Mánudagur 07.11.2011 - 09:59 - 12 ummæli

Betri bæir – AÍ 75 ára

 

Logi Már Einarsson formaður Arkitektafélagsins tjáir sig hér m.a. um skipulagsmál í tilefni 75 ára afmælis Arkitektafélags Íslands.

Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag. Formaðurinn hefur gefið mér leyfi til þess að birta greinina sem hann kallar “Betri Bæi” hér á vefsíðunni.

Gefum Loga orðið:

„Óbyggðir landsins eru okkur dýrmætar og mikilvægt að huga vel að því hvernig um þær er gengið. Þetta hefur mönnum orðið æ ljósara og hefur megináhersla umhverfisverndar á Íslandi snúist um víðernið. Það er þó ekki síst við skipulagningu þéttbýlis sem ná má árangri í umhverfisvernd. Skynsamleg þróun bæja getur skipt sköpum.

Ýmislegt hefur farið úrskeiðis í uppbyggingu þéttbýlis síðustu áratugi. Við höfum að miklu leyti byggt upp samkvæmt hugmyndafræði hinnar bandarísku bílaborgar, þar sem lykilhugtökin eru flokkun og aðgreining. Borg og bæir eru gisin, innviðir dýrir, almenningssamgöngur lélegar og almenningsrými oft illa skilgreind. Þá höfum við byggt okkur stærra íbúðarhúsnæði en skynsamlegt má teljast. Markmiðið hlýtur að vera að snúa af þessari braut.

Stjórnvöld hafa ekki horft á hlutina í nógu stóru samhengi og þann ávinning sem í því felst. Arkitektar bera þó auðvitað líka sína ábyrgð á þessari þróun. Sum okkar hafa ýmist villst af leið eða verið of leiðitöm í ofsaþenslu síðustu ára. Önnur hafa hins vegar hvergi hvikað frá gildum sínum og víða má sjá byggingar og skipulagssvæði sem bera metnaði og fagmennsku mjög gott vitni.

Byggingarlist lýsir vel menningarstigi og viðhorfi þjóðfélaga á hverjum tíma. Því eigum við að leggja áherslu á að góður arkitektúr einkenni þéttbýli. Góð byggingarlist auðgar umhverfið og hvetur til varðveislu arfleifðar okkar. Hún er aðlaðandi og fúnksjónell. Góður arkitektúr einkennist af og tekur tillit til menningar okkar og sérkenna.

Í framtíðinni þurfa orku- og umhverfisvænar lausnir einnig að einkenna góða byggingarlist.  Góð byggingarlist og skipulag auka lífsgæði, stuðla að verðmætasköpun og eru því hagkvæm.


Í þeirri viðleitni að snúa til betri vegar óskar Arkitektafélag Íslands, sem nú fagnar 75 ára afmæli, eftir aukinni og markvissri samvinnu við ríki, sveitarfélög og almenning um mótun skýrrar sýnar til langrar framtíðar“.

.

Logi Már Einarsson, formaður Arkitektafélags Íslands 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Stefán Benediktsson

    Fyrirgefðu Þráinn en ástæðan fyrir því að ég nefndi ekki landslagsarkitekta er náið samstarf okkar.

  • Stefán Benediktsson

    Jú nafni við eigum að hugleiða ábyrgð okkar á þróuninni síðan 60 en þá hófst fjöldamenntun arkitekta erlendis. Við getum ekki látið sem við höfum existerað inní blöðru sl 50 ár. Við höfum alltaf verið virkir þáttakendur í bólum og kreppum en aldrei nógu samhentir í gagnrýni og sumir stundum of handgengir ráðandi mönnum.

  • Verst að „góður arkitektúr“ er ekki til í nútíðinni, berið saman t.d. Þingholt/Gamla-Vesturbæ við Grafarholtið og Miðbæ/Suðurbæ í H.fj við Vallarhverfið, gömlu hverfin eru með fallegan arkitektúr, nýrri hverfin eru með ljótan arkitektúr og enga sál.

  • Jón Ólafsson

    Það er ástæða til þess að óska arkitektum til hamingju. Þeir vinna flestir vel. Starfið er vanþakklátt og er meira háð hagsveiflum en flest önnur störf.

  • Fannar Hjálmarsson

    ég hef mikið spáð í skipulagi bæja og þá oftast hvernig höfuðborgin er skipulögð og svo hvernig best sé að skipuleggja minn gamla heimabæ.

    horfum aðeins og höfuðborgina. það er rétt hún er alltof strjálbýl. allstaðar eru garðar fyrir framan og aftan hús. það má ekkert rífa eða byggja nýtt þannig að byggðin staðnar í formi sem var lítið fyrir 100 árum. tökum laugavegin sem dæmi um stöðnun. einnar hæðar hús í miðborg á besta stað er óeðlilegt. Ef menn vilja halda í ákveðið byggingarform þá á að breyta skipulagi þannig að það sé byggt í þeim stíl sem var ár árunum 1900 til 1930 og taka jafnvel upp aftur þær skipulags hugmyndir sum Guðjón Samúels kom með. það eru mörg glæsilegustu hús landsins byggð á þessum tíma. lágreist hús frá þessum tíma eiga heima uppá Árbæjarsafni.

    önnur skipulags breyting sem þarf að fara í gegn er að leyfa verslun á neðri hæð (kjallara, 1 hæð og jafnvel 2 hæð líka) og íbúðarhúsnæði á hæðum þar fyrir ofan. garðar eiga að vera á milli húsa en ekki fyrir framan þau eins og um væri að ræða eitthvað úthverfi.

    í borg þar sem alltaf er kalt og langt í alla enda bæjarins þá þarf annað hvort gríðarlegar samgöngu tengingar á milli bæjarhluta, s.s. hraðbrautir þar sem öll gatnamót eru mislæg eða hugsa fram á við langt fram í tíman í skipulagi. hugmyndir um neðanjarðarlest eru óraunhæfar í höfuðborginni í dag. þó er þetta eina alvöru almennings samgöngu tækið sem gæti leist bílin af hólmi.

    hvernig er hægt að breita borginni til að koma fyrir neðanjarðar lest? svarið liggur í skipulagi til næstu 50 ára. þe. að við komum upp neðanjarðarlest eftir 50 ár þegar ákveðin skilyrði hafa verið uppfyllt. Lína er dregin í kringum núverandi þéttbýlismörk. ekki verði farið í uppbyggingu fleiri hverfa á öllu höfuðborgarsvæðinu nema þá í landfyllingu í kringum Seltjarnarnes og úti á Granda. Íbúðum á hvern ferkílómetra í borginni verði tvöfaldaður til þrefalduður. þe. að gert sé ráð fyrir því að í Reykjavík innan þess svæðis sem nú er byggt verði hús rifin og byggð hærri fjölbýlis hús sem miði að því að á sama svæði og búa um 100.000 manns í dag, búi 200 til 300 þúsund manns eftir 50 ár. Þá fyrst er raunverulega hægt að tala um neðanjarðarlest sem raunverulegan valkost í samgöngumálum.

    þú verður að fyrirgefa þess langloku Hilmar en ég hef lengi verið að spá í þessum málum og vildi koma þessari hugmynd áfram til einhverns.

  • Sveinbjörn Sigurðsson

    Þessi hugleiðing er löngu tímabær. Öll orkan hefur farið í að vernda víðáttuna og náttúruna. Hið manngerða umhvefi og menningararfurinn hefur verið vanrækt. Ástæðan er kannski sú að arkitektar hafa lært sín fræði í öllum heimshornum. Það er bæði kostur og galli. Kostur vegna aðlögunarhæfni og fjölbreytilegra lausna en galli vegna þess að það hefur hallað á þau atriði sem Logi gerir hér að umtalsefni. Bandarískt model í skipulagi þar sem ekki er horft til þéttleika, menningararfs, almenningsrýma og arkitektúrinn er meira og minna innfluttur en oft ekki eðlilegt framhald af því sem fyrir er.

    Ástæða er til að halda að viðhorf til menningararfsins sé að breytast. Sennilega er meginástæðan sú að arkitektanám var flutt til landsins fyrir nokkrum árum og arkitektanemarnir eru að vinna verk miðað við íslenskan veruleika og íslenskan menningararf. Sennilega er uppskeruna af arkitektanámi hérlendis sértaklega að finna í þvi sem Logi nefnir, ræktun menningararfsins.

  • Óþarfi hjá arkitektum að taka til sín sérstaklega hvernig mál hafa þróast hvað varðar bílismann eða annað sem menn meta neikvætt í skipulagi í dag. Tel að sú þróun hafi verið í sátt við fólkið á hverjum tíma. Sama er að segja um stjórnvöld. Almenningur fékk það sem hann kaus. Að mínu mati eru menn allt of mikið í forræðisgírnum þegar litið er yfir farinn veg. Gleyma því að við búum í lýðræðissamfélagi þar sem almenn umræða litar ákvarðanir stjórnvalda og þær lausnir sem eru uppi á borðinu. Vitaskuld eiga stjórnvöld og fagaðilar að leiða umræðuna en þeir eru líka almenningur. Batnandi fólki er best að lifa. Til hamingju arkitektar.

  • Hrafnkell

    Óska AÍ til lukku með áfangann.

    Já það var gleðilegt að rekast á grein Loga í morgunsárið. Allt of sjaldan sem maður sér greinar um skipulag og borgarbrag í dagblöðunum. Þú stendur þig vel Hilmar á þessum miðli.

    Tek undir að samræða milli faghópa ætti að vera miklu meiri. Held að það væri okkur öllum til framdráttar. Vel má sjá fyrir sér regnhlífasamtök þeirra sem fást við hið byggða umhverfi og vilja beita sér fyrir auknum gæðum í umhverfinu. Í því samhengi horfi ég fyrst á AÍ, FÍLA og SFFÍ. Ef vel tækist til væri væri hægt að stækka mengið.

    Á morgun 8. nóvember er alþjóðlegi skipulagsdagurinn. Í því tilefni boðar Skipulagsfræðingafélag Íslands (SFFÍ) til hádegisfundar þar sem boðið verður upp á stutt erindu um skipulagsþróun og skipulagsslys á höfuðborgarsvæðinu – sjá http://skipulagsfraedi.is/wp-content/uploads/2011/11/SFFI-hadegisfundur-8.11.2011.pdf

    Það væri gaman ef þeir sem láta sig skipulagsmál varða geti gefið sér tíma á þessum degi til að sameinast í umræðu um bætt skipulag byggðarinnar og betri bæjarbrag.

    kv. Hrafnkell Á Proppé, í stjórn SFFÍ

  • Þráinn Hauksson

    en aðalatriðið, góður pistill hjá Loga.

  • Þráinn Hauksson

    að ógleymdum okkur landslagsarkitektum sem kæmum þarna sterk inn.

  • stefán benediktsson

    Arkitektafélagið ætti kannski að boða til samræðu fleiri aðila sem málið varðar. Eins og skipulagsfræðinga, hagfræðinga, verkfræðinga, áhugamanna ofl.

  • Hilmar Þór

    Það eru mörg gullkorn að finna í þessum stutta pistli. Ég vek athygli á þessu:

    “Góð byggingarlist auðgar umhverfið og hvetur til varðveislu arfleifðar okkar. Hún er aðlaðandi og fúnksjónell. Góður arkitektúr einkennist af og tekur tillit til menningar okkar og sérkenna”.

    Þarna mælist formanninum vel og sýnist mér hann vera að tala um hverfisvernd og “regionalisma” eitthvað sem þarf að huga vel að á komandi árum og áratugum. Alþjóðahyggjan er að laska sérkenni þjóða og menningu þeirra. Þarna þarf að spyrna við fæti í orði og á borði.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn