Laugardagur 13.02.2016 - 02:55 - 11 ummæli

Byggingarlist Haussmanns í París

IMG_7577

 

Þegar þeir Napoleon III og Haussmann endurmótuðu Parísarborg á árunum 1853-1870 og bjuggu til breiðgöturnar gerðu þeir kröfu um vandaðri og fallegri ásýnd húsanna. Áður voru götur borgarinnar mjóar. Algengast milli 2 og 7 mera breiðar og var ásýnd þeirra við svo mjóar götur ekki eins mikilvæg eins og við breiðar götur. Þegar göturnar voru breikkaðar upp í 20 – 60 metra eða meira óx krafan um fallegri framhliðar að breiðgötunum.

Champs Elysees er 70 metrar en Avenue Foch er 140 metrar á breidd.

Þegar göturnar eru svona breiðar varð ásýndin mikilvægari en áður enda sást betur til húsanna.

Þetta er sjónarmið  á mjög vel við vegna þeirra umbreyting sem er fyrir höndum í Lækjargötu og við Kalkofnsveg í Reykjavík. Götuhliðar Lækjargötu og Kalkofnsvegar til austurs blasa viða við vegfarendum. Það má segja að þetta sé langbreiðasta gata höfuðborgarinnar og þessar götuhliðar eru sennilega þær mikilvægustu í borginni ef frá er talið umhverfi Tjarnarinnar.

Breidd nýju gatnanna í París var ekki ákveðin vegna þarfa umferðarinnar.

Þörfin var margþætt. Í fyrsta lagi áttu þessar breiðu götur að hleypa sól og hreinu lofti inn í borgina og skapa lífleg útivistarsvæði.

Þá var þetta líka öryggisatriði. Nýju breiðgöturnar skiptu borginni í e.k. brunahólf þannig að hún þyrfti ekki öll að brenna ef eldur brytist út. Á myndum í síðustu færslu sést að öll eyjan Ile de la Cite er nánast eitt brunahólf sem var varin frá restinni af borginn með Signu.

Þá gengdi skipuagið hernaðarlegum tilgangi og varð „stjörnumynstrið með þráðbeinum strætum meðal annars  fyrir valinu því að í slíku borgarmynstri átti herinn (sérstaklega riddaraliðið) greiðari aðgang að öllum byggingum og strætum. Auk þess var auðveldara að  beita fallbyssunum á saman safnaðan og vopnaðan múginn á löngu færi í beinni skotlínu“ eins og einn lesandi orðaði það í nýlegri færslu.

Meðfram þessum breiðu götum var plantað trjám sem gerðu þær í raun að einskonar görðum. Lögð var áhersla á að jarðhæðir hentuðu sem almenningsrými fyrir kaffihús, verslanir og þjónustu. Gengið var beint af gangstéttinni inná jarðhæðina, “rez de chaussee”.

Víða í öðrum borgum er gengið upp um hálfa hæð þegar gengið er inn í borgarhúsin. Það var gert til þess að ná dagsbirtu inn í kjallara húsanna.

Færslunni fylgja nokkrar myndir af húsum sem reist voru í kjölfar þessa breytinga á Parísarborg. Húsin eru íburðamikil og falleg enda flest reist á tímabili “La Belle Epoque”.

+++++

Efst er mynd af húsi við Avenue Montaigne. Svo koma nokkrar myndir sem gefa hugmynd um það sem kallað hefur verið Hausmann stíllinn og sjá má víða um heim.

Kínverjar hafa verið svo heillaðir af þessu að þeir hafa byggt sína Parísarborg þar eystra með Effelturni og öllu tilheyrandi nema menninguna og staðarandann vantar. Þarna hafa þeir misskilið eitthvað kínverjarnir. Sjáið myndbandið neðst í færslunni.

april-2003 131

9c99d98c5bbf1930ba3d0578fb6a8f18

2de5e0492565d3980a9cdb3960074f3a

april-2003 138

Hér að ofan er svo mynd af dæmigerðri  götu í París, „Rue“.  Þar er íburðurinn ekki nærri eins mikill og við breiðgöturnar. Svo strax hér að neðan kemur myndband sem sýnir nýlega borg í Kína þar sem arkitektúrinn sem kenndur er við Haussmann er notaður. Maður veit ekki hvort maður á að gráta eða hlæja.

 

IMG_7347

Í athugasemd við færslu um byggingastíl og umbreytingu Parísarborgar er spurt hvernig borgin liti núna út ef Modernisminn hefði verið í tísku þegar þeir Napóleon III og Haussmann voru að vinna vinnu sína.

Það er umhugsunarvert. Það má líka velta fyrir sér hvernig borgin liti út nú á tímum störnuarkitektanna ef umbreytingin ætti sér stað á okkar dögum?. Þá hefði Zaha Hadid átt nokkur verk, Frank Gehry önnur og eflaust Richard Rogers og Renzo Piano rnn önnur.

Hér að neðan kemur mynd af Beaubourg listamiðstöðinni, Pompidou, sem teiknuð var af ungum arkitektum, þeim Renzo Piano og Richard Rogers. Rogers var aðeins 38 ára gamall þegar þeir unnu samkeppni um bygginguna.  Hann hefur verið svokallaður“stjórnuarkitekt“ allar götur síðan.

Mér hefur alltaf þótt þetta spennandi hús („a nice place to visit“) en ekki gott þarna í miðborg Parísar. Það er allt of hátt og stendur uppúr byggðinni í ´osamræmi við allt eins og um væri að ræða  einhverja mega gufuaflsvirkjun á feriðinni í miðborginni.

Ímyndum okkur borgina fulla af húsum sem öll eru að keppast við að ná athyglinni hvert frá öðru. Er það kannski eitthvað svoleiðis sem er að eiga sér stað við Austurhöfnina í Reykjavík. Eigum við ekki að leyfa Hörpu njóta athyglinnar og byggja nýju húsin í einhverri hógværri harmoníju við eldri hluta Kvosarinnar?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Þorleifur

    París er einhver fallegasta borg sem um getur. Nýbyggingar (Jean Nouvel o.fl.) falla að gõmlu húsunum í stærð og karakter. „Gufuaflsvirkjunin“ er undantekning. Nú er stórslys í uppsiglingu við höfnina í Reykjavík. Vonanti text ríkisstjórninni að forða því?

  • Örnólfur Hall

    HAUSSMANN & BAUDELAIRE
    Franska stórskáldið C. Baudelaire var vitni, sem samtímamaður, að öllum þessum breytingum Haussmanns og Napóleons III og
    skrifaði ljóðið: Svanurinn „The Swan“ í því tilefni.
    Hann var m.a. vonsvikinn og sár yfir eyðileggingu miðaldabygginga í borginni sem varð að fórna fyrir framþróunina;

    „Old Paris is gone (no human heart
    changes half so fast as a city’s face)…
    There used to be a poultry market here,
    and one cold morning… I saw
    a swan that had broken out of its cage,
    webbed feet clumsy on the cobblestones,
    white feathers dragging through uneven ruts,
    and obstinately pecking at the drains…

    Paris changes . . but in sadness like mine
    nothing stirs—new buildings, old
    neighbourhoods turn to allegory,
    and memories weigh more than stone.“

  • Örnólfur Hall

    Enn af Georges E. Haussmann og endurnýjum hans á Parísarborg:

    Georges E. Haussmann barón (1899-91):
    Franskur lögfræðingur og embættismaður sem skipulagði og umbreytti París (1853-70) í samráði við Napóleon III.
    Hann dáðist að mikilli stjórnvisku og skipulagsgáfu Haussmanns og fékk hann til stýra verkinu .

    Haussmann lét rífa fjölda bygginga til að rýma fyrir breiðstrætum, torgum og lystigörðum og setti reglur um nýbyggingar.- Hundruðir gamalla bygginga voru rifnar og um 80 km voru ruddir fyrir komandi breiðstæti (Boulevards), torg og lystigarðar o.fl. – Þetta gerðist í þremur risaáföngum (1853-70).

    Arfleifðin glæsta (Legacy):
    Breytingar Haussmanns á Parísarborg juku á lífsgæðin í borginni; farsóttum fækkaði ; umferðin varð skipulagðari, liprari og greiðari; nýju byggingarnar voru betur byggðar og ‚fúnkeruðu‘ betur í innri hönnun.
    Kröfur voru gerðar um að byggingar meðfram breiðstrætunum væru í sama stíl og sömu hæð.
    Þegar síðar var skoðað fjölgaði íbúðum láglaunafóks en ekki öfugt eins og áður var haldið fram.
    Við endurbyggingu margra evrópskra borga voru hugmyndir H hafðar til hliðsjónar.

    Gagnrýnin á framkvæmdirnar o.fl. (Rósin var ekki án þyrna):
    1- Margir söknuðu gömlu Parísar Balza´s, Voltaire´s o.fl. skálda og sáu eftir horfnum sögulegum þáttum.

    2- Stjórnarandstaðan gagnrýndi bruðl og ofurkostnað (m.a. Jules Ferry, þingmaður) og talaði um óstjórnlega efnishyggju.

    3- Það var sagt að breiðstrætin væru gerð m.a. í þágu hersins (til skjótra herflutninga) vegna hinna fjölmörgu uppreisna.
    H mótmælti því ekki í æfisögu sinni.

    4- H var ásakaður um að búa til hverfi auðugra og fátækra. Fátækir í austur- hlutanum og millistéttin og auðugir í vestur- hlutanum.

    5- Gífurlegt rask var hjá mörgum fjölskyldum og fyrirtækjum vegna flutninga.
    Húsaleiga hækkaði mikið en laun stóðu í stað nema hjá þeim sem komu að framkvæmdunum.

  • Orri Ólafur Magnússon

    Þakka þér fyrir stórskemmtilega grein um þetta tímabil, „La belle Epoque“ , í sögu okkar Vesturlandabúa. Ég er þér svo hjartanlega sammála um framtíð Kvosarinnar ; hógværð og harmóní í uppbyggingu reitsins væri einmitt rétta leiðin. Svona að lokum ; það er mér hulin ráðgáta, hvers vegna Kínverjar, sem eiga vissulega forna og merkilega byggingarhefð, láta glepjast af svona hrylilegum og ómerkilegum leiktjalda – arkítektúr. Þessum nýja „vulgær“- kapitalisma arftaka Mao formanns hefur augjóslega tekist að eyðileggja meira í sjónmennt Kínverja en menningarbyltingunni forðum .

  • Halldór Guðmundsson

    Takk fyrir þetta Hilmar mjög athyglisvert. Ég hélt reyndar að breiðgöturnar hefðu í byrjun aðeins haft hernaðarlegan tilgang en hér kemur fleirra fram.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér athugasemdina Halldór. Þetta með hernaðinn er almennt þekkt enda eflaust notað af adstæðingum þeirra Napóleons III og Haussmanns á sínum tíma. Þeir hafa eflaust líka notað sjónarmiðin um bjartari, sólríkari borg með hreinna lofti í sínum röksemdum fyrir aðgerðunum. En þessa heimild um brunavarnirnar hef ég frá skrifum prófessors Steen Ejler Rasmussen sem skrifaði mikið um skipulagsmál London, Kaupmannahafnar og líka þónokkuð um Róm og París.

    • Sveinn í Felli

      Það má alls ekki vanmeta brunavarnaþáttinn við framkvæmdir Haussman, þótt einnig hafi verið áhersla á frárennsli, sorphirðu (svínum útrýmt) og sumstaðar rykmengun (Place Blanche uppi á Montmartre bar nafn með rentu, þar var aðalinngangurinn í gifsnámurnar). Samhliða uppbyggingunni var reynt að útrýma „pignon sur rue“ eða húsum með mæni að götu og koma upp brunagöflum alla leið upp á milli húsa. Nú eru bara örfá hús eftir með mæni að götu.

      Og brunavarnir eru ennþá æðstar allra byggingareglugerða í París: uppruni slökkviliðsins í borginni var í sjálfboðaliðasveitum sem fengu stöðu á borð við okkar Landsbjörg, fyrirgafst flest og eiga sinn eigin dýrling.
      Slökkvilið Parísarborgar var lengi vel með eldvarnareftirlitið á sinni könnu. Það þarf ekki að fara lengra en í byggingu stóra bókasafnsins hans Mitterand eða hönnun Beaubourg (Pompidou-safnið) til að sjá að hönnunarforsendur brustu algerlega þegar þeir komust með puttana í teikningarnar – bæði húsin áttu að vera gegnsæ, en enduðu stúkuð niður með brunaveggjum.
      Skondið.

  • Fróðlegt er að bera saman gömlu myndina í fyrri færslu um niðurrif Parísar og nýju myndina í þessari færslu. Það eru sennilega 150 ár á milli þeirra og ekki mikinn mun að sjá.

  • Páll Torfi Önundarson

    Þetta er frábær grein, Hilmar. Ég sem aumur áhugamaður um fegurð gömlu Reykjavíkur hef reynt að benda á lausn þar sem hið nýja gæti harmonerað við það gamla, sjá t.d.

    http://www.visir.is/ny-torg,-fogur-borg/article/2016160128671

    Undirtektir eru svo gott sem engar nema frá nokkrum arkitektum. Hvar eru Torfusamtökin? Þau hindruð stórslys á Bernhöftstorfunni á sínum tíma.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér þetta Páll Torfi og áhuga þinn og virkni í umræðunni um arkitrktúr, skipulag og staðarprýði.

    • Örnólfur Hall

      – Myndi fremur og eindregið kalla PTÖ öflugan áhugamann um fegurð gömlu Reykjavíkur !!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn