Þriðjudagur 07.02.2012 - 08:50 - 4 ummæli

Börge Mogensen

Það eru ekki margir Danir sem ekki þekkja húsgögn Börge Mogensen. Þau eru áberandi á dönskum heimilum og í góðærinu hér á landi varð maður mikið var við  húsgögn hans í fjármálastofnunum.

Mogensen var menntaður húsgagnasmiður sem hélt áfram námi í Listiðnaðarskólanum  (Kunsthåndværkerskolen) og þaðan áfram á Konunglegu Listaakademíuna í Kaupmannahöfn. Hann leiddi hönnunarhluta FDB (de forenede danske brugsforeningar) sem þjónaði almenningi með ýmsar daglegar vörur og húsgögn.

Það sem einkennir hönnun Mogensen í mínum huga er virðing hans fyrir efninu sem oftast er timbur, leður og vaðmál. Það geislar svo af húsgögnunum efniskenndin, að manni finnst maður finna ilminn af leðrinu og timbrinu með því einu að horfa á ljósmyndir af verkum hans.

Börge Mogensen var kunningi Skarphéðins Jóhannssonar arkitekts og komu þeir félagar  að hönnun húsgagna í aðalbyggingu Búnaðarbanka Íslands  við Austurstræti á sínum tíma (1946-49) að  frumkvæði Gunnlaugs Halldórssonar arkitekts.

Þeir Mogensen og Skarphéðinn voru jafnaldara og samstíga. Báðir voru þeir fæddir árið 1914, báðir voru þeir húsgagnasmiðir, báðir gengu þeir í Listiðnaðarskólann og báðir stunduðu þeir nám við Listaakademíuna. Skarphéðinn lést 1970 og Mogensen tveim árum seinna árið 1972. 

Eins og áður sagði unni þeir að innréttingum fyrir Búnaðarbanka ‘islans þar sem Borge Mogensen hannaði nokkur laus skrifstofuhúsgögn. Þeirra á meðal voru skrifborð og skápar á skrifstofu bankastjóranna.

Ég kom að því að endurnýja þessi húsgögn fyrir allmörgum árum og voru þau í notkun  á skrifstofu bankastjóranna áður en Búnaðarbankinn var einkavæddur og nánast lagður niður og síðar settur á hausinn.  Þetta voru mjög vönduð húsgögn, vel smíðuð og vel hönnuð.

Ekki veit ég hvað þeir sem tóku við þessum gersemum gerðu þegar þeir tóku til við að innrétta skrifstofur sínar inn í Borgartúni undir heitinu Kaupthing.  Vonandi skipa þessi húsgögn verðugan sess í hinum endureista banka.

Best væri að finna þau í Hönnunarsafni Íslands  þar sem þeu eiga heima.

Börge Mogensen var fæddur 1914 og lést árið 1972.

Hjálagt eru myndir af nokkrum húsgagna Börge Mogensen sem fengnar eru á heimasíðu Epal.is. Neðst er ljósmynd af Mogensen sem lést aðeins 58 ára gamall. Efst er ljósmynd af spánska stólnum frá 1958

 

Sófi hannaður árið 1963

 Stóll 1942

Rimlasófi 1945

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Heimir Eggerz

    ég er með 6 stóla frá honum sem ég er gríðarlega stoltur af verst að maður getur ekki séð hvort þeir eru ekta eða ekki..

  • Það sem gerir þessa hönnun áhugaverða er að maður skilur hana. Maður skilur og sér hvernig tréð hefur vaxið, hvernig nautshúðin varð til og svo skilur maður hvernig húsgagnasmiðurinn og bólstrarinn hafa unnið sitt verk. Þetta er allt svo eðlilegt og vistvænt. Þetta sést ekki eða er ekki eins áberandi á húsgögnum sem eru í boði í dag. Sporgöngumenn Mogensen standa honum langt að baki. Og það sama á við um PH. Hinsvegar gegnir öðru máli um Arne Jacobsen sem var auðvitað frábær á sinn hátt. En hann er nútímalegri og meira fyrir allskonar tækni og gerfiefni.

  • Sammála Guðmundi með tenginguna við Ísland. Sjálfur á ég tvo íslenska stóla. Fékk þá í arf og lét bólstrara yfirfara og yfirdekkja til að koma þeim í „upprunalegt“ stand.

    Hefurðu hugsað þér að fjalla eitthvað um sögu íslenskrar húsgagnasmíði?

  • Guðmundur G

    Skemmtileg tenging við Ísland sem ég að minnstakosti hafði ekki hugmynd um.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn