Föstudagur 24.07.2015 - 00:06 - 8 ummæli

Betri stað fyrir betri spítala

adalskipulag_framhlid-3

Fljótlega eftir að ákveðið var að sameina sjúkrahúsin í Reykjavík var samin skýrsla um staðsetningu sameinaðs sjúkrahúss. Skýrslan var gefin út í janúar 2002 og er að mestu faglega unnin og til þess fallin að taka ákvörðun um staðsetningu við Hringbraut.

Síðan skýrslan var gefin úr hefur allt breyst í umhverfinu, hvort heldur varðar skipulagslegt umhverfi, félagslegt eða fjárhagslegt. Staðsetning sjúkrahússins við Hringbraut stenst ekki lengur þann veruleika sem nú blasir við 13 árum síðar.

Ástæðurnar eru margar. Nægir þar að nefna umferðamálin.

Á skipulagi sem stuðst var við árið 2002 voru fyrirhuguð göng frá Landspítalanum undir Öskjuhlíð með tengingu við Kringlumýrarbraut í Fossvogi, og áfram undir Kópavog og alla leið að Reykjanesbraut við Smáralind. Önnur göng áttu að koma undir Þingholtin með tengingu spítalans við Sæbraut nálægt Hörpu. Gert var ráð fyrir mislægum gatnamótum á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Leggja átti Miklubraut í stokk við Klambratún. Flugvöllurinní Vatnsmýri og starfsemi þar var snar þáttur niðurstöðunnar.

Nú liggur fyrir nýtt aðalskipulag Reykjavíkur þar sem allt þetta er lagt á hilluna.

Árið 2004 var samin önnur skýrsla. Þar segir m.a. „…besti kosturinn er án efa bygging nýs sjúkrahúss frá grunni en ef ekki verður ráðist í svo fjárfreka framkvæmd nú verður að skoða aðrar leiðir“. Útreikningar hafa sýnt að það er um 20 milljörðum ódýrara að byggja á nýjum stað en að endurnóta og byggja við núverandi húsnæði. Þar fyrir utan hagnast þjóðfélagið um milljarða á ári hverju við að flytja sjúkrahúsið nær þungamiðju búsetunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þriðja skýrslan sem stundum er nefnd kom svo í febrúar 2008. Sú skýrsla er rýr og byggir ekki á neinum tilgreindum gögnum sem vitnað er í. Það er fullkomlega óábyrgt að byggja ákvörðun um staðsetningu spítalans á henni.

Þegar gögn málsins eru skoðuð er því ljóst að skipulagslegar forsendur staðarvalsins eru að langmestu brostnar.

Áhyggjur þeirra sem telja að bygging nýs spítala geti tafist vegna endurskoðunar á staðarvalinu eru skiljanlegar. Slík endurskoðun er hinsvegar nauðsynleg og mun ekki seinka opnun sjúkrahússins þó að byggingaframkvæmdir hefðust nokkrum mánuðum síðar en nú er áformað.

+++++

Pistill þessi birtist í Fréttablaðinu í gær.

+++++

Myndin efst í færslunni er  af Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024,  sem staðfest var 20. desember 2002. Þar má sjá þær umferðatengngar göng sem voru fyrirhugaðar þegar staðarvalsskýrslan frá 2002 var unnin og tengdust Landspítalanum. Ekkert stendur eftir af þessum áætlunum í aðalskipulaginu sem samþykkt var í fyrra.

Er það verjandi fyrir ráðherra heilbrigðismála, fjármála og umhverfismála að leyfa að framkvæmdir fyrir um 100 milljarða verði hafnar við Hringbraut á grundvelli þeirra gagna sem  liggja fyrir?

Nýtt faglegt stðarval verður að fara fram af óháðum aðilum þar sem tekið er mið af núverandi aðstæðum. Ef svo ólíklega vill til að niðurstaðan verði Hringbraut þá er rétt að haga framhaldinu í samræmi við það.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Árni Ólafsson

    Það er talsverð kúnst að bakka út úr röngum ákvörðunum. Bent hefur verið á að íslenskir stjórnmálamenn kunni ekki þá kúnst.
    Hér vantar strategíu – þ.e. endurmat og nýja áætlun sem miðar að því að ná tilsettum markmiðum. Slík hernaðartækni skilar yfirleitt betri árangri en að hanga eins og hundur á roði á gömlum samþykktum til þess eins að þurfa ekki að éta neitt ofan í sig.
    Góður stjórnmálamaður kann þá list að taka rökum og breyta um stefnu ef það er augljóslega til bóta.
    Ætli þannig stjórnmálamenn séu til hér á landi?

    • Hilmar Þór

      Þú nefnir einmitt vandann Árni. Það sem víða er álitinn kostur er hér af mörgum álitinn löstur. Það að skipta um skoðun í kjölfarið af meiri eða betri upplýsingum eða breyttra aðstæðna er auðvitað sjálfsagður hlutur. Gallinn er bara sá að fólk talar ekki saman hér á landi heldur göslast og frekjast einhvernvegin áfram. Það tekur ákvörðun og hangir á henni eins og um trúarbrögð sé að ræða eða íþróttafélag. Engum er haggað og sá sem skiptir um skoðun er sagður óáreiðanlegur og ekki treystandi.

      Ég var í Danmörku í 8 ár og þar var alltaf minnihlutastjórn. Og enn er þar minnihlutastjórn. Engin mál ná í svoleiðis tilfellum framgangi án opinberrar umræðu og auðvitað málamiðlunum þar sem menn skipta um skoðun.

  • Sæmundur

    Er einhver að styðja uppbyggingu við Hringbraut?

  • Þetta er stórmerkilegt mál. Flestir sem taka afstöðu til málsins eru á því að staðsetningin er galin. En það virðist sem verkefnið lifi sínu eigin lífi.

    Það er í raun engin að tala fyrir eða verja núverandi staðsetningu en það er eins og ráðamenn nenni hreinlega ekki að skoða það að breyta þessu. Það er búið að ákveða þetta og þannig er það bara. Það er eiginlega verið að bíða þetta mál út, byrja á fyrsta kjarna og þá er þetta mál út úr umræðunni.

    Svona skipulagsslys, eins og HR í Öskjuhlíðinni, ættu ekki að eiga sér stað í upplýstri umræðu árið 2015.

    Það eins sem getur breytt þessu er að sterkur stjórnmálamaður taki þetta mál uppá arma sína og berjist fyrir þessu.

    Ég bjóst kannski við að SDG myndi skipta sér meira af þessu og jafnvel beita sér í þessu máli, en þetta virðist vera töpuð barátta, sem er ótrúlega sorglegt.

  • Ég styð það að fundinn verði annar staður fyrir spítalann. En er þetta ekki vonlaus barátta?

  • Hilmar Þór

    Þorseinn bendir á atriði sem ég hef ekki tekið eftir.

    Það er ekki ólíklegt að umferðamannvirkin í aðalskipulaginu 2001-2024 séu sett inn ganggert til þess að þjóna spítalanum. Það er auðvitað stórmál og ætti kosnaður vð þessi mannvirki því að falla að verulegum hluta á spítalann.

    Þetta gerir staðarvalsskýrsluna frá 2002 nánast ónothæfa því staðarval svo mikilvgrar starfssemi á auðvitað að taka með tilliti til skipulagsin og umhverfisins en ekki laga skipulagið og umhverfið af staðarvalunu.

    Þetta er umhugsunarvrt og mikilvægt í umræðunni.

    Þakka Þorsteini fyrir ábendinguna.

  • Þorsteinn

    Staðarvalsskýrslan fyrsta var gefin út í janúar 2002. Aðalskipulagið 2001-2024 var staðfest í desember 2002. Ergó: öll þessi göng og mislægu gatnamót voru að líkindum sett inn vegna spítalans. Þau kosta marga tugi milljarða og eru eingöngu vegna spítalans. Pistlahöfundur fer þvi með rangt mál þegar hann segir að skýrslan frá 2002 hafi verið „faglega“ unnin. Staðreyndin er sú að hún er jafnvitlaus og allar hinar vegna þess að hún býr sér sjálf til forsendur með göngum og umferðamannvirkjum sem enginn vill borga og aldrei koma.

  • Sverrir Ólafsson

    Það er borðliggjandi ábyrgðaleysi að gera ekki nýtt staðarmat áður en framkvædir hegjast.

    Hér er linkur að fróðlegri síðu:

    http://betrispitali.is/

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn