Miðvikudagur 06.09.2017 - 10:36 - 14 ummæli

Borgarlínan á gúmmíhjólum í sérrými?

 

 

 

Það er ánægjulegt að fylgjast með þróuninni varðandi Borgarlínuna sem fleygir fram. Ég var á ágætum kynningarfundi í Gerðubergi í fyrrakvöld þar sem kvað við annan tón en þegar COWI kynnti verkefnið í Iðnó fyrir tæpu ári.

Þá hafð ég á tilfinningunni að erlendu sérfræðingarnir væru að selja okkur draum þarna í Iðnó.  Að þeir væru að „plata sveitamanninn“ eins og sagt var í gamla daga.  Þetta var eitthvað svo yndislegt og vandræðalaust allt saman ef ég skildi þá rétt.  Það verður samt að segjast að þeir voru ekki vissir hvort niðurstaðan yrði léttlest eða BRT, (Hraðvagnakerfi) þó við sem sátum, og hlustuðum á þetta hafi ekki verið í neinum vafa um að léttlestarkerfið væri okkur ofviða þó ekki væri nema bara vegna vegna kostnaðar.

Samkvæmt áætlunum sem hafa verið kynntar er gert ráð fyrir að línan verði 57-60 km á lengd og eigi að kosta um 60 milljarða króna.

Þegar þetta er borið saman við almenningsflutningakerfi af svipaðri gerð annarsstaðar fyllist maður efasemda.  Í Odense í Danmörku er gert ráð fyrir 14.5 km Borgarlínu fyrir tæplega 200 þúsund manns. Hér er verið að tala um 57-60 km fyrir nánast sama íbúafjölda. Línan í Odense á að kosta um 3.0 danska milljarða eða sem nemur um 3,2 milljarða á kílómeterinn í íslenskum krónum en við ætlum að gera þetta fyrir einn milljarð á hvern kílómetra samkvæmt því sem kynnt hefur verið. Það hlýtur að vera til einhver skýring á þessum mun. En það er ljóst að þetta er kostnaðarsöm framkvæmd. Fyrir 60 milljarða má bygga um 2500 meðalstórar íbúðir.

En nú kveður við annan tón sem gerir mann bjartsýnann

Samgöngustjóri Reykjavíkur, Þorsteinn R. Hermannsson fjallaði um málið af yfirvegun og skynsemi á fundinum í fyrradag. Hann flutti mál sitt skemmtilega og var skýr. Talaði ekki bara um kostina eins og dönsku ráðgjafarnir heldur líka um gallana og þá steina sem munu verða lagðir í götuna frá nú til loka.  Hann nefndi líka að þetta væri langhlaup. Líklega yrði byrjað á svona 20-25 km Borgarlínu.  Á RUV í gærmorgun talaði hann um að líklegt væri að strætisvagnar yrðu notaðir til að aka eftir borgarlínunni en ekki léttlestar. Með þessu flutti hann verkefnið til frá því að vera nánast draumur yfir í raunverulegan veruleika.  Því ber að fagna.

Á morgun verður svo fundur í Kvennadeild Verkfræðingafélagsins um málið. Hann byrjar klukkan 8:30 og stendur í klukkutíma þar sem Lilja G. Karlsdóttir einn helsti ráðgjafi SSH í þessu verki mun skýra það út.

Það verður spennandi að fylgjast með því hvað þar kemur fram og fá upplýsingar um næstu skref.  Líklegt er að umfang Borgarlínunnar verði gírað verulega niður á næstu mánuðum. Kannski úr tæplega 60 km niður í svona 15-20 km og að hún verði lögð þar sem þörfin er mest og þéttingar- og uppbyggingatækifærin eru mest eins og við þekkjum erlendis frá.

Kannski þróast þetta úr 60 km léttlestarkerfi í 15-20 km strætisvagnakerfi sem er í sérrými. Áreiðanlegt, stutt milli ferða og tekur barnavagna, hjól og hjólastóla.

En það má heldur ekki gleyma því að helstu úrræðin til að minnka bílaumferð í Reykjavík fyrir utan Borgarlínuna er annarsvegar þétting byggðar meðfram Borgarlínunni (samgönguásnum) og hinsvegar að að auka atvinnutækifærin austar í borginni, einnig í góðum tengslum við Borgarlínuna.

Sjá umfjöllun RUV:

http://www.ruv.is/frett/hradvagnar-hagkvaemari-en-lestir-i-borgarlinu

 Að neðan er auglýsing um fundinn í fyrramálið.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Einar Ísleifsson

    Einn vinkill hefur ekki sést í umræðunni svo ég viti. Markmið léttlestakerfisins eru að ná fjölda þeirra sem nýta sér þjónustuna upp í 12% úr 4% ef ég man rétt. Það þýðir að 88% fólks muni áfram nota einkabílinn og aðra ferðamöguleika aðra en almenningssamgöngur. Miðað við ætlaða fjölgun íbúa miðsvæðis er ekki að sjá að þetta leysi vandann. Lagning sér akreina fyrir léttlestir munu að öllum líkindum þrengja að því rými sem bílar hafa á götunum í dag og stuðla að frekari töfum.
    Í umræðunni um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut hefur komið fram að u.þ.b. 15% umferðar í borginni muni tengjast Landspítalanum (starfsfólk, sjúklingar og aðstandendur). Ef spítalinn yrði byggður utan miðborgar eins og félag um betri spítala á betri stað þýðir það að 15% umferðar muni dreifast um stofnæðarnar og í mörgum tilfellum stefna í öfuga átt miðað við þá umferð sem teppir göturnar á álagstímum og nýta þar með göturnar betur.
    Einnig mætti leggja áherslu á að byggja upp atvinnustarfsemi utan miðborgarinnar til að dreifa umferðinni. Til að mynda er erfitt að sjá að það sé ástæða til að byggja nýjar höfuðstöðvar Landsbankans niður í bæ með fjölmörgum starfsmönnum og tilheyrandi umferð. Sem dæmi má nefna ef fjölmennir vinnustaðir yrðu byggðir upp í grennd við Úlfarsárdal þá mun sú umferð sem þeim fylgir stefna í aðra átt en aðal umferðarálagið er á.
    Það virðist ekki ganga upp að leggja alla áherslu á að fjölga þeim sem búa í miðborginni á sama tíma og umferðaræðar eru að fyllast á álagstímum. Á sama tíma kemur fram að lausnin sem boðin er mun ekki breyta miklu þar sem ekki er gert ráð fyrir að fleiri en 12% nýti strætisvagna og komandi léttlestar.

    • Þetta er athyglisverð pæling hjá Einari Ísleifs. Samkvæmt spám á að fjölga á höfuðborgarsvæðinu um 70 þúsund manns á næstu 23 árum. Ef 80% þeirra fer með einkabílum þá fjölgar bílum um 56 þúsund á stofnæðunum eins og þær eru nú…SPRUNGNAR. Þetta gengur aldrei upp án mislægra gatnamóta, Sundabrautar, breikkun stofnbrauta og allra annarra úrræða!

    • Rúnar Ingi

      Ef bilum fjölgar um 56 þúsund- hvar eiga þá 56 þúsund bílastæði að vera?

      Í raun þarf að bæta við 350 – 400 þúsund bílastæðum samkvæmt reglunni um að það þurfi 6-8 bílastæði á hvern bil, hér og þar um borgina. ( við heimili, vinnustaðinn, matvörubúðina , tannlækni osfr)

  • Þetta á eftir að gera Reykjavík að borg!

  • Þetta potast 🙂

  • Hilmar Þór

    Ég var að koma af fundi Kvennanefndar VÍ (sem var stofnuð árið 2000!). Þetta var aldeilis stórgóður og upplýsandi fundur. Lilja G. Karlsdóttir samgönguverkfræðingur flutti mál sitt á sannfærandi hátt. Hún sagði að þetta væri ekki auðvelt en taldi mikilvægt að halda sig við staðeyndir í málinu sem hún og gerði. Hún fór varlega um pólitíkina og viðurkendi að það þyrfti að gef þessu „pólitískan umhugsunartíma“ sem er mikilvægt. Ég sé líka að það er verið að gíra þetta niður enda upplýsti Lilja að þessir 57-60 km línunnar er plan til langrar framtíðar og bar saman til skýringar gatnakerfið í AR1962-1984 sem er enn ekki búið að framkvæma. Fjarri því sem betur fer. Meginsamgönguásar línunnar er lína A-B-C og D. Ég hef á tilfinningunni að þetta eigi eftir að minnka niður í A og B. Þ.e.a.s. austur/vesturlínu og norður/suðurlínu til að byrja með. En við skulum vona það besta.

  • Rúnar Ingi

    Það er til lausn sem er blanda af strætó/ létt lest og keyrir á Gummi dekkjum á sýndarbraut, skoðið þetta myndband: https://youtu.be/Dd3N9CFKe9M

  • Steinarr Kr.

    Af hverju má ekki byrja á strætó sem ekur frá Eiðistorgi og upp í Mos. á Hringbraut og Miklubraut? Stoppistöðvar við öll helstu gatnamót, Kringluna etc. Tengja vagna sem aka Sæbraut og Kringlumýrarbraut að þessari línu og sjá hvernig gengur. Er eftirspurn eða ekki?

    • Helgi Gunn

      Ég hef oft hugsað það sama. Smágræðlingur sem fær svo að stækka og dafna. Það væri hægt að byrja á morgun. 🙂

    • Hilmar Þór

      Já Steinar Kr. Fyrir nokkrum árum skrifaði ég eftirfarandi í eina færslu hjá mér sem gengur út á það sem þú nefnir:

      „Einhvern vegin var ég svo bjartsýnn þegar Aðalskipulagið og þessar hugmyndir voru unnar og kynntar veturinn 2012-2013 að ég taldi að samgönguásinn yrði kominn í rekstur innan 3-5 ára, jafnvel fyrr. Borgin mundi kaupa svona 10-12 litla vagna, gjarna rafdrifna og setja þá í rekstur. Þetta væru svona skutlur eins og við þekkjum af flugvöllum þar sem manni er ekið frá flugstöð til bílaleigu o.þ.h. Vagnarnir tækju svona 15 manns í sæti og 15-20 í stæði og ækju milli Vesturbugtar og Skeifunnar með 5 mínútna millibili og helst ókeypis fyrir alla undir 18 ára og yfir t.d. 65. Svo í beinu framhaldi væri farið að brúa Elliðár vegna þessarrar samgöngubóta og verkefnið klárað með öllum stoppistöðvum á svona 10 árum. Þetta fannst mér blasa við.“

    • Sigurður Viktor Úlfarsson

      Sammála Steinarri hér að ofan. Byrjum smátt. Eina eða tvær leiðir á 5-10 mín. fresti og byggjum svon utan á það. Þá getum við byrjað strax í stað þess að taka 15 ár í undirbúning og svo drukknar allt saman í skýjaborgum og pólitískum deilumálum. Strætóreinarnar eru að miklu leyti komnar meðfram Miklubrautinni. Dæmið gengur út á að stytta biðtíma á biðstöðum og ferðatíma milli biðstöðva. Gerum það. Bara það. Flækjum ekki málið.

  • Hafsteinn

    Þarf þetta að vera annaðhvort/eða?
    Getur aðallínan ekki verið á teinum og aukalínurnar á gúmmíhjólum?

  • Guðrún Valdimarsdóttir

    Á þverskurðinum neðst er sýnt að heildarbreidd götunnar er 26,5 metrar! Svo þarf að bæta við 2,5 metra gangstétt sitt hvoru megin. Það er þá meira en 30 metrar. Ég er ekki hissa að þetta kosti meira en miljarð kílómetrinn þegar stoppistöðvarnar bætast við!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn