Föstudagur 16.10.2009 - 11:29 - 10 ummæli

Byggingarlistin er útundan

 

 

Maður þarf að leita með smásjá til þess að finna rýni í fjölmiðlum, sem gagn er að og fjallar um byggingarlist, á meðan t.d. bókmenntir eru á síðum blaða og í ljósvakamiðlum á hverjum degi.

 

Það er haldið úti heilum klukkutíma þætti í sjónvarpinu um bókmenntir einu sinni í viku. Og þar sýnist mér meira að segja að bækur um byggingarlist fái litla ef nokkra umfjöllun.

 

Nýverið hafa komið út fjórar bækur um efnið: Bók um Gísla Halldórsson arkitekt eftir Margréti Leifsdóttur, önnur um verk Þóris Baldvinssonar arkitekts og svo bókin “Byggingarlist í augnhæð” eftir Guju Dögg Hauksdóttur að ógleymdri bók Hjörleifs Stefánssonar, Andi Reykjavíkur.

 

Þegar fjallað er um byggingar í fjölmiðlum þá er arkitektúrinn nánast aldrei nefndur. Talað er um stærð hússins, tíma- og kostnaðaráætlanir ásamt upplýsingum um þá sem tóku skóflustungu eða voru í byggingarnefnd og hverjir fjármögnuðu, stundum hverjir voru meistarar í einstökum iðngreinum.

 

Sambærilegt væri að í Kilju sjónvarpsins væri sagt frá hvað prentunin kostaði, hver prentaði bókina, hvað hún er margar síður og hver fjármagnaði útgáfuna. Ekkert um innihald og stíl ritverksins eða höfundinn.

 

Munurinn á myndlist, tónlist og bókmenntum annars vegar og byggingarlist hins vegar er sá að hinar fögru listir, aðrar en byggingarlistin, eru notaðar til hátíðabrigða meðan allir eru notendur byggingarlistarinnar í önnum dagsins alla daga. Engin á sér undankomuleið frá byggingarlistinni.

 

Það er ekki ein af forsendum lífsins að setja plötu á fóninn eða opna bók. Ef þér líkar ekki bókin þá hættir þú að lesa og það sama á við um tónlistina. Þú nýtur bókmennta og tónlistar þér til andlegrar upplyftingar þegar ráð og tími er til, en því er öðruvísi háttað með byggingarlistina, hús, umhverfi og alla nytjalist.

 

Þess vegna vekur athygli hversu lítið er fjallað um byggingarlist yfirleitt.

 

Í grunnskóla eru kenndar bókmenntir, myndlist og tónlist. Þar er líka kennd landafræði og alls konar náttúrufræðigreinar.

 

En enga byggingarlist eða skipulagsfræði er að finna í námsefni grunnskóla. Þegar ég yfirgaf grunnskólann vissi ég meira um aðstæður fólks í Rawalpindi en hvernig Melaskólinn var hugsaður eða skipulag Hagahverfisins átti að þjóna íbúunum.

 

Skrítið.

 

Þetta er sennilega ástæðan fyrir því að fólk kann að ræða hinar fögru listir á málefnalegan og vitrænan hátt að byggingarlistinni undanskilinni.

 

Ólíklegt er til dæmis að tæplega tuttugu þúsund íbúar vesturborgarinnar hefðu látið borgarskipulagið komast upp með að færa matvöruverslun bæjarhlutans út á hafnarvæði, langleiðina út í Örfyrisey ef þeir hefðu fengið skipulagslegt uppeldi (sbr. tónlistarlegt uppeldi) án málefnalegra athugasemda.

 

Á hafnarsvæðinu er nú að finna stærsta hluta matvöruverslunar í vesturborginni meðan hverfaverslunarhúsnæði er tómt eða illa nýtt.  Á Granda er að finna Europrís, Krónuna og Bónus.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Hilmar Þór

    Þakka þér þetta Karitas.

    Gaman að verða þess áskynja að fólk sé að lesa færslur sem eru tæplega eins og hálfs árs gamlar . Svona fyrir 150 færslum síðan. Það gleður mig og sýnir að þetta lifir eitthvað.

    En varðandi athugasemd þína þá er hún fullkomlega rétt hjá þér og ekki tilefnislaus. Ég átti ekki að draga byggingalistina svona áberandi út. Sennilega stendur hún mér nær en önnur nytjalist.

    Allt sem þú nefnir er auðvitað margt gert af miklu listfengi og á að flokka með hinum fögru listum enda nefni ég það í pistlinum og segi. „……en því er öðruvísi háttað með byggingarlistina, hús, „umhverfi og alla nytjalist“.

    Taktu eftir: „Umhverfi og nytjalist“. Ég tel að umfjöllun um tónlist, myndlist og sérstaklega bókmenntir séu miklar og það halli á umfjöllun um umhverfi og nytjalist í samanburði. Og þar eru með talin húsgögn, búsáhöld, fatahönnun og hvaðeina sem þú nefnir. Líka byggingalist. það er allt of lítið fjallað um hönnun almennt miðað við hinar umtöðuðu „fögru listir“

  • „Hinar fögru listir, aðrar en byggingarlistin, eru notaðar til hátíðabrigða meðan allir eru notendur byggingarlistarinnar í önnum dagsins alla daga. Engin á sér undankomuleið frá byggingarlistinni.“

    Ertu ekki að gleyma einhverju?

    Það eru allir notendur vöruhönnunar, fatahönnunar og grafískrar hönnunar. Þú átt ekki undankomuleið frá vöruhönnun nema að þú búir í tómu rými án húsgagna og búsáhalda. Þú átt ekki undankomuleið frá fatahönnun nema að þú sért allsber öllum stundum. Þú átt heldur ekki undankomuleið frá grafískri hönnun nema þú veiðir þér til matar, opnir hvorki dagblað né tímarit, horfir aldrei á sjónvarpið og farir aldrei á internetið. Nema þú lítir svo á að vöruhönnun, fatahönnun og grafísk hönnun tilheyri ekki hinum fögru listum?

  • Hilmar Þór

    Athugasemd mín fyrr má ekki túlka svo að mér finnist bókin „Byggingalist í augnhæð“ ekki góð.

    Þvert á móti. Hún er góð og nauðsynleg á hvert skólabókasafn.

    Það sem ég á við er að maður skrifar öðruvísi fyrir börn og þá sem ekki eru að velta fyrir sér byggingalist alla daga.

  • Hilmar Þór

    Jú Leopold.

    Bók Guju er ætluð byrjendum að mér skilst og á að höfða til „barna og unglinga“.

    Samt er að finna í henni setningar á borð við: „Bankabyggingarnar tvær tengjast jörðinni og himninum á ólíkan hátt með aðkomuhæð og þaki, og gluggarnir á útlitunum syngja ólík lög“

    Skrifar maður svona fyrir börn?

  • Leópold Kristjánsson

    Já, þarft að benda á þetta. Ég þekki þokkalega til í Berlín (og þýskalandi) og þar er umræðan töluvert almennri og ekki bara á meðal fræðimanna. Áhuginn virðist meiri. Veit reyndar ekki hvort grunnskólanemendur fá fræðslu.

    Er bók Guju Daggar annars ekki hugsuð fyrir grunnskólanemendur að einhverju leyti?

  • Úlfar Bragason

    Satt segirðu. En eitt eru skipulagsmál og annað byggingarlist. Það hafa orðið heilmiklar umræður um skipulagsmál á undanförnum árum, ekki síst í kringum kosningar en lítil umræða um byggingarlist. Í Finnlandi þar sem ég þekki vel til er mikil umræða um byggingar í blöðum. Þar er líka arkitektúr á allt öðru plani en hér heima. Hér er leitun að fallegum húsum en í miðborg Helsinki er leitun að ljótum húsum.

  • Arna Guðbrandsdóttir

    Satt og rétt. Og ekki vantar viðburði og umfjöllunarefni sem fylla myndu sjónvarpsþátt vikulega. Hitt er annað mál að ekki eru það margir íslenskir arkitektar sem sækja viðburðina. Flestir sitja heima. Það segir nokkuð um viðleitni okkar sjálfra í faginu og hvernig hægt er að koma umræðunni á (hærra) plan ef tekið er þátt í henni. Ef arkitektar sjálfir virðast ekki hafa áhuga á faginu, hvers vegna ættu aðrir að vilja kynna sér viðfangsefni þess?

  • Helgi Hallgrímsson

    Mjög góður punktur. Í Danmörku eru þessi mál í mun betri farvegi. Þar er reglulega byggingarlistarrýni í dagblöðum og mun fleiri innsendar greinar. Ég hélt alltaf að þetta væri vegna Akademíunar í Kaupmannahöfn, að í kringum hana myndaðist fræðimennska á sviði byggingalistar á meðan á Íslandi væru allir arkitektar bara uppteknir við að teikna hús. Þar af leiðandi bjóst ég við að fræðimennska (of þar með greinaskrif og umfjöllun) myndi aukast eftir að arkitektaskólinn íslenski var stofnaður, en það hefur ekki gerst í þeim mæli sem maður vonaðist til. Að mörgu leyti er þetta okkur arkitektum sjálfum að kenna, það er sjaldgæft að sjá innsendar greinar í blöðum eftir arkitekta. Núna í kreppunni þegar lítið er að gera hjá arkitektum væri tilvalið að fjölmiðlarnir myndi ráða til sín arkitekta til greinaskrifa og þáttagerðar.

  • Jóhann Torfason

    Ágæt ábending en ég held það sé ofmælt hjá þér að myndlist sé kennd í grunnskólum. Kennslan sú telst í besta falli handavinna og föndur. Myndlæsi og saga myndlistar (og byggingarlistar) er ekki á námskránni. Eftir framhaldsskóla „þekkja“ nemendur 3 listamenn: Van Gogh, Picasso og Kjarval. Og eitt listaverk; Monu Lisu, sem vill til að er ekki eftir neinn ofangreindra. Umræða og umfjöllun fjölmiðla um listir er síðan sér kapítuli.

  • Jón Bergsson

    Þarfar og góðar ábendingar hér, ekki vanþörf á því að bæta úr þessu. Það þykir sjálfsagt til að mynda að geta þess hverjir taka ljósmyndir af byggingum – sem sagt að virða höfundarrétt þeirra, en ekki húsameistaranna sem teiknuðu þær, dálítið skrýtið ekki satt að þeir skuli nánast alltaf vera ónafngreindir?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn