Sunnudagur 21.08.2011 - 20:55 - 6 ummæli

Bessastaðanes–Náttúran-Flugvöllur

Björn Vignir Sigurpálsson blaðamaður sendi síðunni eftirfarandi texta. Þarna drepur Björn á málum sem ekki hafa verið mikið í umræðunni. Hann bendir á mikilvægi Bessastaðaness sem óraskað náttúrusvæði og styðst við skýrslu fræðimanna hvað það varðar. Þessi hugleiðing á  fullt erindi i umræðuna um Reykjavíkurflugvöll og hugsanlega uppbyggingu á Bessastaðanesi.

Gefum Birni orðið:

Nokkuð virðist umræða sem hér hefur farið fram um að flytja vandamálið flugvöll úr Vatnsmýrinni yfir á Bessastaðanesið vera hvatvís og vanhugsuð.

Er þar látið eins og Bessastaðanesið sé einskis virði og ekki þurfi að hafa af því neinar áhyggjur að landnýtingu þar sé gjörbreytt. Verður því ekki komist hjá að benda á úttektina Gróður og fuglalíf á Álftanesi sem Náttúrufræðistofnun Íslands vann fyrir Sveitarfélagið Álftanes sumarið 2004. Þetta er ítarleg skýrsla og vönduð og þar segir m.a.:

Þegar litið er yfir loftmyndir af Innnesjum þ.e. af svæðinu frá Kjalarnesi og suður fyrir Hafnarfjörð, sést að byggð hefur þést gífurlega einkum á síðari hluta 20. aldar. Mest hefur byggðin aukist á Seltjarnarnesi hinu forna, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Óskertum svæðum á láglendi hefur því fækkað mjög. Stærstu svæðin á láglendi sem ekki hafa verið skert með byggð, vegum og öðrum framkvæmdum eru eyjarnar á Kollafirði, Geldinganes og Bessastaðanes. Verðmæti þessara óbyggðu láglendu svæða sem náttúrusvæða eykst ár frá ári í réttu hlutfalli við þéttingu byggðar með sífellt fleiri íbúum sem óska eftir aðstöðu til útivistar í nágrenni sínu.

Náttúrufræðistofnun Íslands telur að hið tiltölulega óraskaða Bessastaðanes hafi mikið gildi sem náttúrusvæði. Í þessu sambandi er vísað til Edinborgar í Skotlandi sem hliðstæðu. Inni í borgarlandi Edinborgar er allstórt óbyggt svæði, Holyrood Park, sem tilheyrir bresku krúnunni og þar er aðsetur þjóðhöfðingja. Vegna þess að þetta land tilheyrir krúnunni hefur það notið friðunar og er óbyggt þó það sé nánast jaðri gamla bæjarins og þétt byggð liggi að því. Í dag er svæðið að hluta til opið almenning, sem nýtir það til gönguferða og náttúruskoðunar og hefur mikið aðdráttarafl.

Það fer því ekki á milli mála að Álftanes er mikil náttúruperla. Í því felst mikil ábyrgð og um leið ögrun fyrir íbúa nessins að þróa farsæla byggð og mannlíf í góðum tengslum við villta náttúruna þannig að hún fái að þróast áfram sem mest á eigin forsendum.

Um Bessastaðanes segir sérstaklega:

„Stefna ætti að því að viðhalda þessu óraskaða landi á Bessastaðanesi og bæta um betur með að friða landið algjörlega fyrir beit og öðrum ágangi. Æskilegt er að leggja

göngu- og hjólastíg um nesið til þess að fólk geti notið þar óspilltrar náttúru. Í henni felst mikill auður. Umhugsunarvert er hvort ekki er ástæða til að halda fáeinum völdum túnum við Bessastaði sunnan við í rækt til gæsbeitar, einkum vegna margæsar, þó svo að almenna reglan verði að endurheimta sem mest af votlendi.

Ríkulegt fuglavarp og mikið fæðuframboð á fjölbreyttum búsvæðum er forsenda mikils fuglalífs á Álftanesi. Fuglar verpa nær eingöngu á óbyggðum og óræktuðum svæðum og aukin byggð og breyttar nytjar munu þrengja að varplendum þeirra. Bessastaðanes lítt raskað og afar mikilvægt svæði fyrir mófugla, þar sem þeir þrífast í skjóli friðunar æðarvarpsins.

Mjög varlega verður að fara í að opna það svæði fyrir umferð. Mjög mikið mófuglavarp er á grandanum milli Lambhúsatjarnar og Skógtjarnar og mikilvægt að það svæði haldist óskert áfram.“

Er ekki rétt að huga fyrst að náttúrunni og umhverfinu áður en hugmyndum er kastað fram að meira og minna óathuguðu máli?

Skýrsluna sem Björn vitnar í má finna í heild sinni á þessari slóð:

http://www.ni.is/media/midlunogthjonusta/utgafa/Alftanes_04012_150dpi.pdf


Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Ágæt athugasemd hjá Birni Vigni, og einmitt mikilvægt að öll gögn komi fram. Björn Vignir þekkir svæðið sem um ræðir vafalítið mjög vel, enda búsettur steinsnar frá.

    En einhverstaðar þarf að byggja, og markmiðið með að reisa blandaða byggð í Vatnsmýrinni er einmitt til að þurfa ekki að byggja upp á fallegum útivistarsvæðum við Hafravatn, Heiðmörk eða á öðrum náttúruperlum innan borgarmarkanna. Mikið vildi ég óska að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hugsuðu oftar um útivistarsvæðin sín og mikilvægi þeirra, þegar verið er að dreifa byggðinni ómarkvisst í allar áttir.

    Við eigum að þétta byggðina í Reykjavík, byggja inn á við, fremur en að færa okkur endalaust yfir útivistarsvæðin í kring.

    En útivistarsvæði annarra sveitarfélaga eru ekkert minna mikilvæg einsog Björn Vignir bendir á, og við þurfum að stíga varlega til jarðar og reyna að færa vandamálið ekki bara til.

  • Þetta er fróðleg og vönduð skýrsla sem Björn bendir hér á (ég renndi í gegnum hana og mæli með henni) en maður verður að hafa það í huga að þarna halda á pennanum náttúrufræðingar sem skrifa með hagsmunu náttúrunnar í huga eðli málsins samkvæmt.

    Ef jafn lærð skýrsla yrði skrifuð af skipulagsfræðingum mundu þeir að líkindum komast að þeirri niðurstöðu að hagsmunir dýrategundarinnar „homo sapien“ vigtuðu þyngra á þessum stað en margæsanna og þarna ætti að byggja sæmilega þétta byggð eins og lýst var svo ágætlega á þessum vetvangi fyrir nokkrum vikum.

    Þetta er það sem tekist er á um auk hreppapólitíkurinnar (NIMBY).

    Er lífið ekki dásamlegt? 🙂

  • Stefán Guðmunds

    Er þetta ekki of mikilvægt land til búsetu fyrir mófugla? Þurfa þeir ekki að finna sér annan stað til búsetu?

  • Árni Ólafsson

    Hvers vegna er tekin mismunandi afstaða til Kringilsárrana og Álftaness?

    Var Reyjavík ekki ómetanleg náttúruperla áður en þéttbýlið óx yfir ósnert land, holt og mýrar?

  • Páll Gunnlaugsson

    Þetta er ágætt, en við hljótum alltaf að spyrja okkur hverju við viljum fórna til að byggja alvöru borg. Er raunhæft að verja „óraskað náttúrusvæði“ inni í miðri borg? Hve lengi verður það óraskað? Er Vatnsmýrin óröskuð? Hvað kostar það okkur í auðlindum (kannski okkar og annarra) að þenja borgina upp um holt og hæðir? Ekki að ég telji flugvöllinn best settan á Bessastaðanesi, en ég tel einhvers konar hringtengingu um höfuðborgarsvæðið mikilvæga til að styrkja miðborgina. Þá verður Álftanesið að sönnu hluti af heildinni. Styrkir líka þá skoðun mína að Reykjavík og Álftanes eigi að sameinast!

  • Guðmundur Einarsson

    Athyglisvert og nýtt í umræðunni hér.

    Allt sem gert er hefur áhryf á margt annað.

    Svo er að forgangsraða.

    Þessi hugleiðing Björns Vignis á erindi viða. Tek dæmi um Vatsmýri og rammaáætlun um virkjun neðri hluta Þjórsár, Urriðafoss m.m.

    “Að mörgu er að hyggja ef vel á að byggja”.
    Er til samsvarandi málsháttur um skipulagsmál?

    Þetta styður þá skoðun að halda eigi flugvellinum í Vatnsmýrinni um ókomin ár þar til landsbyggðin er öll flutt á suðvesturhornið.

    “Flugvöll kjurt og ekki burt”

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn