Sunnudagur 15.05.2011 - 12:55 - 8 ummæli

BIG rokkar í Tirana Albaníu

Danski arkitektinn Bjark Engels er sá arkitekt sem mest ber á i alþjóðlegu samkeppnisumhverfi þessi misserin. Nú á dögunum vann hann samkeppni um 27.000.- fermetra menningarhús Islam í Tirana í Albaníu

Það em einkennir Bjarke er einkum tvennt. Í fyrsta lagi aðferðafræði hans við nálgun lausnarinnar og svo hinsvegar framsetningin sem er afar skemmtileg kinning verkanna samanber „8“ húsið i Kaupmannahöfn (sjá tengil að neðan).

Það er líka einkennandi að hann er meiri markaðsmaður en sést hefur um árabil í arkitektastarfssemi. Hann notar persónu sína verkunum til framdráttar. Hann nefnir teiknistofuna eftir sjálfum sér og sér einum. Líkt og Frank Lloyd  Wright og fleiri gerðu í gamla daga. Þetta er sama aðferð og rokkarar og tónlistarmenn nota þegar þeir reyna að gera úr sér stjornu og fyrirmynd. Bjarke setur persónu sína framarlega í öllum kynningum. Hann er allstaðar. Hann er að finna á götumyndum frá Google Earth. Hann gaf út einsskonar hasarmyndabók þar sem hann er aðalpersónan og kynnir arkitektúr. Bókin heitir „Yes in More“.

Það er margt framúrskarandi gott sem kemur frá BIG en það hefur flest einn galla, sama gallann. Það vantar nánast alltaf alla tilfinningu fyrir staðnum og anda hans, staðartilfinningunni. Þetta er „hér kem ég“ arkitektúr, „fly in and fly out“ hugsunarháttur stjörnuarkitektanna. Hann kemur og fer og er ekkert að hafa áhyggjur af framtíðinni. Hann setur sitt mark á umhverfið og er ánægður með það.

Hér fylgja nokkrar myndir af nýjustu verðlaunatilögu hans í Tirana. Þetta virðist mjög vel gerð og spennandi tillaga sem hefur arkitektóniska nálgun sem getur vel hentað menningarhúsi.

Teiknistofa Bjarke vann samkeppni um Landsbankann í miðborg Reykjavíkur árið 2008. Honum til aðstoðar voru teiknistofurnar Arkiteo og Einrúm.

Hjálgt eru nokkrar myndir ásamt stuttu myndbandi þar sem umrætt verkefni er kynnt.

http://vimeo.com/23222675

Ein af myndum frá Google Earth sýnir Bjarke Ingels á leiðinni á teiknistofuna með farsímann við eyrað sennilega að tala við ‘the guys upstairs’.  Hann teymir sitt uppáhalds faratæki, reiðhjól, sem kemur honum fljótt og örugglega í vinnuna eða út á flugvöll.

Fyrir þá sem vilja kynnast Bjarke Ingels og verkum hans betur er bent á eftirfarandi slóðir.:

Fjölbýlis hús sem getið er að ofan:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/03/10/nystarlegt-fjolbylishus-blondud-byggd/

 Verðlaunahönnun frá Grænlandi:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/02/14/graenland-big-is-getting-bigger/

 Hús í New York:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/02/08/big-i-newyork/

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Hilmar Gunnars

    Ég eyddi einu ári í Sci-Arc í Los Angeles við mastersnám. Þar var megináherslan á hönnun og formmaking og mun minni áhersla context, eða staðarvitund eins og nafni minn kallar það. Í kennarahópnum voru menn eins og Marcelo Spina, Peter Testa (er að þróa byggingaraðferðir með aðstoð robota) og sá yngsti af þeim Tom Wiscombe sem nýlega vann risastóra samkeppni í Kína með byggingu sem verður ansi skrautleg. Allir þessir kappar eru að gera framúrstefnulegan arkitektúr sem er mjög designed og notast við háþróaðar framleiðslu og tækniaðferðir sem eru notaðar í þróuðum iðnaði eins og báta, bíla og vöruhönnun. Þeim er fúlasta alvara með þessu og trúa staðfastlega á að þarna sé framtíðin í framþróun mannvirkja og mannvirkja hluta.

    Þessi heimur er gríðarlega spennandi en getur seint náð fótfestu á Íslandi af öllum stöðum, þar sem Íslendingar eru afturhaldssamir þegar kemur að arkitektúr og í ofanálag höfum við loftslagið, veðráttuna okkar og smávaxið hagkerfi.

    Ein helsta fyrirstaðan í ofangreindum aðferðum, eins og fram hefur komið, er að gera mannvirkin staðbundinn. Að láta þau bregðast við aðstæðum; skali, hlutföll, vistkerfi, byggingarefni, veðrátta, menning ofl.

    Þegar ég horfi á Hörpuna í dag finnst mér eins og hún hafi lent þarna, eins og hún eigi einfaldlega ekki heima þarna. Hún ber litla virðingu fyrir umhverfi sínu, krefst meira en hún gefur, en vonandi mun tíminn vinna með henni.

    Fyndið samt hvað talið berst alltaf að Hörpunni, sama hvað er verið að fjalla um 🙂

  • Hilmar Þór

    Þetta er umhugsunarverð þróun sem bærir á sér í byggingarlistinni nú um stundir og Árni, Guðmundur og Trausti benda á.

    Það er viss tendens til þess að líta á byggingu eins og hlut eða objekt sem er stillt upp einhversstaðar. Það er “design” nálgun en ekki „arkitekónisk“ nálgun eins og maður á að venjast.

    Það er eins og einver sé að hanna öskubakka eða skál sem hann stillir svo upp einhversstaðar.

    Mér finnst til að mynda fyrirhuguð bygging handritastofnunnar við Háskóla Íslands bera keim af þessu. Hún virkar á mig eins og smekklegur hlutur (objekt) sem gæti verið hvar sem er.

    “….. Pappírstætarar, brauðristar, hárþurrkur, sturtuhausar, gufugleypar, iMac o.s.frv. …” eru ekki arkitektúr heldur “design” eða “hönnun”.

    Mér hefur aldrei fallið hugtakið hönnun þegar verið er að ræða um að einhver hafi teiknað eitthvað hús.

  • Árni Ólafsson

    ….. Pappírstætarar, brauðristar, hárþurrkur, sturtuhausar, gufugleypar, iMac o.s.frv. …

  • Guðmundur

    Þetta er að mörgu leyti flott og glæsileg bygging, en er ég einn um að vera orðinn svolítið leiður á þessum iMac-hvíta lit sem virðist svo vinsæll í arkitektúr nútímans?

  • Sammala Arna, of mikil honnun og of litill arkitektur.

  • stefán benediktsson

    Vegna umræðna um Hörpu, þá er ég nokkuð viss um að þetta hús ber sig aldrei. Og GG hefur rétt fyrir sér með að BIG mun verða fyrirmynd, en munum líka Mies hann bjó til alveg hrikaleg verkefni fyrir þá sem unnu í detailunum en stóð fastur á sínu með að formið réði en detaillinn ekki. Mies varð síðan að fyrirmynd og margir börðust við að finna guð í detailnum aðeins til að átta sig á að þessi form „voru ekki hægt“ nema með því að beygja efnið undir andann og svína á smáatriðunum. Fengu svo útrás á mannkyninu í steypu og kölluðu það Brutalisma.

  • Árni Ólafsson

    Er húsahönnun að verða eins og heimilistækjahönnun?
    Pappírstætarar, brauðristar, hárþurrkur, sturtuhausar og gufugleypar.

  • Guðmundur G.

    Cool og flottur gæji sem þarf að gæta sín. Hann þarf að klára eittt verk alminnilega þar sem hann sýnir að hann viti að guð byr í smáatriðunum. Þetta eru allt byggingar án smáatriða. Og svo óttast ég mest að ungir arkitektar fari að taka hann sér til fyrirmyndar. Það væri slæmt fyrir staðarímyndir heimsins.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn