Fimmtudagur 03.05.2018 - 10:54 - 4 ummæli

Borgarhluti með mannlífi.

Borgarlandslagið og stóru atriðin í borgarskipulaginu á borð við Miklubraut í stokk, Borgarlínu, flugvöllurinn í Vatnsmýri, samgöngumál, staðsetning stofnanna og íbúðasvæða skipta miklu máli.

En dæmin sanna að litlu atriðin skipta oftast meira máli í daglegu lífi fólks. Á þetta hefur hinn heimsfrægi danski arkitekt Jan Gehl margsinnis bent á og skrifað áhrifamiklar bækur um efnið. Þetta eru bækur á borð við „Livet mellem husene“ og „Byer for mennesker“. Þetta kom líka fram á aðalskipulagi Reykjavíkur  AR2010-2030 þar sem áhersla var lögð á hverfaskipulag þar sem stefnt var að því að gera borgarhlutana sjálfbæra um alla þjónustu og atvinnutækifæri og hverfa frá „sóningu“ þar sem allt var aðskilið. Gera nærumhverfið skemmtilegra og manneskjulegra. Færa íbúana nær hvorum öðrum þannig að þeir þekki hvorn annan betur en bílana þeirra. Þessi markmið ásamt fleirum hafa setið á hakanum og ekki vakið verðskuldaða athygli. Verið í skugga stóru málanna sem fæst munu verða að veruleika í nákominni framtíð.

Hildur Björnsdóttir lögfræðingur og frambjóðandi til borgarstjósnar skrifaði fallega grein í Fráttablaðið fyrir stuttu þar sem hún fjallar um nærumhverfið. Hún skrifar þarna í takti við hugmyndir AR2010-2030 um sjálbær hverfi borgarinnar sem á margan hátt hefur ekki tekist að virkja.

Hildur leggur út frá Vesturbænum í hugleiðingu sinni og óskar eftir að það umhverfi sem hún lýsir verði raunveruleg í öllum hverfum borgarinnar. Dagur B. Eggertsson upplýsti á hverfisfundi í Neskirkju nýverið að hvergi í borginni færu fleiri ferða sinna fótgangandi en í Vesturbænum. Ástæðuna fyrir því er helst að finna í skipulaginu og staðsetningu þjónustunnar sem eykur mannlífið í borgarhlutanum og gerir hann öruggari og skemmtilegri.

Grein Hildar fer hér á eftir:

„Ilmurinn er lokkandi. Hann fyllir vitin og freistar. Dáleiðir íbúana í biðröðinni. Nýbakað brauð og dísætir snúðar. Skilvirk röðin er engum til ama. Þar mætist fólk og á samskipti. Einn gengur leiðar sinnar í eril kjörbúðar. Annar á stefnumót við kaffibolla. Þriðji sækir heimilis­prýði til blómasala. Börn með ísbráð í munnvikum þeysast um hverfið. Örugg og óhrædd. Fólk mætist. Fólk á samskipti.

Þetta er hverfið mitt. Vesturbærinn í Reykjavík. Sjálfbært hverfi með öfluga nærþjónustu. Þar skríður fólk úr híðinu. Hverfið verður hluti heimilisins. Fólk fórnar fermetrum fyrir líflegt nærsamfélag – enda smærri búsetukostir ráðandi í sjálfbærum hverfum. Þéttleiki styður við blómlega þjónustukjarna – því verslun og þjónusta þarfnast fólksfjölda.

Mörg hverfi Reykjavíkur eru einangruð. Byggðin dreifð og samgöngur erfiðar. Skipulag sem styður illa við verslun. Þjónusta illfær þeim fótgangandi. Hverfi sem skortir mannlíf.

Reykjavík þarf fleiri sjálfbær hverfi. Lifandi hverfi sem draga íbúa úr fylgsnum sínum. Eitt lítillátt kaffihús kemur einangruðum úr húsi. Það er mikilvægt – enda lífsnauðsyn mannlegra samskipta margsönnuð. Mikilvægi þess að draga úr einsemd og félagslegri einangrun. Þannig ætti forgrunnur alls skipulags – rauði þráður Reykjavíkur – að vera samskipti.

Borgarskipulag hefur áhrif á lífsgæði. Það er samofið lýðheilsu og fjölbreyttum félagslegum þáttum. Við þurfum hverfi sem styðja við samskipti ólíkra þjóðfélagshópa. Úr öllum þjóðfélagsþrepum. Ungra sem aldinna. Við þurfum hverfi þar sem fólk sækir verslun og þjónustu. Þar sem fólk mætist og þekkist. Hverfi sem ekki aðallega er gott að yfirgefa – heldur hverfi þar sem aðallega er gott að dvelja.

Ég vil Reykjavík sem býður frelsi og val. Höfuðborg í forystu um grænar og vistvænar lausnir. Fjölbreytta borg fyrir fjölbreytt fólk. Reykjavík sem mætir alls kyns þörfum. Sjálfbær hverfi með öflugri nærþjónustu. Borg sem dregur úr einsemd og félagslegri einangrun. Borgarskipulag sem stuðlar að samskiptum. Reykjavík sem bannar minna og leyfir meira – styður við framtakssemi og fagnar hugmyndaauðgi. Borg sem setur mannlíf í forgrunn. Reykjavík þar sem fólki líður vel“.

„Ilmurinn er lokkandi. Hann fyllir vitin og freistar. Dáleiðir íbúana í biðröðinni. Nýbakað brauð og dísætir snúðar. Skilvirk röðin er engum til ama. Þar mætist fólk og á samskipti“. Myndin er tekin í bakaríinu Brauð & Co við Hofsvallagötu.

„Einn á stefnumót við kaffibolla“ í kaffihúsi grenndarsamfélagsins. Þarna er alltaf fullt af fólki sem mælir sér mót eða hittist fyrir tilviljun. Þessi mynd var tekin í Kaffihúsi Vesturbæjar um klukkan 9 í morgun.

 

Veitingahúsið „Borðið“ við Ægissíðu nr. 123 er mikið aðdráttarafl og hefur aukið gæði borgarhlutans svo eftir er tekið.

„Annar gengur leiðar sinnar í eril hverfisverslunarinnar“ þar sem allt er til og hagkvæmara er að versla en í stórverslununum vegna þess að maður fer þangað gangandi. Svo kannast maður við flesta viðskiptavinina og hefur á tilfinningunni að afgreiðslufólkið þekki mann. Þegar verslað er í hverfisbúðinni er það um leið skemmtileg félagsleg athöfn.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Sigrún Gunnarsdóttir

    Þetta er alveg rétt það þarf að sinna nærmálunum betur. Það skiptir miklu máli að geta gengið í matvöruverslunina innan hverfisins. Hver ber eiginlega ábyrgð á allri matvöruversluninni úti á Granda svo maður haldi sig við Vesturbæinn? Það var nægt húsnæði fyrir þetta allt á Dunhaga, Hjarðarhaga, við Suðurgötu og í húsinu Hagi þar sem Kók var til húsa og JL-húsinu við Hringbraut? Stórmarkaðirnir úti á Granda settu allar þær búðir sem þar voru á hausinn, nema Melabúðina. Borgin bar ábyrgð á því.

  • Hilmar Þór

    Ég er sammála þér Jónína. Það vantar pósthús, áfengisverslun, bókasafn og bókabúð. Ef þetta væri í göngufæri gæti ég nánast hætt að nota bílinn nema um helgar. 🙂
    Það er reyndar búið að reyna rekstur bókabúðar til þrautar sem séreiningu. En hana mætti kannski reka með bókasafni eða pósthúsi? Hver veit hvaða lausn skapandu hugsun getur leitt af sér!

  • Jónína

    “Maður er manns gaman”. Gamall sannleikur og nýr. Í Vesturbænum er mikið og gott óformlegt samband milli íbúanna. Melabúðin var menningarmiðstöð fullorðna fólksins. Við hefur bæst bakaríið, blómabúðin, Kaffivest sem er best, Borðið og svo hverfisskólarnir, KR og kirkjan. Það vantar bara bókabúð, pósthús og áfengisverslun. Þá er þetta fullkomið.

  • Þorarinn Kristjánsson

    Hildur segir:

    „Fólk fórnar fermetrum fyrir líflegt nærsamfélag – enda smærri búsetukostir ráðandi í sjálfbærum hverfum. Þéttleiki styður við blómlega þjónustukjarna – því verslun og þjónusta þarfnast fólksfjölda.“

    Þetta er mikilvægt og rétt. Þetta sem Hildur nefnir er aðaltriðið og varðar alla. Urban sprawl og stórar íbúðir og stór einbýlishús hefur þau áhrif að fólk á á hættu að einangrast frá nágrönnum sínum. Það þarf að veraskybnsalmleg blöndun af hvorutveggja. Ef hverfin eru lífleg og skemmtileg sækir fólk út á göturnar og meðal fólks. Þannig næst hin svokallaða „Win-win“ staða og allir græða.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn