Fimmtudagur 27.03.2014 - 08:34 - 20 ummæli

Byggt með náttúrunni

Fjallaskáli á norsku eyjunni Vega sem var teiknaður af teiknistofunni Kolman Boye arkitektum er dæmi um hús sem byggt er með náttúrunni.

Húsið rétt snertir jörðina og spillir engri náttúru. Efnisval og litir harmonera með umhverfinu sem einkennist af veðurbörnum klöppum og lággróðri.

Allt gengur út á að gera sem minnst og ögra ekki umhverfinu.

Það er gaman og fróðlegt að skoða þessar ljósmyndir sem leiða hugann að því hvort við hér á landi byggjum nægilega vel með náttúrunni eða með menningunni. Athygli er vakin á að þarna er timbrið látið veðrast eins og klappirnar og gluggarnir sem eru án pósta og sprossa draga fjöllin og umhverfið inn í húsið.

Hér er heimasíða arkitektanna Erik Kolman Janouch and Victor Boye Julebäk

Þetta er gott hús sem á innilegt samtal við umhvefi sitt. Húsið er eins og það sé sprottið úr umhverfinu, beri virðingu fyrir því um leið og það endurspeglar nútíma byggingalist.

Neðst er svo ljósmynd af splunkunýju hóteli í Vik í Mýrdal.

Maður veltir fyrir sér hvort hótelið sé í samræmi við það  sem erlendir gestir sem hingað koma eru að sækjast eftir!

 

Vega Cottage by Kolman Boye Architects references weathered Norwegian boathouses

 

Vega Cottage by Kolman Boye Architects references weathered Norwegian boathouses

Vega Cottage by Kolman Boye Architects references weathered Norwegian boathouses

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (20)

  • Orri Ólafur Magnússon

    Áberandi, hversu vel norski fjallakofinn fellur að umhverfinu ; einn allsherjar fagur samhljómur náttúru og húsa / efniviðar – engin sam“keppni“ um athyglina. Hitt er svo annað mál, hvort gerlegt sé að byggja 50 herbergja ( ? ) hótel í sama látlausa stílnum og 5 – 10 manna fjallaskála ? Ef til vill mætti reisa mörg – 10 til 15 – smærri hús á svæðinu tengd með glergöngum við aðalbyggingu með matsal, gestamóttöku og öðru þess háttar. Þannig mætti komast hjá kassa – og „virkis“- yfirbragðinu sem óneitanlega setur fremur drungalegan svip á Víkur – hótelið . Ekki skortir okkur rýmið & byggingarlandið hér á Íslandi, andstætt því sem víða er í þröngum fjalladölum Alpafjalla, þar sem hver lófastór blettur er hvortveggja; í miklum halla og nýttur til hins ýtrasta. Því miður er trjágróðurinn svo lítilfjörlegur í íslenskri sveit að hann nær ekki að hylja „syndirnar“ ( þýska : “ Bausuende“ ) og draga úr hörkulegu yfirbragði gler – og steinsteypu – funktionalismans. Þetta á eftir að blasa svona við sjónum um ókomin ár.

  • eesbirk@vortex.is

    Sem lanslagsarkitekt þá fæ ég jafnan dálitil úrillskukast og langar til þess að segja eitthvað (sem ég er að gera) ónærgætið við svona byggingarlist. Get í þessu tilviki verið sammála að af myndinni að dæma fer húsið vel í norskum skerjagarði – kúrandi á granítblokkinni norsku.
    Ef við förum aðeins í huganum yfir það hvað þarf að ganga upp til þess að þetta geti heppnast vel. Hús koma nefnilega ekki fljúgandi eins og fuglinn og tillir sér rétt sisona á landið eða í landið. Mér fannst t.d. við lauslegann lestur arkitektúrstefnu í byggingarlist sem var gefin út af ráðuneytinu 2008 að það væri óskin að mannvirki kæmu fljúgandi og mættu ekki setja eftir sig spor í ósnortinni náttúru landsins.
    Íslenskt landslag er sjaldan steinblokk eins og í norskumskerjagarð. Ungt eldvikt land – og þar sem það er ekki ungt þá er það ekki mjög gamalt. Bara að ganga um mosabreiðu hraunsins þá er búið að raska þessu ósnortnum gróðri varanleg. Jarðvegur hjá okkur er mjög víða laus fokgjarn djúpur og mikið af honum – Gömul sannindi að ekki sé viturlegt að byggja á sandi.
    Reglur þær sem settar eru vegna almennra lífsgæði okkar, byggingar-heilbrigðis og náttúrverdnar setja okkur frekari skorður.
    Það sem á undan þarf að fara, áður en byggt er í ósnortinni náttúru er langur ferill og getur borið glæsilegann árangur eins og t.d. í – Árborgarhúsinu – eftir PK Arkitekta. Þar hefur mótun landsins að loknum byggingarframkvæmdum skilað útliti sem gefur manni þá mynd að húsið hafi rétt tillt sér.
    Síðan hefur það reynst erfitt að sleppa fólki lausu í ósnortinni íslenskri náttúru. Tala nú ekki um ef um félagslegt mannvirki skóla eða fjölbýli er að ræða.

    Það sem ég vil segja er að til þess að fella mannvirki að umhverfinu – þá þarf að lesa í landið og átta sig á gerð og möguleikum þess – síðan þarf að móta umhverfið landslagið að þeim þörfum sem það á að þjóna til þess að hægt sé að nota það og njóta þess – ekki bara að horfa á það – fallega mótað landslag gleður líka augað.
    Eftir að mannvirkið er lennt í landslagi þá hefur orðið til manngert landslag.

  • Þórður Sveinsson

    Við getum margt lært af frændum okkar í Noregi. Það er ekki við arkitekta íslenska að sakast heldur verkkaupa og skort á menningarlegi innsæi.

  • Pétur Örn Björnsson

    Mikið vildi ég að okkur sem þjóð bæri gæfa til að reyna að fara þá leið
    að reyna að finna það sem við töpuðum.
    Að leita hógværðarinnar og að virða svo mjög náttúru lands okkar
    og af þeirri auðmýkt að við findum þá harmóníu sem skiptir öllu máli.
    Við sem þjóð erum enn eilítið „Lost“ … kominn tími á „found“ … 🙂
    Nógu mikið vill okkar land, okkar jörð gefa okkur … sýnum þakklæti í verki.

    • Rúnar Ingi Guðjónsson

      Svona sem mótvægi við hið slæma , þá eru einnig til góð dæmi um velheppnuð íslensk hús:

      Heklusetur :
      http://www.planiceland.com/media/iceland/uploads/images/2012-04-24/Setur-Hekla1-x604-y447.JPG

      Lystigarðurinn Ak. Kaffihús :
      http://www.icelandairhotels.com/static/gallery/afthreying-a-hotel-akureyri/.large/_mg_2121.jpg

      Svo má ekki gleyma gömlu eyðibýlunum sem hafa fengið að veðrast þannig að byggingefnið er farið að njóta sín. Sennilega er þetta hús sem tengillinn hér að neða vísar í, steypt upp með möl og sandi úr berginu sem sést í bakgrunninum, það gefur góða staðartilfinningu, það er eins og húsið sé hluti af klettunum í landslaginu. Gæti þetta verið grunnur að fallegu íslensku byggingarefni?

      http://astaz.blog.is/img/tncache/700×700/64/astaz/img/2006-04-16_d1000006.jpg

    • Pétur Örn Björnsson

      Tek undir hvert orða þinna Rúnar. Talandi um mörg hinna gömlu eyðibýla og svo sem einnig margra útihúsa og hlaða fær mig til að detta í nostalgíu og minnast einnig þeirra tíma, löngu áður en ég fæddist, þegar menn virkjuðu bæjarlækina víða um land (u.þ.b. 1905 til 1935) og það með svo litlum stífluveggjum að þeir sáust vart nema af fuglunum fljúgandi og rafstöðvarhúsin voru oft ekki nema um 6 fermetrar að stærð.

      Síðan gleymdu ráðamenn sér í trylltum leik og urðu svo nýmóðins að allt hálendið skyldi sprengja í tætlur fyrir álrisana. Þeir urðu stjarfir að hugmyndaleysi í nokkra áratugi. Og nú boðar forsætisráðherra hvað?

  • Gréta Björnsson

    Þetta er hálf óhugnalegt myndasafn sem þú settir inn Rúnar, til viðbótar við myndina frá Vík. Því miður virðist það ekki vera nógu mörgum Íslendingum í blóð borið að vinna með náttúrunni.

  • Rúnar Ingi Guðjónsson

    Mér finnst íslenska húsið einmitt mjög dæmigert fyrir „arkitektúrinn“ sem tíðkast um landið, því miður eru alltof mörg dæmi um byggingar sem eiga alls ekki heima í því umhverfi sem þau standa í .

    dæmi:

    http://www.mikligardur.is/static/gallery/skagafjordur/hotel_mikligardur.jpg
    http://www.visiticeland.com/media/Thjonusta/2414_1___Selected.jpg
    http://visiticeland.com/media/Thjonusta/2317_1___Selected.jpg

    • Húsið í Vík er greinilega á pari við annað sem veriðer að gera hérlendis. Hvorki betra né verra.

    • Gunnlaugur Stefan Baldursson

      Myndir ,sem segja allt:á Íslandi er enginn skilningur fyrir sambandi náttúru og bygginga.
      Nýleg grein mín á Eyjunni,“steinar,timbur og ilmur jarðar“ og aðrar greinar mínar um sama efni þurfa allir byggingarfullrúar og byggjendur landsins að lesa,því breyting er meira en tímabær.

    • Hilmar Þór

      Þetta er greinilega verkefni sem vinna þarf að.

      Spurningin er bara hvernig hægt er að feta sig áfram einhverja ásættanlega braut.

      Feðamálafrömuður frá norðvesturströnd BNA var ér í vikunni sagði í sjónvarpsviðtali að við þyrftum að hugsa í svona 20 árum hvað varðar ferðaþjónustuna. Fara mjög varlega.

      Óðagotið yrði annars okkar „banabiti“ eins og það var þýtt á RUV.

      Við þurfum að skilgreina markaðinn og svara því sem hann er að sækja.

      Þetta gerðu þeir í Lake District í norður Englandi og komust að því að þeir ættu engu að breyta í umhverfinu.

      Og það hafa þeir gert með góðum árangri.

      Ég mæli með annarri grein Gunnlaugs sem er á þessari slóð:

      http://blog.pressan.is/arkitektur/2014/02/04/flettad-inn-i-landslagid/

      og

      http://blog.pressan.is/arkitektur/2014/02/18/steinar-timbur-og-ilmur-jardar/

    • Gunnlaugur Stefan Baldursson

      Þetta er allt rétt,Hilmar,við viljum ekkert óðágot.Bendi aftur á hugmynd mína,sem slegið var fram í ofangrendum pistli:Ísland þarf nauðsynlega á stofnum að halda ,sem heldur utan um fortíð og framtíð bygginga í okkar einstaka landslagi áður en meira er eyðilagt.
      Stofnunin væri undirstaða,sem upplýsir og sensibiserar yngra fólk í þessum efnum.Þessi kynslóð er rótin af byggingum framtíðar.

  • Gunnlaugur Stefan Baldursson

    Sammála þér Hilmar:norska húsið er dæmi um gott sambandi byggingar og umhverfis.
    Íslenska hótelið er hinsvegar hörmuleg útgáfa af skilningsleysi hvað tengsl við náttúru og ekki síður tegsl milli tveggja mannvirkja snertir.
    Náttúrunni er misboðið með „modernisma“,sem hvorki hefur „íslensk“ einkenni, sómagirni né sjarma.

  • Þessi ljótu hótel sem verið er að byggja út um allt þurfa sérstaka umfjöllun. Þetta er hvorki einkamál hóteleigendanna né sveitarfélaganna. Það verður að stoppa þetta. Við viljum ekki bjóða uppá vinnubúðahótel og álkassa út um allt land.

  • Mér hefur alltaf fundist Funkismi falla mjög illa að nártúruni fyrir utan það hvað hann er kaldur og ó vistlegur, ekkert hlýlegt að sjá.
    Veðrað trévirkið er það eina sem er ekki í andstöðu við umhverfið.
    Funkismi er smekkur og ekki að mínu skapi það veit ég vel.

  • Neðsta myndin!

    Þarna er nýleg eldri bygging svo kemur nýtt hús og að bakiþeirra er náttúran.

    Eldra húsið hefur engan samhljóm við það nýja og það nýja hefur engan samhljóm við náttúruna að baki þess.

    Hverjir gera svona og hvað eru þeir að hugsa?. Þessi álkassi á hvergi heima. Þetta hús á ekki heima úti á landi en væri við sérstakar aðstæður ásættanlegt í borgarumhverfi.

    Ógeðslega ófaglegt af öllum sem að þessu koma.

    Þið verðið að fyrirgefa.

  • Pétur B. Magnason

    Mæli med ad skoda verk Todd Saunders á Fogo Island í Kanada og fleiri verk hans á nordlægum slódum thar sem hefur verid unnid med landslaginu

    http://www.saunders.no/book/

  • Stefán Benediktsson

    Já húsið í Vík er ekki alveg að gera sig. Norsku húsin falla aftur á móti vel að umhverfi sínu bæði utan sem innan.
    Vatnajökulsþjóðgarður hefur frá stofnun (2008) lagt mjög mikla áherslu á vöndun allrar hönnunar. Skiltahandbók þjóðgarðsins sem í dag er nýtt af fleirum var (er) unnin af hópi arkitekta og hönnuða. Samkeppni hefur verð haldin um nær öll mannvirki, stór og smá, sem risið hafa í þjóðgarðinum og mikil áhersla lögð á að mannvirkin séu í samhljómi við umhverfi sitt á hverjum stað. Aðstaða landvarða í Blágili, sem ARKÍS hannaði er gott dæmi um þetta.

  • Hörður Sveinsson

    Vík!
    Golddiggers!

  • Hörður Sveinsson

    Þetta hús vinnur með landinu og styrkir það. Gefur landslaginu skala. Ógeðslega flott!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn