Þriðjudagur 08.02.2011 - 12:24 - 9 ummæli

BIG í NewYork

Íslandsvinurinn, Daninn, Bjarke Ingels er hér í essinu sínu. New York er góður vettvangur fyrir þennan frjóa og hæfileikaríka arkitekt. Hann skilur staðinn og anda stórborgarinnar. Honum tekst ekki eins vel upp á viðkvæmum stöðum eins og miðborgum Kaupmannahafnar eða Tallin. Skóli hans í Þórshöfn í Færeyjum lofar heldur ekki góðu. En hér í þessu íbúðahúsi í New York tekst honum vel upp. Hann tekur hefðbundið hús sem er einskonar randbyggð og togar það til þannig að úr verður nokkurskonar píramídi sem opnar sig að útsýni og sólarátt. Við þetta hámarkar hann gæði staðarins þannig að sem flestir njóti þeirra og fá bæði útsýn og dagsbirtu.

Þetta er fyrsta hús BIG í norður Ameríku.

Neðst er tengill að stuttu skemmtilegu myndbandi sem lýsir aðstæðum vel og afstöðu hússins til umhverfisins. Afstöðumyndir og viðbrögð húsa við umhverfinu er stórlega vanmetið og aldrei nægjanlega um það hugsað. Stundum sér maður umfjöllun um mannvirki þar sem engin grein er gerð fyrir næsta umhverf þess. Þetta hús er t.d. gott í NY en væri að líkindum slæmt í Reykjavík, svo dæmi sé tekið. Allt á sinn stað og sína stund.

Endilega skoðið myndbandið:

http://vimeo.com/19661303

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Magnús Skúlason

    þetta er flott bygging. Verð að viðurkenna að ég er í aðdáendahópnum frá því ég skoðaði Ottetalet á Amager. Ekki verra að hafa kynnst Bjarke en hann fór út á bátnum mínum með mér fyrir stuttu og veiddi sinn fyrsta þorsk. Gaman að spjalla við hann líka.

  • Örnólfur Hall

    „Termietentürme“ ? 🙁

  • Björn H. Jóhannesson

    Auðveldast hefði verið fyrir Bjarke að teikna bara húsin eins og aðliggjandi hús og með þeim forskriftum sem fyrir lágu, innan eins byggingareits, jafnhá, inngangur hér, bílastæði hér o.s.frv. .

    Í staðinn nýtur hann möguleika lóðarinnar, sem hann fær skammtað, tengir bygginguna við lóðina og tekur fullt tillit til umhverfisins og bætir. Það hefur ábyggilega ekki verið hægðarleikur að fá því framgengt.

    Lóðin í New York og í Álftamýrinni eru báðar ferkantaðar. Skipulagið er svo og svo og er enn svo og svo á höfuðborgarsvæðinu og nokkuð mikið svo enn eins og verið hefur.

    Munurinn er sá að Bjarke fær að nota alla lóðina, sem hann nýtir á ábyrgan hátt bæði fyrir byggjandann og nærumhverfið.

    Það fengu þeir , sem teiknuðu fjölbýlishúsin í Álftamýrinni við Kringlumýrarbraut ekki.

  • Árni Ólafsson

    Spurning hvort það felist e.t.v. fleiri og skemmtilegri möguleikar á útfærslu fjölbýlishúss í hefðbundnu borgarskipulagi en í nútímaborgarskipulagi.

    Ramminn sem borgin setur þessari lóð og hlutverk hússins í rýmismyndun borgarinnar (gata, torg, garður) er spennandi.
    Kringlumýrarbraut/Álftamýri er gamalt nútímaborgarskipulag (?!) án borgarrýma. Getur nokkuð gott komið út úr því – hversu góð sem húsin kynnu að verða?

  • Björn H. Jóhannesson

    Aðalmeinsemdarinnar og orsakar að almennri fábreytni og stöðnun í fjölbýlishúsum hérlendis er ekki að leita meðal arkitekta.

    Þar er skipulagsforskriftum fyrir að fara , sem setja arkitektinn í spennitreyju og segja síðan:
    Teiknaðu nú og láttu á þig reyna.

    Þessa gætir alls ekki í sama mæli í einbýlishúsa skipulagsforskriftum.
    Berum saman fjölbreytileika einbýlishúsa á Vesturbrún eða á sjávarströndum höfuðborgarsvæðisins og t.a.m. fjölbýlishúsanna meðfram Kringlumýrarbraut í Álftamýrinni.

    Bjarke Ingels fær til umráða skýrt afmarkaða lóð á í New York.
    Hann les í umhverfið.
    Lóðin er standard ferköntuð lóð og ákveðið byggingamagn leyft og innan ákveðins rýmis.
    Hugmyndin er sáraeinföld, en byggingin margræð og hentar stað og tilgangi.
    Hann og margir aðrir arkitektar hefðu getað gert spennandi fjölbýlishús við Kringlumýrarbrautina í Álftamýrinni hefði skipulagsramminn verið álíka.

    Getur einhver skírt út hvers vegna skipulagsforskriftir að einbýlihúsum eru miklu frjálsari en að fjölbýlishúsum, þar sem þó fleirri búa?

    Það væri gaman.

  • stefán benediktsson

    Dj…… er þetta flott. Skil ekki alveg af hverju lárétt sól steikir fólk frekar í þessu húsi en öðrum en hvað með það. Betra að steikjast í flottu húsi en ljótu.

  • Hilmargunn

    Verulega flott hjá honum !

  • Guðmundur St.

    Það er rétt hjá Birni hér að ofan að skjólveggir koma að mestu til vegna þess að arkitektarnir og landslagsarkitektarnir hafa ekki haft burði til þess að mynda skjól með húsunum sjálfum og gróðrinum. Gömlu kempurnar á Fællestegnestuen og síðar Vandkunsten kunnu tökin á þessu. Sljólveggir eru neyðarlausn sem gripið er til þegar ráðgjafar bregðast og afstaða til sólar og vinda er ekki tekin föstum tökum í frumhönnuninni

    En þetta hús BIG í NY er imponerandi

  • Björn Erlings

    Lárétta sólin á Íslandi mundi steikja íbúana í þessu ef eitthvað þessu líkt væri í Reykjavík. Kanski mundi þessi hlið ‘fleyta’ rokinu yfir ef þetta snýr upp í SA-áttina. En hugmyndin er góð og við þurfum að byggja skjól með húsum í stað þess að kæfa hús með skjólveggum sem gerir að margar götur sérstaklega í úthverfunum líta út eins og í kofabyggð.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn