti ráðgjafi sveitarfélaganna á  höfuðborgarsvæðinu í almenningsflutningum, Lilja G. Karlsdóttir, birti á Facebook.

Myndin sýnir fjölda og staðsetningu bensínstöðva á höfuðborgarsvæðinu.

Við myndina skrifar Lilja: „Ég fann 75 bensínstöðar, en aðalástæðan fyrir því að ég gerði þetta var að bera saman fjölda íbúa sem búa innan 500 m frá bensínstöð miðað við fjölda íbúa sem búa innan 500 m frá matvörubúð. Það er um 106 þús manns innan 500 m frá Bensínstöð en bara 89 þús innan 500 m frá búðum“

Á höfuðborgarsvæðinu býr rúmlega 200 þúsund manns sem þýðir að um 120 þúsund þurfa að ganga meira en kílómeter fram og til baka til þess að kaupa dagvöru á borð við mjólk.

Það er er auðvitað aldeilis ótrúlegt að það sé betra aðgengi að bensíni fyrir borgarbúa en að mat. Það má samt ekki gleyma því að nú er seldur matur á okurverði á flestum bensínstöðvum. Þessar bensínstöðvar eru í eðli sínu frekar „vegasjoppur“ vegna umfangs þeirra og stærðar. Vegasjoppur eiga auðvitað ekkert erindi í þéttbýlið.

Það væri líka fróðlegt að heyra rökin fyrir öllum vegasjoppunum innan borgarinnar. Ég nefni vegasjoppuna vi Borgartúni og aðra við enda flugbrautarinnar við Hringbraut, við Öskjuhlíð og ekki má gleyma vegasjoppunni við Birkimel og víða um höfuðborgarsvæðið.

Maður spyr sig hvernig gat það gerst að stjórnmálamenn samþykktu allar þessar vegasjoppur í borgarlandinu í tengslum við bensínstöðvarnar? Þetta var ásamt flutningi matvöruverslanna á hafnar- og iðnaðarsvæðin helsta ástæðan sem varð kaupmanninum að falli og stuðlaði að því að gera borgina ósjálfbæra og óvistvæna. Hvorutveggja var pólitísk ákvörðun. Maður veltir fyrir sér af hverju er ekki  bara bannað að selja mat á bensínstöðvum svipað og bannað er að selja áfengi í mavörubúðum.

++++

Hugsanlega er hægt að nota fólksfjölda að baki hverrar bensínsstöðva sem mælikvarða á gæði byggðar. Sé sá mælikvarði notaður og tekinn alvarlega þá kemur höfuðborgarsvæðið afar illa út.

Algengur fjöldi bensínstöðva í Evrópu er um ein á hverja 25000 íbúa. Í Reykjavík eru þær um ein á hverja 2700 íbúa. Það er rúmlega níu sinnum fleiri bensínstöðvar á íbúa á höfuðborgarsvæðinu en í borgum Evrópu. Því er haldið fram að hvergi í heiminum séu jafn margar bensínstöðvar á mann og en hér. Þessi fjöldi segir okkur nokkuð um mikilvægi einkabílsins í borgarskipulaginu eða hvernig borgarskipulagið hefur þröngvað einkabílnum uppá borgarbúa.

Það mætti álykta að því færri sem bensínstöðvar eru því betri væru almenningssamgöngur. Styttri vegalengdir til þjónustu leiðir af sér gönguferðir,  styttri ökuferðir, minni akstur og færri einkabíla. Færri bílar og minni notkun þeirra kalla á færri bensínstöðvar.

Bensínstöðvarnar hafa í áranna rás vaxið úr því að vera litlir skúrar sem seldu bensín og olíu í að vera allstórar verslanir sem selja fatnað, leikföng og mat sem koma rekstri bíla ekkert við.

Ef mynd Lilju er skoðuð sér maður strax að bensínstöðvarnar (vegasjoppurnar) eru ekki einungis staðsettar við stofnbrautir. Heldur eru þær margar inni í íbúðarhverfunum eins og um nýlenduvöruverslanir væri að ræða.

Hver ber ábyrgð á þessu? Voru það ráðgjafarnir? Voru það starfsmenn borgarskipulagsins eða voru það stjórnálamennirnir sem fóru að óskum olíufélaganna gegn hagsmunum borgaranna?

Að neðan koma svo tvær ljósmyndir.  Sú efri er af bensínstöð við Birkimel uppúr 1960  og sú neðri af sömu bemnsínstöð sem þróast hefur í að verða vegasjoppa þar sem allskonar ruslarafæði er selt á okurverði með bensíninu. Best væri ef stöðin yrði lögð niður í núverandi mynd og komið upp sjálfssala við gangstéttarbrún sem seldi eldsneyti fyrir bíla og ekkert annað líkt og maður sér víða erlendis.

 

 

Birkilmelur. Öll hönnun, litaval og skiltastærð eru af sömu gerð og sömu stærð og maður þekkir við hraðbrautir þar sem tilgangurinn er að vekja athygli vegfaranda sem skjótast framhjá á um 100 km hraða á klukkustund. Við Birkimelinn eru flestir gangandi og hámarkshraði bílanna 30 km á klukkustund. Þess vegna er öll þessi nálgun í hönnun og skiltagerð kolröng.

Hér að neðan er svo 8 ára gamall pistill um skipulag og staðsetningu vegasjoppu og þá þróun að breyta ferðamáta í borgum og minnka einkabílanotkun.:

“Vegasjoppa” í Borgartúni

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Þórður Arason

    Viljum við hafa eina bensínstöð eða matvörubúð í hverju „hverfi“, þegar við búum við frjálsa álagningu? Hvers eiga þeir að gjalda sem búa óvart í hverfi með okurbúllu?

    Fyrir mörgum árum bjó ég í litlum bæ í Bandaríkjunum. Víðast voru stakar bensínstöðvar, en á einum gatnamótum voru fjórar stöðvar, á öllum hornum gatnamótanna. Þar var mikil verðsamkeppni og verðið um 10% lægra en annars staðar. Á móti lægra verði fengu bensínsalar þar mikla og stöðuga sölu.

    Það er allt í lagi að hafa drjúgan spöl á milli bensínstöðva, en þær ættu að vera nokkrar saman í hnapp.

  • Einar Karl

    Ætli skelfilegasta dæmið um hörmulegt skipulag í þessum efnum sé kannski uppi í Grafarholti, þar er matvöruverslunin í jaðri hverfisins, en bensínstöði í því miðju, nokkrum metrum frá grunnskóla.

    • Hilmar Þór

      Þetta hljómar eins og brandari Einar Karl. Hvað ætli skipulagshöfundarnir segi um þetta?

    • Nákvæmlega!

      En það er verslunarmiðstöð í miðju hverfisins sem er reyndar alveg hræðilega ljót bygging og fráhrindandi. Eiginlega skólabókardæmi um hvernig ekki á að gera hlutina. Þar hefur enginn rekstur lifað af (fyrir utan bakaríið) eftir að leyft var að opna verslun í jaðri hverfisins sem liggur einfaldlega betur við öllum samgönguæðum…öðrum en gangandi vegfarendum.

      En sagan um þessa verslunarmiðstöð og bensínstöðina inná skólalóðinni er líka gott dæmi um hvernig kaupin gerast á eyrinni í borgarkerfinu.

      Sagan segir að leyfið fyrir bensínstöðinni hafi verið gefið út til að sefa reiði eiganda verslunarmiðstöðvarinnar eftir að leyft var að opna verslun í jaðrinum, þvert á fyrri loforð um að sitja einn að verslun í hverfinu. Eigandinn gat í staðinn leigt smá pláss af lóðinni undir bensínstöðina. Breyting á deiliskipulagi var smyglað í gegn með bréfi til eina hússins sem álitið var í nágrenninu…Ingunnarskóla…og skólastjórinn sá ekki ástæðu til að gera athugasemd. Sá var hættur einu ári síðar. Þetta var allt á tíma Reykjavíkurlistans svokallaða…

      Síðar var komið fyrir færanlegum kennslustofum, skóladagheimili og félagsaðstöðu unglinga…allt fyrir innan eða alveg við leyfileg fjarlægðarmörk við bensínstöðvar.

      Það er margoft búið að hreyfa við þessu máli innan borgarkerfisins…yfirleitt fyrir tilstuðlan Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa. Málið er alltaf svæft jafnharðan enda greinilega um vandræðamál að ræða í augum meirihlutans. Og skildi nokkurn undra..

      Og núna í ríflega áratug hafa börnin í Ingunnarskóla getað notið nábýlisins við bensínstöðina…sem er nánast inná skólalóðinni og alveg við göngustíginn sem mörg barnanna nota á leið í skólann.

      Áhugasamir geta skoðað þessa mynd af Já.is: https://ja.is/kort/?type=map&x=365747&y=405572&z=11&ja360=1&jh=195.6

  • Haukur SM

    Ákaflega afhjúpandi fyrir hvernig Reykjavíkurborg hefur verið rekin, og á hvaða forsendum.

    Þakka fyrir góða vinnu á þessu bloggi alltaf hreint. Mjög upplýsandi og gagnlegt.

  • Þetta er líklega landlægur andskoti. Olíufélögin hafa ráðið þessu og skipulagsfræðingar og stjórnmálamenn verið dregnir á asnaeyrunum.
    Þetta er eins og sagt er talandi dæmi um landlægt fúsk í skipulagi á höfuðborgarsvæðinu og ekki síður á Akureyri ef eitthvað er að marka þessar svimandi tölur. Svo má spyrja hvað lækka mætti bensínlítirinn mikið ef stöðvumum yrði fækkað im 90%

  • Á Akureyri eru 12 bensínstöðvar, sem þýða að 1500 manns eru um hverja stöð. Vegasjoppur og mannlausar sjálfsafgreiðslustöðvar í bland.

  • Eru ekki flestar þessar bensínstöðvar smáverslanir líka? Spurning um að nýta sér það og sjá hvort það er ekki hægt að auka vöruúrvalið þannig að það fáist lágmark af ferskvöru en ekki bara snakk og nammi því þær dekka jú borgina vel í göngufæri.

    Westra hefur heilmikið verið spáð í þessu og er til hugtak yfir þetta. Næringareyðimörk, food desert, stór svæði þar sem einu verslanirnar selja pakka og ruslmat en stórmarkaði með ferskvöru er hvergi að finna.
    https://en.wikipedia.org/wiki/Food_desert
    Eitt og annað verið reynt til að bæta úr þessu til dæmis með bændamörkuðum og eins hafa innflytjendur verið duglegir að setja upp litlar búðir í fátækari hverfum en með góðu vöruúrvali.

  • Manni er orða vant.

    Eru engar kvaðir á svona lóðaleigusamningum? Geta bensínstöðvarnar bara umbreyst í krambúðir & skyndibitastaði í rólegheitunum?

    Og hvað gilda svona lóðaleigusamningar í langan tíma? Hvenær er hægt að endurheimta þessi landsvæði?

  • Sigrún Guðmundsdóttir

    Það er ósk flestra að geta gengið út í búð og keypt í matinn en maður kaupir ekki bensín á bílinn án þess að bíllinn sé með. Það er því í góðu lagi að aka 2-3 kílómetra eftir bensíni. Það sýnir sig líka að fjöldi fólks ekur 5-8 km til að kaupa bensín í Costco. Það á að fækka bensínstöðvum með átaki niður í 10% af því sem nú er. það mundi hafa í för með sér lækkun á bensínverði og mikið landrými mundi losna fyrir aðra og geðþekkari starfssemi.

    • Hilmar Þór

      Góð athugasemd hjá Sigrúnu: Maður kaupir ekki bensín án þess að hafa bílinn með!

      Orðrétt:

      „Það er ósk flestra að geta gengið út í búð og keypt í matinn en maður kaupir ekki bensín á bílinn án þess að bíllinn sé með“

  • Þetta er rosaleg úttekt. Um hvað hafa menn verið að hugsa?

  • Guðmundur Jónsson

    Ég verð að segja að ég er agndofa yfir þessu bensínstöðvamáli. Hér er á skýrann hátt sett fram myndrænt hvað skipulagsruglið hefur verið mikið undanfarna áratugi. Það er ekkert í lagi hér. Allt er „úr leið“. Skutlið og allt það hefur „þröngvað einkabílnum upp á okkur“ Hver ber ábyrgð á þessu rugli? Það eru auðvitað skipulagsfræðingar og stjórnmálamenn. Þá hefur fullkomlega skort samfélagslega ábyrgð þegar ólíufélögin bönkuðu uppá. Það sama á við um lágvöruverslanirnar sem fluttar voru út úr íbúðahverfunum. Og dreifing leikskóla er af sama toga, þeir eru aldrei í tengslum við strætóleiðir eða megin leiðir þannig að þeir séu „í leiðinni“. Það er von að mikil sé ekið og að fólk þurfi meira bensín en mat. Og svo á að þröngva fólk út úr einkabílnum áður en búið er að koma á fót hinni rómuðu og ágætu „borgarlínu“.Hvaða rugl er þetta. Komið línunni upp fyrst og gefið fólki tæðkifæri til þess að velja. Landspítalinn og flugvöllurinn eru hvorutveggja í sama ruglinu, andfélagsleg og samfélagslega rangar ákvarðanir þegar litið er til landsins alls og höfuðborgarsvæðisins. Þetta er óþolandi ófagmennska frá A til Ö Og að lokum. Hlustið á ræðu Birgittuá Alþingi frá í gær!!!!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn