Mánudagur 26.10.2009 - 15:17 - 6 ummæli

Betri Reykjavík

 

Þegar ég var ungur maður og var að hasla mér völl á starfsvettvangi arkitekta spurði ég Guðrúnu Jónsdóttur arkitekt sem þá var forstöðumaður Borgarskipulagsins hvað ungur maður ætti að gera til þess að nálgast skipulagsverkefni hjá borginni.

Hún gaf mér þau ráð að sýna áhuga, taka þátt í umræðunni, styðja góðar hugmyndir og hafa hátt um það sem betur mætti fara.  Borgin vildi eiga viðskipti við þannig fólk.

Af einhverjum ástæðum breyttist þetta þannig að athugasemdir, uppástungur og aðfinnslur sem áður voru vel þegnar voru nú litnar hornauga. Borgin leit á þá sem gerðu athugasemdir eða voru með aðrar hugmyndir en unnið var að sem andstæðinga sína.

Borgarskipulagið vildi að ráðgjafar væru „góðir í samstarfi“ sem mér fannst alltaf þýða að borgarskipulagið vildi vinna með fólki sem gerði það sem því var sagt og væri ekki með neinar hugmyndir frá sjálfu sér.

Síðustu misseri hefur orðið vart breytinga á þessu og í gær var brotið blað þegar borgin boðaði til Hugmyndaþings í Ráðhúsinu og óskaði eftir aðkomu fólks að skipulagi framtíðarinnar.

Þegar ég kveikti á útvarpinu í gærmorgun heyrði ég að borgarfulltrúarnir Björk Vilhelmsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson voru að ræða framtíð Reykjavíkur. Það vakti athygli að þau töluðu einum rómi. Þau voru ekki kynnt sem fulltrúar flokka eða minni- og meirihluta. Þau voru kynnt sem borgarfulltrúar og maður nam að þau voru í sama liði og voru bæði að vinna að hagsmunum borgarbúa.

Það var notaleg tilfinning að heyra að öll borgarstjórn stóð saman um framtíð borgarinnar þar sem kallað var eftir hugmyndum og skoðunum, gagnrýni og hrósi.

Þegar í Ráðhusið var komið sá maður borgarfulltrúa allra flokka á tali við borgarana um málefni líðandi stundar og hvernig fólk vill sjá framtíðina. Þau tóku brosandi við gagnrýni og báðu um skýringar og ræddu það sem borgarbúa lysti.

Mér fannst eins og borgin, stjórnmálamenn og embættismenn væru að segja við okkur borgarbúa: Ræðum nú skipulagið og framtíðina, verum opin og hreinskilin.  Þetta voru góð tíðindi og ég vona að kollegar mínir og aðrir gangi rösklega til verks í umræðunni.

Maður veltir fyrir sér hvers vegna stjórnmálamenn landsmálanna hafa ekki burði til þess að taka höndum saman um málefni landsmanna þvert á flokka eins og borgarfulltrúarnir í Reykjavík sýndu í gær um málefni og framtíð borgarinnar.

 

Myndirnar eru fengnar af vef Reykjavíkurborgar

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Tek undir með Gesti, þótt ég telji eins og hann eflaust líka, að sérfræðingar mega ekki fá að ráða einir heldur.

    En ef sérfræðingar , svo sem skipulagsfræðingar t.d í samvinnu við arkitekta, samgöngusérfræðinga, félagsfræðinga, sálfræðinga og frjáls félagasamtök, svo sem íbúasamtök mundu búa til útfærslur og spá/likön eða það sem á ensku heitir scenario, útfært helst í þrívidd, og með rótum í raunvrulegum dæmum …. þá yrði val um stefnu upplýstari og raunverulegra.

  • Gestur Ólafsson

    Yndislegt „hugmyndakarnival“ en hefur því miður sára lítið með skipulag að gera. Undanfarin ár hafa opinberir aðilar innheimt um 460 millj. á ári í skipulagsgjald og hvernig væri að við íbúar Reykjavíkur færum nú að sjá faglega unnar skipulagstillögur, mismunandi kosti og samanburð á þeim svo venjulegt fólk geti tekið upplýsta afstöðu í staðinn fyrir að kasta boltanum bara til okkar íbúanna. Nútíma skipulag er flókin sérfræðivinna og það lendir alltaf á okkur íbúunum að borga brúsann fyrir lélegt skipulag.

  • Andrés Jakob Guðjónsson

    Þetta er gott framtak og tek undir hjá Morten Lange en ég átti gott spjall hérna um daginn hvað varðar gömlu húsin í miðbænum. Og spurði sjálfan mig afhverju borgin er bara með tvo arkítekta og nokkra iðnaðarmenn sem sjá um framkvæmdir og viðhald á húsunum gömlu. Ég hélt að þetta hefði verið verkefni fyrir fleiri arkítekta? En með þessu kommenti vil ég ekki gera lítið úr þessu. Ég hélt að þetta væri verkefni fyrir hóp af sérfræðingum innan byggingarlistarinnar. Er það kannski bara skortur á peningum?

  • Mjög gott framtak, en hversu gegnsæ verður úrvinnslan ? Með hvaða rökum munu stjórnmálamenn og embættismenn velja og hafna meðal tillagna ?

  • Ég var þarna í gær og legg til að svona hugmyndaþing verði ársfjórðungslega. Borgatbúar og borgarfulltrúar hafa gott af því að hittast með þessum hætti. Þetta var huggulegt og nánast óformlegt.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn