Það vekur oft undrun hvað fámennur hópur manna getur áorkað miklu á stuttum tíma.
Hin rómaða danska hönnun er runnin undan rifjum örfárra manna sem voru uppi á svipuðum tíma og þekktust persónulega.
Það er ekki óalgengt að það myndist svona andrúmsloft í listum. Maður áttar sig oft ekki á hvernig á því stendur fyrr en að áratugum liðnum. Eitt dæmi um sprengingu í listum er Bauhaus sem breytti viðhorfum til nánast allra hluta á örfáum árum.
Upp úr stríðsárunum komu fram mjög sterkir hönnuðir í Danmörku sem mótuðu danska hönnun eins og við þekkjum hana í dag.
Þeir mótuðu eiginlega smekk heillrar þjóðar og höfðu áhrif langt út fyrir landsteinana.
Þeir studdu hvern annan í þeirri nálgun sem var þeim sameiginleg og blómstraði á árunum milli 1950 og 1960. Sköpuðu „trend“ á aðeins 10 árum sem enn er í fullum blóma. Enn þann dag í dag eru hönnuðir um allan heim að leita í smiðju þessara manna og „stæla“ þó meira en hálf öld sé liðin.
Þetta voru fúnktionalistar sem báru mikla virðingu fyrir starfi sínu, efninu og handverkinu.
Þeir sem voru mest áberandi voru þessir:
Paul Henningsen 1894-1967
Arne Jacobsen 1902-1971
Börge Mogensen 1914-1972
Hans J. Wegner 1914-2007
Verner Panton 1926-1998
Paul Kjærholm 1929-1980
Það sem var sameiginlegt með þeim flestum er að þeir fóru leið að menntun sinni sem er ekki algeng nú á dögum. Flestir þeirra voru í upphafi iðnaðarmenn sem héldu áfram um listiðnaðarskóla alla leiðina í Konunglegu dönsku listaakademíuna.
Í gegnum jarðbundna iðnmenntun sína lærðu þeir að bera virðingu fyrir efninu og meðhöndlun þess. Í akademisku námi sínu lærðu þeir að umbreyta hönnuninni á grunni djúpra gamalla hefða í nýjar áttir. Eins og hjá vönduðu fólki var markmiðið ekki að gera eitthvað alveg nýtt heldur að gera eitthvað sem var betra en það gamla eða að hugmyndirnar vísuðu til framfara.
Fræg er tilvitnunin í Paul Henningssen sem sagði eitthvað á þessa leið; „Framtíðin kemur af sjálfu sér en framfarir gera það ekki“.
Þessar umbreytingar í hönnuninni áttu rætur sínar að rekja til Bauhaus. Sennilega er Stokkhólmssýningin árið 1933 stór áhrifavaldur.
Ég mun gefa lauslega innsýn inn í starf þessara arkitekta í næstu pistlum . Þessir menn hafa skapað hluti sem nú eru kallaðir ”modern klassík” sem stefna í að verða eftirsótt antíkmunir framtíðarinnar.
Að neðan eru þrír stólar frá þessu tímabili. Cow Horn Chair frá 1952 eftir Hans J Wegner, PK 22 frá 1955 eftir Paul Kjærholm, og í lokin Svanurinn frá 1958 eftir Arne Jacobsen.
Wegner: Cow Horn Chair frá 1952
Paul Kjærholm: PK 22 frá 1955
Arne Jacobsen: Svanurinn frá 1958
Það voru nokkrir fleiri en að ofan eru nefndir sem höfðu mikil áhrif. Ég nefni Finn Juhl, einnig Kaare Klint, Ole Wancher og Kai Kristensen. Það var mikið að gerast í þessum málum á árunum milli 1950-60 í Danmörku. Ef ég hefði talið alla upp hefði listinn orðið of langur. Hér að ofan er stóll úr sófasetti sem Kai Kristensen teiknaði árið 1955
@Kristján Kristjánsson
Þakka þér þetta Kristján.
Finn Juhl kom til skoðunar, einnig Kaare Klint, Ole Wancher og Kai Kristensen. Það var mikið að gerast í þessum málum á árunum milli 1950-60 í Danmörku. Ef ég hefði talið alla upp hefði listinn orðið of langur.
Ég bætti inn smá texta í færsluna af því tilefnio að þú vaktir athygli á Finn Juhl.
Þetta voru snillingar en gengu troðna slóð Mies, Brauer og Le Corbusiere sem ruddu veginn í nútíma húsgagnahönnun.
Sæll Hilmar
Ekki má gleyma Finn Juhl (1912 – 1989) í þessari upptalningu sem þú nefnir, þó hann hafi verið ögn róttækari en hinir og ekki jafn vinsæll. Hann fór aðra leið, menntaður arkitekt en ekki iðnaðarmaður. Það verður fróðlegt að lesa skrif þín um þessa menn.
Þekking skipti sköpum. Það sem ekki sést eru samsetningarnar en þær gera flesta þessa gripi óbrjótanlega.
„Að fortíð skal hyggja“
„Markmiðið var ekki að gera eitthvað alveg nýtt heldur að gera eitthvað sem var betra en það gamla eða að hugmyndirnar vísuðu til framfara“
Frábært.
Og svo tilvitnunin í PH: „Framtíðin kemur af sjálfu sér, en framfarir gera það ekki“.
Losum okkur við nýjungagirndina og einbeitum okkur að bættu umhverfi byggðu á mannekjulegum traustum grunni.
Þangað til fyrir örfáum árum var hægt að ramba á svona hluti í antíkverslunum Kaupmannahafnar. Í dag þekkja flestir til þeirra og líkurnar á að finna svona djásn á lágu verði eru nánast engar. Danir eru orðnir mjög meðvitaðir um verðmæti þessarar tímalausu hönnunnar, sem er vel.