Efstu myndina í færsluna fékk ég senda frá einum lesanda síðunnar. Myndin var tekin í Nuuk um páska í vor.
Þegar ég sá myndina kom mér í hug hin fleyga setning Winston Churchill.
„First we shape buildings, and then they shape us“.
Blokkirnar sem sjást á myndinni eru 10 talsins. Þær eru allar eins og í einni röð. Blokkirnar voru byggðar á sjöunda áratug síðustu aldar m.a. til þess að leysa af hólmi híbýli á borð við þau á gömlu myndinni sem kemur næst.
Maður heyrir mikið um félagsleg vandamál á Grænlandi með miklum alkahólisma, brotnum fjölskyldum og fl. Fyrir því kunna að vera margvíslegar ástæður eins og atvinnuleysi o.þ.h. Þegar maður horfir á þessar blokkir læðist að manni sá grunur að kennisetning Churchill hafi eitthvað með þessi vandræði að gera.
Maður veltir fyrir sér hvort fólkinu hafi liðið betur í gamla húsinu sínu en blokkunum sem danir byggðu fyrir það. Konan og börnin á myndinni eru prúðbúin og glöð enda má sjá að maturinn er við hendina.
Þegar ég gekk í arkitektaskóla í Kaupmannahöfn var mikið rætt um húsnæðismál í Grænlandi og hvernig best væri að mæta þörfum grænlendinga hvað varðar húsnæðismál. Staðarandinn er annar en nokkurs staðar annars staðar sem menn þekktu til fyrir utan að samfélagið er öðruvísi uppbyggt en víðast hvar. Þess vegna voru þessar blokkir vonlausar og óskiljanlegar þeim sem kynnt höfðu sér málin og kúltúrinn í grænlensku samfélagi.
Það var mikið byggt af svona blokkum víða um heim á þessum árum og þær gáfust víða sæmilega þar sem fjölskyldumynstrið var nokkuð staðlað eins og t.a.m. í Danmörku.
Grænlenskar fjölskyldur hafa mun meiri breidd en danska staðalfjölskyldan sem var karl, kona og 1-2 (3) börn. Þær grænlensku samanstóðu af karli og konu og 1-10 börnum auk þess sem stórfjölskyldan bjó oft saman, afar, ömmur bræður og systur. Bara þetta gerði það að verkum að félagslegar íbúðir samkvæmt danskri fyrirmynd átti ekki við.
Danskir arkitektar lögðu nokkuð á sig til þess að þróa íbúðaform sem hentaði Grænlandi og grænlendingum. Prófessor Viggo Möller-Jensen lagði til að byggð yrðu lítið sérbýli í glaðlegum litum til þess að lífga uppá skammdegið. Honum varð nokkuð ágengt þótt baráttan hafi verið hörð við þá sem vildu nálgast lausnina með vinnulagi verkfræðinnar sem einkennist oft af stórum lausnum.
En hvað sem öllu þessu líður þá er það þekkt að byggingar og skipulag mótar mennina, þeirra hegðun og velferð.
Arkitektaskólinn í Kaupmannahöfn lagði áherlsu á að nemarnir ynnu með aðkallandi vandamál líðandi stundar í verkefnum sínum á þessum árum, sem er eitthvað sem íslenski arkitektaskólinn mætti gera meira af. Húsnæðismál grænlendinga var þar engin undantekning. Ég man að eitt sinn var útskriftarnemum gert að vinna íbúðasvæði á Grænlandi sem burtfararverkefni. Sverrir Norðfjörð arkitekt var einn þeirra sem tók þátt í því.
Næsta mynd hér að neðan er af dæmigerðum íbúðahúsum á Grænlandi sem eru byggð í anda þeirrar slóðar sem Viggo Möller-Jensen varðaði.
Nemar og samstarfsmenn hans stofnuðu teiknistofuna Vandkunsten sem fjallað hefur verið um hér á þessum vef. Árið 2010 settu þeir fram heildstæða tillögu að íbúðabyggð fyrir grænlendinga. Síðustu 4 myndirnar eru af þeirri tillögu.
Neðst kemur svo 5 mínútna langt myndband sem fjallar um Grænlandstillögu Vandkunsten.
Hér er fjallað um Vandkunsten:
http://blog.dv.is/arkitektur/2012/09/21/vandkunsten-i-reykjavik/
Annað sem kemur upp í hugann: Finnst dönum alveg fráleitt að spyrja grænlendinga sjálfa hvernig þeir vilja hafa húsin sín og hjálpa þeim til þess að ná fram þeirri sýn?
Efsta myndin minnir á Fellin eða Bakkana.
Ekki er ég talsmaður kumbaldavæðingar á borð við blokkirnar í efstu myndinni.
Samt sem áður finnst mér stundum vanta einn flöt í umræðuna um byggðaþéttingu í Reykjavík :
Með hverju á að þétta íbúðabyggðina ?
Er það ekki einmitt með3ja til 4ra hæða fjölbýlishúsum með litlum íbúðareiningum ? Það er viðvarandi skortur á þannig húsnæði í Rvk, sérstaklega leiguhúsnæði.
Og þarf þá ekki einhvers konar stöðlun til að hægt sé að ná niður kostnaði með stærðarhagkvæmni ? Einhvers konar “ IKEA“ nálgun ?
Svo fólk hafi efni á að búa í íbúðunum ?
Leiguíbúðir og blokkir eru eins konar „tabú“ í umræðunni um Íslensk húsnæðismál.
Er einhvers konar lögmál að svona húsnæði „slumvæðist“ eftir fjórðu eða fimmtu hæðina, eða þegar blokkirnar ná vissum fjölda í þyrpingu ?
Það er ekki sanngjarnt að kenna verkfræðingum um þegar arkitektalausnir standast ekki dóm sögunnar. Þegar menn stóðu frammi fyrir því að koma skólpi frá mannabyggð í fljótandi formi allt árið í landi frosts án funa þá varð þessi blokkalausn í Nuuk til. Blokkirnar ríma samt við samtíma lausnir eins og í Álftamýrinni við Kaplaskjólsveginn eða Meistaravellina.
Það er margs að gæta og þetta dæmi sannar að litlar lausnir eru jafnan heppilegastar.
Sveigjanlegt, einfalt og ekki of dýrt.
Gott skref á Grænlandi.
Fínn áminningarpóstur um málefni nágranna okkar og gullfalleg lausn hjá Vandkunsten. Ég hinsvegar velti fyrir mér hversu frábrugðin hún er raunverulega frá fyrstu myndinni. Danskir arkitektar skilgreina „vandamál“ grænlensks þéttbýlis og leysa það með fagur- og hugmyndafræði samtímans að leiðarljósi, hvort sem það eru ryþmískir endurteknir strúktúrar og „Milljón íbúa verkefni“ áttunda áratugarins eða uppbrotin „system“ hönnun og vistvæni 21.aldarinnar. Í báðum tilfellum er ein lausn sem leysir allt í alsherjar „mega“ strúktúr. Grænlendingar mega svo þakka herraþjóðinni seinna.
Þetta hljómar hart, en grænlenskur urbanismi og arkitektúr verður ekki búinn til af dönskum eða íslenskum arkitektum. Þegar HLT, BIG, Ístak og aðrir hætta að hirða öll verkefni í Grænlandi og grænlenskir arkitektar og verktakar fá tækifæri til að þroskast og þróast í sínu samfélagi og finna lausnir í sínu eigin samtali, þá munu kannski vandamál fyrstu myndarinnar leysast, en ég er efins um að það gerist með aðfluttum lausnum arkitekta núna (því þetta hefur lítið með verkfræðilausnir að gera) frekar en á 8.áratugnum.
Allt á sinn stað og sína stund. Globariseringin og alþjóðahyggjan er allt að drepa…líka arkitektúrinn. Það á að leggja áherslu á staðinn fysiskt of félagslega
Gullkorn færslunnar er: „Honum varð nokkuð ágengt þótt baráttan hafi verið hörð við þá sem vildu nálgast lausnina með vinnulagi verkfræðinnar sem einkennist oft af stórum lausnum“.
Verfræðingar eiga að halda sig til hliðar. þeirra lausnir byggja á því að leisa allt með einu höggi. Þetta á við um orkuver, stóriðju, vegagerð, gatnagerð og nánast hvaðeina.
Þetta er svona egg og hænu deila. Einstaklingar mótast örugglega af aðstæðum sínum og „langar“ oft í það umhverfi sem þeir ólust upp við. Held að fleiri öfl séu að verki en ömurlegu blokkirnar í Nuuk þegar vandi hlýst af því að veiðimannasamfélagi er gert að festa búsetu sína, hversu mjög sem við vildum geta bjargað manni og samfélagi með þekkingu okkar, arkitekta.
Hvað er þjóðmenning?
http://en.wikipedia.org/wiki/Eksperimentet
Það má kannski bæta því við að nokkrir íslenskir arkitektar útskrifuðust frá prófessor Viggo Möller-Jensen og hefur hann þannig haft nokkur áhrif hér á landi í gegnum nemendur sína. ‘Eg nefni: Guðrúnu Jónsdóttur, Stefán Jónsson, Knud Jeppesen, Stefán Örn Stefánsson, Halldór Guðmundsson, Finn Björgvinsson og sennilega fleiri.
Vandkúnsten voru í upphafi skilgreindir sem „Byggningskunstens Gasolin“ en Gasolin var rokkhljómsveit. Þeir félagar vildu gera uppreisn gegn hinum góða smekk. Paul Henningssen hélt því fram nokkrum árum áður að hinn viðurkenndi góði smekkur væri í raun vondur. Það var og er sennilega rétt hjá honum.
Hver tók þessa mynd efst í færslunni? Hún er hrikaleg og ekki bærit þetta kuldalega yfirbragð úr.
Kristján þórarinssin stofnvistfræðingur hjá LÍÚ tók myndina á síma sinn í vor