Föstudagur 22.01.2010 - 09:42 - 22 ummæli

Björn Hallsson – LSH

Ég fæ mikinn fjölda sendinga frá lesendum mínum í tengslum við bloggið.

Ég er afskaplega þakklátur fyrir það.

Björn Hallsson, arkitekt, sendi mér eftirfarandi texta frá Kína þar sem hann starfar um þessar mundir.

Björn rak teiknistofu í Chicago um árabil og er tvímælalaust sá íslenski arkitekt sem komið hefur að flestum sjúkrahúsum og byggt flesta fermetra allra íslenskra arkitekta auk þess að vera með gríðarlega reynslu í skipulagsmálum.

Það er fengur að því þegar fólk með þennann bakgrunn tjái sig um málefni líðandi stundar í arkitektúr og skipilagi.

Hér kemur hluti tölvupósts Björns, birtur með hans leyfi.

„Þú vaktir athygli á umhverfislegri stöðu Landspítalans og Þingholtsins fyrir nokkru.

Mér dettur í hug í því sambandi, nú þegar undirbúningur er á lokastigi fyrir enn eina arkitektasamkeppni um Landsspítalann, að taka þurfi málið upp frekar og vekja athygli á því hversu óheppileg þessi framkvæmd er.

Þarna kemur margt til – gerð og styrkur byggðarinnar og framtíð hennar, ásýnd borgarmiðjunnar sem smágerðrar byggðar eða stórbygginga á skjön við umhverfið, áfangaskil í framkvæmd sem aldrei fá endanlega mynd (svo sem Tanngarðurinn er vitni um), umferðarkerfi sem er ófullnægjandi, og svo framvegis, og svo framvegis.

Arkitektar og verkfræðingar eru hér, og ævinlega, í þeirri ankannalegu stöðu að vera þiggjendur um störf frá bæjarfélögum og stofnunum og eiga því erfitt með að vera gagnrýnendur.

Þannig finnst mér staðan vera í þessu máli. Flestir okkar fagmanna, og fólk almennt, virðast sammála um að stofnunin fari best þar sem auðveldara sé að eiga við langtíma uppbyggingu (þ.e.a.s. langtíma annmarka þeirra í áfangaskiptri ásýnd) og þar sem samgöngur eru betri – þ.e.a.s. við stofnbrautir austar í borginni.

Jafnframt ber að skoða hvort núverandi lóð spítalans sé ekki nauðsynleg fyrir íbúðarbyggð, til að styrkja byggð á holtinu og í miðborginni.

Stofnanir, og stjórnmálamenn, sem standa að málinu virðast vera læstar í fyrirliggjandi lausn. Aðila virðist vanta til að opna lásinn og leiða málið í betri farveg.

Mér sýnist að þar geti helst komið til fagfélög, svo sem AÍ og félag verkfræðinga.

Komi félögin fram sameiginlega með ályktun þar sem framkvæmdinni er fagnað en jafnframt vísað til farsælli staðsetningar er hugsanlegt að þessu megi breyta áður en slysið, sem þegar er hafið í ýmsum framkvæmdum svæðisins, verður að stórslysi”.

Myndin, sem fylgir færslunni, er af byggingu Foxconn China Headquarters hönnuð af Birni Hallssyni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

  • Þarf starfsfólkið brýnan aðgang að miðbænum, kaffihúsum og verslunum? Hvervegna?

    „nálægðin við miðbæ (kaffihús og verslanir), háskóli og fyrirhugað þekkingarþorp/vísindaás í 1,5km fjarlægð frá Hringbraut vó það greinilega þungt.“

    Hvaða þekkingarþorp er verið að tala um þarna?
    Er fólk allt á röltinu í milli bygginga eða er það í vinnunni, notar tölvur og síma til samskipta og ekur eða tekur strætó á fundi og námskeið?

    Við erum ekki að tala um 2 ja tíma ,,commute“ í vinnu hér ef að spítalinn er í Austurborginni. Það er ekki eins og við séum hér tugmilljóna borg með einhverjum vegalengdum.

    Hví er ekki hægt að hugsa þetta skynsamlega frá byrjun? Með góðar samgöngur, auðvelt aðgengi og nægt byggingarland fyrir svona starfsemi að eliðarljósi?

    Hvervegna þarf að troða þessu með skóhorni niður í miðbæ? Er það svo að læknar eigi auðvelt að gengi að kaffihúsum og verlunum og kennarar þurfi ekki nema rétt að skjótast í kennslu?

    Hvað með að hafa þetta miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu? Fólk úr úthverfunum þarf víst líka að leggjast á spítala, eða vinna þar eða ehimsækja einhvern þar.

    Þetta er með öllu óskiljanlegt fyrir venjulega manneskju.

  • Þakkir fyrir góða og málefnalega umræðu sem á erindi til allra. Ég er bara venjulegur borgari og mér blöskrar sú hugmynd að reisa nýjan spítala á þessari lóð.

    Samgöngur á svæðinu eru erfiðar og yrðu hrikalegar. Nálægð við Háskólann rökleysa. Síðan hvenær geta háskólanemar eða kennarar ekki sest uppí bíl eða tekið strætó?

    Þetta svæði þolir ekki svona byggingu þarna.

    Hvenig væri að setja nýjan spítala og nýjan flugvöll á einhvern skynsamlegan stað í útjaðri höfuðborgarsvæðisinis? Það væri hægt að hafa samgöngumiðstöð í nágrenninu líka.

    Mér þykir það hrein ósvífni af ríkinu að setja niður þarna massívar byggingar og ætlast svo til þess að við Reykvíkingar kostum stórtækar vegaframkvæmdir, göng undir þingholtin ( er það ekki bara geðveiki að spá í slíkt?) og ætla ekkert fé til vegaframkvæmdanna per se?

    Ég yrði afar ánægð ef að fagfélög arkítekta og verkfræðinga myndu láta í sér heyra varðandi skynsemi þessarar staðsetningar.

  • Guðrún Bryndís

    Eitt af markmiðunum með nýjum spítala er að koma allri sjúkrahússtarfsemi Landspítalans undir eitt þak, í því felst meðal annars rekstarhagræði – að fækka fermetrum og dýrum tækjabúnaði sem er til á báðum stöðum.

    Fjármögnun spítalans er m.a. framkvæmd með því að selja eignir LSH víðsvegar um borgina. Ég hef ekki hugmynd um hvað þessi bygging kostar, en hún er um 30.000 fermetrar. Það mætti nýta hana á ýmsa vegur, hjúkrunarheimili, íbúðir, skrifstofur, hvítflibbafangelsi, hótel, skóla eða eitthvað allt annað.

    Það eru líka töluverð verðmæti í lóðunum við Hringbraut, þær eru samtals um 175.000 fermetrar á besta stað í bænum. Það mætti líka selja hana, byggja nýjan spítala og heilbrigðisvísindadeild fyrir austan Elliðaár.

    Það er talað um að starfsemin flytji eftir 6-7 ár og þá verður allt annað umhverfi í hagkerfinu heldur en núna.

  • Sigurður I

    Guðrún Bryndís,hvað heldur þú að fáist fyrir Borgarspítalann og hver ætli kaupi ? Og hver heldur þú að verði munur á heildarfermetraverði selda spítalans og heildarfermetraverði á jafnmörgum fermetrum í nýjum spítala. Nú og vaxtakostnaður í 10 ár af mismuninum?

  • Guðrún Bryndís

    Í fyrsta áfanga á að byggja 67.000 fermetra bráðakjarna með 180 legurýmum – einbýlum (til samanburðar er Höfðatorgsturninn 20.000 fermetrar og Flugstöð Leifs Eiríkssonar 30.000 fermetrar). Þangað á starfsemin í Fossvogi að flytjast. Byggingin sem hýsir starfsemina í Fossvogi verður væntanlega seld.

  • Er það rétt skylið hjá mér að það eigi að flytja Borgarspítalann og sameina hann Landspítalann í einum stórum háskólasjúkrahúsi ? Hvað verður um Borgarspítalann ?

  • Guðrún Bryndís

    Hlekkur á vinningstillögu um Skipulag Vatnsmýrarinnar:
    http://www.vatnsmyri.is/isexhib.asp?e=1

    Þar má sjá að stærðarhlutfall bygginga frá LSH til suðurs tekur mið af stærð sjúkrahússins. Þannig fæst væntanlega jafnvægi í borgarmyndinni.

    Annað sem kemur fram í umsögn dómnefndar er að umferðarmálin séu ekki alveg leyst. Hver veit nema það komi út annað gagnlegt minnisblað um lýðheilsulega hagkvæma lausn.

  • Hrafnhildur

    Loxinsloxins, hefur einhver bent á þetta. Einhvern veginn hefur aldrei komið fram hvað réði þessari staðsetningu, né hverju það skilar fyrir samfélagið. Ég er í miklum vafa um að þetta muni skila „betri borg“, orðalag sem mikið er notað fyrir kostningar.
    Ég er sammála Birni, um það sem hann segir um styrk íbúabyggðarinnar sem fyrir er, og sjálf hef ég oft spurt mig af hverju hún sé ekki stækkuð til suðurs, en þá auðvitað í réttum skala sem er í sátt við umhverfið.
    Því miður virðist að í ástandi dagsins í dag og margar stofur vilja og telja sig þurfa að fá þetta verkefni til þess að „lifa af“ og þess vegna sé ekki nógu gagnrýnin umræða um þetta innan fagfélaganna.

  • Guðrún Bryndís, Skýrslur eru yfirleitt pantaðar með það fyrir augum að „sanna“ fyrirfram gefna niðurstöðu sem sá sem lætur vinna skýrsluna vill fá. Það á vel við í þessu tilfelli.

  • Guðrún Bryndís

    Ég bendi einnig á skýrslu Ementor ráðgjafar sem kom út 2001.

    http://svali.landspitali.is/lsh_ytri.nsf/files/Ementor/$file/Ementor.pdf

    Nýr Landspítali er á Facebook, þar eru tenglar ýmsan fróðleik sem er að finna á netinu. Þeir sem hafa áhuga á að stytta sér leið að upplýsingum geta boðið honum vináttu sína.

  • Guðrún Bryndís

    Skýrslan um staðarval kemur hér aftur, smellið á rauðletrað ‘niðurstaða’ og þar er skýrslan á pdf-formi.
    http://haskolasjukrahus.is/nyrlandspitali/islenska/framkvaemdin/byggingasagan/
    Örstuttur úrdráttur úr skýrslu:
    Nefndin var skipuð 2001, bornir voru saman 3 staðsetningar: Fossvogur, Vífilstaðir og Hringbraut (áframhaldandi uppbyggingá núverandi lóð og nýbygging á Grænatúnsreit).
    White arkitektar voru ráðgjafar í að meta það hvort byggingarmagnið kæmist fyrir á lóðum og borgarstarfsemin í 1,5 km fjarlægð frá staðsetningu. Niðurstaðan var sú að byggingarmagnið kæmist fyrir á öllum lóðum og nálægðin við miðbæ (kaffihús og verslanir), háskóli og fyrirhugað þekkingarþorp/vísindaás í 1,5km fjarlægð frá Hringbraut vó það greinilega þungt.
    VSÓ ráðgjöf var fengin til að meta verðmæti lóða og bygginga svo og áætlaðan byggingatíma á hverjum stað.
    Lóðarkostir voru s.s. metnir við ákvörðun, ég hef ekki fundið gögn um áhrif á gatnakerfi, borgarmynd, nálægð við notendur (annað en að fstarfsólk hjóli eða gangi í vinnuna í loftlínu).

  • Enn og aftur um háskólasjúkrahús og umhverfi þess.

    Ég átti leið um Hringbrautina á móts við Landspítalann nýlega og rak þá í rogastans að sjá allan þann fjölda bíla sem lagt var á lóð spítalans,við Hringbrautina sjálfa og ekki síður umhverfis hús tannlæknadeildar og í átt að Umferðamiðstöðinni. Nú stendur til að að þarna rísi „Hátæknisjúkrahúsið“ umdeilda sem er á við nokkra Borgarspítala og þá með samsvarandi auknu plássi undir bílastæði,segjum þreföldu því stæði sem er við spítalann í Fossvogi. Væntanleg er síðan samgöngumiðstöðin milli nýlagðs Hlíðarfótar og flugbrautar með væntanlega tvöföldu því stæði sem lagt er undir stæðin við gömlu flugstöðina við Skerjafjörð.

    Nú vill svo til að að Seltjarnarnesið er „takmörkuð auðlind“ þ.e. lukt af sjó að mestu. Er virkilega brýn nauðsyn að leggja allt þetta dýrmæta land undir malbik þegar austan Nessins taka við tæpir 100.000 ferkílometrar af svo til ónýttu landi ?

  • Það er allt undir borðum og það er búið að ákveða hvar LSH á að vera, verkefnastjórnin er bara, og á bara að, framkvæma pólitískar skiparnir sem teknar hafa verið milli gamalla skólafélaga úr mentó (þ.e. lækna og pólitíkusa). Skoðanir og önnur viska er bara ekki upp á borðum og hefur aldrei verið..

  • Árni Ólafsson

    Ítreka sjónarmið mitt um stöðu borgarinnar í málinu: Svæðið sem varð aðgengilegt norðan Hrinbrautar við breytingu hennar úr borgargötu í úthverfabraut er mun mikilvægara og áhugaverðara fyrir þróun miðborgar og Þingholta en „draumalandið“ í Vatnsmýrinni. Væntanlega mun verðmætara sem bakland miðbæjarins en sem spítalalóð.

  • Guðrun Bryndís.

    Linkurinn um staðarvalið virkar ekki.

    Sendu okkur hann aftur.

    V.

  • Guðrún Bryndís

    Staðsetningin var valin árið 2002 – slóðin á skýrsluna með ástæðum fyrir staðarvali er hér:
    http://www4.landspitali.is/lsh_ytri.nsf/files/framtidaruppbygging_LSH_1/$file/framtidaruppbygging_LSH.pdf

    Þeir sem voru í starfsnefnd ráðherra voru Ingibjörg Pálmadóttir, Magnús Pétursson (Forstjóri LSH), Ragnheiður Haraldsdóttir (skrifstofustjóri heilbrigðisráðuneytisins, var í verkefnisstjórn þangað til hún tók við formennsku Krabbameinslækningafélagsins af Guðrúnu Agnarsdóttur um áramótin), Ingólfur Þórisson (framkvæmdastjóri eigna LSH, hefur verið í verkefnisstjórn frá upphafi) og Páll Skúlason (Rektor HÍ).

  • Gunnar Á.

    Ég er sammála oðrum Björns og tek alveg undir það að AÍ og önnur viðeigandi félög (FÍLA, félag verkfræðinga, félag skipulagsfræðing t.d.).
    Persónulega finnst mér þess félög arfaslök í því að taka virkan þátt í umræðunni um málefni sem snerta þessi félög og félagsmenn. Ef þessi félög eru ekki til þess að ýta undir umræður og koma þeim á hærra plan hver á þá að gera það? Hver og einn félagsmaður?
    Ég skora á þessi félög að sýna að þau eru e-ð annað og meira en skjalaskúffa um nöfn sérfræðinga.
    Minni á hin gömlu góðu og gildur orð:
    Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér

  • Með færslu Hilmars frá í gær og allt þetta landspítalamál í huga velti ég fyrir mér samfélagslegri ábyrgð þeirra sem hafa ráðlagt LSH í öllu þessu máli.

    Af hverju kveða þeir verkfræðingar, umferðasérfræðingar, arkitektar sem hafa ráðlagt verkefnastjórninni sér ekki hljóðs málefnalegri umræðu hér?

    Hverslags þöggun er þetta?

    Björn Hallson hefur rétt fyrir sér þegar hann talar um að ráðgjafarnir séu í ankannalegri stöðu í málinu. En menn mega bara ekki vera hræddir við að tala. Er þetta ekki nýtt Ísland?

    Og svo heyrist ekkert frá verkefnastjórninni.

    Hún hlýtur að hafa svör við allri þessari gagnrýni í hendinni.

    Því svarar hún ekki öllu því fólki sem setur fram tímabærar og áleitnar spurningar um þetta stóra mál á þessum vettvangi?

    Gerir hún sér ekki, frekar en ráðgjafar hennar, sér grein fyrir samfélagslegri ábyrgð sinni?

    Heldur hún að það sé enn árið 2007 þar sem allt er undir borðum og okkur sem borgum brúsann komi málið ekki við?

    Spyr sá sem ekki veit.

    Ég er ekki að segja að þetta sé ekki allt í lagi eða að það það sé ekki unnið faglega og þær ákvarðanir sem teknar hafa verið séu ekki réttar. Alls ekki.

    En meðan enginn sem heldur á málinu eða hefur komið að því tekur þátt í umræðunni, hlytur maður að efast.

  • Samúel T. Pétursson

    Þetta hefur verið rætt áður, og mig minnir að ég hafi átt í mikilli orrahríð um staðarval Landspítalans við einn dómnefndaraðila hér í athugasemdakerfinu. Persónulega tel ég, og margir aðrir í okkar faggeirum, spítalanum betur fyrir komið mun austar í borginni, eins og þú og nú Björn bendir á. En það sem lokar á það, í hugum dómnefndaraðila, virðist vera hinn meinti ávinningur af nálægð spítalans við háskólann. Jafnvel þótt það sé ekkert sem bendi til að einhver merkjanlegur ávinningur sé af slíku fyrirkomulagi þegar skoðuð eru sambærileg háskólasjúkrahús erlendis. Önnur sjónarmið, eins og nálægð við almenningssamgöngur standast ekki nánari skoðun (enda munu slíkar samgöngur batna austar í borginni ef spítalinn færðist þangað. Sparnaðarhugmyndir með að nýta núverandi húsnæði munu aldrei standast áætlanir … reynslan úr öðrum dæmum sýnir það og sannar æ ofan í æ. O.s.frv. o.s.frv. Persónulega grunar mig að þetta snúist bara einfaldlega um það, að háskóla- og læknaelítan við spítalann, sem býr mikið til í vesturbænum og miðbænum, nenni ekki að aka langt (lengra) í vinnuna. Að þarna standi hnífurinn í kúnni meira og minna. Ég veit það ekki, en mér finnst það í raun eina lógíska skýringin á þessari þrákelkni.

  • Þorgeir Jónsson

    Þegar ég vann við að flokka teikningar af Lansanum fyrir 30 árum þá sá ég að hver bygging á lóðinni hafði verið teiknuð að meðaltali í þrígang. ( „komplett“ með smáspennu og öllu). Hins vegar tókst stjórnmálamönnum (ráðherrum) ætíð að skera niður áformin í 1/3 af upphaflegum teikningum. Menn hafa því aldrei klárað neina byggingu á Landsspítalalóðinni ( Blóðbankinn er undantekning) Halda menn að nú sé lag að klára dæmið? Áfangaskipting kallast það víst. Hún er frumorsök þess að núverandi húsnæði er ónothæft til frambúðar. Svona fer því miður alltaf þegar ófaglærðir ráða ferðinni. Háskóli Reykjavíkur er nýjasta dæmið. Húsið er orðið eins og sköllótt gæs.

  • stefán benediktsson

    Ég ætla ekki að fara inn í umræðuna um staðsetningu Landspítalans en tek undir að samfélagsleg ábyrgð arkitekta er mikil. Hvernig afskipti þeirra eiga að vera er svo annar handleggur. Einhverntíma sat ég á þaki Bernhöftsbakarís og málaði en flest byggingarleg og skipulagsleg viðfangsefni eru pólitísk og þar verður aðkoma fagfélags flókin. Um nokkurra ára skeið greiddu amerísku læknasamtökin hvað eftir annað um það atkvæði hvort homosexualitet væri sjúkdómur eða ekki, pínlegt svo ekki sé meira sagt. Fáðu Björn til að senda þér stórskemmtilegar teikningar af húsi á horni Ármúla og Háaleitisbrautar. Engin pólitik þar.

  • Mikið óskaplega held ég að Reykvíkingar yrðu þakklátir ef arkitektar, verkfræðingar og slíkt fagfólk, kæmu með sameiginlega ályktun eins og Björn stingur uppá. Þá yrði kannski LOKSINS hlustað og tekið mark.
    Það væri óskandi að eiginhagsmunapot þessa stétta væri vikið til hliðar í þessu máli og hugsað um heildina.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn