Mánudagur 24.06.2013 - 10:24 - 19 ummæli

Borgarnes og Selfoss – Hjáleiðir?

 SCAN1431_001lett

Síðastliðin laugardag birtist í Morgunblaðinu grein eftir þá Ólaf Hjálmarsson verkfræðing og Ragnar Frank Kristjánsson lektor í umhverfisfræðum við háskólann á Hvanneyri.

Í greininni viðra höfundar áhyggjur sínar af nýjum hjáleiðum við Selfoss og Borgarnes og áhrifum þeirra á byggðina. Þeir efast um að þessar áætlanir skili þeim árangri sem stefnt er að og telja að vert sé að skoða þann möguleika til hlítar að bæta núverandi leið þjóðveganna í gegnum Selfoss og Borgarnes. Þeir telja það betri kost, bæði með tilliti til umferðaröryggis og umhverfissjónarmiða. Þeim líst ekki á nýjar hraðbrautir við bæjardyrnar.

Þeir nefna að framkvæmdirnar við muni kosta nálægt 5 miljarða króna.

Við Borgarnes virðast umhverfisspjöllin mun meiri en við Selfoss. Umhverfisspjöllin við Borgarnes eru í raun skelfileg sýnist mér.

Athygli mina vakti fullyrðing greinarhöfunda um að Reykjavíkurborg hafi opinberlega viðurkennt að lagning nýrrar hraðbrautar í Reykjavík (Hringbraut) um Vatnsmýri hafi verið mistök. Þetta er í raun stórfrétt í mínum huga því gagnrýnisröddum, sem voru miklar, var aldrei svarað faglega svo ég tæki eftir. Mér þótti þetta alltaf einkennnileg framkvæmd. Rúmlega kílómetars löng hraðbraut í miðri borginni með 60 km hámarkshraða og svo til að toppa framkvæmdina er komið fyrir stórri þjóðvegasjóppu á henni miðri. Maður spurði og spyr enn: Eiga þjóðvegasjoppur og hraðbrautir að vera til í borgarmiðjum?

Það var fjallað lítillega um þetta hér á vefnum fyrir nokkru þar sem einn lesandanna (sem er skipulagsfræðingur) benti á í athugasemdarkerfinu að það eina sem þurfi að gera á þessum stöðum er að sjá til þess að umferðin um þjóðveginn lúti lögmálum þéttbýlisins þegar ekið er í gegnum Borgarnes (Selfoss). Hann bendir á að skv. talningum Vegagerðarinnar fyrir árið 2012 er þjóðvegaumferðin í gegnum Borgarnes milli 7.500 og 8.000 bílar á sólarhring þegar hún er þyngst.  Hann setur talninguna í smhengi við borgargötu í Reykjavík, Álfheimana þar sem aka að jafnaði um 9000 bílar á dag!

Lesandinn, bendir á að umferðin um Borgarnes er það lítil að það má léttilega láta hana streyma (seitla) um bæinn um götuumhverfi sem styrkir bæjarbraginn og ýtir þannig  undir hægari akstur. Vissulega myndi það tefja ferðalanga á leið til Akureyrar, en sú töf væri mesta lagi 1-2 mínútur.  Hann segir einnig það sé löngu kominn tími til að láta af þessum stórmennsku vegaframkvæmdum.

Myndin efst í færslunni er fengin úr Morgunblaðinu. Hún sýnir fyrirhugaðar hjáleiðir við Borgarnes og Selfoss.

Hér er slóð að umræddri færslu:

 
Hrafnhildur Brynjólfsdóttir skrifaði athyglisverða meistararitgerð við HR þar sem hún fjallar um hjáleiðina við Selfoss. Kynna má sér hana á þessari slóð:
 
 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Jón Ólafs

    Hvernig stendur á þvi að aldrei kemur fram hvaða verkfræðistofur og einstaklingar þar beri faglega ábyrgð á ráðgjöf eins og í Gálgahrauni og við stranengjuna í Borgarnesi? Ef þetta væri fyritækja eða persónutengt þá fengju viðkomandi tækifæri til að verja verkin.

  • Dennis Davíð

    Mér finnst áhyggjuefni hvað umræðan skilar sér illa til valdhafana og virðist hafa lítil áhrif. Samt er stöðugt verið að kalla eftir athugasemdum frá íbúum en lítið hlustað á þær athugasemdir eins og fjölmörg dæmin sanna, ekki síst í Reykjavík Er íbúalýðræðið orðin tóm?

    • Ég hef oft velt fyrir mér hvað verður um ábendingar og athugasemdir borgaranna þegar komið er að skipulagsmálum. Eru þær notaðar til að bæta tillögurnar eða snúast borgaryfirvöld og ráðgjafar til varnar? Gæðakerfi borgarinnar er án vafa sífellt að mæla árangur á öllum sviðum. Gaman væri að fá upplýst hvort þeir sem koma með athugasemdir og tilmæli um skipulagsmál borgarinnar séu ánægðir með þá afgreiðslu sem þeir fá.

      Ég held eins og Dennis Davíð að þetta sé eitthvað sem borgin þurfi að hafa áhyggjur af.

    • Leyfi mér að benda á þessa grúppu fyrir áhugafólk um aðalskipulag Reykajvíku þar sem uppi eru umræður um þetta

  • Verð aðeins að nefna Hringbraut. Þegar ráðist var í að gera nýja Hringbraut vegna fyrirhugaðrar stækkunar Landspítalans var nokkrum árum áður búið að byggja brúna á Bústaðavegi. Það er þetta mannvirki sem setur mark sitt á umhverfið. Gerir götuna að því sem hún er og ekki tilviljun að ì Vatnsmýrarskipulaginu er lagt til að rífa hana. Reyndar án þess að í staðinn sé boðið upp sannfærandi lausn.

  • Það gætir full mikillar einsýni hér. Kostina þarf einfaldlega að vega og meta. Tek undir varðandi Selfoss amk að mislæg gatnatmót eru „overkill“. Bendi á að Borgarfjarðarbrúin hefur þegar mótað umhverfið þannig að sandburður leggst að ströndinni við bæinn. Bæjarstæðið er langt og mjótt og þjóðvegurinn þrengir að byggðinni austan við brúna. Gamli miðbærinn í Borgarnesi er ekki og hefur ekki verið í þjõðbraut öfugt víð Selfoss.

  • Steinarr Kr.

    Þéttbýliskjarnar virðast beyglast illa hjá hönnuðum. Blönduós og vegur þar framhjá hefur verið lengi í umræðunni. Hella og Hvolsvöllur eru skrítin fyrirbæri og sama má segja um Hveragerði.

    Af einhverjum ástæðum er farið að nota hringtorg sem hraðahindranir, en ekki endilega til að liðka fyrir umferð og væri ekki ólíklegt að finna slík mannvirki í þessum hugmyndum sem ræddar eru hér að ofan.

  • Jón Skafti Gestsson

    Þessi Borgarnesslausn virkar hræðilega!

  • Stefán Benediktsson

    Takk enn og aftur Hilmar fyrir þennan vettvang. Borgarnesslausnin er hræðileg. Selfoss skárri en AS er búið að hertaka hana sem innanbæjarhraðbraut „eiginlega“.
    Hugmyndir utan úr bæ skila sjaldnast miklu en èg hef lengi sèð fyrir mér 1,5 breiðan þjóðveg kringum landið fyrir almenningsvagna og flutningabíla, með einbreiðum brúm og vöru- og fólksflutningamiðstöðvum við þèttbýli. Kerfi til stýringar þessarar umferðar, svo fyrirbyggja megi árekstra, er eiginlega til hér á landi. Fyrst notað af Addice. Markmiðið ætti að vera: vöru og fólksflutninga á einkaakrein, utan þéttbýlis, hringinn í kring um landið

    • Já þetta eru hræðilegar hugmyndir sem eiga eftir að rústa þessum bæjum ef þeir áttu sér einhverntíma viðreisnar von. Ég vil einnig benda skipulagsyfirvöldum á að Ísalnd er eyja. Það er hægt að nota vatnið kringum eyjuna sem baut fyrir farartæki til flutninga í kringum landið. Þetta vatn er í fyrirsjáanlegri framtíð alveg ókeypis og þarf ekkert viðhald.

    • Hilmar Þór

      Jú Arna.
      Þér mælist vel.

      ‘Eg skrifaði stutta hvatningu í Morgunblaðið fyrir 2-3 árum þar sem ég talaði máli strandsiglinga.

      Samgönguráðherra svaraði greininni um hæl, strax næsta dag. Hann lagði fram sjónarmið sem voru umlukin þoku þannig að ég skildi ekkert hvert hann vildi stefna í þessum málum.

    • Það skildi þó ekki vera eitthvað annað sem ræður þessu en helber skynsemin?

      Hver teiknaði þetta? Fyrir hvern? Hver eru rökin fyrir framkvæmdinni? Hvaða aðilar munu byggja þetta? Hverjir skaffa efnið í þetta?

      Hverjir borga svo fyrir þetta?

  • Þegar frýs í Helvíti.

  • Sigurður Kristjánsson

    Það sem einkennir umræðuna hér á landi er hvað hún gerir lítið gagn. Þetta dæmi er eitt af þeim. Gálgahraunsvegurinn annað. Landspítalinn og Ingólfstorg það þriðja og fjórða.

    Hringbrautin á sínum tíma var eitt af þeim svo ekki sé minnst á Kárahnjúka og fl.

    Almennir borgarar setja sig inn í málin. Fá álit sérfræðinga og taka afstöðu oft með faglegum hætti. Þeir senda inn formleg vönduð erindi sem eru vel rökstudd.

    Kerfið telur athugasemdirnar sem geta verið fáar og margar, stundum á annan tug þúsunda en efnislega komasjaldan svör frá kerfinu

    Kerfið virkar þannig að það lendir í blindgötu og byrjar strax á að tala niður til þeirra sem gera athugasemdir eða koma með tillögur sem eru til bóta að þeirra mati. Segja þetta alt leikmannþankar sem viðkomandi hafi ekki vit á. Málið sé miklu flóknara en þeir geti skilið. Þeir taka sér sérfræðingavald sem enginn hefur fært þeim. Afleiðingin er að öll umræða er til einskis.

    Kerfið lætur hjá líða að svara faglega eða svarar bara alls ekki. Ef kerfið tæki fagnandi allri gagnrýni og setti á vogarskálarnar „kostir og gallar“ og reyndi að ná einhverjum sáttum við hinn áhugasama almenna borgara væri heimurinn annar.

  • Hrafnhildur Brynjólfsdóttir

    Umferð er það eiginlegt að fara á milli staða – ekki fram hjá þeim. Hjáleiðir fyrir Borgarnes og Selfoss myndu hafa meiri neikvæð áhrif en jákvæð, fyrir utan að vera bæði dýrar og óarðbærar framkvæmdir fyrir litla umferð.

    Efri myndin fyrir Selfoss er svolítið villandi. Hún sýnir hjáleiðina fara út fyrir bæinn á Selfossi, en með því að skoða aðalskipulag Árborgar og Flóahrepps má sjá að búið er að skipuleggja þéttbýli með hjáleiðinni alla leið. Hjáleiðin yrði þess vegna þjóðvegur með 90 km hámarkshraða sem er fordæmalaust innan þéttbýlis. Augljóslega yrði það ekki umhverfi með bæjarbrag sem tæki tillit til allra vegfarendahópa.

    Takk fyrir pistilinn.

  • Þakka þér fyrir þessar myndir, hef oft velt því fyrir mér hvort ekki sé hægt að breyta þessum vegastæðum.

    Það yrði sannarleg bót ef hægt væri að fara í þessar framkvæmdir, en einhvernvegin grunar mig að skipulagsvinnan myndi stoppa á vegabúllupólitík þ.s. hagur af sölu hamborgara og pulsum af starfsfólki á lágmarkslaunum yrði álitin vega hærra en þjóðhagsleg hagkvæmni framkvæmdanna. Gott dæmi vegabúllupólitík er nálgun húnvetninga í sínum skipulagsmálum.

  • Ólafur Helga

    Góð umræða. Þetta er stærra mál en margan grunar.

  • Guðmundur Einarsson

    Góð grein í Mogga um þetta efni hjá þeim Ólafi og Ragnari Frank.

    Manni dettur í hug fyrirhugaðar vegaframkvæmdir í Gálgahrauni þegar þessi setning er lesin:

    „Hann segir einnig það sé löngu kominn tími til að láta af þessum stórmennsku vegaframkvæmdum“.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn