Mánudagur 27.01.2014 - 23:54 - 21 ummæli

Deiliskipulag Austurhöfn

 

Það spunnust miklar umræður í síðustu færslu minni um deiliskipulag Austarhafnarinnar í Reykjavík sem nú er í kynningu.

Færslan var reyndar um Hótel við Hörpu sem kynnt var í fjölmiðlum í síðustu viku. Það kom fram við kynninguna að umræddar teikningar eru í vinnslu og á engan hátt endanlegar og  að búast megi við einhverjum breytingum á þeim við frekari vinnslu.

Öllum er ljóst að að þessu verki standa flinkir arkitektar sem eru auðvitað að gera sitt besta miðað við gefnar forsendur. Athygli er vakin á þvi að þeir eru að vinna samkvæmt deiliskipulagstilögu sem nú er í kynningu og við verðum að gera ráð fyrir að umrædd frumdrög séu í samræmi við deiliskipulagsákvæði hennar.

Þegar lesendurnir sáu hver gæti orðið niðurstaðan töldu þeir að einhverju væri ábótavant í skipulagsskilmálunum og kom þar margt til.

Ég vil aðeins gera stuttlega  grein fyrir stöðu skipulagsins og sögu þess sem er orðin alllöng.

Deiliskipulagstillagan sem nú er í kynningu kemur í kjölfar annarrar sem var samþykkt fyrir nokkrum árum og var gerð af THL arkitektum í Danmörku í félagi við Batteríið og TT arkitekta hér á landi. Helsta breytingin er sú að gatnakerfinu er breytt til verulegra bóta og húsin lækkuð nokkuð.

Undanfari deiliskipulags THL, Batterís og TT arkitekta var hluti af einkaframkvæmdarsamkeppni um ráðstefu og tónlistarhúss á svæðinu. Þar á undan var haldin ágæt hugmyndasamkeppni um svæðið sem gaman væri að skoða aftur.

Þetta er langur ferill. Sennilega svo langur að fólk hefur misst sjónar af meginmálinu þangað til nú þegar kynntur er árangurinn í fallegum þrívíðum teikningum.

Þegar fólk sá teikningarnar opnast augu þeirra fyrir hugsanlegum göllum í deiliaskipulaginu.  Þáttakendum umræðunnar finnst deilskipulagið og skilmálar þess ekki laða fram þann Austubakka sem það vonaðist eftir.

Ég held að allir sem hafa tjáð sig um Austurbakkaskipulagið vilji  vel og er umhugað um skipulag hafnarinnar. Þeim þykir vænt um Reykjavík og vilja vel. Þeir telja að með þáttöku sinni í umræðunni öðlist þeir skilning á því sem þarna fer fram. Það ber að þakka þeim sem láta arkitektúr og skipulag til sín taka í opinberri umræðu.

Ég ætla hér að tæpa á nokkru atriðum sem komu fram. Bæði frá þeim sem styðja deilskipulagið og frá þeim sem eru fullir efasemda. Þetta eru nokkrar setningar sem eru afritaðar beint úr texta nokkurra þeirra sem þátt tóku í umræðunni við síðustu færslu.

 Hér kemur runan sem ég dró út úr um 60 athugasemdum frá tugum áhugasamra um framtíð Reykjavíkurhafnar. Annars vísa ég á fyrri færslu fyrir mjög áhugasama.:

  • Skipulag og borgarmynd þessarar hönnunar er mjög góð, og er eins og sagði áður algjör stefnubreyting á landinu til betri vega. Hins vegar er vel hægt að gagnrýna arkitektúr hótelsins verulega.
  • Þetta eru ljótar byggingar í góðu skipulagi.
  • Í fyrsta lagi þá vinnur arkitektúrinn gegn skipulagshugmyndinni með því að brjóta illa upp blokkarformið niður í móderníska klumpa og meðfylgjandi vindstrauma. í stað borgarmyndar fáum við Breyðholtið í miðborgina
  • Vonandi fáum við meiri fjölbreytni eins og er einkennandi fyrir byggðina í Kvosinni og gefur henni lit, líf og mælikvarða. Þar eru engin tvö hús eins.
  • Mér verður hugsað til Lækjargötunnar. Mér finnst hún vera órjúfanlegur hluti af þessu skipulagi, enda er verið að framlengja götumynd hennar norður að Hörpunni. Skalinn á byggingunum meðfram henni er nokkuð ólíkur þeim í kringum Austurvöll og norður að Tollhúsi. Ég held það sé rétt að halda því þannig, og vinna einmitt að því að skali bygginganna þar á milli,
  • Er það minnimáttarkennd eða einhvers konar masókismi sem veldur því að arkitektar eru sífellt að tuða yfir tveimur fallegustu nútímabyggingum á Íslandi, Hörpu og Hallgrímskirkju.
  • Harpa og Hallgrímskirkja eru byggingar sem túristar vilja helst  sjá og þykja fallegar.
  • Það skipti ekki máli hvernig Hallgrímskirkja og Harpa líta út. Þær séu vinnsælar vegna stærðarinnar, staðsetningarinnar og starfsseminnar.
  • Menn telja að rofið milli miðborgarinnar og hafnarinnar sé of mikið. Tengslin séu ekki  sýnileg lengur.
  • Af hverju gerir skipulagið ekki ráð fyrir lóðréttri deilingu með hlutföllum eins og er í kvosinni og deiliskipulagið frá 1986 gerði ráð fyrir með sögulegri skýrskotun.
  • Out of that ask yourself for the necessity of massive building structures and create something out of the adventure to sample the urban connection.
  • – The suggested structure plan is developed in south – north direction at the lowest part of the city where there once was a water as connection between Tjörnin and the sea. Laekjargata is a natural border in the topography of the city center, so let’s think about it and develop a solution out of this fact, play with the different levels, with the axis of sight, and please don’t forget the wind and your weather.
  • Þetta er nú þegar orðið gamaldags og leiðinleg lausn.
  • Þessar byggingar gætu verið hvar sem er í heiminum. Þær hafa ekkert með Ísland, Reykjavík framtíðina eða þetta nýja skipulag að gera. Það hefði verið betra að nota eitthvað af Íslenskum efnivið og formum, við, bárujarni, steinsteypu os.frv. Gera eitthvað sem tekur tillit til staðarins og lítur fram tímann líka og bæta við skipulagið frekar en að vinna gegn því.
  • Efnisval og útlitshönnun byggingana ber einnig með sér lítið ímyndunarafl.
  • Arkitektar eru frekar illa launuð stétt með lítið starfsöryggi, og oft eru það frekar kúnnarnir sem hanna byggingarnar en arkitektin.
  • Verkefni þessara bygginga sem rísa á milli Hörpunnar og Kvosarinnar er í mínum huga að trappa niður stærð Hörpunnar að því sem fyrir er.
  • Hins vegar finnst mér þessi tillaga af 5 íbúðarblokkum í anda 6. áratugarins, sem allar eru nákvæmlega eins, of einsleitar og þrúgandi. Vonandi fáum við meiri fjölbreytni eins og er einkennandi fyrir byggðina í Kvosinni og gefur henni lit, líf og mælikvarða. Þar eru engin tvö hús eins.
  • Hef aldrei skilið þetta skipulag, enda alltaf sýnt þannig að horft er til norðurs. Mikið væri gaman að sjá þetta „módel“ þar sem horft er til suðurs, þannig að hægt væri að sjá tengslin við núverandi byggð, ekki við Hörpuna.
  • … og undarleg þessi árátta að hafa útlitið eftir gömlum margtuggðum tískuklisjum.“Við viljum vera öðruvísi og nútímalegir eins og allir hinir“.
  • Hvar er staðarandi Reykjavíkur í þessu skipulagi?
  • Ekkert af ofangreindu á að koma upplýstum fagmönnum á óvart og vaknar því óneitanlega sú spurning hversvegna menn velja hér að fara gegn betri vitund, skapa tortryggni og skemmta skrattanum.

Hér að neðan eru nokkrar myndir sem fengnar eru frá deiliskipulagskynningunni. Það er rétt að benda á að þessir massar sem sýndir eru á tölvumyndunum sýna ekki útlit húsanna, heldur umfang og fyrirkomulag þeirra. það er svo arkitekta hússanna að gefa þemi ásýnd sem hentar staðnum og anda hans.

Kynningu á skipulaginu má sjá hér:

http://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skipogbygg/skjol/264436.pdf

 

  • Svona mun Austurhöfnin líta út samkvæmt nýju deiliskipulagi.

Svona lítur nýja deiliskipulagið út séð frá Lækjargötu.

 

Byggingar eru lækkaðar á Austurhafnarreitnum.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

  • Vil benda á tvö beisikk atriði. Einhvers staðar las ég að þetta væru bara fjórar lóðir. Ef það er rétt að um fjóra verktaka sé að ræða, þá er eiginlega sama hversu kúl hönnunin er, götumyndin verður þá í engu samræmi við þær sem okkur líkar svo vel við í kvosinni og fjölbreytileiki eiginlega ekki inni í dæminu.

    Annað mikilvægt atriði er tíminn. Kvosin byggðist upp á löngum tíma og mismundandi byggingar hæfa mismunandi tímabilum. Ef Kvosin væri byggð frá grunni í dag með sömu hæðartakmörkunum og nú er byggt er ég hræddur um að einsleit Kvos yrði árángurinn.

  • Sigrún Jónsdóttir

    Það vantar alla tilfinningu fyrir staðaranda Reykjavíkur í þetta skipulag. Manni finnst þetta vera mammonskt verktakaskipulag. Ég trúi ekki að skipulagsráð hafi áttað sig á hversu lélegt þetta er.
    Þessu verður að mótmæla.

    • Það fer eftir því hvaða „Reykjavík“ átt er við. Er það 19du aldar Þorpið Reykjavík (lítil timbur og bárujárnhús: Grjótaþorpið ofl.). Er það síð 19du aldar og snemm 20stu aldar Borgar Reykjavík (Randbyggð borgarbygginga frá timbur til steinsteypuklassíkur: Hótel Reykjavík, Fjalarkötturinn, Hótel Borg, Reykjavíkurapótek ofl.). Er það milli og eftirstríðsára Reykjavík með Fúnkís byggingunum (Svartir kassar; Norðurmýri, Vestrubærinn ofl.). Er það Sósíal realismi 60 og 70 átatugana (Árbærinn og Breyðholtið), Eða er það Ameríkusering úthverfaskipulagsins (Restin af Reykjavík).
      Þetta skipulag fellur að „Borgar Reykjavík“ og ef þú skoðar t.d. skipulag Guðjóns Samúelssonar fyrir borgina, þá sérðu fljótt að þetta fellur vel inn í það skipulag. Þetta var fyrsta skipulag Reykjavíkur og merkilegt og fjarsýnt plagg fyrir sinn tíma.
      http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/03/18/aukin-landthorf-i-thettbyli/

      Það er nauðsynlegt að aðskilja skipulagið og arkitektúrinn í umræðunni. Skipulagið hér fylgir þeirri góðu reglu að forðast að hanna fyrir arkitentana sem munu á endanum hanna byggingarnar. Þessar myndir sýna því mestu grunn mynd og hæð mass byggingana. Maximum massann. Það þarf að forðast í hönnun hverra bygginga sú rang hugmynd að þessir massar séu regla um að þetta þurfi að vera leiðilegir einsleitir massar sem fylla algjörlega útí skipulagið.

    • Sigrún Jónsdóttir

      Ég var bara að hugsa um eitthvað meðalmengi bygginganna í Kvosinni. Sérstaklega þegar horft er á stærðarhlutföll einstakra bygginga(skipulagið 1986) ef þu skoðar færsluna „Hotel við Hörpu“ sést hvað þetta skipulag leiðir af sér, lélegan og tilfinningalausan arkitektúr!.
      Það má ekki gerast að við fáum svona braskarabyggingar á þessum stað. Skipulagsráð verður að hafa vit fyrir arkitektum sem hanna svona í miðbæ Reykjavíkur.

  • Birkir Ingibjartsson

    Í flestum meginatriðum tel ég mjög jákvætt að byggt verði þarna þétt og fremur klassíks borgarbyggð með blandaðri atvinnustarfsemi og íbúðum. Hvort um 4/5/6 hæðir verði að ræða skiptir held ég ekki svo miklu máli heldur miklu frekar að tryggt verði þarna verði raunverulega vandað til verka í hönnun og frágangi og jarðhæðirnar séu líflegar á einhvern hátt.

    Þannig finnst mér miklu eðlilegra ef umræðan hér snerist um það hvað á að snúa út að Arnarhóli. Hvernig á að framlengja Pósthússtræti út á hafnarbakkann og hvað á að vera þar og svo framvegis. Deiluskipulagið ætti að vera margfalt nákvæmari hvað þetta varðar.

    Alvarlegast finnst mér samt hversu illa Reykjavíkurborg stendur sig í að „selja“ þetta skipulag. Myndefnið sem fylgir þessari færslu er almennt ekki spennandi og er ekki hjálpa til við að sannfæra mig um að þetta sé rétta leiðin til að fara með þetta svæði. Þetta er alltof grátt og þunglamalegt og það að skella korti undir massana er engan veginn nægjanlegt til að tengja þá við umhverfið. Þar að auki vantar nánast alla nærliggjandi húsamassa nema Tollhúsið sem kemur bara ágætlega út í samanburði við nærliggjandi massa að mínu mati. Og hvað á myndin með Sigmundi að sýna? Ég vona að hún sé ekki hluti af opinberu efni frá borginni.

    Ef borgin virkilega trúir á þetta skipulag og telur að þetta sé rétta leiðin til fara í hjarta borgarinnar (þó aðrir vilji meina að það sé í 102 RVK) þá ætti hún sjá til þess að kynningarefnið sem fylgir því væri almennilega unnið. Það er ekki flókið að gera þetta aðeins aðgengilegra og krefst hugsanlega 1-2 dags vinnu aukalega.

  • Vek athygli á nýrri athugasemd frá Grabensteiner við síðustu færslu. Hún er alveg í lokin. Hann er faglegur og glöggur.

  • Dennis Davíð

    Breytingarnar á deiliskipulagi Austurhafnar eru að mínu mati til mikilla bóta frá eldra skipulagi sérstaklega hvað varðar hæðir húsa. En það þarf að vanda vel til útfærslunnar á deiliskipulaginu, bæði hvað varðar byggingarnar sjálfar, rýmin á milli þeirra og ekki síst hafnarbakkann sem hefur mikið aðdráttarafl og möguleika. Því hefði ég haldið að hönnunarsamkeppni kæmi vel til greina varðandi útfærsluna. Það er vel þekkt leið fyrir lóðarhafa að fá fram fjölbreytilegar lausnir sem hægt er síðan að velja úr.

  • Gunnar Gunnarsson

    Ég hef ekki mikið vit á tæknilegum atriðum varðandi skipulag en mér finnst þetta ekki spennandi.

  • Gunnlaugur Stefán Baldursson

    Ég er sammála Guðjóni.Skipulagið er rökrétt þróun þess randstrúktúrs,sem er á mill Geirsgötu og Tryggvagötu.
    Þetta var temað í tillögu minni í skiplagssamkeppninni um þetta svæði 2002 (sbr.website baldursson).
    En ef að skipulagsramminn á að virka þarf stefnufasta úfærslu.
    Úþynningin,sem nú er í umræðunni þarf nauðsynlega endurskoðun.
    Hún þarf að laga sig eftir hinu klassíska randstrúkturtema,sem býður uppá mikla möguleika fyrir lifandi borgarlíf.
    Og umræðan á að vera opin því málið varðar alla borgarbúa.

  • Ég segi fyrir mig að ég er frekar hrifinn af þessu skipulagi. Þetta er eins og sagt áður, fyrsta BORGAR deiliskipulag síðan skipulag nafna míns.

    Hér er horft til Evrópskra borga frekar en Amerískra með Randskipulagi.

    Rand skipulagið gefur vel afmörkuð útirými, bæði götur og torg utan randsins og „garðsins“ innan randsins. Þéttleiki tillögunar skapar líf (ef notkunin er lifandi). Þarna er mjög mikilvægt að hafa lifandi jarðhæð, með verslunum, þjónustu os.frv.

    Þetta er skipulag fyrir gangandi fólk en ekki bíla. Þetta er ekki hraðbraut með botnlangagötur og dreyfðri byggð. Eins og Rem Koolhaas segir í Delirious New York, þá er þetta skipulag lýðræðis.

    Þetta er mjög opið og frjálst skipulag og hér er arkitektum byggingana fengið mikið frelsi til að sýna hvað þeir geta.

    En það er ýmislegt sem hefði mátt hugsa betur.

    Það þarf að finna jafvægi í hæðum þessara massa. Jafnvægi milli þarfar á þéttleika, sólaraðkomu og þeirri ýmind sem miðborgin vill. Til samanburðar má skoða muninn á Barcelona og Kaupmannahöfn t.d.

    Það vantar meiri hugmynd um almenningsrýmin. T.d. Lækinn í Lækjargötu, hvar er hann? hvert fer hann í sjó? Er ekki hægt að opna hann?

    Massarnir stöplast niður að Hörpunni. Ég sé enga þörf á að gera Hörpuna ennþá meira að íkoni þarna en hún þegar er. Kannski það séu aðrir staðir sem betur er skalað niður til.

    Það hefði líka held ég verið betra að brjóta niður eignarhluti eða hönnunarhluti þessara massa svo þeir séu ekki einsleitir. Randbyggðirnar í miðborginni eru samsettar úr mismunandi arkitektúr og þar er viss skali til staðar á hverri byggingareind.

    Það þarf einnig að setja upp lárétta skiptingu og fara fram á að jarðhæðirnar séu lifandi, með veitingar, verslanir ofl.

    Auðvita er snúast þessir hlutir líka um jafnvægi milli skipulags og arkitektúrs. Skipulagið þarf að hafa sýn á notkun og líf þessa svæðis, en um leið leifa arkitektúrnum frelsi til að bæta sínu við.

  • Dennis Davíð

    Töluverðar umræður hafa verið um deiliskipulagið við höfnina og fyrirhugaðar byggingar þar. Þetta er að mínu mati þörf umræða og henni ber að fagna þó ég sé ekki sammála öllu sem þar hefur komið fram t.d. því að fagmenn séu viljandi að skemmta skrattanum og skapa tortryggni. Það er ekki mikil hefð hérlendis fyrir umræðum um mannvirki í íslensku umhverfi eða umhverfismál almennt. Menningarleg sjálfsmynd og ímynd Íslendinga tengist bókmenntum fremur en hönnun og arkitektúr og þar er sterk og mikil umræðuhefð og oft tekist hressilega á. Hér hefur skilningur og virðing fyrir hönnun og arkitektúr lengst af verið af skornum skammti ólíkt því sem er t.d. í Danmörku, Finnlandi og víðar. Hið byggða umhverfi á íslandi ber þess víða merki. Margt bendir til þess að hér séu nú að verða sinnaskipti. Með tilkomu hönnunar- og arkitektúrdeildar við Listaháskóla Íslands 2001-2002, stofnun Hönnunarsafns Íslands 1998 og Hönnunarmiðstöðvar Íslands 2008 hafa á skömmum tíma skapast alveg nýjar aðstæður hérlendis. Við eigum þó enn langt í land hvað varðar umræður og skoðanaskipti um þessi mál. Því ber að fagna blogginu hans Hilmars sem er nútímaleg tilraun til að koma á slíkum skoðanaskiptum þar sem allir hafa sömu möguleika til að taka þátt, þar sem allar skoðanir eru jafnréttháar og menn mega skipta um skoðun eins oft og þeir vilja. Íslendingar hafa tilhneigingu til að persónugera skoðanir og oft verður því umræðan vond og til þess fallin að fæla menn frá. Vonandi tekst okkur að þroska umræðuhefðina. Það er mikið í húfi.

    • Örnólfur Hall

      — Vel mælt Dennis Davíð ! — En Hönnunarmiðstöðvar, eins ágætar og þær nú eru, eiga ekki standa að því (verkefnisstjórn) að hafa menn málhefta (t.d. ákveðna arkitekta) sbr. Hörpumálþingið síðast (með sérvöldum 6) !

  • Þetta lítur vægast sagt hræðilega illa út. Allt of mikið byggingamagn.

  • Finnur Birgisson

    Er ekki 6 hæða klumpinum gegnt Arnarhóli algerlega ofaukið? Það sést vel á myndinni sem tekin er frá Bankastræti hvernig hann gerir lítið úr öllu í kringum sig; Hörpunni, stjórnarráðinu og forsætisráðherranum.

    • Hilmar Þór

      Nokkuð sammála þessu Finnur.

      Að sögn eins höfunda er markmiðið að trappa þetta niður að Hörpu. Mér finnst, og fleirum mikilvægara að trappa þetta niður til þess að mæta fíngerðu umhverfi Kvosarinnar.

      Þetta hús sem þú nefnir ætti ekki að vera þarna vegna ásýndarinnar en ekki síður vegna þess að þarna á metnaðarfullur „samgönguás“ að flæða framhjá.

      Þarna þarf að vera rúmt um vegna þess að á þessum stað mun verða meginþungi almannaflutninga um samgönguásinn.

      Ég sé ekki í deiliskipulaginu sem er til kynningar að ásinn sé nefndur eða gert ráð fyrir honum. Það er synd vegna þess að hann er meginstoð AR 2010-2030.

  • Þórarin

    Það opnast ekki linkurinn að kynningu skipulagsins.(hjá mér!)

  • Eru þetta ekki frekar „skýringarmyndir“ en skipulagsuppdrættir?

  • Pétur Örn Björnsson

    Seðlabanki Íslands sést varla á myndinni.

    Um byggingu hans í jaðri Arnarhóls risu langvinnar og miklar deilur á sínum tíma, en vel tókst þó til að lokum þar sem massarnir voru hugvitsamlega brotnir niður í misstórar einingar.

    Einsleitir tröllaklumpar birtast okkur nú á bakka Austurhafnar. Er það virkilega það sem íbúar Reykjavíkur vilja?

  • Jón Ólafsson

    Takið eftir stórhýsinu Seðlabanka Íslands á efstu myndinni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn