Miðvikudagur 02.12.2020 - 13:08 - Rita ummæli

Borgarlínan, fyrsti áfangi – Þarf ekki að ræða hann eitthvað?

Borgarlínan, fyrsti áfangi.

Ég var að kynna mér skýrslu Mannvits frá árinu 2014 þar sem skoðaðar eru þrjár sviðsmyndir varðandi bifreiðaumferð á höfuðborgarsvæðinu eftir 20 ár. Skýslan heitir „Höfuðborgarsvæðið 2040 – Mat á samgöngusviðmyndum“.

Skýrslan var unnin til glöggvunar á umferðamálum á næstu áratugum og Borgarlínunni í því sambandi. Skoðaður var kostnaður hins opinbera vegna uppbyggingar samgöngukerfis og breyttra ferðavenja og fl. Ýtarlega var farið yfir umferðaspá en engar tillögur gerðar í skýrslunni um legu Borgarlínu né áfangaskyptinu. Enda var hún hugsuð sem undanfari þess.

En þegar skýrslan er lesin kemur það fram sem öllum var ljóst. Umfeðin austur og vestur í Reykjavík verður vandamál í náinni framtíð verði ekkert að gert og leiðin suður í Hafnarfjörð er í miklum vandræðum sem mun fara vaxandi.

Það er hverjum manni ljóst að í fyrsta áfanga muni verða leiðin frá Keldum að Kvos og strax eða á sama tíma leiðin frá Reykjavík suður í Hafnarfjörð en á þessum leiðum kreppir að.

Önnur leiðin mun létta verulega á umferð um Miklubraut og hin mundi létta verulega á umferð um Hafnarfjarðarveg og tengja miðbæi Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar vel saman í starfræna heild. Og ekki bara það heldur stytta ferðatímann á þessum leiðum. Þetta liggur í augum uppi og er aðkallandi verkefni sem er staðfest í umræddri skýrslu Mannvits.

En hvað kemur á daginn?

Nú eru áform um eitthvað allt annað. Vissulega á að tengja saman Keldur og Kvos með Borgarlínu. Það er óumdeilt, rökrétt og nauðsynlegt. Svo eru hugmyndir um að tengja saman Lækjartorg og Hamraborg um Vatnsmýrina yfir Fossvog að Kársnesi! Línan frá Lækjartorgi að Hamraborg er óskiljanleg og illa rökstudd. Hvergi í raunheimum og hvergi í skýrslu Mannvits er kallað eftir þessari tengingu. En samt er hún á teikniborðinu, óhemju dýr og óhemju óskynsamleg sem fyrsti áfangi þó hugsanlega kæmi hún síðar. Líklega kostar áætlaður fyrsti áfangi sem samtals er um 13 km meira en línurnar Keldur-Kvos og Reykjavík – Hafnarfjörður til samans.

Það liggja fyrir skýrslu og úttektir á þessu en manni finnast þær eru ekki sannfærandi. Þessvegna koma upp í kollinn tilgátur um hversvegna þetta sé svona? Hver er ávinningurinn fyrir að fara þessa leið frá Lækjargötu að Hamraborg og hver er fyrirstaðan fyrir að fara beinustu og ódýrustu leiðina um Kringlumýrarbraut til Hafnarfjarðar.

Maður getur reynt að notfæra sér vinnulag vísindamanna og koma með tilgátur um forgangsrönunina sem svo þarf að hrekja eða sanna. Læt ég lesendum það eftir.

Það læðist að manni sá grunur að ástæðan fyrir þessari legu fyrsta áfanga sé að finna í einhverskonar togi milli hagsmunaaðila eða hreppapólitík. Kópavogur telur sig þurfa öfluga tengingu vegna of mikillar uppbyggingar á Kársnesi. Landspítalinn kallar eftir sterkari tengingu við borgarvefinn vegna þess að hann var svikin um Kópavogs- Öskjuhlíðar- og Skólavörðuholtsgöng og fl. HR vill líka Borgarlínu vegna sömu svika og svo er það auðvitað hin sífellda barátta vegna flugvallarina. Ef Borgarlínan kemur þarna mun þrýstingur á meiri uppbyggingu í Vatnsmýrinni aukast verulega.

En sannleikurinn er sá að fjarlægðin frá Kringlumýrarbraut að HR er í göngu- og rafskútufæri. Um fjarlægðina frá Lækjartorgi að HÍ gildir það sama. Fjarlægðin frá Hlemmi að Landspítalanum á það sama við. En þess utan má leysa öll þessi mál með venjulegu strætókerfi í tengslum við Borgarlínuna fyrir miklu minna fé.

Af hverju fer maður ekki með Borgarlínuna beina og greiða leið suður í Hafnarfjörð um Kringlumýrarbraut og Hafnarfjarðarveg sem smellur inn í sögulega þróun höfuðborgarsvæðisins s.l. 100 ár. Það er ekki auðvelt að koma auga á það en líkleg tilgáta er að það eru uppi áætlanir að rífa upp stótann hluta Miklubrautar og gatnamót Krinlumýrar og Miklubrautar vegna verkefnisins „Miklabraut í stokk“. Það er ekki skynsamlegt að mati þeirra sem trúa á það verkefi að leggja þarna Borgarlínu til þess að rífa hana upp aftur eftir 5-10 ár.  Aðrar tilgátur finn ég ekki.

+++

Efst er uppdráttur sem gerður er af VSO verkfræðistofu og er að finna í skýrslu Mannvits frá 2014. Þar sést að umferðin um Ártúnsbrekku verður um 100 þúsund bílar á sólahring þrátt fyrir að þarna er gert ráð fyrir um 50 þúsund bílum um Sundabraut. Um Hafnarfjarðarveg verða um 100 þúsund bílar á sólahring og svipað um Reykjanesbraut. Þessar tölur kalla eindregið á Borgarlínu frá Keldum að Kvos og frá Reykjavík til Hafnarfjarðar. Ekki er hægt að sjá að línan frá Lækjartorgi að Hamraborg sé aðkallandi eða bæti umferðarálag á Hafnarfjarðarvegi eitthvað.

 

Að ofan er mynd sem fylgdi grein Péturs H. Ármannssonar árið 2005. Þarna er línulegur miðbær Reykjavíkur dreginn upp og samgönguás í rauðum lit. Ör hefur verið bætt á uppdráttinn sem sýnir hugsanlega tengingu suður til miðbæja Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar.

++++

Á myndinni strax að neðan eru dregnir upp samgönguásar Borgarlínunnar eins og þeir eru nú hugsaðir. Hér  er þessi einfalda góða hugmynd úr AR2010-2030 orðin að stóru, óskýru og flóknu leiðakerfi. Hana vantar þann skýrleika sem er hornsteinn skilvirks samgöngukerfis. Kerfið var ekki í neinum tengslum við borgarvefinn og þróun hans.

Þarf ekki að staldra við og hugsa þetta uppá nýtt.

Síðan þessar flóknu línur voru dregnar upp hefur margt breyst. Í fyrsta lagi ganga menn og hjóla mun meira nú en þá og svo hafa rafskutlurnar og rafhjól komið til og gert upptökusvæði Borgarlínunnar mun stærra, jafnvel þrefaldað í sumum tilfellum. Þessu til viðbótar hefur hávær gagnrýni á áætlanirnar engin áhrif haft. Það eitt vekur athygli. Í svona málum dugar engin óbilgirni. Hagsmunirnir eru miklir og rökin þung. Það verður að málamiðla og ná víðtækri samstöðu um málið.

Flokkar: Óflokkað

«

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn