Mánudagur 11.04.2016 - 18:42 - 24 ummæli

Dauð byggingalist í Reykjavík

12933011_1077872472284147_95961964985007633_n

Sagt er að alþjóðlegi modernisminn sé dauður.

Sagt er að hefðbundin og staðbundin byggingarlist hafi aldrei verið mikilvægari en einmitt nú. Hér á landi eru margir orðnir þreyttir á hinum alþjóðlega modernisma. Þetta sjónarmið er alþjóðlegt og nýtur vaxandi fylgis.

Menn segja að modernisminn sé allstaðar, en eigi hvergi heima.

Fólk vill ekki lengur sjá hann í gömlum miðborgum. Fólk vill staðbundinn arkitektúr sem hvergi á heima annarsstaðar.

Þetta er kennt í arkitektaskólunum og það vita þetta allir. Fjárfestar, stjórnmálamenn og margir praktíserandi arkitektar virðast ekki hafa áttað sig alminnlega á þessu. Það er verið að ræða þetta um allan heim, nema hér á landi. Það er reyndar nánast engin umræða um arkitektúr hér á landi.

Heimurinn hefur skroppið saman og fólk ferðast um víða veröld til þess að skoða sérkenni staðanna sem heimafólk er að breyta og gera alþjóðlega! Fletja sérkenni staðanna út þar til þeir hverfa.

Þessi sérkenni eru að víkja fyrir alþjóðlegum modernisma. Líka hér í Reykjavík sem ætlar að gera sig að ferðamannastað!

Hús eru rifin og ný í alþjóðlegum stíl sem minnkandi eftirspurn er eftir, koma í þeirra stað.

Það nýjasta er Hafnartorg sem var víst samþykkt áðan.

Og ekki bara það heldur er eins og bæði arkitektar, verktakar og stjórnmálamenn séu bara ánægðir með þróunina.

En óbreyttir vegfarendur og ferðamenn vilja ekki sjá þetta ef marka má alþjóðlega umræðu.

Það rugla margir saman modernisma og funktionalisma. Þetta er tvennt, en samt skylt vegna þess að stefnurnar áttu sitt upphaf á svipuðum tíma.

Það furðulega er að arkitektar eru ekki sérlega meðvitaðir um þá ógn sem stafar af modernismanum í gömlum borgum. Einkum í litlum samfélögum sem ekki eiga sterk staðareinkenni eins og hér í Reykjavík.

Arkitektar hafa til að mynda ekki sameinast um að greina sérkenni Reykjavíkur. Það hafa skipulagsyfirvöld borgarinnar heldur ekki gert. Þeir hafa þvert á móti atyrt leikmenn sem hafa áhyggjur af þessu og hafa opnað á umræðu um þessi mál allt frá brunanum mikla árið 1915.

Samkvæmt fréttum RUV núna kl 18.00 ætlar „Reykjavík Development“  (eins alþjóðlega sjoppulegt og það nafn nú er) að setja hús í anda alþjóðlegs modernisma í miðborgina við Reykjavíkurhöfn.

+++

Efst er ein af fjölmörgum myndum sem finna má á netinu og fjalla um efnið. Ég mæli með að lesendur rýni í hana. Að neðan kemur svo mynd af fyrirhugaðri nýbyggingu „Reykjavík Development“ við Kalkofnsveg gengt Arnarhól.

Maður spyr sig: Hvar er Reykjavík að finna í þessum tillögum?

+++

Nýleg bók Trausta Valssonar, Mótun Framtíðar fjallar um þetta vandamál að hluta og er ástæða til að mæla með henni.

fr_20160107_029943

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (24)

  • Pétur Örn Björnsson

    Enn einu sinni mjög góður og þarfur pistill Hilmar.

  • Hilmar Þór

    Frábær samantekt hjá þér Björn.

    Við erum á einhverjum villigötum í öllu okkar starfsumhverfi arkitektarnir.

    Virðing fyrir okkur fer minnkandi.

    Við erum notaðir af umhverfinu á ósæmilegan hátt þar sem okkur er att saman í samkeppnir. Svo koma verkfræðingarnir að veisluborðinu og taka sér mun hærri þóknun en við án þess að skapa nokkurn skapaðan hlut sem skiptir máli til langs tíma.

    Vegna upptalningarinnar þá skilst mér að þeir hafi verið þrír á stofunni hjá Utzon þegar hann vann Sidney óperuna og ástandið var svipað þegar Spreckelsen vann samkeppnina um Grand Arch í París.

    Picasso var einn þegar hann málaði Guernicu og Hemingway var líka einn þegar hann skrifaði „The Old Man And The Sea“

    Stærðin skiptir máli 🙂 en ekki þegar sköpunin á sér stað.

  • Björn H. Jóhannesson

    Ef flett er í ARKITEKTATALI, sem var útgefið 1997 kemur ýmislegt forvitnilegt i ljós. Forvitnilegt er að sjá svart á hvítu, að það eru að jafnaði eru 1,2 til 3 arkitektar höfundar í verkum,sem hlutu fyrstu verðlaun í samkeppnum, opnum og lokuðum.

    Stærstu arkitektastofur landsins fyrir ekki svo ýkja löngu hérlendis voru: Tæknideild Húsnæðisstofnunar ríkisins, sem gein yfir stórum hluta íbúðabygginga og embætti Húsameistara ríksins, sem var lagt niður 1997. Húsameistari ríkisins hafði einokun á flestöllum opinberum byggingum landsins. Inn á milli voru opnar samkeppnir um opinberar byggingar. Þrátt fyrir að þessar tvær stofur væru þær mannmestu á landinu voru ekki eftirminnilegustu byggingarnar teiknaðar þar, margar ágætar en ekkert fram yfir þær sem aðrir arkitektar utan þessara tveggja mannmestu stofa á sinni tíð teiknuðu.

    Ég punktaði eftirfarandi niður upp úr ARKITEKTATALI, um 1. verðlaun í opnum og lokuðum samkeppnum til ársins 1997. Þetta eru ekki allar samkeppnirnar, sem getið er um í ritinu (gefnar eru auk þess 2. og 3. verðlaun, auk innkaupa ), en gefur góða mynd af hversu margir eru yfirleitt um hverja tillögu í samkeppni þá og nú . Tölustafir í sviga sýna hversu margir arkitektar eru höfundar að hverju verki, O táknar opna samkeppni , L táknar lokaða samkeppni:
    Verkamannaíbúðir við Hávallagötu O (1)
    Verkamannabústaðir í Hafnarfirði L (1)
    Hitaveitugeymar Reykjavíkur O (2)
    Sjómannaskólinn O (2)
    íbúðir fyrir aldraða á AkureyriO (1)
    Grafarvogskirkja L (2)
    Fangelsi á Litla Hrauni L (2),
    Tónlistarhús í Reykjavík O (1)
    Framhaldsskóli í Borgarholti L (2)
    Nýbygging MA L (2)
    Stjórnsýsluhús á Ísafirði O (2)
    Neskirkja O (1)
    Prófessoraíbúðir á Háskólalóðinni O (1)
    Seðlabanki Íslands L (2)
    Hjónagarðar Háskóla Íslands O (1)
    Stúdentagarðar Háskóla Íslands O (2)
    Safnaðarheimili og Tónlistarskóli, Hafnarfirði O (2)
    Félagsíbúðir framtíðarinnar O (3)
    Safnaðarðarheimili í Keflavík L (3)
    Deiliskipulag vestursvæðis Seltjarnarness O (3)
    Skipulag Fífuhvammslands í Kópavogi O (2)
    Heimavistaskóli að Reykjum, A-Hún. O (1)
    Sendiráð Íslands í Berlín O (1)
    Sendiherrabústaður Íslands í Berlín O (2)
    Nemendaíbúðir fyrir, BÍSN, við Bólstaðarhlíð L (1)
    Frímúrarahúsið við Fríkirkjuveg O (1)
    Kirkja á Seltjarnarnesi O (2)
    Skipulag miðbæjar Hafnarfjarðar O (1)
    Engjaskóli O (2)
    Skipulag Akureyrar O (2)
    Ráðhús Reykjavíkur O (2)
    Hæstiréttur Íslands O (2)
    Gagnfræðaskóli í Hafnarfirði O (2)
    Deiliskipulag í Hraunholti, Hafnarfirði L (2)
    Íbúðir og þjónustuíbúðir við Lindargötu L (4)
    Skipulag Geldingareness O (3)
    Skrifstofubygging Alþíngis O (1)
    Aðalskipulag Mosfellshrepps O (3)
    Hallgrímskirkja í Saurbæ O (1)
    Skóli í Breiðholti O (2)
    Skipulag Naustahverfis, Akureyri L (2)
    Skipulag og byggingar á Hvanneyri O (2)
    Hús verkfræðingafélags Íslands, Engjateigi O (2)
    Skipulag Hvammahverfis, Hafnarfirði L (2)Miðbær Bessastaðahrepps O (2)
    Leikskóli í Borgarhverfi L (1)
    Amtsbókasafnið á Akureyri O (2)
    Viðbygging við amtsbókasafnið á Akureyri O (1)

    Hefðu samkeppni um ofangreindar byggingar og skipulag ekki legið til grundvallar þeim væri þá hvort tveggja, byggingarnar og skipulag, orðið að veruleika!!? Og hvað hefðum við fengið í staðinn?
    Arkitektarnir ákváðu sjálfir hvort þeir stæðu einir eða í samstarfi með öðrum að samkeppni, oftast voru þeir einn eða tveir frá sömu stofu. Fyrir kom að arkitektar, sem voru höfundar fyrstu verðlauna sóttu sér starfskraft við úrvinnslu fyrir samkeppni, en ekki endilega í samhengi við stærð, eðli og umfang verksins. Í framhaldinu til að skila nauðsynlegum teikningum og öðru vegna framkvæmda verksins réðu þeir annaðhvort fólk eða ekki í verkefnið eftir atvikum. Og svo er enn. Sammerkt þessum ofangreindum verkum, sem flest hafa orðið að veruleika, er að arkitektar þeirra hafa skilað af sér farsælli vinnu og hafa auðgað byggingarlistina í landinu landslýði til heilla.

    Í ljósi alls ofanskráðs er illskiljanlegt hvers vegna staðið er að skipulagi og byggingarframkvæmdum um jafn mikilvægan stað og kvosina í Reykjavík sem raun ber vitni á núverandi herrans ári 2016,

  • Hilmar G. vitnar í Rem sem telur að suburbs munu eiga sinn renesance innan tíðar. Það er athyglisvert og ekki ólíklegt.

  • Hilmar Þór

    Ég má til með að vitna í umræðu í Danmörku um þessi mál. Þar var verið að ræða um Seðlabankabyggingu Arne Jacobsen og segja að ef andi staðarins og andi tímans stangist á þurfi tíðarandinn að víkja. Orðrétt;

    »Nationalbanken ville have været god, hvis den lå i Ballerup. Nu ligger den lige op ad Holmens Kirke, hvor den er helt fejlplaceret. Arkitekterne bygger monumenter over sig selv, og de lærer bare ikke, at stedets ånd må gå forud for tidens ånd«,

    Það má með þessum þankagangi segja að byggingarnar við Hafnartorg gætu verið ágætar við Smáratorg en eru mistök við Hafnartorg!

    Ég tek undir með Jóni Gunnarssyni og kalla eftir opinberun teikninga á hótelinu og byggingunum í nágreiin Hafnartorgs.

  • Jón Gunnarsson

    Eitt væri gaman að fá inn í umræðuna.

    Af hverju er aldrei kynnt „work in progress“ eða verk í vinnslu þegar um viðkvæm svæði er að ræða?

    Nú er búið að vera að vinna hönnun hótels og fl þarna á svæðinu í meira en eitt ár. Búið er að fjármagna verkið. Stjórnvöld eru búin að gefa leyfi til að hefja framkvæmdir. En engin teikning hefur verið sýnd eða gerð opinber!

    Ekki segja mér að teiklningarnar séu ekki tilbúnar eða ekki komnar það langt að ekki sé tímabært að kynna þær!

    Það gengur bara ekki.

    Er þetta gamla „túrbínutrikkið“?

    Er alltaf verið að plata almenning og fulltrúa hans í pólitíkinni?

    Svar óskast.

  • Hilmar Þór

    Já María ég held að skýringu á þessum vandræðagangi megi að hluta finna í sjálfu deiliskipulaginu þar sem staðarandinn er vanreifaður.

    Ég hef sagt það áður að ég gerði athugasemd við deiliskipulagið við Austurhöfnina á sínum tíma (í ársbyrjun 2014) þar sem ég taldi kröfur um áferð og staðaranda í skipulagsskilmálunum vanreifaða.

    Ég vitnaði í greiningu Guðna Guðni Pálsson og Dagnýju Helgadóttur sem þau gerðu í tengslum við deiliskipulag Kvosarinnar 1986 og er að mínu mati aldeilis ágæt.

    Borgin tók ekkert tillit til athugasemdarinnar frekar en venjulega.

    Borgin virðist líta á þá sem gera athugasemdir við skipulag sem andstæðinga sína. Það er auðvitað tóm vitleysa. Þeir eru samstarfsmenn. Meðal annars vegna þessa galla í deiliskipulaginu stöndum við í þessum skrifum og jafnvel deilum vegana Hafnartorgs.

    Ég sé að Dennis Davíð Jóhannesson hefur líka haft af þessu áhyggjur og það hafa eflaust fleiri.

    Ég hef einu sinni áður gert athugasemd við skipulag. Það var vegna Landspítalans. Þar var mér svarað þannig að mér fannst bara verið að gera grin að mér. Samt var megininntak athugasemdar minnar byggð á opinberri stefnu stjórnvalda í mannvirkjagerð sem ætti að hafa verulegt vægi. Svona framkoma ergir mann auðvitað. Eftir athugasemdina við deiliskipulag við Austurhöfnina og svar borgarinnar ákvað ég með sjálfum mér að gera ekki athugasemt aftur varðandi deiliskipulag í borginni. Þetta er mikil vinna og vandasöm. Og svo er engin virðing borin fyrir þeim sem leggja eitthvað á sig í þesum málium.

    Af einhverjum ástæðum er borgin ekki sérlega vingjarnleg í garð þeirra sem láta sig skipulag og allt umhverfi varða. Það verður bara að segjast eins og er og nota ég þessa sögur til að styðja þá fullyrðingu.

  • Dennis Davíð Jóhannesson

    Þessi umræða vekur upp ýmsar spurningar. Ein þeirra er „hvers vegna eru flestar fegurstu byggingar Reykjavíkur byggðar af hinu opinbera, Ríki og Borg en ekki af einstaklingsframtakinu?“ Nefni ég þar hús eins og Safnahúsið við Hverfisgötu, Þjóðleikhúsið, Sundhöllina, Heilsuverndarstöðina, ýmsar skólabyggingar og kirkjur, Dómshúsið, Ráðhúsið, Háskólabío, Norræna Húsið og fleiri mætti telja. Sum þessara verkefna voru verðlaunatillögur í opnum samkeppnum í samstarfi við Arkitektafélag Íslands (AÍ) svo sem Dómshúsið og Ráðhúsið. Þegar íslenska einstaklingsframtakið hérlendis byggir, þá fáum við byggingar eins og Morgunblaðshöllina, Grand Hótel við Sigtún, Íbúðarturnana dökku í Skuggahverfinu o.s.frv. Ég minnist þess ekki að haldnar hafi verið opnar samkeppnir í samstarfi við AÍ um byggingar á þeirra vegum. Það er eins og einstaklingsframtakið forðist samkeppni þegar byggt er? Þegar auglýst var eftir athugasemdum við deiliskipulag Hafnarsvæðisins, sendi ég inn athugsemd og lagði til að haldin yrði opin arkitektasamkeppni um hönnun byggingana á svæðinu, þannig að hægt væri að velja úr mörgum innsendum tillögum. Skipulagsráð Reykjavíkur tók jákvætt í tillögu mína en einhverra hluta vegna fékk hún ekki brautargengi hjá lóðarhöfum? Ég velti því fyrir mér hvort það væri ekki eðlilegt a Reykjavíkurborg setti það sem skilyrði að haldin sé opin samkeppni í samstarfi við AÍ um byggingar á „viðkvæmum“ svæðum í Borginni til að tryggja gæði byggingarlistar og umhverfis fyrir borgarbúa alla.

    • Orri Ólafur Magnússon

      Góðir punktar, Dennis. Satt að segja kom mér aldrei annað til hugar en að haldin hefði verið samkeppni um bestu / hentugustu lausnina fyrir Hafnarsvæðið – þetta grandaleysi sýnir bara enn einu sinni, hvað maður – ég var búsettur í Þýskalandi > 30 ár – er gjörsamlega orðinn fráhverfur þessari sérstöku íslensku klíkumenningu. „Man lernt nie aus“ einsog þýskir komast að orði ; maður(inn ) er gáttaður dag hvern yfir því hvað allt er „öðruvísi“ hér en í hinum stóra heimi.

    • Hilmar Þór

      Í framhaldi af athugasemd Dennis. Í Danmörku og víðast annarsstaðar er verið að kalla eftir meiri og opnari umræðu um þessi mál. Hér er tilvitnun í eitt stærsta dagblað Danmerkur þar sem er rætt um að almenningur kjósi um svonalagað. Enda er þetta ekki einkamál fjárfesta. Menn óska frekari pólitískra afskipta þegar það á við:

      „Alex Ahrendtsen, kulturordfører for Dansk Folkeparti, ønsker lokale folkeafstemninger som afgørelse på store, offentlige arkitektkonkurrencer, sagde han i går i et interview i Politiken. Det skal forhindre nye »modernistiske betonrædsler« i de gamle byer.

      Samtidig skal politikerne blande sig mere, når der træffes æstetiske valg om indkøb af både ny arkitektur og kunst, mener Ahrendtsen.“

  • Athyglisvert. Ertu að segja að þetta sé allt deiliskipulagsskilmálum að kenna eða skort á þeim? Eða skort á greiningu á einkennum gamla miðbæjarins?

  • Hilmar Þór

    Þakka þér athugasemdina Jóhann Magnus Kjartansson og ykkur hinum líka.

    Ég hef á bloggi mínu reynt að ná upp almennri umræðu um ýmis mál þar sem ég hef í málfari og tilvitnunum reynt að sneiða hjá fagmáli sem leikmenn ekki skilja. Reynt að forðast að vitna í kennisetningar og „isma“, En þessi pistill var skrifaður á mjög stuttum tíma eftir að ég hafði hlustað á sex fréttir í gærkvöldi og það flaut einhver fagorðaflaumur með. Þú fyrirgefur það.

    Ég veit eins og þú og eflaust flestir arkitektar að það er vel hægt að flétta nýjar og nýtískulegar byggingar inn í gamlann borgarrvefinn þannig að vel fari. Þær byggingar þurfa eki að flokkast í einhverja isma eða stíl. Bara að þau fléttist inn í staðarandann.

    En það er ekki öllum gefið að gera það vel. Þess vegna þarf að árétta slíkar kröfur í deiliskipulagskilmálum þegar um viðkvæma staði er að ræða.

    En það var ekki gert í deiliskipulagsskilmálum fyrir “Hafnartorg”

    Til að svara þér frakar vísa ég í eftirfarandi texta úr gömlum pistli mínum:

    „Mér fannst og finnst enn að menn hafi ekki gert betri greiningu á staðaranda Kvosarinnar í skipulagsvinnu en í deiliskipulagi Dagnýjar Helgadóttur og Guðna Pálssonar arkitekta árið 1986. Það var fyrir réttum, 30 árum. Þar var í skilmálum gerð tilraun til þess að brúa bilið milli fortíðar nútíðar og framtíðar. Auðvitað ekki án málamiðlana. Mér virtist vera viss sátt um greininguna og deiliskipulagið á þeim tíma enda var það samþykkt og hefur að mestu staðið af sér ólgur tíðarandans allar götur síðan.

    Einhvern vegin fannst mér að þessa greiningu arkitektanna mætti nota við deiliskipulagsgerð á hafnarsvæðunum, einkum við Austurhöfn, eða byggja nýja greiningu og framtíðarsýn á vinnu Dagnýar og Guðna.
    Dagný og Guðni gerðu á sínum tíma fallegar skýringamyndir og líkan af öllu svæðinu í mælikvarðanum 1:200.

    Þau lögðu áherslu á heildarmynd Kvosarinnar. Þar var staðfest sú stefna að hús skyldu reituð niður þannig að sama áferð og útlit yrðu hvergi lengri en 10-15 metrar i götumyndinni. Hæðir yrðu stallaðar frá 2-3 hæðum upp í 6-7 hæðir með hallandi þökum með kvistum.

    Þetta var talið eftirsóknarvert umhverfi sem fólk hefur sameinast um að standa vörð um og styrkja“

    Pistilinn má lesa í heil sinni hér:

    http://blog.pressan.is/arkitektur/2016/02/05/hafnartorg-eiga-vandraedin-raetur-ad-rekja-til-deiliskipulagsins/

  • Jóhann Magnús Kjartansson

    Ég sakna í svona umræðu að við rýnum í þetta af meiri nákvæmni. Ef að við töum bara um -isma, hvað margar hæðir séu einkennandi að meðaltali fyrir Reykjavík, hvort viðkomandi bygging á að vera glerbygging eður ei og að sumir séu betri en aðrir að teikna nýtt saman með gömlu…þá erum við ekki að rýna í verkefnið heldur nota það sem tæki til þess að viðra almennar skoðanir okkar um arkítektúr. Það sem ég meina er að ef við ætlum að leggja út útspil fyrir umræðu á þessu verkefni, á þessum mikilvæga stað, á þessum af einum mikilvægustu stöðum í Reykjavík, þá langar mig að heyra hvað arkítektum langar að upplifa þarna…ÁÐUR en við tölum um isma, gler eða fjölda hæða. Hvað á þessir staður að kunna?

    Ég skal bara byrja. Ég hef alltaf séð fyrir mér byggingu þarna sem næstum því speglaði Arnarhólinn, þannig að á 17. Júni og aðra hátíðardaga þá myndi ég standa á hólinum, horfa á Pál Óskar á hringsviðinu sem sett væri upp á veginum og hinu megin væri gróðursöm/græn bygging sem trappaði sig upp, með fullt af fólki á römpum eða svalargöngum veifandi íslenska fánanum eins og vitleysingar og á efsta rampinum er lítil Bart Simpson gasblaðra að svífa í burtu frá grátandi barni.

    Mig langar að heyra hvað þið, kæru arkítektar, viljið upplifa þarna á þessum stað, hvað á þessi frontur að signalera í Reykjavík? Ég skora á ykkur að skrifa það án þess að nefna isma, gler eður ei, fjölda hæða og án þess að nefna referansa verkefni.

  • Orri Ólafur Magnússon

    Þakka þér fyrir að reifa málið, Hilmar Þór. Ég held að mörg okkar hafi vaknað upp við vondan draum þegar þeim varð ljóst, hverju við megum eiga vona á með byggingu gler -og steypukassanna við Hafnartorg svokallað. Þetta „áformaða“ skipulagsslys bætist ofan á þessa ömurlegu & drungalegu draugaturna við Sæbraut. Villimannleg tortíming sögulegs timburhúss við Tryggvagötu fyrir faeinum dögum er tímanna tákn: allt sem ekki er hægt að græða á vegna þess að fermetratalan passar ekki við hámarksgróða af ferðamönnum og sjoppum, verður að víkja. Það er sorglegt að núverandi borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, og þeir embættismenn sem í rauninni ættu að halda aftur af niðurrifsöflunum, skuli þvert á móti leggjast á sveif með græðgisvæðingunni sem ætlar að hella steinsteypu yfir allan gamla miðbæinn. Að lokum ; ég tek undir lofsamlega ábendingu þína á ágæta bók Trausta Valssonar sem er tímabært „prógramm“ fyrir mennska og yfirvegaða bæjarmynd.

  • Þessi tillaga sem hér er slegið upp sem dæmi um ferlegheitin virðist smellpassa þarna. Allar byggingar í kring eru steypa, gler og messing. Og afskaplega mikið af réttum hornum. Að setja þarna niður byggingu í nítjandu aldar stíl hefði verið hin raunverulega hörmung.

  • Það þarf að hafa það í huga að það sem við köllum sögulegar byggingar á Íslandi eru upprunar í Danmörku eða Noregi. Margt af timbur og bárujárnbyggingunum eru t.d. einingarhús smíðuð í Noregi. Það er því rangt að einblína á bárujárnshús sem sér Íslenska byggingarlist. „Íslensk“ söguleg byggingarlist er aðalega torfbæjir.
    Margir Íslenskir arkitektar hafa verið að reyna að skapa nýja Íslenska byggingalist, t.d. Studio Granda, þar sem horft er á söguna allt frá torfbæjum til steinsteypuklassíkarinnar.
    Ég myndi t.d. telja að fyrsta raunverulega Íslenska byggingar-listin sé fúnkís stíllinn á íslandi; svörtu kassarnir svonefndu.

    Tillögurnar sem á að byggja í miðborg Reykjavíkur eru hins vegar algjör hörmung. Þýstur módernismi sem á ekki heima nokkurnsstaðar. Hönnunin er eitthvað sem lítur út fyrir að vera 20 ára gömul og er í engu samhengi, hvorki við staðarhætti eða nútímann.

  • Þú segir „Arkitektar hafa til að mynda ekki sameinast um að greina sérkenni Reykjavíkur. Það hafa skipulagsyfirvöld borgarinnar heldur ekki gert.“ Hilmar.

    Er ekki rétt hjá mér að höfundar AR30 hafi komist að því að 4-5 hæða hús væru einkennandi fyrir byggð í Reykjavík. Þetta er að mínu mati alrangt en vegna þessa er verið að byggja 5-6 hæða hús á flestum þéttingarsvæðum í borginni.

    Flottur pistill. Takk fyrir hann.

  • Þakka þér Hilmar fyrir frábæran pistil og að vekja athygli á bók minni „Mótun framtíðar“ sem kom út fyrir jól, og fæst í flestum bókabúðum.
    Í bókinni útskýri ég hvernig módernisminn á rætur í hinni vélrænu heimsmynd nútímans eins og hún mótaðist á 17. öld.

    Hin vélræna hólfunar-heimsmynd litar allt líf okkar, hönnun og skipulag. Vélin er guð nútímans og einkenni þessa guðs; hraði, endurtekning, kuldi og gróf skemu, eru að verki undirniðri og fólk er ekki ljóst að það er á valdi þessarar grófu og köldu heimssýnar… og finnst allt sem gert er í hennar mynd, flott.

    Með hippatímabilinu kom nokkur skilningur á í hvaða ógöngur módernisminn væri búinn okkur í, t.d. með gler/steypu monsterinu eftir endilangri Bernhöfstorfu og skrímsli sem Seðlabankinn lét hanna á Fríkirkjuvegi 11, og seinna í túnfæti Arnarhóls. Hippar og listamenn tóku saman höndum … og eyðileggingu miðbæjarins var forðað í þetta skiptið.

    Nú er aftur verið að gera hliðstæða atlögu að miðbænum t.d. með Hafnartorgi og gámastæðu-hóteli við Vonarstræti og Lækjargötu. Margir hafa verið slegnir algerri blindu, líkt og var áður. Nú þarf nýtt átak til að opna augu fólks.

  • Sigurlaug

    „Heimurinn hefur skroppið saman og fólk ferðast um víða veröld til þess að skoða sérkenni staðanna sem heimafólk er að breyta og gera alþjóðlega!“

    Sammala her!

  • Hilmar G.

    Ég veit ekki alveg hvað þú átt við með „dauð byggingarlist,“ en tillagan hans Simma uppfyllir þau skilyrði betur en margar aðrar.

    Ég las fyrir nokkru síðan grein eftir Rem Koolhas þar sem hann talar um að tími dreifbýlisins sé kominn. Fólk taki að flykkjast út úr miðbæjarkjörnunum og út í dreifbýlið. Hann Remmi er óvitlaus, langt á undan okkur hinum.

    Þetta er alþjóðlegur tendens sem er tilkomin vegna veigameiri þátta en arkitektúrs, með fullri virðingu fyrir honum. Það eru gríðarstór uppkaup fasteignafélaga í miðbæjarkjörnunum sem skilar okkur staðbundnum húsnæðisbólum og gríðarlega hátt leiguverð. Eins er möguleiki ungs fólks til fasteignakaupa sáralítill eða enginn nema mamma og pabbi eigi reikning í skurðinum fræga, kenndum við Panama. Þetta er líka vandamál í nágrannalöndum okkar.

    Eftir tæplega fjögurra ára fjarveru sé ég gríðarlega breytingu á borgarlífinu í Reykjavík. Sumar breytingar eru til hins betra og aðrar til hins verra, eins og þessi hótel geggjun á hverju einasta götuhorni.

    Varðandi umræðuna, þá er hún hálfgerður ómöguleiki. Svo lítið samfélag, svo auðvelt að móðga einhvern og fá evil eye á næsta Einn á Stofunni 🙂

    Annars má finna ágætis nýtískuleg infill í Reykjavík. Það væri gaman að sjá líka ábendingar um það sem er vel gert.

    Takk fyrir pistlana, góðar stundir.

  • Torfi Hjartarson

    Harpa í Reykjavík fékk virtustu verðlaun í Evrópu fyrir byggingarlist. Það kalla ég mjög gott lífsmark þótt ýmsir kunni að líta fram hjá því. Reykjavík er loksins að verða samkeppnishæf við aðrar Norðulandaborgir fyrir ungt fólk og blómatími miðborgarinnar er rétt að hefjast eftir áratuga hnignun þrátt fyrir þínar hrakspár. Gamli bærinn og nýbyggingar við Höfnina geta líka alveg staðið hlið án þess að menn þurfi að fara af hjörunum í vandlætingu. Að lokum þá skiptir meginmáli að miðborgin sé skipulögð fyrir þarfir íbúanna en ekki ferðamenn og mætti gjarnan setja skilyrði sem hvetja til fastrar búsetu og takmarka skammtímaleigu.

    • Hilmar Þór

      Ég held að þú misskiljir inntak færslunnar Torfi.

      Hér er ekki verið að amast við nýbyggingum.

      Þvert á móti.

      Ég veit eins og þú og eflaust flestir arkitektar að það er vel hægt að flétta nýjar og nýtískulegar byggingar inn í gamlann borgarrvefinn þannig að vel fari.

      En það er ekki öllum gefið að gera það vel og þannig að sérkennunum og staðarandanum sé haldið við.

      Þess vegna þarf að árétta slíkar kröfur í deiliskipulagskilmálum þegar um viðkvæma staði er að ræða. En það var ekki gert í deiliskipulagsskilmálum fyrir “Hafnartorg”´

      Og ég er þér algerlega sammála um að miðborgin á fyrst og fremst að þjóna íbúum borgarinnar. En þessi sjónarmið stangast ekki á við þau atriði sem gerð eru að umtalsefni í pistlinum að ofan.

      Og að lokum: Harpan er flott og við erum stolt af henni. Hún kemur málinu sem hér er á dagskrá bara ekkert við.

  • Þetta verður sífellt mikilvægara.

    Hér í Danmörku er þetta mikið rætt eins í POLITIKEN í síðustu viku

    „Professor: Grimt bybyggeri skyldes ikke for meget magt til arkitekterne – men pengeinteresser“

    http://politiken.dk/kultur/arkitektur/ECE3149298/professor-grimt-bybyggeri-skyldes-ikke-for-meget-magt-til-arkitekterne—men-pengeinteresser/

  • Svo satt og rétt.

    Það er verið að eyðileggja miðbæ Reykjavíkur!

    Ég bara skil ekki hvað fólk er rólegt yfir þessu.

    Verktakar ráða hér öllu og á hverjum degi fylgjumst við með eyðileggingunni.

    Bráðum hefur enginn áhuga á að búa í miðbænum.

    Sjálf er ég byrjuð að forðast hann og ég heyri það sama hjá vinafólki mínu.

    Sjarminn er horfinn og nú á að eyðileggja það litla sem er eftir.

    Þvílík skömm!

    En það er einmitt vandinn. Þetta fólk kann ekki að skammast sín.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn