Þriðjudagur 19.11.2019 - 11:45 - Rita ummæli

Borgarskipulagið vaknar.

 

Það er ánægjulegt að verða var við að skipulagsyfirvöld í Reykjavik séu að átta sig á grundvallaratriðum fræðanna um borgarskipulag. Þau hafa um nokkurra ára bil álitið skynsamlegt að beina öllum  fjölmennustu vinnustöðunum  inn í miðborgina. Það var einkum rökstutt með því að þannig væri hægt að leysa helstu samgönguvandamál borgarinnar.

Þessi skipulagshugmynd er auðvitað á misskilningi byggð og á það hefur verið bent um margra ára skeið. Ef grannt er skoðað gerir gildandi aðalskipulag Reykjavíkur ráð fyrir því að atvinnutækifærum sé dreift um línulega Reykjavík meðfram svokölluðum „þróunarás“ frá miðborginni að Keldum.  Borgin hefur ekki stutt þetta góða markmið skipulagsins í verki.  Nægir þar að nefna staðsetningu Landspítalans í miðborginni. byggingu höfuðstöðva Landsbankans og fl.

Nú bregður svo við að þegar finna á nýjan stað fyrir fjölmennan vinnustað í miðborginni, sem er Tækniskólinn, vakna menn. Þeir eru ekki að velta fyrir sér að byggja við hann og stækka á núverandi stað á Skólavörðuholti, eða finna honum nýja lóð í miðborginni eða í nágrenni hennar. Nei, þeir vinna faglega og halda sig við eina af meginstoðum AR2010-2030 og vilja finna honum stað á þróunarásnum við hinn enda upphaflegu borgarlínu aðalskipulagsins á landinu í Ártúnsholti. Þar ná þeir fram þrem markmiðum aðalskipulagsins. Styrkja hugmyndina um línulega borg, bæta farþegagrunn borgarlínunnar í báðar áttir og draga úr einkabílaumferð

Skipulagsfulltrúi borgarinnar segir, svo vitnað sé til hans í Morgunblaðinu í morgun að „Tækniskólinn á Ártúnsholti, einu helsta þróunarsvæði borgarinnar, myndi skapa feiknarlega spennandi tækifæri fyrir heildarskipulag og framtíðarþróun Reykjavíkurborgar“ Þetta er vel mælt og eins og allir vita í fullu samræmi við stefnumótun sem mörkuð var í AR2010-2030 en hefur ekki verið fylgt eftir af nægjanlegri festu eins og flestir vita, fyrr en kannski nú.

Nú þurfa menn að lyfta sér svona 5 kílometra upp í loftið og horfa á borgina ofanfrá.  Þá blasa við mistök og tækifæri. Í þessu sambandi ættu borgaryfirvöld að brjóta odd af oflæti sínu og finna nýrri samgöngumiðstöð stað við Elliðaárósa þar sem allar helstu stofnæðar höfuðborgarsvæðisins mætast í stað þess að hanga á gömlum hugmyndum, sem aldrei voru góðar, og byggja slíka miðstöð á fullnýttri Hringbraut og stuðla þannig að enn meir þrengslum og vandræðum  í umferðinni þar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn