Föstudagur 27.10.2017 - 15:58 - 4 ummæli

BORGIN – heimkynni okkar.

 

 

Ég var rétt í þesu að ljúka við einstaka bók um borgir og borgarskipulag: „Borgin – heimkynni okkar“. Bókin er skrifuð af heimspekingi og/eða bókmenntafræðingi annarsvegar og verkfræðingi hinsvegar.

Að bókinni komu hvorki arkitektar né skipulagsfræðingar.

Þó eða kannski einmitt vegna þess að höfundarnir koma úr tveim ólíkum áttum verður bókin sérlega áhugaverð og laus við kreddur og klisjur sérfræðinganna. Það er líka nokkuð víst að ef verkfræðingurinn hefði staðið einn að verkinu hefði það orðið annað og sama má segja um ef heimspekingurinn hefði einn skrifað þetta hefði bókin orðið enn önnur.

Helsti styrkur bókarinnar felst einmitt í því að þarna mætast verkfræðin og heimspekin þannig að maður tekur ekki eftir því.  Allt fléttast saman í eina rennandi heild þar sem skrifað er á lipru máli sem allir skilja.

Þetta leiðir hugann að því að oft eru bestu og áhrifamestu greinarnar og aðgerðirnar í borgarmálum einmitt komnar frá leikmönnum. Eitt frægasta og áhrifamesta dæmið er Jane Jacobs sem var aðgerðarsinni í New Yourk á sjötta áratug  síðustu aldar.  Það er nokkuð fjallað um hana í „Borgin – heimkynni okkar“. Jacobs skrifaði fræga bók sem hafði mikil áhrif og hét „The Death and Life og Great American Cities“.

Ég fyrir minn hlut las bókina nánast eins og spennusögu þar sem átökum milli hugmynda er lýst á fordómalausan hátt og út frá mismunandi sjónarmiðum. Þeim er lýst þannig í bókinni að maður finnur til með þeim öllum eins og um persónur í skáldsögu væri að ræða. Maður öðlast skilning á þeim og uppruna þeirra og finnur fyrir nærveru þeirra og hugarþeli. Maður skilur líka af hverju hugmyndirnar urðu til og af hverju þær nutu hylli og maður öðlast skilning á því hvers vegna þær urðu að láta í minni pokann.

Bókin fjallar að mestu um borgirnar undanfarna rúmu öld með garðborgunum, modernismanum í skipulagi, new towns og þar fram eftir götum og alltaf er Reykjavík nærri þó hún sé ekki alltaf sögusviðið.

Bókin er skrifuð af Hrund Skarpéðinsdóttur umferðaverkfræðingi sem starfar í Svíþjóð og Hjálmari Sveinssyni formanni umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Það er aldeilis ótrúlegt hvað allur textinn er lipur og áreynslulaus og að ekki er nokkursstaðar að finna að þarna haldi stjórnmálamaður og verkfræðingur á penna. Þetta er allt mjúkt og auðskiljanlegt fyrir leika sem lærða. En það er eimnmitt oftast galli á skrifum sérfræðinga að þeir ná ekki athygli leikmanna. Þeir eru of uppteknir af sjálfum sér. T.a m. skrifa arkitektar og tala oftast eins og þeir séu að tala við aðra arkitekta. Sama á við um verkfræðinga og hagfræðinga.

Svo er annar áberandi kostur við bókina sem er að í henni eru engar myndir sem gerir það að verkum að lesandinn verður gagnvirkur eins og verið væri að lesa skáldsögu. Lesandinn þarf að búa til sviðsmyndirnar sjálfur. Þetta er óvenjulegt þegar um er að ræða bók af þessu tagi.

Ég á von á því að þessi bók verði mikið lesin og að stofnaðir verði leshringir í Háskolanum á Hvanneyri, Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands og jafnvel Listaháskólanum ef menn eru eitthvað að hugsa um skipulagsmál á arkitektúrdeildinni þar.

++++

Þegar ég var við nám í byggingalist og skipulagsfræðum fyrir 40-50 árum í Kaupmannahöfn óttuðust við að einkabíllinn mundi drepa borgirnar. Einkabíllinn ógnaði í raun og veru borgunum eins og flæestir vita. Við trúðum því að svo mundi fara. Ég hélt þessu fram þá og hef gert fram á okkar dag.  En þetta er allt „að reddast“ sýnist mér.

Dæmi um þetta viðhorf kom fram í tónlistinni sem við spiluðum í þá daga. Við vorum hippar og sungum með Dylan af plötunni Freewheeling frá 1963:

„I don´t have no sportscar

And I don´t even care to have one

I can walk any time around the block“

 

Og Kim Larsen og félagar hans í Gasolin óttuðust eins og við hin þarna uppúr 1970, að einkabíllinn mundi drepa borgirnar og við sungum með í laginu „Stakkels Jim“ sem sat einn eftir í borginni eftir að einkabíllinn var búinn að drepa hana og hugsaði til baka.:

Der lød en stille hvisken

Og tiden gik i stå

Den dag de stilled bilerne

Og gik bort på må og få

Nu vandrer de på sletterne

Og stammens gamle mænd

De synger op til stjernerne:

Lad det aldrig ske igen

På gaden i den døde by

Der sidder Stakkels Jim

I nattens mørke drømmer han

Om den tid, der var engang

++++++

Hér er slóð að lagi Gasolin. Myndefnið sem fylgir er svoldið í anda friðarsinnanna á áttunda áratugnum.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn