“Íslandsvinurinn” Bjarke Ingels sem rekur teiknistofuna BIG í Kaupmannahöfn hefur unnið nokkrar samkeppnir undanfarið. Síðan teiknistofa hans vann samkeppni um aðalstöðvar gamla Landsbankans hefur hann unnið keppni um listasafn í Mexico, ráðhúsið í Tallin, háhýsi í Kína og bókasafn í Aserbaitijan .
Það er sammerkt með verkum BIG að þau eru framsækin og löðra í hugmyndaauðgi og funktionalisminn er ráðandi. Verk hans eru nýstárleg, spennandi og byggja á einskonar hugmyndafræði eða verklagi sem notað er til þess að nálgast niðurstöðuna.
En á þeim er einn galli og hann er sá að verk hans taka lítið tillit til þess umhverfis sem þau eiga að rísa. Þau eru ekki eins og bretinn segir ”site specific”. Bjarke Ingels les ekki staðinn og fangar ekki anda hans. Það er sennilega vegna þess að orkan fer í annað eða hitt að hann kann ekki að meta verk fyrri kynslóða og skilur ekki anda staðanna.
Ég hef aldrei komið til Tallin en mér er sagt að þetta sé vinalegur lítill bær sem hefur sinn sjarma og sín einkenni.
BIG hættir til við að nálgast lausnirnar með e.k. “hér kem ég” þankagangi eða “First we take Mannhattan, then we take Berlin”
Þegar ég gekk í arkitektaskóla voru athuganir á staðnum lykilatriði og forsenda fyrir framhaldinu. Skoðað var bæjarskipulagið, landslagið, arkitektúrinn og félagslega umhverfið. Síðan var reynt að ná tökum á anda staðarins og gerðar tillögur sem styrktu kostina og dró úr göllunum
Hér á eftir koma nokkrar myndir af vinningstillögu BIG í Tallin og að lokum til uppryfjunar tölvumynd af vinningstillögu BIG að Landsbanka Íslands í miðborg Reykjavíkur.
Hér að neðan er svo tölvumynd af Landsbanka íslands eins og hann var hugsaður af BIG sem hlaut fyrstu verðlaun í lokaðri samkeppni um bygginguna vorið 2008.
Á maður sem sagt alltaf að kikna í hnjáliðunum þegar klæðskerar nýju fata keisarans láta frá sér eitthvað nýtt?
Ég er sammála Sigurði. Hann veit og þú veist og ég veit að við hönnum eftir forsögn ekki innblæstri (nema pínulítið). Ég verð alltaf staðfastari í trú minni á það sem ég sá einhversstaðar í Sviss. Þar var reist grind sem sýndi útlínur byggingarinnar og látin standa í nokkurn tíma meðan fólk skráði álit sitt í bækur byggingaryfirvalda. Þannig má meta stærð, form og hlutföll á staðnum. Myndi ugglaust koma í veg fyrir mörg mistök.
Arkitektar og almenningur eiga alltaf í eins konar hatursástarsamræðu um arkitektúr. Þetta er skrýtið fyrir þá sök að 95% borga er „ósýnilegur“. Raðir heilla hverfa áþekkra húsa sem fólk býr og vinnur í og enginn talar um. En 5% borga eru byggingarnar sem við dáum, hötum , rífumst um og tökum myndir af og köllum Arkitektúr. Mikið seiðmagn. Ef við tækjum Tallin byggingar BIG og reistum þær í rauðum eða gulum múrsteini eða Landsbankann í steinsteypu held ég að formmálið myndi glata miklu. Mér finnst lausnirnar standa og falla með ytra byrðinu. Svona eins konar fötin skapa manninn arkitektúr. Þetta er ekki einstakt, þetta sést mikið nú um stundir. Gehry má eiga það að ef maður skipti um byggingarefni yrði formmálið enn háværara.
Vangavelturnar um staðartenginguna eru ágætar, en í raun órökstuddar.
Það er ekki síðri formleg og stærðarleg tenging við staðinn í verkefni BIG í Tallin en því sem hrósað er sem „fyrirmyndararkitektúr“ frá DESIGNA í síðustu færslu, þar sem áhugaverðustu atriðin eru – að mínu mati – landslagsarkitektúrinn og garðhúsgögn fyrir utan nokkuð hugmyndasnauðann kassa. Þeir sem séð hafa kynningar BIG eða horft á þróun verkefna hans fá að minnsta kosti innsýn í það hvernig verkefnin vaxa á þeim stað sem þau eru – eitthvað sem er í raun lýðræðislegt og opið samskiptaferli því það opnar sig fyrir gagnrýni.
Það að sýna innlegg og vinningstillögu BIG í Landsbankasamkeppnina er heldur billeg tilfinningaleg nálgun: sjáið díagram strákinn: hann teiknaði fyrir peningagaurana.
Bjarne er ekki yfir gagnrýni hafinn – frekar enn við flest – en hún verður að rista dýpra ef duga skal.
Það besta sem kreppan hafði í för með sér er að Landsbankabyggingin verður aldrei byggð. Mæli með að fólk kíkji á heimasíðuna þeirra og skoði skýringarmyndirnar („Díagrömin“) fyrir LÍ höfuðstöðvarnar. Þau hlægileg en selja því miður.