Þriðjudagur 02.06.2020 - 13:08 - Rita ummæli

Borgarlínan í opinberri kynningu

Um þessar mundir eru liðin 15 ár síðan Pétur H. Ármannsson arkitekt setti fram tillögu sína um Borgarlínu í Reykjavík. Þetta var mjög vel rökstudd hugmynd sem var í fullkomnu samræmi við þarfir Reykjavíkur og eðlilega þróun hennar í meira en 80 ár. Hugmyndin var þannig vaxin að ekki var hægt að líta framhjá henni. Þegar aðalskipulag Reykjavíkur var endurskoðað og AR2010-2030 var gefið út var hugmynd Péturs eðlilega þar inni og fékk staðfestingu.

Síðan Pétur skrifaði grein sæina eru bráðum liðin 15 ár.

Eins og sést á myndinni efst í færslunni, sem er frá Pétri, og lesa má um í aðalskipulaginu gekk þessi lína frá Kvos að Keldum. Þarna var dregin upp hugmynd sem stefndi að þvi að gera Reykjavík að sterkri, þéttri og starfrænni línulegri borg. Aldeilis eitthvað sem beðið hafði verið eftir. Þessu var fagnað, enda dæmigerð „win win“ hugmynd.

Ég fyrir minn hlut fagnaði þessu sérstaklega studdi það og skrifaði margar greinar um málið auk þess að minna á Borgarlínuna þegar deiliskipulagsbreytingar voru gerðar í grennd við línuna.

Ég taldi víst að þessi Borgarlína aðalskipulagsins yrði komin í rekstur frá Lækjartorgi inn í Skeifu innan 3-4 ára og yrði fullbyggð fyrir 2020. Þetta var einfalt, nauðsynlegt og hagkvæmt fyrir utan að vera algerlega óumdeilt.

Það voru engin ljón í veginum,  en þrátt fyrir það gekk þetta ekki eftir, þó ótrúlegt sé.

Skipulagsyfirvöld í Reykjavík fylgdu málinu ekki nægjanlega vel eftir og dró lappirnar. Hafnartorg var byggt án þess að í deiliskipulagi yrði gert ráð fyrir Borgarlínunni. Hverfisgatan var endurbyggð án þess að gert væri ráð fyrir Borgarlínunni o.s.frv.

Í staðinn blés þessi einfalda rökrétta hugmynd út og varð ógnarstór. Hún tífaldaðis í umfangi og varð svo stór að sveitarfélögin réðu ekki við hana og hefðu líklega aldrei sameinast um þetta án þess að kalla rikið til og greiða 75% kostnaðarins. Reykjavíkurborg hefði hinvegar vel ráðið við þessa hugmynd, ein og óstudd.

Ég veit ekki hvað gerðist en það var eins og hreppapólitík hlypi í málið. Ósjálfbær sveitafélög á jaðri höfuðborgarsvæðisins vildu vera með og menn sáu tækifæri til þess að leiðrétta skipulagsmistök með því að teygja Borgarlínuna úr 6-8 kílómetrum upp í tæplega 60, eða næstum tífalt. Ósjálfbærum jaðarsveitafélögum á nú að bjarga með línunni í stað þess að ráðast að rótum vandans og jafna umferðaálagið á samgöngukerfinu með þekktum skipulagslegum úrræðum, stundum kallað skipulagshalli. Ég óttast að ekkert verði úr þessu úr þessu vegna þess hvað þetta er orðið ofvaxið.

Þau herfilegu skipulagsmistök að staðsetja Háskólann í Reykjavík úti í mýri án nokkurra tengsla við borgarvefinn á nú að lagfæra með Borgarlínunni. Og til þess að það sé hægt að selja þessa hugmynd er hún látin halda áfram yfir Fossvog og þá leiðina um venjulegar húsagötur í Kópavogi að Hamraborg. Og svo til þess að styrkja „farþegagrunninn“ á þessari línu var hafin mikil uppbygging í Kársnesinu og enn frekari uppbygging er fyrirhuguð í gamla miðbæ Kópavogs.

Maður spyr sig af hverju er ekki bara farinn Hafnarfjarðarvegurinn um Kópavog og Garðabæ alla leið suður í Hafnarfjörð.  Það væri ekki mikið dýrara en leiðin frá Landspítalanum um Vatnsmýri og brú yfir Fossvog, endilöngu Kársnesinu að Hamraborg. Ef farin yrði Kringlumýrarbrautin og Hafnarfjarðarvegur tengdist línan Miklubraut, Kringlunni, Borgarspítalanum og sveitarfélugumum í suðri á þeirri leið sem umferðavandinn er mestur. Höfuðborgarsvæðið allt væri tengt saman að undanskildum Mosfellsbæ.

Nú er fyrsti áfangi Borgarlínunnar í kynningu og opnað á umræðu um þetta mikla mál. Það á að skila athugasemdum fyrir 9. júní n.k. Vonandi koma margar lausnamiðaðar ábendingar og kröftug málefnaleg umræða í kjölfarið sem leiðir okkur að skynsamlegri niðurstöðu, öllum til heilla. Verkefnastofa Borgarlínu er komin með fyrstu drög að tillögum sem má finna inná https://www.borgarlinan.is/

Ég held að það sé skynsamlegt að hafa fyrsta áfanga nokkru minni en núverandi hugmynd gengur út á. Láta hann ganga frá Ártúnsholti að Landspítala/Umferðamiðstöð og sleppa því að láta leiðina fara um Tjarnarbrúnna. Hana á að gera að göngugötu og sameina þannig Tjarnirnar tvær og Hljómskálagarðinn miðborginni, Gamla Austurbæ og Vesturbæ.

Frá gatnamótum  Njarðargötu og Hringbraut að aðalbyggingu Háskóla Íslands eru ekki nema um 500 metrar sem þeir sem skólann sækja hafa gott af ganga. Nemendur í Háskólanum í Reykjavík sem munu nota Borgarlínuna munu að sama skapi taka strætó eða ganga að skólanum sínum eða fara á rafhlaupahjólunum sínum í skólann. Þetta eru ekki nema um 1400 metrar sem er ekki mikið. Rafhjólin hafa þau auðvitað með sér í þetta nýja og þægilega almenningssamgöngutæki.

Við þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti og gera fyrsta áfanga Borgarlínunnar starf- og rekstrarhæfa þannig að allur almenningur sannfærist um ágæti hennar. Þá verður eftirleikurinn auðveldur.

+++

Efst er mynd sem sýnir upphaflega legu Borgarlínunnar samkvæmt hugmynd Péturs H. Ármannssonar frá árinu 2005.

Slíkur línulegur miðbær er í raun „vísbending um þróun sem þegar hefur átt sér stað“ eins og höfundurinn orðaði það og stendur í aðalskipulaginu. Línulegi miðbærinn er í samhljómi við þá viðurkenndu skoðun að eðlilegasta þróun borga gerist hægt og sígandi á löngum tíma. „Hugmyndin felst í því að viðurkenna í hugsun og verki, línulegan vöxt miðborgarinnar til austurs“ að Keldnalandi, svo aftur sé vitnað í Pétur og aðalskipulagið. Þetta er tækifæri sem almenn ánægja var með og var óumdeilt. Þeir sem vinna að undirbúningu Borgarlínunnar og aðrir ættu að skoða þessa frábæru hugmynd betur áður en lengra er haldið.

 

Að ofan er frumniðurstaða erlendu ráðgjafanna COWI  sem mér skilst að sé að mestu óbreytt. Mér sýnist þetta net vera óþarflega þétt og óþarflega langt jafnvel þó litið sé til mjög langrar framtíðar. Í raun svo þétt að ég á ekki auðvelt með að trúa því að þetta geti orðið að veruleika nema kannski ef hugsað er til 40-60 ára eða svo. Þetta líkist meira venjulegu strætisvagnakerfi en Borgarlínu til fjöldaflutninga. Bara aukin þróun annarra samgangna um betri göngu og hjólastíga þar sem eru rafdrifin reið- og hlaupahjól sem menn taka með sér í Borgarlínuna mun einfalda kerfið stórkostlega fyrir utan öll hin skipulagslegu úrræði sem blasa við. Þá skipta máli sjálkeyrandi bílar, sveigjanlegur vinnutími, styttri vinnuvika og að fólk vinni meira heiman frá sér eða í minni „sattelite“ starfstöðvum stærri fyritækja í íbúðahverfunum. Svo er stefnt að því að gera borgarhlutana og úthverfin sjálfbær hvað varðar alla þjónustu og atvinnutækifæri, sem mun minnka umferð einkabíla verulega. Svo þarf auðvitað að draga úr skipulagshallanum eins og þeir vildu sem töldu nýjan Landspítala, langstærsta vinnustað landsins, betur settann við Keldur en í umferðakraðakinu við Hringbraut. Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér?

Þau herfilegu skipulagsmistök að staðsetja Háskólann í Reykjavík úti í mýri án nokkurra tengsla við borgarvefinn á nú að lagfæra með Borgarlínunni. Og til þess að það sé hægt að selja þessa hugmynd er hún látin halda áfram yfir Fossvog og þá leiðina um venjulegar húsagötur í Kópavogi að Hamraborg. Og svo til þess að styrkja „farþegagrunninn“ á þessari línu var hafin mikil uppbygging í Kársnesinu og enn frekari uppbygging er fyrirhuguð í gamla miðbæ Kópavogs.

 

Hugsanlegt væri að minnka þennan fyrsta áfanga úr 13 km í 7 km og láta hann ganga frá Ártúnshöfða um miðborgina að Landspítalanum og sleppa því að láta hana fara yfir Tjarnarbrúnna.  Sleppa Vatnsmýrinni, Fossvogsbrúnni og Kársnesinu fyrst um sinn enda er ekki sá umferðavandi sem brýnast er að leysa þar. Leggja frekar áherslu á að tengja Borgarlínuna við Laugaveg/Suðurlandsbraut om Kringlumýrarbraut við Kringluna, Borgarspítalann, miðbæ Kópavogs, Garðabæjar og Hafnafjarðar í starfrænt og sögulegu samhengi. Leiðin um Kringlumýrarbraut að miðbæ Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar mun þjóna fleirum, þó það halli á HR, og líklega verða ódýrara. Við þurfum að varast það að lagfæra ein skipulagsmistök með öðrum. Svo þarf að láta þarna staðar numið og láta á þessa góðu framkvæmd reyna í 5-10 ár áður en lengra er haldið. En við verðum að gera ráð fyrir að þetta hafi allt  verið skoðað og metið af okkar helstu sérfræðingum í Borgarlínumálum sem munu svara öllum svona hugmyndum í kynningarferlinu.

Samkvæmt áætlunum er fyrirhugað að Borgarlínan liggi um Tjarnarbrúnna. Það er að margra áliti þróun í öfuga átt. Nær væri að gera Skothúsveginn frá Bjarkargötu að Fríkirkjuvegi að göngusvæði. Maður sem ég hitti í kaffinu í morgun velti fyrir sér hvort þeir sem legðu þetta til væru svo þröngsýnir að þeir sæju ekki smáatriðin í heildarmyndinni fyrir Borgarlínunni?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn