Þriðjudagur 23.07.2013 - 16:21 - 24 ummæli

Borgarsýn 06 – ný byggð í Skerjafirði

Skerjafjörðurlett

Eitthvað merkilegasta framtak umhverfis og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar undanfarin misseri er útgáfa hefta sem bera nafnið Borgarsýn.  Þetta eru rit sem allir ættu að kynna sér sem áhuga hafa á skipulagsmálum. Á dögunum kom út hefti númer sex í röðinni og ber heitið “Borgarsýn 06”

Þetta er bæði upplýsandi og fróðlegt rit þar sem kallað er á umræðu.

Það er þrennt sem er sérstaklega athyglisvert í nýjasta heftinu. Í fyrsta lagi könnun um húsnæðis- og búsetuóskir borgarbúa. Í öðru lagi grein um yfirstandandi gerð hverfaskipulaga og loks stutt grein um nýja íbúðabyggð í Skerjafirði.

Síðastnefnda greinin vakti sérstaka athygli mina. Það var einkum vegna eftirfarandi setningar sem er í samræmi við þá meginhugmynd sem verðlaunatillaga Graeme Massie gerði ráð fyrir:

“Heildarskipulag Vatnsmýrarinnar einkennist af þéttum og fjölbreytilegum borgarkjarna sem samanstendur af mishárri randbyggð með blandaðri notkun. Verslun. Þjónusta,menning, og afþreying verði aðgengileg á jarðhæð en skrifstofur og íbúðir þar fyrir ofan”.

Ástæðan fyrir því að ég vek athygli á þessu er sú að ég óttast að þessum markmiðum sé nánast ómögulegt að ná í nýrri byggð.

Ef horft er til þeirra skipulaga sem hugmynd Massie byggir á þá verður að horfa á þær í sögulegu samhengi. Ég held að það sé ekki hægt að bera þessi meira en 100 ára gömlu randbyggðarskipulög (Barselona, Glasgow, Kaupmannahöfn og víðar) við eitthvað sem áformað er á næstu árum hér í borg og kemur þar margt til. T.a.m. næst aldrei fram svipuð félagsleg samsetning íbú í nýrri byggð og  í aldagamalli byggð.

Ég vil drepa á öðru atriði sem skiptir hér máli.

Fólk átti almennt ekki bíla fyrir 100 árum og alls ekki fyrir 130 árum þegar fyrirmyndirnar voru byggðar. Þess vegna voru allar verslanir og markaðir í göngufæri frá heimili. Sama átti við um mikinn hluta atvinnutækifæra. Uppúr miðri síðustu öld varð einkabíllinn almenningseign og fólk gat ferðast lengri leiðir til þess að sækja þjónustu og atvinnu. Þá hófst hningunartímabil þessarra hverfa. Húsaleiga í gömla verslunarhúnæðinu á jarðhæðum féll niður í nánast ekkert.

Í þetta ódýra húnæði komu allskonar einsmannsfyritæki og fjölskyldufyritæki. Þessi fyritæki voru rekin í húsnæði sem var leigt eða selt á mjög lágu verði eða að húsnæðinu var breytt í mjög slæmar íbúðir eins og gerst hefur víða í Reykjavík undanfarin ár. Í þetta  húsnæði komu sér fyrir listamenn, skósmiðir og lítil verkstæði og veitingahús. Þetta eru fyritæki með litla veltu og eru flest rekin frá hendinni til munnsins með engum hagnaði og oft ekki einusinni með hagnaðarvon.

Ein af ástæðunum fyrir líflegu götulífi gömlu randbyggðarhverfanna í borgum Evrópu má rekja til þess að einkabíllinn er á undanhaldi þannig að samgöngur eru að mestu að verða eins og á þeim dögum sem þau voru byggð, þ.e.a.s. fótgangandi, hjólandi og með almenningsflutningakerfi.

Ný randbyggð getur ekki boðið uppá nánast ókeypis húsnæði á jarðhæð. Það er bara þannig eins og dæmin sanna. Ég tala nú ekki um ef selja á lóðirnar á svo háu verði að hægt sé að byggja nýjan flugvöll annarstaðar fyrir andvirðið.

Það er búið að margreyna nýja randbyggð með þá sýn sem fram kemur í tilvitnaðri setningu úr Borgarsýn 06. Það hefur aldrei tekist að töfra fram það andrúm sem við þekkjum víða í gömlu borgunum í Evrópu á nýbyggingarsvæðum.

Ég nefni Albertslund (1965) nálægt Kaupmannahöfn. Þar varð húsnæði í nýja hverfinu  svo dýrt að enginn smákaupmaður, skósmiður eða reiðhjlólaverkstæði hafði efni á að reka fyrirtæki sitt þar. Plássin leigðust ekki út og stóðu tóm síðast þegar ég vissi, 30 árum eftir að það vat byggt.

Svo maður færi sig nær í tíma og skoðar Sluseholmen (2006-2008) í Kaupmannahöfn þar sem allir færustu arkitektar Danmerkur teiknuðu sín hús í randbyggðinni. Þó þeir sem þar búa séu almennt ánægðir þá er sú byggð ekki á nokkurn hátt lík randbyggðinni í gömlu borgarhlutunum. Í Sluseholmen eru fáir á gangi (allir aka beint niður í bílakjallarann) og verslun er ein (síðast þegar ég gekk þar um var þar ein IRMA verslun) og hverfisknæpan hundleiðinleg vegna fámennis og einsleits viðskiptamannahóps.

Svo getum við fært okkur til Reykjavíkur og skoðað bryggjuhverfið við Grafarvog sem vissulega er skipulagt sem randbyggð þó ekki sé það með grindarskipulagi eins og fyrirhugað er í Vatnsmýri. Þar er heldur enginn á gangi (allir í bílakjöllurum) og húsnæði fyrir verslun og þjónustu notað til annars.

Það hefur ekki tekist að ná upp götulífi gömlu borganna í Sluseholmen og ekki í Bryggjuhverfinu við Grafarvog og ég óttast að það muni ekki heldur takast í nýrri Skerjafjarðarbyggð.

Endilega kynnið ykkur BORGARSÝN 06 sem hægt er að nálgast á þessari slóð: http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/frettir/2013/Borgarsyn_06_2013_03.pdf

Efst er skönnuð mynd úr Borgarsýn 06 sem sýnir hvernig ný byggð í Skerjafirði gæti hugsanlega litið út. Að neðan kemur ein mynd af skipulagi Barcelona sem er að vissu marki fyrirmynd randskipulaga í dag ásamt Glasggw, Kaupmannahöfn m.m. Síðan koma tvær myndir úr Súseholmen í Kaupmannahögfn. Annarsvegar skipulagið og hinsvegar ljósmynd af þeim veruleika sem blasir við. Neðst síðan kemur ein mynd af bryggjuhverfinu í Grafarvogi.

3381968e52fd6ebfa1e4fb2a50155de2

Sydhavnen

 

797px-Sluseholmen_canal_scenelett

 

7158869690_e204243f96_z

 

e606539_2Acut

Bryggjuhverfið í Grafarvogi er vissulega skemmtilegt og góður staður að búa. En markmiðin um  randbyggð með blandaðri notkun svo sem verslun, þjónustu, menningu og afþreyingu á jarðhæð gengu ekki eftir. Nú er verið að breyta þessu þjónustuhúsnæði í íbúðahúsnæði og bjóða það til sölu. Ég veit ekki hvort líklegt sé að þessi markmið gangi frekar eftir í Vatnsmýrarskipulagi skotanna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (24)

  • Guðjón Erlendsson

    Er ég að skilja rétt að Randbyggð sé orð fyrir Grid kerfi. Ætti kannski ekki að kalla þetta Reitaskipulag?

    Ég á erfitt með að skilja þessi rök geng slíku kerfi. Þetta er kerfi sem þróaðist með þróun þéttbýlis og er nánast „náttúrulegt“ form borgarbyggðar. Ekki í rúðustrikuðu forminu, heldur í Reitakerfi sem stundum fylgir náttúruformum, og stundum öðrum ákvörðunum. Það var síðan í byrjun síðustu aldar sem menn fóru að koma upp með nýjar hugmyndir um borgarskipulag, annarsvegar byggðum á útópíu Garðborgarinnar og hins vegar á verksmiðjuskipulagi módernismans. Útkoman var hverfaskipulag (zoning) og úthverfastefna. Aðal festipunktur þessara skipulagshugmynda var einkabíllinn, og aðal stefnan var að leysa umferðarhnúta fyrir þá, frekar en að gera gott umhverfi fyrir manneskjur.
    Bókin „Delirious New York“ slóg hugmyndafræðilegan nánagla á þessar módernisma hugmyndir, og samgönguvandamálin hafa leitt til rökrænnar endurskoðanar. Vandamálin sem komið hafa upp vegna þessa skipulagshugmynda eru svo mörg að þau gætu fyllt nokkrar bækur.

    Grid skipulag er lýðræðilegt skipulag. hver reitur getur verið hannaður með eigin sérlausn. Umferðin hefur möguleika á að velja sínar eigin leiðir. Ef ein gata er stífluð, þá er hægt að velja þá næstu. Módernismaskipulagið leifir slíkt ekki í sínu „tré-gatnaskipulagi“.
    Spurningin um það hvort að verslanir og þjónusta gangi á jarðhæðum er einnig spurning módernismans. Í lýðræði reitana, þá þróast það að sjálfum sér. Ef það er mikil umferð fólks (ekki bara bíla) þá mun verslun spretta upp. Annars verður þar skrifstofa, eða smáiðnaður eða eitthvað annað. Þetta er það sem kallast á útlensku „Self organization“.
    Það þarf bara að ganga um hverfi miðborgarinnar til að sjá hvernig slík þróun á sér stað.

    Það er hins vegar hægt að rökræða um form þessa reitaskipulags. Ætti það að vera rúðustrikað, eða hringsrikað, eða t.d. fylgja landforminu á staðnum. En hægt er að færa rök með eða á móti þeim öllum.

    Ég held að þessi krítík á skipulagið hafi meira með flugvallarást að gera en skipulagið sjálft.

    • Hilmar Þór

      Ég hef ekki séð eða skynjað að menn hafi eitthvað á móti randbyggð sem slíkri og hvort heldur hún sé í einhverjum reitar eða „grid“ kerfi. Randbyggð getur haft margvísleg form.

      Það sem er verið að segja er að efasemdir eru um hvort ný randbyggð geti náð þeim markmiðum sem sett eru fram í sjöttta hefti Borgarsýn sem er eftirfarandi:

      “Heildarskipulag Vatnsmýrarinnar einkennist af þéttum og fjölbreytilegum borgarkjarna sem samanstendur af mishárri randbyggð með blandaðri notkun. Verslun. Þjónusta,menning, og afþreying verði aðgengileg á jarðhæð en skrifstofur og íbúðir þar fyrir ofan”.

      Ég veit að þú, Guðjón Erlendsson, ert afskaplega vel að þér um arkitektúr og skipulagsmál og spyr þig því hvort þú þekkir til þess að þessi markmið hafi náðst í nýjum randbyggðarhverfum einhversstaðar?

      Og að lokum tek ég fram að ég er fylgjandi því að flugvöllurinn fari um leið og önnur lausn er fundinn á samgöngum höfuðborgarsvæðisins í lofti og segi og skrifa að hugleiðingar um þennan þátt skipulagsins hefur ekkert með það að gera hvort flugvöllurinn fari eða veri. Pistillinn fjallar um umrætt markmið í randbyggðarskipulagi almennt og breytir þar engu hvort til umræðu er Bryggjuhverfið, Sluseholmen eða hvað annað randbyggðaskipulag.

  • Guðmundur Guðmundsson

    Stefán Benediktsson ;

    „Vandinn sem leysa þarf er að gera millitekjufólki kleyft að búa í þægilegri nálægð við þá vinnustaði sem það fyllir. Menn hafa notað margvísleg úrræði sem eru auðvitað misjöfn eftir því hvort um endurnýjun hverfa eða nýja uppbyggingu er að ræða. Aðalatriðið er að borgaryfirvöld hafi skýra stefnu, margvísleg úrræði og séu vakandi á vegasaltinu sem stjórn borgar er.“

    Þetta eru góðir punktar og vekja upp hugleiðingar og spurningar :

    Hver er birtingarmyndin fyrir þessa skýru stefnu og margvíslegu úrræði í húsnæðismálum höfuðborgarinnar ?

    Hingað til hefur byggingarmarkaðurinn snúist um að byggja dýrt og selja dýrara á Íslandi.

    Samtímis hefur allt frá stríðsárunum vantað ódýrt og örruggt leiguhúsnæði í borginni.

    Er stefnan enn sú sama og fyrir hrun, allir búa í eigin húsnæði ?

    Ætlar borgin eða sveitarfélögin að byggja ódýrt húsnæði fyrir milli og lágtekjuhópa , eins og tíðkast í nágrannalöndunum ?

    Ef ekki, hver á þá að koma þessu fólki í hús ? Munu Bankar og verktakar taka það upp hjá sjálfum sér að útvega ódýrt húsnæði ?
    Er borgin að bíða eftir því ?

  • Guðmundur

    Þakka góða umræðu hér og sérstaklega Gísla Marteini fyrir að fylgjast vel með. Það róar mann eftir yfirferð pistilshöfundar sem er nokkuð bölsýnisleg en rökföst.

  • Kristján Ásgeirsson

    Tek undir með Gísla Marteini ekki síst þetta með jaðrana, HR, HÍ, Nauthólsvík, Stúdentagarðar, Hótel Loftleiðir, íþróttasvæði Vals auk Landsspítalasvæðis, Perlunnar/Öskjuhlíðar og gamla miðbæjarins. Allt þetta gerir þetta svæði einstakt og ekki rétt að bera saman við t.d. Albertslund.

    Rétt er að geta þess í framhaldi af vangaveltum Harðar Péturssonar um staðsetningu og hvort ekki hefði verið betra að byrja við hinn enda brautar, að það er raunin, því það er þegar búið að samþykkja fyrsta áfanga af skipulagi Vatnsmýrar, sem byggir á verðlaunatillögu Massie og félaga, en það er Hlíðarendareitur, sem samþykktur var árið 2010.

  • Hörður Pétursson

    Hilmar bendir með réttu á mikilvæg atriði sem vert er að hafa í huga þegar hverfið verður loksins byggt. Ef ég skil pistilinn rétt þá er Hilmar að benda á hætturnar sem fylgja nýrri randbyggð, einvörðungu til að vekja athygli á yfirvofandi vandamálium svo læri megi af mistökunum og gerð voru t.d. í Bryggjuhverfinu. Hér er ekki verið að setja útá randbyggðartýpuna per se. Eða hvað? Ég bið Hilmar vinsamlegast að leiðrétta mig skyldi þessi túlkun mín vera röng.

    En í stað þess að sjá þetta sem vandamál væri þá ekki réttara að horfa á þettai sem áskorun, spennandi verkefni fyrir frumlega arkitekta að takast á við.

    Hafa ber í huga að hér blasir við nýr vandi fyrir okkur arkitekta að glíma við. Að teikna „klassískt“ borgarumhverfi hefur ekki helsta viðfangsefni íslenskra arkitekta síðustu áratugi. Skynja ég eilítinn skjálfta í mönnum? Blásandi útum nefið, bölvandi yfir dýpt, hæð og notkun á jarðhæð. Réttara væri að taka tækifærinu fagnandi. Loksins fáum við á að byggja hér (vísi að) borg.

    Í Reykjavík má vel byggja fjölbreytta randbyggð og leggja þar með grunninn að lifandi byggð sem getur aðlagað sig bæði að núverandi og komandi byggð, og þegar til lengri tíma er litið, myndað sterka borgar heild.

    Ef við viljum hinsvegar einblína á „borgarsneiðina“ sem er til umfjöllunar í Borgarsýn 6, þá er einangruð staðsetning eitthvað sem gæti verið vandamál fyrst um sinn. Hefði verið vænlegra að byrja við hinn endann á brautinni? Þar nyti hverfið a.m.k. stuðnings borgarinnar mun betur en svona hálfklemmt á milli svefnhverfisins og flugvallarins.

    • Mjög góðir punktar! Vildi bara nefna að við hinn enda brautarinnar er valssvæðið, sem einnig stendur til að byggja á fljótlega. Það er ekki síður áhugavert svæði og kemst vonandi af stað innan árs.

    • Hilmar Þór

      Jú Hörður þú skilur mig rétt. Randbyggð er margreynd skipulagshugmynd sem á oft við en ég held að væntingarnar séu of miklar hvað Vatnsmýrina varðar og vísa ég þar til skáletraða textans í pistliínum sem fenginn er úr umfjölluninni í Borgarsýn 06

  • Guðmundur Erlingsson

    Það má kannski geta þess að Eixample (svæðið í Barcelona þar sem Cerdà hannaði „grid“ skipulag sitt) leið líka fyrir einsleitni í samsetningu íbúanna vegna hás húsnæðisverðs til að byrja með. Hins vegar er þetta svæði orðið 100 ára gamalt eða meira, og hefur því fengið að þróast í aðeins lengri tíma en t.d. Bryggjuhverfið eða Albertslund. Það er ómögulegt að segja hvernig Bryggjuhverfið verður orðið eftir t.d. 50 ár. Annars er einsleitni alla jafna vandamál í nýjum hverfum. Eins og Jane Jacobs benti á er eitt af frumskilyrðum fyrir líflegum borgarhverfum að til staðar séu inn á milli gömul hús sem leigð eru eða seld á lægra verði en þau nýrri sem veitir færi á fjölbreyttari samsetningu íbúa og ýmis menning nær að blómstra (má t.d. benda á gömlu húsin við Laugaveg og jaðarmenninguna sem nær stundum rótum þar, t.d. Nýló, Grammið (og upp úr því Smekkleysa), o.s.frv.). Kannski væri ráð að leyfa fjölbreyttari gerðir byggingar í nýja hverfinu til að ýta undir að byggt sé ódýrara húsnæði með fjölbreyttari notkunarmöguleika, fremur en að skipuleggja það út í æsar, eins og manni sýnist tillaga skotanna gera.

  • Einkabíllinn drap næstum borgirnar á síðari hluta aldarinnar sem leið. Nú þegar einkabíllinn er á undanhaldi lifna borgirnar við, sérstaklega götulífið. Ein af forsendum götulífs er takmarkað framboð bílastæða og öflugt almenningssamgöngukerfi. Eigum við ekki að trúa því að það heppnist að ná slíkum forsendum fram áður en deiliskipulagið verður endanlega unnið?

  • Hilmar nefnir vandamálið. Það er einkabíllinn. Ströng ákvæði um fjölda bílastæða hefur áhrif á mögulegt framboð þjónustu við íbúa. Mun borgin hafa kjark og þor til standa í lappirnar og takmarka fjölda bílastæða? Aðkoma að svæðinu er takmörkuð á meðan flugvöllurinn er til staðar. Tenging HR við almenningsamgöngur hefur verið krítiseruð. Skólinn staðsettur í botnlanga. Verður sama upp á teningnum með byggð í Skerjafirði á meðan flugvöllurinn er til staðar? Ef takmarka á möguleika fólks til að eiga bíl svo þjónusta byggist upp verða aðrar lausnir í samgöngumálum að virka frábærlega.

  • Takk fyrir pistilinn Hilmar og fyrir öll þín frábæru skrif hér á síðuna.

    Af hverju að bera Reykjavík saman við Barcelona? Hvers vegna berum við Reykjavík ekki bara saman við Reykjavík? Markmiðið með byggð í Vatnsmýri er fyrst og fremst að bjóða fólki að búa nálægt atvinnukjörnum borgarinnar svo það ferðist síður eitt í bíl á leið til vinnu. Reynslan og rannsóknir sýna svo ekki verður um villst að fólk sem býr í Miðborg, Hlíðum og Vesturbæ ferðast með umhverfisvænni hætti en aðrir borgarbúar; strætó, gangandi, hjólandi. Það er vegna staðsetningar húsanna þeirra. (1 af 4 íbúa Miðborgarinnar hefur ekki einu sinni aðgang að bíl). Sama mun að sjálfsögðu gilda um íbúa Vatnsmýrarinnar, sem er umkringd þessum hverfum. Í hverfi 107 er mikið um ‘verslun, þjónustu, menningu og afþreyingu’ eins og talað er um í tilvitnuninni að ofan. Hví skyldi það ekki verða raunin í Vatnsmýrinni líka? Þar verða skólar, sundlaug?, kirkja?, háskólatengd starfsemi, hótel, stúdentaíbúðir, kaffihús, barir, frábær útivistarsvæði og fjölmargt annað sem færir líf í hverfið. Fyrir utan það sem þegar er í jöðrunum: HR, HÍ, Nauthólsvík, Stúdentagarðar, Hótel Loftleiðir, íþróttasvæði Vals osfrv. Hvers vegna þessi neikvæðni? Allir sem hafa áhuga á borgarmálum hljóta að hafa komið á ‘infill’ svæði þar sem iðandi mannlíf hefur náðst upp. T.d. hafnarsvæði víða um heim. Í Vatnsmýrinni munu búa ríflega jafnmargir og í gamla og nýja Vesturbænum samtals og þetta eru mjög lífleg hverfi, kannski þau líflegustu fyrir utan Miðborgina.

    Myndin sem er sýnd í Borgarsýn 06 er auðvitað til að koma ímyndunaraflinu á flug, en er ekki skipulagstillaga. Eins og kemur fram þar er framundan mikil vinna við forsögn og hönnun hverfisins í samræmi við heildarskipulag hverfis 102. Aðalatriðið er að við byggjum þétta og fallega byggð í anda þess sem gengið hefur svo vel í nærliggjandi hverfum borgarinnar. Lærum líka af því sem vel hefur verið gert erlendis. Þá tekst okkur að byggja í Vatnsmýri fallegt og þétt hverfi sem mun gera Reykjavík miklu umhverfisvænni, skemmtilegri og fallegri en ef byggt yrði utan núverandi byggðar, með tilheyrandi lífsgæðaskerðingu fyrir þá sem búa í okkar frábæru úthverfum í dag.

    • Hilmar Þór

      Ég þakka Gísla Marteini fyrir þáttöku hans í þessari umræðu. Ér ber mikla virðingu fyrir aðkomu hans að skipulagsmálum þar sem hann talar af mikilli þekkingu og ekki síður af ástríðufullum áhuga. Ég styð hann til allra góðra verka.

      Varðandi samlíkinguna við Barcelona og fleiri staði þá er hún ekki frá mér komin heldur hafa þessar borgir títt verið nefndar þegar fólk er að finna skipulagshugmyndinni í Vatnsmýri hliðstæðu.

      Tilvitnunin um skipulag skotanna sem birt er í Borgarsýn 06 lýsir heldur ekki ástandinu í Reykjavík í dag. Hvorki hverfi 107 né 101. Hinsvegar er ég sammála Gísla Marteini um að það er hugsanlega ágætt markmið að stefna að svipuðum og vonandi betri hverfum en þar eru nú. En ég er efins um að randbyggð skotanna sé rétta slóðin til þess að feta að þvi markmiði.

    • Snorri Gunnarsson

      Gísli Marteinn segir:
      „Markmiðið með byggð í Vatnsmýri er fyrst og fremst að bjóða fólki að búa nálægt atvinnukjörnum borgarinnar svo það ferðist síður eitt í bíl á leið til vinnu.“
      Það er eru flestir ef ekki allir sammála um að þétta þarf byggðina og stytta vegalengdir sem ferðast þarf til og frá vinnu. Réttilega hefur verið bent á að vinnustaðir séu flestir vestan Kringlumýrarbrautar en þunginn í íbúafjöldanum sé í austurborginni.
      Af einhverjum ástæðum sjá stjórnmálamenn og flestir sem hafa kennivald á sviði skipulagsmála þá lausn eina að flytja fólkið vestur eftir borginni, byggja í Vatnsmýrinni og á auðum svæðum í vesturborginni. Örfáir taka að sér hlutverk sakleysingjans og benda á hið augljósa, líkt og að keisarinn sé ekki í neinum fötum, að betri lausn er að flytja vinnustaðina nær íbúunum og byggja öflugan atvinnukjarna í austurborginni. Þetta hefur Sturla Snorrason gert sbr. http://midborg.blog.is/album/ny_borgarmidja/image/930588/ – þetta er að sjálfsögðu ekki skipulagstillaga en kemur hugmyndum á flug.
      Borgin hefur þegar þanið sig í austur (og reyndar norður og suður, líka því hafa verður í huga að Reykjavík er ekki eina sveitarfélagið í Borginni) og hún mun aldrei skreppa saman aftur. Borgin mun alltaf þekja það svæði sem hún gerir núna og stór hluti íbúanna mun eftir sem áður búa í Grafarvogi, Grafarholti, Breiðholti, Árbæ o.frv. (auk hinna sveitarfélaganna í Borginni). Vegalengdir til og frá vinnu munu ekki styttast í heildina fyrr en byggður hefur verið atvinnukjarni miðsvæðis í Borginni. Atvinnukjarninn þarf að vera þar sem vegalengd til vinnu er sem styst fyrir sem flesta. Í kringum Elliðaárósa sem er nærri þungamiðju byggðarinnar er mikið illa nýtt land sem býður upp á mikla möguleika. Svæðið er með veðursælli stöðum á höfuðborgarsvæðinu í skjóli frá Esju. Þar er má reisa atvinnukjarna auk íbúðabyggðar. Þetta er tilvalinn staður fyrir nýtt húsnæði Landspítalans. Öflugur atvinnukjarni við Elliðaársósa mun gera reiðhjól að raunhæfum samgöngukosti fyrir fleiri íbúa Borgarinnar en nú er.

      Mig grunar að ástæðan fyrir þessari miklu vesturborgaráráttu sem gætir í skipulagshugmyndum megi rekja til þess tíma þegar gamla miðborgin gekk í gegnum sitt hnignunarskeið. Þá vildu engir búa þar nema sérvitringar, fasteignaverð var lágt, hús voru í niðurníðslu, atvinnustarfsemi átti undir högg að sækja og hringiða skemmtanalífsins var í Ármúla og við Suðurlandsbraut. „Vandi miðborgarinnar“ var mörgum áhyggjuefni og brugðist var við með öflugri pólitískri stefnumótun, góðu heilli, sbr. Þróunaráætlun Miðborgar. Inn í viðhorf um endurreisn gamla bæjarins blandaðist sú skoðun að ekki mætti styðja við þróun annarra svæði í Borginni því það ýtti undir hnignun gamla miðbæjarins. Þess vegna t.d. voru slegnar út af borðinu hugmyndir um tónlistarhús í Laugardal. Ríkjandi hugmyndir fólu í sér að öll uppbygging þurfti að næra gamla miðbæinn. E.t.v. skemmdi umræðan um „Nýjan Miðbæ“ á sínum tíma fyrir. Hún virtist fela í sér að leggja ætti gamla miðbæinn af – það vill hins vegar enginn. Nýr öflugur atvinnukjarni í austurhluta borgarinnar verður ekki „Nýr Miðbær“ í þeim skilningi að hann leysi þann gamla af hólmi. Gamli bærinn er og verður alltaf hinn sögulegi miðbær og þar verður miðstöð stjórnsýslu, ferðamennsku, skemmtanalífs ofl. Sá tími kemur hins vegar aldrei aftur að borgarlífið allt hverfist um Lækjartorg.
      Nú er búið að bjarga gamla miðbænum farsællega (svona nokkurn veginn amk!). Nú er kominn tími til að stjórnmálamenn og skipulagshugsuðir hugi að Borginni sem heild.

      Að lokum vil ég þakka Hilmari bloggeiganda fyrir skemmtilegt, fróðlegt, fjölbreytt blogg.

    • Magnús Birgisson

      Tek undir með Snorra….

      Miðborgarblætið er að stefna skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu í öngstræti. Á sama tíma og kannanir sýna svo ekki verður um villst að fólk vill búa í blandaðri byggð ala Fossvogur og þar sem öllum samgöngumátum er gert jafn hátt undir höfði, þá eru borgaryfirvöld föst í sjálfsmiðaðri og gamaldags hugmyndafræði forsjárhyggjunnar sem að miklu leiti byggir á ranghugmyndum um í hvernig umhverfi fólk vill búa.

      Á sama tíma þenst byggðin út til allra átta í nágrannasveitarfélögum og borgaryfirvöld standa ráðþrota hjá og horfa á heilu kynslóðirnar flýja. Allt þetta fólk kallar síðan á fjárfestingu í samgönguinnviðum þegar það reynir að sækja vinnu sína útá nesið sem ranglega er í daglegu tali kallað „miðborgin“…

      Á svarið hennar Ingibjargar enn við þegar hún var spurð útí lóðaskortstefnuna fyrir 20 árum og svaraði því þannig að það væri ekkert markmið borgaryfirvalda að fjölga borgarbúum?

    • Ég er sammála Gísla Marteini og líkar málflutningur hans. Hann einkennist alltaf af bjartsýni og gleði. Menn eiga ekki að vera svartsýnir og óttst nýjungar í skipulagi.

  • Athugasemdir Hilmars eru algjörlega réttar og þurfa nauðsynlega umræðu á breiðum grundvelli.
    Helst má vænta lifandi heildarsvæðis í framtíðinni ef það fær að vaxa mjög hægt og rólega útfrá því sem þegar er lifandi:háskólahverfinu og miðbænum.Álíka og vinsælustu borgarhverfi Evrópu í dag fengu áðurfyrr að vaxa.

  • Hilmar Þór

    Ég bendi á athugasemdir Guðmundar, Stefáns od Guðl.Gauta og minni á að í frakandi er þjónusta íbúðahverfa svo mikið atriði að ef einkaaðili telur sig ekki hafa burði til að reka t.a.m. bakarí þá tekur bæjarfélagið keflið og rekur á sinn kostnað þá þjónustu sem lofað var í hverfaskipulaginu! Er Reykjavíkurborg tilbúin til þess í Vatnsmýrarskipulaginu

    • Hilmar Þór

      „í Frakklandi“ átti að standa. Biðst afsökunnar á því. Ástæðan er sú að ég skrifa á farsíma minn með klossuðum fingrum.

  • Hilmar vekur í þessum ágæta pistli m.a. athygli á óskhyggjunni sem lýsir sér í skáritaða textanum hér að ofan og greinir vel muninn á að byggja „gróið“ hverfi og hverfi sem hefur í raun gróið og þróast í tugi og hundruð ára. Þurfa menn ekki að fara að setjast niður og greina hver er munurinn á Reykjavík og Barcelona?

    Takið líka eftir muninum á mælikvarða nýju byggðarinnar og þeirrar eldri. Miðað við þéttingaraform skipulagsyfirvalda virðast þau hallast mjög að því að hærri hús og dýpri séu betri en lægri og grynnri. Liggja fyrir marktækar rannsóknir á búsetuóskum fólks og gæðum þeirra búsetuforma sem fyrir eru?

  • stefán benediktsson

    „Gentryfication“ (verðhækkun vegna jákvæðrar þróunar hverfa) er vel þekkt fyrirbæri. Skilgreint og rannsakað af Jane Jacobs fyrstri kvenna……..og manna. Vandinn sem leysa þarf er að gera millitekjufólki kleyft að búa í þægilegri nálægð við þá vinnustaði sem það fyllir. Menn hafa notað margvísleg úrræði sem eru auðvitað misjöfn eftir því hvort um endurnýjun hverfa eða nýja uppbyggingu er að ræða. Aðalatriðið er að borgaryfirvöld hafi skýra stefnu, margvísleg úrræði og séu vakandi á vegasaltinu sem stjórn borgar er.

  • Jón Ólafsson

    Þetta Vatnsmýrarskipulag er vissulega metnaðarfullt en ég spyr hvort það sé ekki of stórt og hvort áhættan sé ekki of mikil þegar ráðist er í svo einsleitt hverfaskipulag? Er ekki skynsamlegt að staldra við í nokkur ár(áratugi) og láta reyna á þennan Skerjjafjarðarhluta sem er á efstu myndinni?

  • þorgeir Jónsson

    Hjartanlega sammála því sem Hilmar er að benda á,

  • Guðmundur

    Það er vissulega að mörgu að hyggja. Bíð spenntur eftir frekari upplýsingum frá talsmönnum hinnar „nýju“ randbyggðar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn