Sunnudagur 07.02.2010 - 17:41 - 22 ummæli

Bíll í borg

59704[1]

Gísli Marteinn Baldursson var í Silfri Egils í dag og fjallaði um borgarskipulagið.  Maður skynjaði áhuga hans á efninu og það gustaði af hugmyndum þeim sem hann setti fram.

Gísli Marteinn sagði að ferðakostnaður væri annar stærsti kostnaðarliður fjölskyldunnar. Næst á eftir húsnæðiskostnaðinum og hærri en matarkarfan.

Þetta er örugglega rétt hjá honum en mig grunar að það vanti tölur inn í útreikningana sem breyti þessu þannig að þegar allt er talið þá toppi ferðakostnaðurinn húsnæðiskostnaðinn.

Þetta segi ég vegna þess að stór hluti aðstöðu einkabílsins er niðurgreidd af almannafé í gegnum skatta og útsvar.

Til viðbótar fellur hluti kostnaðar við einkabílinn undir húsnæðiskostnað.  T.d bílskúr.  Bygging bílskúrs, rekstur og fjármögnun fellur undir húsnæðiskostnað.   Sama á við um bílastæðin við heimilið, sumarbústaðinn, vinnustaðinn og verslanir.

Þarna eru stórar fjárhæðir á ferðinni sem eru tilkomnr vegna einkabílsins og hugsanlega færa ferðakostnaðinn uppfyrir húsnæðiskostnaðinn í útgjöldum fjölskyldunnar.

Mig langar að bæta því við hér að því hefur verið haldið fram að það þurfi 7 bifreiðastæði fyrir hvern bíl. Kostnaður þeirra fellur ekki á rekstrarkostnað bílsins nema að takmörkuðu leiti.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

  • Leópold Kristjánsson

    Ég var ánægður með Gísla Martein í Silfri Egils. Ég trúði því á köflum ekki að hann væri sjálfstæðismaður – eins og þeir hafa hagað sér í skipulagsmálum.

    Ég hef búið í evrópskum borgum og í Bandaríkjunum og hef mikin áhuga á þessum málum. Það er afar illa farið fyrir Reykjavík að mörgu leyti. Það sem stoppar okkur í því að ganga og hjóla er alls ekki veðurfar (það er líka skítakuldi í Berlín og Kaupmannahöfn). Maður finnur einnig mun á milli hverfa í Reykjavík (hef búið í nokkrum) – eini staðurinn sem „bíður upp á“ að gengið sé er miðbærinn, 105 og 107.

    Í úthverfum borgarinnar er að skapast mikil Wal-Mart stemning. Það er nánast ekki hægt að kaupa súkkulaðistykki í göngufæri. Öll verslun fer fram í skelfilegum verslunarskúrum að bandarískri fyrirmynd sem hefur verið skellt upp á seinustu árum.

    Ávinningurinn af þéttari byggð er margvíslegur. Mengun minnkar, peningar sparast, hreyfing eykst og mannlíf verður sýnilegra.

  • Takk fyrir frábæra bloggfærslu. Ég er sammála efni hennar.

    Ég hegg eftir því í ummælum þeirra sem finna afsakanir fyrir því að hjólreiðar ganga ekki að þeir forðast að ræða efni færslunnar. Hversvegna skyldi það vera?

    Er það ekki vegna þess að ein aðalástæða fyrir ofnotkun einkabíla á Íslandi eru „öfugir hagrænir hvatar“ til bílaeigenda. Rekstur bíla er einfaldlega niðurgreiddur stórlega. Færa má rök fyrir því að niðurgreiðslur til bílaeigenda nema um það bil 15-30 milljarða á ári. Þetta eru niðurgreiðslur sem menn vilja ekki hafa uppi á borðinu og ekki ræða því það myndi eyðileggja þá mynd sem bíleigendur hafa af sér sem einhverskonar skattpíndum fórnarlömbum.

    Það er hið opinbera og þjóðfélagið sem standa undir þessu dæmi. Nánast algjörlega án laga heimildar og án allrar umræðu. Síðan básúna menn þetta bull um að íslendingar hafi valið einkabílinn. Hvenær var sú kosning eiginlega? Þarna er bara miðað við kostnað við samgöngumannvirki, bílastæði og skattaívilnanir. Eftirtalin kostnaður er þá ekki talin með, kostnaður vegna:
    bílslysa,
    sjúkdóma vegna mengunar frá bílaumferð,
    umhverfisáhrifa mengunar frá bílaumferð,
    loftslagsáhrifa frá bílaumferð,
    sjúkdóma vegna áhrifa hreyfingarleysis á lýðheilsu.

    Hvað varðar hjólreiðar hafa þessar afsakanir heyrst áður. Það er ekki hægt að hjóla því:
    -það er svo mikið rok
    -það rignir svo mikið
    -það eru engir stígar
    -umferðin er hættuleg
    -bílstjórar eru ekki tillitsamir
    Allt eru þetta afsakanir þeirra sem ekki hjóla og sjá umhverfið útum bílrúðu. Það er hægt að hrekja þetta allt. Ástæðan fyrir því að einstaklingur hjólar ekki er að leita í múrum sem viðkomandi hefur reist í huga sínum. Múrarnir eru að vísu reistir með skilyrðingu þjóðfélagsins.

    Afhverju hjóla svona margir í Danmörku og fáir á Íslandi? Megin ástæðan liggur ekki í neinu öðru en skilyrðingu sem íbúarnir hafa orðið fyrir í uppvextinum og síðan í stefnu stjórnvalda t.d. varðandi það að Danir niðurgreiða ekki notkun bíla eins ofsalega og Íslendingar.

  • @Snævarr : Frábært að heyra. Gaman væri að heyra hvar í BNA þú sért. Svipaða reglur eru komnar á vegna laga í Kaliforníu, hæð vissum skilyrðum um stærð fyrirtækis, hvort umferðaröngþveiti sé landlægt og fleira.
    Fróðlegt væri að heyra hversu algengar svoleiðis reglur sem þú nefnir eru í nærumhverfi þínu eða í fylkinu eða í BNA. Er til skriflegt efni um þetta sem þú vísar í ? ( Hef séð efni en finn ekki akkúrat núna )

    Hér er frétt um tillögu að lögum í Kalifornía sem gengur enn lengra að mér sýnist.

    http://www.latimes.com/news/local/la-me-free-parking29-2010jan29,0,211620.story

  • Ég bý í bandaríkjunum, minn vinnustaður má ekki! bjóða upp á fleiri bílastæði en sem nemur fyrir 36% af starfsmönnunum. Og þau kosta auðvitað heilmikið og löng biðröð í að fá aðgang að bílastæðahúsinu. Ef þú kemur ekki á bíl niðurgreiðir vinnan 50% af lestar og strætókortum eða þú getur fengið kostnað við hjólreiðar niðurgreiddar allt að $240 á ári

  • Arnaldur

    Gaman að sjá hversu margir lenda í rokinu á íslandi, hjóla sjálfur alla daga ársins og lendi mjög sjaldan í þessu roki sem svona margir eru að tala um. Vindur og rigning lítur töluvert verra út þegar þú situr inní bíl en þegar þú ert á hjóli.

    Í vetur hefur verið einn dagur þar sem rokið var þannig að ég sleppti því að hjóla heim úr vinnunni. Snjór hefur ekki verið neinn í vetur og þeir sem verða blautir í rigningu kunna ekki að klæða sig.

    Reykjavík er fín hjólaborg að mörgu leiti, en það tvennt sem truflar mest eru skipulagsmistök sem þar sem ekki var gert ráð fyrir öðru en bílnum og síðan skapvondir og ótillitsamir ökumenn sem eru pirraðir í hægfara umferð.

  • Steinarr Kr.

    Þú talar um kostnað við bílskúr. Meirihluti þeirra sem eiga bílskúr nota þá til að geyma drasl sem er miklu verðminna en bíllinn sem stendur fyrir utan.

    Stærsti gallinn við að hjóla í Reykjavík er hvað maður þarf að vera hræddur við bílana.

  • Rok eda ekki rok. Vandamálid liggur í skipulaginu, eda öllu heldur skipulagsleysinu. Hérna í Køben er alls ekkert mál ad hjóla, vegna thess ad skipulagid er í lagi. Í sídustu heimsókn til Íslands hjóladi ég töluvert, en fann mig hvorki á götunni eda á gangstéttinni. Fannst ég passa á hvorugum stadnum.

    Vedrinu venst madur – og klædir sig eftir adstædum.

  • Auðvitað spilar margt inn í hvað veldur því að svo fáir hjóla á íslandi. Kannski númer eitt tvö og þrjú eru það aðstæður þeas hjólastígar. En það er bara staðreynda að fáir staðir eru eins vindasamir og ísland og þó maður fái meðvind eina leið þá hefur það bara ekkert að segja fyrir heimleiðina.

    Að hjóla í roki með innkaupapoka og barnakerru er ekki ákjósanlegt og í sumum tilfellum hreinlega vonlaust !

  • Það er greinilegt að margir setja veðrið fyrir sér, bæði hvaða varðar göngu, hjólreiðar og notkun almenningssamgangna. Að miklu leyti eru þetta ýktar áhyggjur. Og það væri hægt að bæta upplífum með margvíslegu móti :
    1. Almennilegur fatnaður
    2. Gróður meðfram stígum
    3. Fleiri og betri strætóskyli ásamt tíðari ferðir
    4. Betri reiðhjól, betri tækni við hjólreiðar
    5. Síst en ekki síðast: Prófið og beitið jákvæðu hugarfari

    En alveg óháð þessu þá eru margir aðrir þættir sem hafa áhrif á heilbrigðum samgöngum.

    Bætum aðgengi þeirra sem hafa nú þegar hug á því að hjóla, því greinilegt er að hjólreiðar eru að aukast og það eru margir aðrir hliðar en veðrið sem skipta máli.

    * Samgöngusamningar við starfsmenn ( t.d. handa þeim sem ekki nota bílastæði við vinnustað) Mannvit og Fjölbraut í Ármúla gera þetta
    * (Mun) Betri hjólatengingar á milli nágrannasveitarfélög og hverfi . Auðrataðir, vel við haldnir, án blindbeyjur, og helst án óþarfa hækkana, hlykkjur og helst ekki lagðar þar sem rokið er hvað mest.
    * Fella niður VSK á varahlutum og viðgerðum fyrir reiðhjól
    * Borga kílómetragjald þegar reiðhjól er notað á vinnutíma. Sama upphæð á km og ef farið er á bíl, enga mismunun. Reyndar mætti hafa það hærra eins og í nokkrum sveitarfélögum Noregs, vegna þess að samfélagið græðir á auknum hjólreiðum en tapar á fjölgun bílferða. (Samkvæmt tölum WHO, Kaupmannahafnarborgar ofl )
    * Setjum grindur framan á strætó og rútur eins og í Norður-ameríku
    * Setjum upp góðar hjólagrindur ( öfug U sem hægt er að læsa stellið við, og svo skyli ef það á að vera virkilega flott) við stoppistöðva strætó, opinbera bygginga, stærri vinnustaða, skóla, íþróttamannvirki ofl.
    * Afslátt á viðburði, til dæmis í Laugardalnum ef maður mætir á hjóli eða gangandi
    * Fara að rukka fyrir bílastæði, því bílastæðin eru svo sannarlega ekki ókeypis heldur erum við öll að borga fyrir þau , og það margfallt vegna þess að þau ýta undir ofnotkun bíla.
    * Síst en als ekki síðast : Lækkum hraða mjög viða í þéttbýli. Upplifað óöryggi minnki, svifryk og önnur loftmengun minnki, umferðaröryggi batni, samkeppnishæfni hjólreiða og almenningssamgangna batni.

  • Það er ekkert að hjólaveðri hér. Ég hef samanburð við Danmörku og N.Karolínu.

    Eini vandinn er sjálfstæðismenn og að við erum 20 árum á eftir.

    http://kari-hardarson.blog.is/blog/kari-hardarson/entry/130577/

  • Árni Ólafsson

    Til þess að hægt sé að ætlast til að almenningur breyti ferðamáta sínum verður að bæta það umhverfi sem fólk fer um dags daglega. Þessi mynd http://www.teikna.is/Ymislegt/Midlaeg_adalgata_i_borg-AO.JPG sýnir miðlæga aðalgötu í stóru hverfi í Reykjavík.

    Glæsilegt? Borgarumhverfi mótað á forsendum bílsins og bílnotandans þar sem vandamálin, sem bílaumferðin veldur, eru leyst á kostnað bæjarmyndarinnar. Ímyndið ykkur hljóðskerm úr byggingum með framhlið að aðalgötunni. Á þetta ekki að vera borgarumhverfi?

    Ég tel vafasamt að ná fram neinum breytingum á samgönguháttum án meiriháttar viðgerða og endurbóta á brotinni og sundurslitinni bæjarmynd höfuðborgarinnar. Upphafið gæti legið í viðhorfsbreytingu gagnvart bílaumferðinni, þannig að mótvægisaðgerðir vegna hennar komi ekki niður á bæjarmynd og umhverfi heldur beinist að uppsprettu vandans:

    Megngunarbótareglan: Polluter pays principle: Sá borgi sem mengar.

  • Guðrún Bryndís

    Vandamál sem tengjast skipulagi borgarinnar verða ekki leyst með hjólreiðum einum saman. Veðrið er ekki endilega vandamálið, heldur skammdegið. Almenningssamgöngur verða líka að vera í lagi til þess að fólk sjái sér kleyft að fækka bílum á heimili.
    Það eru ca. 6km milli Ártúnshöfða og miðbæjar Reykjavíkur, sem er væntanlega ágæt vegalengd til hjólreiða, en ferðalagið sem hjólreiðafólki er boðið upp á er frekar óaðlaðandi.

  • Það er alrangt að veðurfar á íslandi henti illa til hjólreiða. Vindurinn getur hægt á manni í aðra áttina, en þá fær maður hann í bakið á leiðinni til baka. Það er a.m.k. mikið skárra en margt annað sem er í boði í heiminum. Hér er t.d. aldrei of heitt til þess að hjóla, það er víða mjög mikið vandamál. Hér er heldur aldrei of kalt til þess að hjóla (kannski nokkra daga á ári í innsveitum). Hér er sjaldan snjór sem einhverju máli skiptir.
    Hvað ætli það séu margir dagar á ári að meðaltali þar sem það er of hvasst til þess að hjóla í Reykjavík? 5? Ég held að þeir séu allavegana færri en þeir dagar þar sem svifryk er yfir heilsuverndarmörkum (er þá lognið kannski meira vandamál?)
    Það er rétt að það mælist úrkoma í Reykjavík oftar en annan hvern dag að meðaltali. En það er nú ekki mikið mál að klæða það af sér.

    Jónas Bjarnason efnaverkfræðingur ætti kannski bara að prófa að hjóla í eitt ár og sjá hvort þetta sé rétt.

  • Hjólarinn

    Stóra vandamálið við Ísland og hjólreiðar er ekki rokið heldur letin…

  • Rokið er stóra vandamálið við ísland og hjólreiðar. Miðað við stórborgir elendis þá er Reykjavik lágreist og opinn og lítið um skjól. Þetta spilar að ég held mikið inn í óvinsældir hjólfáksins á íslandi.

  • EiríkurJ

    Sá viðtalið við Gísla í dag og saknaði þess að hann skyldi ekki nefna Sundabrautina og þá hugmyndafræði sem liggur að baki því að koma henni sem beinast inn að gamla miðbænum- jarðgangaleiðin. Vegagerðin heldur því hins vegar fram að innri leiðin minnki heildarakstur í gatnakerfinu sem ætti að vera GMB að skapi.

  • Gísli sagði að það væri ekkert að veðrinu hérna. Þetta er rangt. Reykjavík er rokrass og blaut meira en annan hvern dag. Svo sýndi hann mynd frá Sviss. Það var Genf mynnir mig og bílar á kafi í ís. Þetta er kolröng mynd og sýnir bara öfgadæmi. Gísli verður að þurrka burt villurnar og áróðurinn til þess að verða tekinn alvarlega.

  • Er Gísli Marteinn kominn í VG?
    Sjálfstæðismenn hafa alltaf barist gegn almenningsamgöngum.

  • Guðrún Bryndís

    Nokkrar vangaveltur varðandi erindi Gísla Marteins:

    Byggðin austast í borginni er komin til að vera, því verður ekki breytt. Annaðhvort starf er vestan Kringlumýrarbrautar. Hvernig stendur á því að tækifærið er ekki nýtt til þess að færa atvinnustarfsemi nær þeim sem þar búa. Landspítalinn er stór vinnustaður og heilbrigðisvísindadeild sömuleiðis, þetta er því tækifæri til þess að minnka álagið á stofnbrautirnar sem tengja austur og vesturborgina. Með því að byggja upp atvinnutækifæri í austuhluta borgarinnar minnkar álagið á gatnakerfið og það má búast við að þörfin fyrir stórkostlegar samgöngubætur s.s. göng undir Kópavog, Öskjuhlíð og Þingholt og Hringbraut í stokk minnki. Það sparar milljarðatugi í vegaframkvæmdum.

    Bílaeign landsmanna jókst á árunum 1992-95, ef ég man rétt skertist þjónusta strætó á þessu tímabili. Ferðirnar voru á 10-15 mínútna fresti og svo var byrjað að spara í rekstrinum – ferðum og leiðum fækkað.

    Hvernig stendur á því að landsbyggðin á færri bíla en borgarbúar? Getur verið að fólk á landsbyggðinni geti gengið á milli staða?

    Hjólreiðar – er hugsanlegt að fólk veigri sér við að hjóla vegna þess að hjólreiðastígar eru við stofnbrautir? Ég bendi t.d. á Kringlumýrarbraut þar er hjólreiðastígurinn milli akbrautar og hárrar hljóðmanar og þannig eru þeir staðsettir á fleirri stöðum í borginni.

    Þétting byggðar er góð, en það má líka velta fyrir sér hvernig er hægt að hlúa að þeirri byggð sem komin er. Er sanngjarnt gagnvart þeim sem búa í austasta hluta borgarinnar að verðmæti eigna þar rýrni og Úlfarsárdalurinn verði draugabyggð vegna þess að þau eru í samkeppni við nýju hverfin sem eru að fæðast í skipulagi borgarinnar?

    Er rétt að leggja allar áherslur á aukin gæði í borgarskipulaginu í vestari hluta borgarinnar og líta á austurbyggðina sem skipulagsslys?

  • Jóhannes Laxdal

    Gísli var góður og ekki annað hægt en hrífast með af áhuga hans. En hvar var þessi drengur meðan félagar hans stóðu fyrir öllum þessum skipulagsmistökum? Á meðan til dæmis Dagur talaði gegn stofnbrautunum sem gerðu íbúabyggðir að umferðareyjum þá studdi Gísli litli mislæg gatnamót á Kringlumýrarbraut-Hringbraut. Staðreyndin er nefnilega að fáir bera jafn mikla ábyrgð á einkabílismanum og sjálfstæðismenn. Nú er spurningin er Gísli Marteinn populisti eða hugsjónamaður? Mun hann berjast fyrir þéttingu byggðar og auknum almenningssamgöngum ef hann kemst aftur í meirihluta eða verður hugsjónum fórnað fyrir hagsmuni verktaka og styrktaraðila flokksins …aftur?

  • Jón Björns

    Ég bjó í mörg ár erlendis í stórri og meðalstórri borg. Aldrei saknaði ég einkabílsins í daglegu hversdagslífi meðan á búsetunni stóð. Svo þegar flutt var til Reykjavíkur komst maður strax að því að hér var ekki hægt að búa án einkabíls. Og helst þurfti tvo.

    Hvernig stendur á því?. Hvar er vandann að finna og í hverju felst lausn hans?

    Örsök vandsans er að finna í skipulaginu og lausnina er einnig þar að finna.

    Fólkið sem hélt um skipulagsmálin undanfarin 20 ár eða svo, hefur mikið á samviskunni og hefur farið með hendurnar djúpt í vasa fjölskydnanna með ófaglegum skipulagsákvörðunum,(HR er nýjasta dæmið)

    Varðandi dreifingu atvinnutækifæra sem Gísli nefndi þá er upplagt að færa 4000-5000 manna vinnustaðinn “Landspítalann” austur að Elliðaám og jafna stöðuna eitthvað.

    Gaman væri að heyra skoðun Gísla á þeirri umræðu.

    Annars er ég ánægður með viðhorfsbreytingu sem maður sér hjá Gísla og nýjum manni í borgarstjórn Hjálmari Sveinssyni. Það er von í þessum mönnum

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn