Miðvikudagur 02.10.2019 - 10:58 - Rita ummæli

Deilan um Laugaveg sem göngugötu.

Það einkennir umræðuna hér á landi að menn skipa sér í tvær andstæðar fylkingar í flestum málum. Það er að segja með eða á móti einhverju.  Allt er annað hvort svart eða hvítt. Svo grafa menn skotgrafir og hrópa hver á annann öllum til leiðinda.  Menn leita ekki lausna og reyna ekki að málamiðla.

Þetta er svona líka í skipulagsumræðunni.

Þetta kemur glöggt fram um umræðuna um Laugaveg sem göngugötu sem var rædd í borgarstjórn í gær. Sumir vilja að þetta sé bílagata en aðrir göngugata. Þetta er svona annað hvort eða og ekkert þar á milli. Svona er þetta ekki í öðrum löndum þar sem ég þekki til. Menn málamiðla og reyna að ná sáttum.

Varðandi Laugaveg göngugata þá er til góður millivegur.

Það er PPS gatan eða „Pedestrian Priority Street“ þar sem bílar eru leyfðir en gangandi hafa forgang. Þetta er mjög einfalt ódýrt og virkar vel um víða veröld.

Það þarf lítið annað að gera en að setja upp skilti sem á stendur „Gangandi hafa forgang“.

Svo þarf að leggja niður öll almenn bifreiðastæði, en halda samt nokkrum stæðum fyrir fatlaða og kannski þá sem komir eru yfir sjötugt og málið er dautt og leyst þar til tíminn leysir vandann og Laugavegur verður hrein göngugata eins og fyrirsjáanlegt er.

Ákvörðunin um að breyta akstursstefnu Laugavegar á kafla er mér skipulagslega óskiljanleg hrokafull della, þó vissulega sé það visst kænskubragð til þess að ná markmiðinu um hreina göngugötu.

+++

Hjálagt eru tvær ljósmyndir sem ég tók fyrir 10 dögum í Paris, á Rue de Buci, sem margir þekkja. Þetta er ein af mörgum PPS götum borgarinnar. Efst sést hvernig bíll seitlar um götuna meðan gangandi hafa tekið götuna yfir. Svo er málað  á götuna stór gangandi maður, minna reiðhjól og bíllinn er minnstur svo þetta sé skiljanlegt öllum.

Að neðan er svo mynd af skilti sem segir vegfarendum hver á réttinn. Hámarkshraðin er að vísu nokkuð hár. Hann ætti að vera gönguhraðinn sem er um 5 km á klukkustund. Neðst er svo þekkt PPS gata í Kaupmannahöfn.

Hér að neðan er mynd frá Strædet í Kaupmannahöfn sem fræðimaðurinn Jan Gehl skilgreinir sem PPS götu. Þarna seitla bílar ofurhægt innan um fótgangandi og barnavagna fáum til leiðinda.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn