Miðvikudagur 29.07.2015 - 17:00 - 9 ummæli

BRT – Samgönguás Reykjavíkur?

Indy-Connect_Explaining-BRT

Nú er fólk að stinga saman nefjum og velta fyrir sér hvaða samgöngukerfi henti fyrir samgönguás Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030.

Nærliiggjandi er að skoða hefðbundinn strætó. En sennilega mun hann ekki standast væntingar.

BRT eða Bus Rapid Transit er samgöngukerfi sem byggir á svipaðri hugmynd og hin svokölluðu léttlestarkerfi nem að BRT ekki á teinum heldur venjulegum dekkjum og fer aðeins hægar. Þetta er mun ódýrara en léttlestarkerfin. Þetta eru í raun rafdrifnir fólksflutningabílar sem aka í sérrými og eru mjög afkastamiklir miðað við fjárfestingu. Miklu hagkvæmara en léttlestar. Engir teinar og engar loftlínur og umferðaljós eru styllt þannig að BRT er alltaf á grænu ljósi!.

Lagðar hafa verið fram hugmyndir að svipuðu kerfi þar sem ekið er eftir einni akrein í báðar áttir. Það er að segja að farartækin nota eina akrein nema stoppistöðvum sem eru einskonar brautarpallar þar sem þau mætast. Þetta kerfi er það aleinfaldasta sem ég ef heyrt um og að líkindum það langódýrasta.

Bæjaryfrvöld taka frá eina akrein á leið kerfisins.  Í Reykjavík væri það leiðin eftir samgönguásnum frá Vesturbugt að Keldum. Stoppistöðvar væru með um 7-800 metra millibili og á þeim mætast vagnarnir á mikilvægum stöðum á leið sinni í sitt hvora áttina.

Vagnarnir í kerfinu verði rafdrifnir og ekki er lengra milli vagna en 5 mínútur. Aðgengi er á sama plani og gangstéttarnar og vagnarnir taka við barnavögnum, hjólastólum og reiðhjólum. Og að sjálfsögðu með Wi-Fi þónustu.

Samgönguás aðalskipuags Reykjavíkur er sennilega merkilegasta einstaka nýjungin í því merkilega skipulagi og ég hef heyrt að borgin hyggist hefja vinnu við að útfæra hugmyndina nánar.  Aðalatriðið í þeirri hugmyndavinnu er að sníða sér stakk eftir vexti. Finna lausn sem samfélagið hefur efni á. Leita leiða til þess að koma á fót starfrænum, hagkvæmum og góðum almenningsflutningum milli skilgreindra tveggja höfuðpóla Reykjavíkurborgar sem byggir á sögulegum grunn,. Vesturbugt-Keldur.  Þannig væri hægt að skapa virka línulega borg á þéttasta svæði hennar og tengja restina af borginni þannig að allir verði í göngu eða hjólafæri við samgönguásinn.. Aðrir samgöngúásar tengdust svo þessum meginás eins og tilefni er til og þörf krefur og aðalskipulag og svæðaskipulag kallar eftir.

Byrja mætti á þvi að kaupa svona 8 litla rafdrifna almenningsvagna og hefja rekstur þeirra sem allra fyrst á þesari tæplega 9 km leið. Mikilvægt er að strax í byrjun verði boðið uppá þjónustustig sem er yfir væntingum sem svarar til þess að það komi vagn á um 5 mínútna millibili.

Ef þetta tekst vel verður ekki aftur snúið og fasteignaverð mun hækka meðfram samgönguásnum og íbúðahverfi í grennd munu blómstra með minni einkabílaumferð og skemmtilegra götulífi. Niðurstaðan yrði enn betri borg fyrir fólk.

 

 

Samgönguás

Hér að ofan er Google mynd þar sem samgönguásinn er lauslega teiknaður inn. Hann gæti legið frá Vesturbugt með fyrstu stoppistöð á Kalkofnsvegi sem er um 800 metrar þaðan. Svo yrði stoppað t. d. við Frakkastíg, Hlemm, Kringlumýrarbraut, Laugardalshöll, Glæsibæ, Skeiðarvog, Súðarvog Funahöfða og að lokum Keldur.

Þvert á þessa línu koma svo þveranis með öðrum almenningssamgöngum eins og sjá máað neðan  á uppdrætti úr nýlegu svæðaskipulagi höfuðborgarsvæðisins.

 

Höfuðborgarsvæðið 2040

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Steinarr Kr.

    Merkilegt að þú velur þennan samgönguás, sem í raun er ekki mjög fullkominn, þegar hægt væri að nota Hringbraut/Miklubraut/Vesturlandsveg og láta kerfið ná frá Seltjarnarnesi og upp í Mosfellsbæ, án mikilla framkvæmda, þar sem strætóleiðir eru nú þegar komnar á talsverða kafla leiðarinnar. Tengja svo byggðirnar sunnan Reykjavíkur eftir Kringlumýrarbraut og Reykjanesbraut inn i kerfið. Jafnvel fara alla leið til Keflavikur.

    • Miklabraut er dauð allstaðar austan Skaftahlíðar. Suðurlandsbraut og Laugarvegur eru nú þegar iðandi á löngum köflum.

      Að sjálfsögðu á þó að styrkja almenningssamgöngur allstaðar.

  • Snilld. Ef einhver kraftur er í borgarstjórn verður þetta komið á framkvæmda stig fyrir næstu kosningar!

  • Stefán Benediktsson

    „Liðvagnakerfi“ eða „articulated bus system“ eru í notkun um allan heim, en líklega hafa þeir hvergi haft eins gagnger og sannanleg áhrif á efnahag eins og í borginni Curitiba í Brasilíu. Stuðningur kerfisins eins og Hilmar lýsir við búsetuþróun og styrkingu fyrirtækjareksturs hefur skilað kostnaði við uppbyggingu sérakreina, biðstöðva og rekstur vagna margfalt.

    • Hilmar Þór

      Þetta er rétt hja þér Stefán og það er í raun athyglisvert hvað margar nýjungar á þessu sviði koma einmitt frá mið og suðurameríku.

  • Halldóra Árnadóttir

    Upp úr 1960 þegar borgin var öll austan Elliðaáa var það strætó sem „batt hana saman“. Ein strætisvagnaleið þjónaði eiginlega allri borginni og voru vagnarnir alltaf troðfullir og stundum þurfti tvo vagna sem voru samferða til að anna þörfinni. Það voru leiðirnar „austurbær -vesturbær“ og „vesturbær-austurbær“ . Önnur gekk réttsælis og hin rangsælis um borgina, snilldarkerfi. Þessi samgönguás er af sama toga -tær snilld.

    Það verður gott og gaman að búa í Reykjavík þegar búið verður að koma þessu öllu í gagnið!

  • Baldi kaldi

    Loksins sér til sólar hér á útnesjum.

  • Smá skoðun með hjálp Google leiðir í ljós að ef fólk sættir sig við að labba 1000 metra að og frá stppistöð þá virðist samgönguásinn geta þjónað svona 60% íbúum borgarinnar! Ef fólk hjólar í svona 7 mínútur eða sem svara 2 kílómetrum þjónar ásinn sennilega yfir 80% íbúanna.

    Samgönguásinn er mikil samgöngubót og kjarabót.

  • Steingrímur Jónsson

    Léttlestarkerfi á gúmmíhjólum með raforku og sérmerktum akreinum! Aldri heyrt aðra eins snilldarhugmynd. 🙂

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn