Þriðjudagur 27.12.2011 - 11:56 - 9 ummæli

Bestu byggingar ársins

Það er löng hefð fyrir því í Danmörku að sveitarfélög færi framkvæmdaraðilum viðurkenningu fyrir framúrskarandi arkitektúr. Fundnar eru bestu byggingar liðins árs í hverju sveitarfélagi og þeim sem að stóðu veitt viðurkenning á alþjóðlegum degi byggingarlistarinnar 1. október ár hvert.

Tilgangurinn er ekki aðeins sá að heiðra arkitektinn og húsbyggjandann heldur einnig að hvetja alla til þess að vanda til verka þegar umhverfi er mótað til langrar framtíðar.

Sveitarfélögin velja hvert fyrir sig þau hús eða framkvæmdir sem viðurkenningu hljóta  í góðri samvinnu við danska arkitektafélagið.

Ég velti fyrir mér hver ástæðan kunni a vera fyrir því að sveitarfélög hér á landi hafi ekki tekið upp þennan góða sið dana!  Ég hef ekki trú á að þeim hafi ekki verið kunnugt um þessa hefð. Kannski er ástæðan landlægt áhugaleysi fyrir manngerðu umhverfi og hverfandi umfjöllun um þetta mikilvæga mál!

Þetta er jákvætt framtak hjá Dönum sem hvetur fólk til þess að vanda sig þegar mótun umhverfisins á í hlut. Hvort heldur um er að ræða nýbyggingar, enduryggingar, viðhald, skipulagsáætlanir, landslagsmótun, vegagerð, brúarsmíði eða önnur mannanna verk sem áhrif hafa á umhverfið.

Ef einhver áhrifamaður í sveitarstjórn les þetta þá tel ég fullvíst að Arkitektafélag Íslands mun vera viljugt til þess að aðstoða sveitarfélögin um framkvæmd viðurkenningarferils á svipaðan hátt og gerist í Danmörku.

Og hér er tengill að heimasíðu danska arkitektafélagsins þar sem fjallað eru um nokkrar viðurkenningar fyrir árið 2011 auk þess sem þar er að finna ýmsar upplýsingar um ferilinn.:

http://arkitektforeningen.dk/Arkitektforeningen/S%C3%A6t%20pris%20p%C3%A5%20din%20arkitektur%21/2011

Hjálagt eru nokkkrar myndir af verkum sem viðurkenningu hlutu í Danmörku á árinu sem er að líða. Efst er byggingin 8TALLET sem teiknuð er af BIG-Bjarke Ingels Group. Landslagsarkitektar voru KLAR og verkfræðistofan Moe & Brödsgaard sá um verkfræðihönnun.

Vejle: Vedelsgade 1 er dæmi um velheppnaða endurbyggingu þar sem full virðing er borin fyrir gamla húsinu um leið og það er endurbætt með nútíma þægindum.

Horsens. Einbýlishús eftir arkitektana Birch og Svenning

Skanderborg: Söluskáli eftir arkitektana Kurt Kamp og Thomas Graah

Holsterbro: Listasafn eftir gamla kennara minn Hanne Kjærholm og Sören Andersen.

Kaupmannahöfn: Bókasafn eftir arkitektana COPE og Transform. Verkfræðingar voru Wessberg.

Silkeborg: Einbýlishús eftir arkitektinn Lise Juel.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Steinarr Kr.

    Jóhannes, þarf ekki starfsmenn til að fara og meta það sem á að viðurkenna og annað þess háttar í kring um svona batterí? Sem þá yrði kostað af skattfé.

  • Árni Ólafsson

    Akureyrarbær hefur veitt byggingarlistarverðlaun í rúman áratug og vakið með því athygli á vandaðri byggingarlist eða merkilegu framlagi á þeim vettvangi.

    Verðlaunin eru í veitt í samræmi við byggingarlistarstefnu bæjarins sem vísað er til við hátíðleg tækifæri – ef einhver man þá eftir henni. En að öllu gamni slepptu – þá er tilgangur verðlaunanna m.a. að vekja athygli á því sem vel er gert og vekja umræðu. Lítið fer fyrir umræðunni og því er boggið hans Hilmars kærkomið. E.t.v. mætti grafa eitthvað upp um byggingarlistarverðlaun Akureyrarbæjar og benda á það hér – áhugamönnum um góða byggingarlist til ánægju.

  • Herta Kristjánsdóttir

    Gleðilega hátíð, Hilmar, er þakklát fyrir þitt frábæra blogg.

  • Björn Ingi

    Reykjavíkurborg hefur í fjölmörg ár veitt fegrunarviðurkenningar (ekki verðlaun) fyrir endubætur á eldri húsum og fallegar lóðir sbr….
    http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-736/1268_read-27800/6385_view-2443/

  • Jóhannes

    Steinarr kr. Þarna er ekki verið að tala um verðlaun heldur viðurkenningu. Viðurkenningin þarf ekki að kosta eina einustu krónu uppúr buddunum okkar. Það er einmitt snilldin við þessa hugmynd.

  • Steinarr Kr.

    Þið verðið að afsaka, en sem skattborgari hér á landi fæ ég verk í veskið við þessar hugmyndir.

    Getur ekki eitthvað áhugamannafélag um þetta efni tekið að sér að veita svona verðlaun, án framlags frá sveitarstjórnum og þar með af skattfé?

  • Góð hugmynd. Það er allstaðar eitthvað gott að finna sem getur orðið fyrirmynd annarra. Hugmynd Björns er býsna góð. Að verðlauna hús sem hafa sannað sig í tímans rás…… „mey skal að morgni lofa og dag að kveldi“

  • Björn Erlingsson

    Það er virkilega tímabært að koma svona á laggirnar. Það er svo mikið fínt til sem ekki fær verðskuldaða athygli og oft ekki fyrr en seint og síðar meir. Það er oft fjallar meira um það sem miður er gert eða kallar fram umræðu um mótstríðandi álitamál varðandi skipulag, útlit og notagildi. Slík umræða er góð í sjálfu sér en dregur athygli frá því sem vel er gert og verðskuldað mætti fjalla um.

    Það væri gaman að fá svona í gang og líka verðlauna byggingar sem hafa ,,staðið sig vel“ eða sannað sig líka eins og gert er í mörgum öðrum brönsum.

    Ef settir eru fram nokkrir verðlaunaflokkar þá er öruggt að bæði tilnefningar og verðlaun vekji athygli á því sem vel er gert og það ýrtir ekki bara við hönnuðum að gera vel heldur líka verkkaupum/byggjendum sem geta með þessum hætti aukið verðmæti framkvæmdarinnar án þess að kosta öðru til en bara að gera betur.

  • Jóhannes

    Þetta er gott og uppbyggjandi innlegg. Ef sveitarstjórnir hafa ekki frumkvæði í þessu máli verður Arkitektafélagið að gera það í framhaldi af þessari ábendingu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn