Þriðjudagur 05.10.2010 - 14:46 - 10 ummæli

BETRI borg BETRA líf

Málflutningur starfsmanna Skipulags- og byggingasviðs Reykjavíkurborgar á málþingi í ráðhúsinu um BETRIBORGBETRALIF í gærkvöld kom mér þægilega á óvart.

Þeirra sýn á skipulagsmálin var skynsamleg og framsækin í kynningunni. Ég segi framsækin miðað við það sem áður hefur sést frá sviðinu. Það sem þau töluðu um og þær lausnir sem nefndar voru eru áratuga gamlar í umræðunni um skipulagsmál, en nýjar hjá borginni.

Þarna bentu þau á þá ógnvænlegu þróun þar sem einkabílum hefur fjölgað í borginni um helming á hverja þúsund íbúa frá 1994. Þau töluðu um að minnka kröfur um fjölda bifreiðastæða niður í eitt á íbúð. Þau ræddu þéttingu byggðar. Fækkun einkabíla. Fá verslunina aftur inn í íbúðahverfin. Spurt var “Hvar verslar 85 ára gömul kona sem býr í Norðurmýrinni í matinn?” Þau ræddu um að styrkja almenningssamgöngur. Blanda betur saman atvinnu og íbúðasvæðum. Þau töluðu um að hús ættu ekki að vera hærri en 3-5 hæðir. Þau töluðu um uppbyggingu samgönguáss og margt fleira áhugavert.

Þetta eru allt hlutir sem ekki hafa verið á dagskrá borgarskipulagsins undanfarna áratugi. Það má kannski segja að stefna borgarinnar hafi gengið í þveröfuga átt.

Svona viðhorfsbreyting gerist ekki á einni nóttu. Sennilega hefur viðsnúningurinn átt sér stað fyrir 4-5 árum. Góðir hlutir gerast hægt. Þarna er verið að snúa stóru olíuskipi, svo notuð sé vinsæl samlíking. Það tekur tíma.

Þó ég fjalli hér einungis um erindi starfsmanna borgarinnar þá voru erindin hvert öðru áhugaverðara. Ég vil sérstaklega nefna erindi Páls Gunnlaugssonar um bábiljur, Páls Hjaltasonar um framtíðarsýn og störf skipulagssviðs, Hjálmars Sveinssonar um staðarmótun (Placemaking) Ég missti af síðasta erindinu sem var um húsið og borgina.

Mér er sagt að nálgast megi erindin á heimasíðu Arkitektafélagsins innan tíðar.

Eitt erindið var einkennilegt fyrir þær sakir að það var flutt á ensku.  Erindið var samið af íslenskum nemum í  Listaháskólanum og HR undir leiðsögn íslensks leiðbeinanda. Áheyrendur, flytjendur og þeir sem sömdu erindið voru allir íslenskir, en erindið var flutt á ensku!!! Flutningurinn var skemmtilegur en missti nokkuð marks vegna tungumálsins. Ekki svo að skilja að áheyrendur hafi ekki skilið tungumálið heldur hitt að einbeitingin og boðskapurinn truflaðist vegna sérviskunnar.

 Myndin sem fylgir færslunni er tekin af Mána Atlasyni og er fengin af þessari slóð:

http://www.lason.is/index.php?showimage=19)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Árni Ólafsson

    Ég las viðtal við Pál einhvers staðar nýlega. Þar ræddi hann m.a. um eiginleika borgarhlutanna og þörfina fyrir blöndun vinnustaða, þjónustu og heimila – hvert úthverfi yrði þorp sem gæti verið sjálfu sér nægt með flest – ef ég skildi hann rétt.
    Þetta líst mér vel á.
    Síðan komu stór orð um flugvöllinn.
    Í því samhengi og vegna pillu hér að ofan út í samgöngumiðstöðina vil ég benda á mikilvægi þess að höfuðið verði ekki skilið frá búknum (- þ.e. höfuðborgin frá landsbyggðinni). Það hefur stundum leiðinlegar afleiðingar í för með sér fyrir viðkomandi.

    Forsenda brotthvarfs flugvallar úr Vatnsmýri er nýr flugvöllur í beinum og greiðum tengslum við höfuðborgina. Keflavík er ekki og verður aldrei valkostur fyrir innanlandssamgöngur.
    Auk þess má ítreka ábendingar um betrumbætur á borgarumhverfi alls staðar annnars staðar í borginni áður en draumalandið í Vatnsmýrinni verður lagt undir. Ranghugmyndir um gagnsemi þess að æða út í Vatnsmýrina strax eru vaðandi uppi.
    Annars gæti Reykjavík orðið ósköp huggulegt og fallegt þorp í friði fyrir landsbyggðinni ef allar höfuðborgarfúksjónir myndu fylgja samgöngumiðpunktinum til Keflavíkur.

    Reykvíkingar ættu að reisa mannsæmandi samgöngumiðstöð/flugstöð strax. Að öðrum kosti mætti e.t.v. taka húsnæði Háskólans í Reykjavík undir starfsemina. Hversu lengi ætlar 101 elítan að standa í vegi fyrir því að flugfarþegar komist út úr herbröggunum?

  • Það eru auðvitað gleðitíðindi að borgarskipulagið sé að átta sig á því að háhýsi henta síður á norðlægum slóðum þar sem sólin er lágt á lofti. Að borgarskipulagið skuli loks skilja að háhýsi skapa vind og rokvandamál. Það er líka aðdáunarvert að borgarskipulagið hafi loks skilið að fólk neytir matar heima hjá sér en ekki á iðnaðarsvæðum. Það er mikil framför að þau skuli átta sig á mikilvægi almenningssamgangna og um leið hvað einkabíllinn er kostnaðarsamur og óhentugur í borgum.

    Húrra fyrir snillingunum og lengi lifi umræðan.

  • Dóra Pálsdóttir

    Takk fyrir svarið Hilmar. Fyrst Páll minntist ekki á dulbúnu Flugstöðina í Vatnsmýrinni þá VONA ég að hún sé EKKI hluti af hans framtíðarsýn á þróun borgarinnar.

  • Hvað hafa þeir verið að hugsa í borgarskipulaginu. Hafa þau verið sofandi?
    Þetta hefur verið stefnan allstaðar á byggðu bóli um áratugaskeið….

    Nema hér í Henni Reykjavík

  • Ég stoppaði ekki lengi enda ekki arkitekt. En óneitanlega gaf ég samkomunni blæ löggjafar og fulltrúaþings þar sem ég sat á áheyrnarsvölum eða þingpalli þó einn væri.
    Páll sagði að það hefði verið soldið stíft í Skipulagsráði fyrst en svo jafnað sig, talaði svo um viðsnúning íbúalýðræði ofl. ég trúi engu sona. Var einmitt að lesa einróma samþykkt Skipulagsráðs um breytingu á húsi, ekki þótti ástæða til að auglýsa af því að engum kom þetta við þó að fyrra Skipulagsráði hafi þó svo um sama hús. Ég hugsaði; það geta ekki verið mikil ágreiningsmál um ekki neitt og svo hugsaði ég líka; hefur þetta ágæta fólk eitthvað að gera?

  • Hilmar Þór

    Nei Dóra. Ég man ekki eftir því að nokkur hafi minnst á samgöngumiðstöð í Vatnsmýri eða nokkursstaðar annarsstaðar

  • Sigurður H.

    Það er ánægjulegt að mjúku mannlegu málin skulu vera komin upp á borð hjá skipulagsyfirvöldum . Háhýsastefnan víkur og 3-5 hæða hús taka við. Hraðbrautir innanbæjar víkja fyrir gangandi hjólandi og strætó. Eitt bílastæði á íbúð. Matvöruverslanir verði aftur í göngufæri o. s. frv.

    Sennilega verður þetta ein af þeim góðu afleiðingum bankahrunsins sem við eigum eftir að verða stolt af þegar fram líða stundir. Það er samt óskiljanlegt hvað við höfum haldið þessari útþennslustefnu og ofneyslu áfram lengi. Var það ekki í kjölfar bókarinnar ”Limits of Growth” (Takmörkun vaxtar) sem allar vestrænar þjóðir (fyrir utan USA) byrjuðu að hugsa sig um og minnka neyslu á landi og auðlindum? Limits of Growth kom út um miðjan sjöunda áratuginn og byrjaði að hafa áhrif uppúr 1970 með sérstöku átaki í olíukrepppunni 1972. Nú 38 árum seinna vöknum við til lífsins, en það var í kjölfar bankakreppu ekki hugsjónar.

    Ég tek undir furðu á því að íslendingar skulu tala á ensku, teksta sem þeir sömdu sjálfir á málþingi þar sem allir þáttakendur eru íslendingar. Þetta er veruleikafyrring af verstu gerð. Vita menn ekki hvar þeir eru staddir? Þetta segji ég samt með þeim fyrirvara að ég var ekki viðstaddur. Í raun trúi ég þessu ekki.

  • Dóra Pálsdóttir

    Missti því miður af þessu góða málþingi og spyr þess vegna hvort Páll Hjaltason hafi nokkuð minnst á svokallaða Samgöngumiðstöð – réttara sagt Flugstöð – í Vatnsmýrinni í sínu innleggi um framtíðarsýn?

  • stefán benediktsson

    Þessi viðsnúningur í stefnu borgarinnar má ekki fara framhjá fólki og sérstaklega ekki fagfólki. Arkitektafélaginu ber að mínu viti að lýsa afstöðu sinni til þessarar stefnu. Arkitektafélaginu hefur ekki gengið allt of vel að móta stefnu sjalft en það gæti kannski tekið afstöðu til stefnu borgarinnar.

  • Þetta var flott málþing. Ekki má gleyma góðu erindi Halldórs Eiríkssonar arkitekts um “Vistbyggðaráð” eða „Green Building Council” og umræðu um mengun vegna byggingaefna þegar þau eru loks komin á sinn stað í byggingunni.

    Stál frá Kína mengar meira en stál frá Rotterdam vegna langra flutninga í hlutföllunum 127 frá Rotterdam á móti 311 frá Kína ef ég skildi rétt.

    Þetta erindi á ensku var einhver misskilningur í anda 2007.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn