Sunnudagur 05.09.2010 - 17:35 - 9 ummæli

Bob Dylan

Selvprtr

Í gær, laugardaginn 4. september, var opnuð myndlistasýning á Statens Museum for Kunst í Kaupmannahöfn með myndum eftir Bob Dylan. Sýningin samanstendur af 40 akrýlmyndum sem hvergi hafa verið sýndar áður, ásamt einum 8 teikningum.

Þessar myndir eru úr flokki sem listamaðurinn kallar ”The Brazil Series” og eru með auðlæsilegum brasíliskum mótivum sem sýna borgarslum og sveitamótiv.  Þar er einnig að finna trúarlega skýrskotun, stjórnmálamenn, mafíuforingja og léttkæddar konur m.m.

Sagt er að myndlistamaðurinn hafi fengið innblástur frá bandarískum realisma frá byrjun tuttugust aldar og frá evrópskum málurum á borð við Matisse. Dylan hefur látið í ljós aðdáun sína á Paul Cézanne sem kemur fram í myndunum.

Ég skoðaði sýninguna á opnunardaginn og hafði mikla ánægju af. Þetta eru stórar myndir sem greinilega voru málaðar af miklum áhuga og eru margar hverjar vel unnar og áhrifamiklar. Það er samhljómur milli verka Dylan sem ljóðskáld/tónskáld og myndlistarmanns þar sem augljóslega kemur fram á báðum sviðum að hann tekur vel eftir umhverfinu.  

Gagnrýnandi á Berlinske Tidende, Torben Weirup, gaf sýningunni ekki góða dóma og spurði af hverju virt listasafn á borð við SMK væri að sýna þessar myndir?  Weirup svaraði sjálfur og sagði að það væri ekki vegna þess að myndirnar væru góðar heldur vegna þess að þetta væri Bob Dylan.  Weirup taldi þetta ekki góða sýningu og bar verkin saman við hæfileika og afrek Dylans á tónlistarsviðinu. Það er ósanngjarnt vegna þess að Dylan er í raun Picasso tónlistarinnar. Hann er afburðamaður á tónlistarsviðinu. Dylan er dvergur í myndlistinni miðað við frammistöðu í tónlistinni þar sem hann er risi.

Ég er ekki sérfræðingur í myndlist en tel að ef Dylan væri eingöngu mynslistarmaður og væri borin saman við aðra myndlistarmenn samtímans þá stæði hann vel fyrir sínu, er allrar athygli verður og á erindi á SMK. Hinsvegar hefði mér þótt viðeigandi að hann hefði hafið feril sinn á myndlistarsviðinu á svipaðan hátt og á tónlistarsviðinu, í einhverskonar grasrótarumhverfi.

Bob Dylan hefur stundað myndlist síðan snemma á sjöunda áratugnum. Hann gerði teikningar, málaði nokkur plötuumslög eins og fyrir plötu The Band, “Musik from Big Pink”, og sína plötu “Selvportrait” árið 1970.  Þessi iðja var ekki áberandi í byrjun en nú hefur áhugi hans fyrir myndlistinni aukist verulega og framfarir eru eftirtektarverðar.  Það verður spennandi að fylgjast með honum sem myndlistamanni á komandi árum.  Bob Dylan, sem verður sjötugur á næsta ári, hélt sína fyrstu málverkasýningu fyrir aðeins um þrem árum.

Dylan var spurður um tjáninguna í myndunum á sýningunni og svaraði:

“If I could have expressed the same in a song, I would have written a song instead”

Fyrir þann sem þetta skrifar hefur Dylan verið samferðamaður frá því að hann fékk flugfreyju til þess að kaupa fyrstu plötu Dylans í New York eftir að hafa lesið um hana í erlendu blaði í byrjun sjöunda áratugarins. Þetta langa ferðalag og aðdáun á tónlistarmanninum varð til þess að sýningin var sótt. Upplifunin er auðvitað tengd þessu langa sambandi við listamannin.

Sýningin á Statens Museum for Kunst stendur til 30 janúar 2011.

Hér að neðan koma þrjár myndir úr “The Brazil Series” og síðan  nokkrar í viðbót auk mynda úr “The Drawn Blank Series”. Efst er mynd sem Dylan málaði árið 1970 og prýðir umslag plötunnar “Selvportrait”

Favela[1]

 

Bahia[1]ed50ad38e6[1]

44748044twosisters416dylan[1]

bobdylan-2[1]

bobdylan-1[1]

dallas-hotel-room[1]

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • i see what you did there

  • Skemmtileg teikning sem Árni vísar á. Mæli með henni.

    Ég verð samt að viðurkenna að ég mundi vilja eiga eina af myndum Dylans uppi á vegg…yfir sófanum.

  • Smá Picasso, smá Gauguin, en mest sýnist mér kallin sækja í smiðju Van Gogh.

    Óttalega óþroskaður og óspennandi afrakstur – miðað við margt sem hann hefur gert í músík.

  • Sveinbjörn Sigurðsson

    Það er margt líkt með Picasso og Dylan. Dylan stakk gítarnum í sambandi við rafmagn og allt varð vitlaust. Picasso málaði „Les Demoiselles d’Avignon“ og gerði allt vitlaust. Baðir stóðu byltinguna af sér. Picasso byrjaði hinsvegar aldrei að spila og semja lög. Dylan gerði hinsvegar málaralist að sínu áhugamáli á ellilifeyrisaldri.

    Varðandi ummæli Baldvins Bentsen hér að ofan þá er bara það að segja að hvorki Picasso eða Dylan ná til fjöldans. En það gerir þá ekki að síðri listamönnum.

  • baldvin berndsen

    Fremur döpur list, verð ég að segja, enda er Dylan stórlega ofmetinn sem tónlistarmaður og fyrir utan eina góða lagasmíð þá ætti hann frekar að vera flokkaður sem “ one-hit-wonder “ !

  • Þorbergur

    Ef Dylan hefði lagt fyrir sig byggingalist með þennan djúpa skilning á félagslegum og pólitískum sjónarmiðum í farangrinum, þá hefði hann án efa einnig breytt heiminum á því sviði.

  • Margrét Sigurðardóttir

    Í Dylan kemur saman tónskáld, ljóðskáld, myndlistamaður, þjóðfélagsrýnir og stjórnmálamaður. Á öllum þessum sviðum ber hann af öðrum mönnum í víðsýni og frumleika. Hann hefur afkastað meiru enn venjulegur mannlegur máttur á að geta gert. Saman með þessu er hann búinn að vera á nánast stanslausu tónleikaferðalagi síðustu 50 árin. Trúir einhver því að hann nái þessu öllu með þessum góða árangri með hausinn i kafi í hassskýi eins og oft er haldið fram?

  • Hallgrímur

    Dylan er snillingur

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn