Laugardagur 01.07.2017 - 11:49 - 18 ummæli

Hundsar borgin álit Minjastofnunnar?

Nú hefur meirihlutinní Umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar ákveðið að virða að vetthugi mat dómnefndar á samkeppnistillögu um nýja studentargarða við Gamla Garð og umsögn Minjastofnunnar um tillöguna.

Þetta gerir meirihlutinn með eftirfarandi rökstuðningi. „Húsnæðisekla meðal stúdenta er brýnn vandi sem leita þarf lausnar á. Félagsstofnun stúdenta og Háskóli Íslands hafa af þvi hag að byggt sé upp á Háskólasvæðinu. Eðlilegt er að tillagan hljóti lögformlega auglýsingu.“

Í Dómnefndaráliti vegna keppninnar segir: „Dómnefnd þykir mikilvægt að unnið verði frekar með ásýnd byggingarinnar við frekari vinnslu í deiliskipulagsferli svo yfirbragð byggingarinnar samræmist betur aðliggjandi byggð“ sem þýðir að verðlaunin voru skilyrt og að þau þyrfti að vinna betur og aðlaga að núverandi umhverfi.

Minjastofnun telur  tillöguna bera með sér „veruleg og neikvæð umhverfisáhrif“ og telur lausnina „að öllu leyti óásættanlega“.

Umhverfis- og skipulagsráð velur þarna að ganga gegn þessum álitum hinna færustu manna sem vinna í umboði okkar allra.

Þar fyrir utan hefur tillagan verið mikið gagnrýnd á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum almennt. Það vekur líka athygli, ef rétt ert, að Háskóli Íslands, framvörður íslenskrar hámenningar skuli styðja þetta varklag og ganga gegn áliti Minjaverndar.

Minnihlutinn Umhvberfis- og skipulagsráðs óskaði eftir að skipulagið yrði ekki auglýst fyrr en vandlega væri búið að fara yfir athugasemdir Minjastofnunnar.

En því hafnaði meirihlutinn með fyrrgreindri bókun sem í sjálfu sér hefur ekkert með skipulagsmál að gera heldur skipulagsleysi og almennann lóðaskort í borgarlandinu.

++++

Ég hef haft miklar mætur á skipulagsmálum í borginni á flestan hátt þó eðlilega sé ýmislegt sem betur mætti fara. En ég hef aldrei orðið vitni að svo óvönduðum vinnubrögðum sem hér eru að eiga sér stað þar sem pólitískt kjörnir fulltrúar ganga svo berlega gegn helstu ráðgjöfum sínum.

Ef skipulagsuppdrátturinn að ofan er skoðaðaður sést að engu hefur verið breytt frá samkeppnistillögunni eins og dómnefnd setti skilyrðu um. Þvert á móti eru skýringarmyndir auglýstar til staðfestingar á því að svona skuli þetta líta út.

Þetta datt mér aldrei í hug að gæti gerst.

Ég átti von á að byggingareitir, húsahæðir og hugsanlega stærðir yrðu auglýstar en aldrei útlitsmyndir sem bæði dómnefnd og Minjavernd gera athugasemd við yrðu hluti af skipulaginu. Þessi sjónarmið fagaðilanna fá mikinn hljómgrunn í samfélaginu.

Svona gera menn ekki.

Þetta hlýtur eiginlega bara að vera einhver mistök.

++++

Ég verð í lokin að segja að Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar hefur staðið sig vel undanfarin sjö ár.

Þá er ég sérstaklega að tala um stóru línurnar.

Hið frábæra aðalskipulag Reykjavíkur, AR2010-2030, tekur á mjög veigamiklum málum á borð við þéttingu byggðar, samgögngumálum þar sem lagður er grunnur að samgönguás borgarinnar (Borgarlínunni),  hugmyndum um að draga úr útþennslu borgarinnar með áherslum á þéttingu í hennar stað og síðast en ekki síst hugmyndum um hverfaskipulag með áherslu á sjálfbær hverfi. Þar liggja meiri tækifæri en flesta grunar til þess að draga úr umferð einkabíla og fleira sem varðar mannvænt og heilsusamlegt borgarumhverfi.

Það sem ráðið þarf að leggja meiri áherslu á eru litlu atriðin sem varðar manneskjuna og daglegt líf milli húsanna.

Ásýnd borgarinnar,  arfleifðin og menningin hafa setið á hakanum. Þetta eru smáatriði sem skipta samt mjög  miklu máli, en ráðið hefur ekki legið nægajanlega mikið yfir þessum atriðum og ekki hlustað nægilega á grasrótina.

Ég nefni sem dæmi ásýnd Hafnartorgs, byggingar framan við RUV og það dæmi sem ég hef nú tekið til umfjöllunnar og fl.

++++

Að neðan eru tvo bréf. Annað segir frá bókunum minnihlutans í Umhverfis og slipulagsráði og hitt er umsögn Minjastofnunnar.

Endilega lesið þetta og rýnið í skipulagsuppdráttinn fyrir nýja stúdentagarða við Hringbraut og myndið ykkur skoðun og látið hana heyrast.

 

 

N´+u hefur

 

Ásýnd Gamla Garðs og Þjóðminjasafnsins við Hringbraut í dag. Götumynd sem er eitt af helstu kennileitum borgarinnar á nú að skemma vegna lóðarskorts að því er virðist.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Sigurður

    „Húsnæðisekla“ er ekki skipulagsrök. Þessi bókun ráðsins er „fúsk“ . Enda treystir Sverrir ráðsmaður sér ekki í umræðuna.

  • Sverrir B

    En hvað þykir þér efnislega um athugasemd Minjastofnunar Hilmar?

    • Hilmar Þór

      Sverrir Bollason.

      Það skiptir ekki máli hvað mér eða þér finnst efnislega um athugasemd Minjastofnunnar enda er það ekki efni pistilsins.

      Það sem hann fjallar um er afgreiðsla Umhverfis- og skipulagsráðs á málinu. Mín skoðun er sú að þið hafið ekki tekið tillit til bókunar dómnefndar um að lagfæra þurfi húsið og aðlaga það næsta umhverfi áður en deiliskipulagið er auglýst og hinsvegar hundsað umbeðið álit Minjastofnunnar sem nánast hafnar tillögunni.

      Það ferli sem ég hefði viljað sjá er að ráðið hefði beðið höfunda um að lagfæra tillöguna þannig að dómnefnd verði sátt og þeirri tillögu hefði síðan verið vísað til Minjastofnunnar að nýju eftir breytingu.

      Í framhaldinu færi svo vinna sem gengi út á að ná sáttum við dómnefnd, Minjastofnun og umhverfið. Þegar þeirri sátt væri náð er tilefni til að auglýsa skipulagið með nýjum skýringarmyndum. Ekki fyrr.

      +++

      En úr því að þú spyrð mig um hvað mér finnst efnislega um athugasemd Minjastofnunnar og skilyrði dómnefndar, þó það komi ekki efni pistilsins beinlínis við, þá er ég sammála dómnefnd um að lagfæra þurfi tillöguna og aðlaga að umhverfinu.

      Ég er líka sammála Minjavernd um að tillagan feli í sér veruleg og neikvæð umhverfisáhrif þar sem listrænni heildarmynd er raskað með varanlegum hætti.

      En þessi skoðun mín skiptir ekki máli. Hinsvegar skiptir máli skoðun dómnefndar og Minjastofnunnar of framhjá þvi finnst mér ráðið ekki geta gengið.

      Afgreiðsla ráðsins olli mér vonbrigðum vegna þess að ég ber mikið traust til ráðsins og ber mikla virðingu fyrir því.

      Dómnefndin olli mér líka vonbrigðum þegar hún setur þessi skilyrði en fylgir þeim ekki eftir.

    • Sverrir B

      Mér finnst það nú skipta töluverðu máli því mér finnst að það verði að mega rýna athugasemdir með rökum.
      Það er hins vegar ekki alveg rétt sem þú segir að tillagan hafi ekki tekið breytingum frá keppninni. Það hafa verið gerðar breytingar á bæði legu byggingarinnar og hæð frá því sem var í samræmi við athugasemdir dómnefndar.

    • Hilmar Þór

      Já já, Við getum báðir haft skoðun á þessu og eigum að hafa hana. Skoðun okkar skiptir líka máli en ég fyrir minn hlut kem ekki formlega að málinu eins og Minjavernd og dómnefnd. En það gerir þú sem skipulagsráðsmaður og þín skoðun skiptir þess vegna meira máli en mín.

      En þegar öllu er á botninn hvolft þá er ekki bara eðlilegt að skipulagsráð taki tillit til Dómnefndar og Mingjaverndar heldur ber þeim að gera það í umboði almennings og stuðla að því a’ gæta hagsmuna hans eins og Minjavernd og dómnefnd gerir. Ef ekki þá þarf að leggja fram þung og sannfærandi rök fyrir öðru.

      Svo í lokin. Getur þú skýrt betur út fyrir mér og lesendum nákvæmlega í hverju þessar lagfæringar sem þú nefnir voru fólgnar. Ég kem ekki auga á þær enda ekki með öll gögnin undir höndum. Og svo þarf endilega að opinbera rök fyrir þvi að fara ekki að ráðurm Minjastofnunnar og dómnefndar og mikils hluta almennings, en þið vinnið í þeirra umboði.

  • Björn H. Jóhannesson

    Leiðrétting:
    Hártoga má hvort sú tillaga, sem var skipað í 1. sæti uppfyllli. A, B og C ,en hún uppfyllir ótvírætt engan veginn lið D. D kemur í stað A.

    Allar tillögurnar eru á athugasemdárbloggi Hilmars 15.06.2017.

  • Björn H. Jóhannesson

    Í samkeppnislýsingu fyrir samkeppni um nýbyggingu að stúdentagarði við Gamla Garð stendur.

    A “ Að byggingin falli vel að umhverfi sínu og skyggi sem minnst á aðliggjandi byggingar þ.m.t. Gamla Garð og Háskóla Íslands”.
    B “ Einnig skal hafa í huga , að samnýta megi byggingar að öllu leyti eða að hluta með Gamla Garði, t.d hvað varðar aðgengi og öryggi og móttöku”.
    C “ Við hönnun skal huga að hagkvæmni í byggingu og rekstri”.
    D “ Fjöldi herbergja skiptir máli hvað varðar rekstrarhagkvæmni og skal tillagan taka mið af því “.

    Hártoga má hvort sú tillaga, sem var skipað í 1. sæti uppfyllli. A, B og C ,en hún uppfyllir ótvírætt engan veginn lið A.

    Í keppnislýsingu er gefið að hámarksstærð byggingar sé 3500 m2.
    Ómögulegt er að túlka lið D á annan hátt en beðið sé um sem flest herbergi að öðru jöfnu.
    Með ofangreint í huga setti ég fram svar mitt við keppnislýsingu.
    Tillaga mín, merkt. 72592, er 3499 m2 ( sjá má allar tillögurnar á vef þessum í athugasemd sett inn af Hilmari ) og herbergin eru 110, flest allra þeirra sem bárust í samkeppninni, 40 prósent fleirri en vinningstillagan, sem er 3248 m2 og herbergin eru 78.
    Hefði ég gert tillögu með 78 herbergjum hefði ég getað gert tillögu að byggingu, þar sem sýn í vestur að Gamla Garði væri meiri en annars, sem var einmitt annar aðalþáttur samkeppninnar um nýbyggingu við Gamla Garð.
    Það er ekki að sakast við 1. verðlaunahafa hvernig dómur féll.
    Gerðu reyndar mjög góða tillögu í samkeppni um skifstofuhús fyrir Alþingi.
    Í samkeppnislögum A.Í. stendur að framkvæma megi hvaða tillögu sem er, en þá verði að borga vinningshafa 1. verðlauna upphæð, sem sé til jafns við 1. verðlaun.
    Það er náttúrulega ekki óskastaða dómnefndar.
    Að sjálfsögðu er ég ekki að gera tilkall til að hafa átt að hljóta verðlaun.
    Hins vegar hef ég verið leysa verkefni sem á sér stoð í keppnislýsingu, en ekki hjá dómnefnd , sem þó er bundin henni og það er tímaþjófnaður vægast sagt.
    Skrítið finnst mér.

    Ég ætla að lesa sögu Orwells 1984 á ný til að kynna mér Newspeak sem virðist vera að fara í endurnýjun lífsdagana til að vera betur liðtækur í samfélagsumræðu: Stríð er friður, svart er hvítt segir þar.

  • Stefán Örn Stefánsson

    Það er þá ekki í fyrsta sinn sem skipulagsyfirvöldum Reykjavíkurborgar tekst að eyðileggja skipulag Háskólasvæðisins og ekki í fyrsta sinn sem Háskólinn eða Háskólaráð situr hjá eða öfugt, fyrst var það skeifa Guðjóns og næst var það skipulag skipulag Aaltos og svo koll af kolli í umgjörð Norræna hússins, hver klumpurinn við annan, nema í þetta sinn á að bæta um betur svo um munar. Ósköp er þetta nöturlega fátæklegt og meiningarlaust.

    • Einmitt.!
      Af hverju situr Háskólaráð hjá? „…. Háskóli Íslands, framvörður íslenskrar hámenningar skuli styðja þetta verklag og ganga gegn áliti Minjaverndar.“

  • Friðjón Guðjohnsen

    Í þessu máli hefur komið fram ákveðinn misskilningur um hlutverk Minjastofnunar Íslands. Hún hefur það hlutverk að stuðla að verndun menningarminja og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða.

    Stofnun fer hins vegar ekki með skipulagsvaldið það liggur hjá sveitarfélögunum. Það er vandséð að það falli undir hlutverk stofnunarinnar að vara við „verulegum og neikvæðum umhverfisáhrifum“ á „listrænt mikilvægar skipulagsheildir“ eins og fram kemur í bréfi hennar.

    Nú getur auðvitað verið að stofnunin telji þessa „listrænt mikilvægu skipulagsheild“ vera einhversskonar menningarminjar sem verður að vernda. Þá hefur stofnunin skv. lögum heimild til að skyndifriða þessa skipulagsheild (þ.e. 20. gr. laga nr. 80/2012). Ég tel nú samt frekar ólíklegt að stofnunin leggi í slíkt því það er erfitt að sjá fyrir sér að hugtakið skipulagsheild falli undir slíkar menningarminjar sem stofnuninni er falið að stuðla að verndun á.

    Og það er akkúrat kjarni málsins, er „listrænt mikilvæg skipulagsheild“ menningarminjar sem er þess virði að vernda?

  • Magnús Skúlason

    Eitt er að fara ekki að áliti Minjastofnunar, hitt er að bjóða upp á sama útlit og hefur tröllriðið byggingum um áraraðið nokkurs konar „hollensk sósa“ sem ekkert tillit til tekur til umhverfisins eða þeirra húsa sem fyrir eru.
    Hvar er arkitektastéttin stödd?

  • Hrokafullur hugarheimur þessara örfáu fulltrúa allra borgabúa Reykjavíkur er magnaður.Þeir staðhæfa,að vegna húsnæðiseklu meðal stúdenta sé“eðlilegt“ að framvæma óbreytta tillögu án tilits til þeirra vankanta,sem ráðgjafar þeirra benda á. Um er að ræða augljósa galla og málefnið skýrt fyrir allar vitsmunaverur.
    Döpur tíðindi fyrir Háskólasvæðið og borgina alla.

  • Þorbjörn.

    Er borgin ekki að flýta sér of mikið? Liggur svona mikið á? Má ekki lenda þessum ágrenningi við Minjastofnun fyrir auglýsingu? Ég skil það þannig að Umhverfis- og skipulagsráð auglýsir bara það skipulag sem ráðið er sátt við. Eða er það misskilningur?

    • Hilmar Þór

      Jú Þorbjörn. það hefur oftast verið þannig að skipulag er fyrst auglýst þegar sátt er um það í ráðinu og menn eru sammála um lausnina sem er auglýst og kynnt.

  • Pétur Örn Björnsson

    Til viðbótar góðum pistli þínum Hilmar má svo minna enn og aftur á þarfan pistil Egils Helgasonar um málið:

    http://eyjan.pressan.is/silfuregils/2017/06/18/klastrad-framan-vid-haskolann/#comments

  • Pétur Örn Björnsson

    Vissulega er húsnæðisekla og brýnt að bæta úr henni, en af hverju þarf að troða þessu mikla byggingarmagni alveg ofan í og nánast þannig að um nauðgun á Gamla Garði sé að ræða?
    Nóg er af plássi víðar á háskólasvæðinu þar sem þessar nýbyggingar færu miklu betur.

  • SveinnGuðmundsson.

    100% sammála.
    þarna eru eihver mistök að eiga sér stað.
    Það þarf vissa hæfileika til að geta skammað sama aðilann um leið og honum er hælt. Þetta geta þeir sem þekkja muninn á manninum og boltanum.
    Takk

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn