Þriðjudagur 30.07.2013 - 06:58 - 17 ummæli

Deiliskipulag í Vatnsmýri – önnur nálgun?

 

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_16

Margir hafa látið þá skoðun í ljós að drög að deiliskipulagi sem lögð eru til grundvallar í fyrirhugaðri byggð í Vatnsmýri sé einsleit og óreykvísk og jafnvel leiðinleg.

Ég er einn þeirra sem tel að þessi fyrirliggjandi skipulagshugmynd sé áhugaverð, svona almennt séð, sem umræðugrundvöllur en það sé mikil áhætta falin í því að „teppaleggja“ ef svo má að orði komast, alla Vatnsmýrina með sama mynstri, alla 140 hektarana eins og drögin gera ráð fyrir.

Ég kalla eftir fjölbreyttara umhverfi á þessu svæði með margvíslegri húagerðum og götumyndum.

Það er verið að vinna að stórum íbúðasvæðum víðsvegar í heiminum alla daga þar sem fjölbreytilega nálgun er að finna.

Eitt þeirra er íbúðasvæði við Essex í Englandi eftir Alison Brooks Architects. Þessi íbúðabyggð fékk nýlega viðurkenningu sem besta nýja íbúðabyggðin í Englandi.

Þetta eru rúmgóð hús með meiri lofthæð en gengur og gerist. Þéttleikinn er 56 íbúðir á hektara sem er mjög mikið á reykvískan mælikvarða. Sérstaklega er eftir því tekið hvað íbúðirnar eru bjartar og samskipti íbúanna og götulíf þægilegt. Húsin eru laus við alla stæla og tilgerð og sem meira er þá eru þau byggð úr staðbundnum efnum sem hæfa staðarkúltúrnum.

Skipulagið byggir á gamalli skipulagshugmynd sem kölluð var „Back-to-back“,  þar sem húsin snéru bökum saman. Hún var illa þokkuð á árum áður vegna þess að húsin höfðu einungis dagsbirtu frá einni hlið og einungis forgarð. Húsin áttu rætur sínar að rekja til iðnbyltingarinnar. Uppúr 1960 var gert átak um að útrýma þessu húsnæði á Bretlandseyjum.

Arkitektarnir hafa endurskoðað þessa gömlu (úreltu að flestra mati(!)) skipulagshugmynd, losað um húsin, gefið kost á dagsbirtu frá fleiri hliðum inn í hýbýlin og gert þakgarð og fl. þannig að sólar nýtur vel úr öllum rýmum húsanna og á útisvæðum, svölum og veröndum.

Hér hefur arkitektunum tekist að laða fram manneskjulega þétta byggð sem er eftirsóknarverð.

Er ekki rétt að leggja til hliðar stórkallalegar hugmyndir um einsleitt „kanoniskt“ skipulag sem fyrir liggur í Vatnsmýrinni og leita í þeirra stað annarra og fjölbreytilegri lausna í hverfaskipulaginu?

Hjálagt eru nokkrar myndir sem skýra sig sjálfar. Neðst er afstöðumynd af hverfinu í Essex þar sem eru 85 íbúðir ásant nærliggjandi skipulagi. Grunmyndir og snið er einnig að finna í færslunni. Allt mjög áhugavert.

Ég minni aftur á að þarna eru 56 rúmgóðar íbúðir á hverjum hektara.

Ég vil sérstaklega benda á skemmtilegt og upplýsandi myndband með viðtölum við íbúa húsanna og atkitekta þeirra. Myndbandið má einnig sjá neðst í færslunni:

http://vimeo.com/70482013

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/07/23/borgarsyn-06-ny-byggd-i-skerjafirdi/

Og hér er uppryfjun varðandi stóru samkeppnina um skipulag og landnotkun í Vatnsmýri:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/01/13/vatnsmyrarsamkeppnin-upprifjun/

Og færsla með tölum um þéttleika hverfa borgarinnar:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/02/11/landnotkun-thetting-byggdar-borgarbragur/

 

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_1sq

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_8

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_10

 Að ofan eru tvær myndir sem sýna verandir á jarðhæð og á annarru hæð húsanna.

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_17

C147_LG_6

 Að ofan eru fallegar grunnmyndir þar sem má sjá flæðið inni í íbúðunum og hvernig dagsbirta og verandirnar fléttast inn í starfssemina og heimilislífið. Að neðan kemur snið sem sýnir lofthæðir. Ef snið og grunnmynd er lesið saman áttar maður sig á spennandi flæði rýmanna. Þetta má einnig upplifa á meðfylgjandi myndbandi.

C147_LG_4

 

 

C147_LG_5

 

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_19

 

 

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_20

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Halldór G

    Skipulagstillaga Skotanna hefur verið tekin svo bókstaflega undanfarin ár, að ekkert hefur mátt skipuleggja á svæðinu nema að það passi inn í þeirra kassa. Má þar t.d. nefna skipulag á Valssvæðinu sem breyta þurfti með ærnum tilkostnaði. Nefna má fleiri dæmi. Tel þetta skipulag mjög gagnrýnrvert enda ekki samþykkt skipulag.

  • Björn Björnsson

    Ég held að ástæðulaust sé að taka skipulagsform skotanna, eins og hun birtist í Borgarsýn 06, of bókstaflega. Það hefur komið fram að borgin er að vinna sérstaka forsögn un Skerjafjarðarhlutann. Bíðum með að gagnrýna þar til sú vinna liggur fyrir.

  • Guðjón Erlendsson

    Þetta er mjög vel gerð útfærsla á raðhúsavenjunni sem Bretar fóru að skipuleggja í byrjun Iðnbyltingarinnar. En skipulag Vatnsmýrarinnar þarf first og fremst að byrja með ákvörðun um hvaða hluta borgarinnar það sé verið að skipuleggja.
    Síðan Ebenezer Howard kom upp með Garðborgarhugmynd sína, þá hafa Arkitektar og síðar Borgarfræðingar reynt að koma með nýjar hugmyndir um skipulag borga, Línuskipulag, Hringborgir, Gangandi borgir ofl. En flest þessara hugmynda hafa fallið um sjálft sig. Það sýnir sig æ oftar að borgir hafa vissa náttúrulega vaxtaþróun.

    Miðborgir eru þar sem þjónusta og stærri samfélagsatburðir eiga sér stað. Þéttleikinn þar er mestur og í vel gerðum borgum eru háar byggingar sem nýta vel hvern fermeter sem gefst. Þéttleikinn fer eftir sögu og þörfum borgarinnar. Dæmi um þetta eru t.d. Miðborg Kaupmannahafnar á lægri endanum á móti Manhattan eyjunni á efri endanum.
    Úthverfi eins og við þekkjum í dag eru frekar ný að nálinni, enda var ekki mikill möguleiki á svo lágum þéttleika áður en bifreiðin var jafn útbreyð og hún er í dag.
    Úthverfi áður (eða Sub-Urbia) þekkjast frá Rómatímanum og uppbygging og þéttleiki þeirra er svipaður og þessi tillaga frá Essex sýnir. Nú á tímum telst þetta hvorki hreint úthvefi, né borgarbyggð, heldur mitt á milli, Semí-úthverfi.
    Þetta er mjög góð hugmynd, en staðsetning þessa hugmynda er spurningin. Er Vatnsmýrin semí-úthverfi líkt og þetta hverfi í Essex, eða miðborg líkt og miðbær Stokkhólms eða Kaupmannahafnar?

    Undirritaður telur að þessi hugmynd eigi vel heima á svæðunum meðfram Miklubraut sem þú ræddir um hér áður. Ég sé t.d. hærri atvinnu og smáíbúðabyggingar meðfram breiðstrætinu, með svona byggð þar fyrir aftan. Þar gætu síðan myndast skemmtileg og samfélagsleg hverfi. Japanir hafa nokkra sögu af slíku skipulagi.

  • Halldór G

    Flugvöllurinn er góður þar sem hann er og veitir fjölda Reykvíkinga vel launuð störf. Við erum fámenn og því mikilvægt að samgöngur séu markvissar og sem stystar. Núverandi Vatnsmýrarskipulag er eitthvað sem að mínu mati á að breyta. Skipulagið tekur ekkert tillit til núverandi byggðar og það er í sjálfu sér ekkert nýtt í því skipulagi. Þetta sem hér er birt er virkilega áhugavert og getur opnað marga möguleika til lausnar skipulags í Vatnsmýrinni hvort sem um hluta þess svæðis er að ræða eða allt.

  • Ólafur Guðmundsson

    Aðalatriðið er að flugvöllurinn verður lagður niður. Svo er næsta skref að bjóða upp á fjölbreytta kosti í skipulagi eins og bent er á.

  • Guðrún Bryndís

    Staðbundið byggingarefni – í Vatnsmýrinni er vonandi nægt torf fyrir framtíðarbyggðina.

  • Þorvaldur Guðmundsson

    Svona húsaþyrpingar færu mun betur við núverandi Skerjafjarðarbyggð en þeir skosku leggja til.

  • Er ekki of mikið í lagt að stefna að miðborgarbyggð í allri Vatnsmýri. Væri ekki skynsamlegra að stefna að þéttri „jaðarbyggð“ þarna í stíl við þessa hugmynd frá Exess? Er 140 ha viðbótarmiðborg ekki of stór miðborgarbiti í lítilli borg eins og RVK?

    Og svo má ekki gleyma þróunarás Aðalskipulagsins.

    http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/06/05/nyr-throunar-og-samgonguas-i-adalskipulaginu/

  • Ánægjulegt að lesa og skoða myndbandið—_allir ánægðir sem von er. Enda frábær hús og gott umhverfi.

  • Ég hef það á tilfinningunni að garðsvæðið við hvert hús sé ekki stórt og að það geti verið ansi lítil birta sem kemst niður milli húsanna. Er það ekki eitthvað til að hafa áhyggjur af?

    Mér líst samt ágætlega á að opna svæðið sé gatan og að hún sé samrými fyrir umferð gangandi, hjólandi og bílandi. Hún þyrfti líka að vera leikvöllurinn þar sem er spilað badminton, fótbolti og körfubolti.

    Hvað með marglofaða sérstöðu íslendinga sem vilja sitt prævasí eins og einhver sagði hér um daginn? Er nóg af því þarna?

    • Hilmar Þór

      Jú Árni Davíðssin þarna er lítið einkasvæði. En við verðum að muna að lág þétt íbúðabyggð er í raun byggð þar sem blokkaríbúðin er fær niður á jörðina. Þ.e.a.s. að kröfur im einkagarð eru aðrar. Í þessu hverfi eru „svalirnar í raun tvær. Aðrar á jarðhæð sem eru svona 25 fermetra og hinar á annarri hæð og þær virðast álíka stórar. Svo er auðvitað „gatan“ sem er hugsað sem leiksvæði.
      Þetta hefur verið gert einusinni í Reykjavík svo ég viti og gengur bara vel. kíktu á þessa slóð:

      http://blog.pressan.is/arkitektur/2012/09/11/thetting-byggdar-bur-lodin-vid-aflagranda/#comments

      Á einni myndinni í færslunni sést hvernig körfuboltaspjald stendur á götunni. Íbúnum líkar þetta fyrirkomulag ágætlega en forsvarsmönnum borgarskipulagsins á sínum tíma líkaði þetta ekki. Kannski skildu þeir þetta ekki!

  • stefán benediktsson

    Afbragðs dæmi um það sem gera mætti í Skerjafirði og reyndar á Valssvæðinu líka. J.G. bendir á að þetta er heildarhönnun. Það er ekkert sem bannar það og ég hef grun um að borgaryfirvöld séu opnari fyrir þeim vinnubrögðum í dag en áður. Fjölbýlishús eru nauðsynleg í bland við einbýli til að tryggja blöndun aldurs og tekna. Tek undir áður nefndar áhyggjur þínar af nýtingu jarðhæða í fimm hæða skipulagshugmynd Skotanna. Jarðhæð húsa í randbyggð verður að hanna með innbyggðum sveigjanleika, svo breyta megi nýtingu í takt við þróun.

  • Pétur Örn Björnsson

    Virkilega áhugavert. Gaman að lesa skemmtilega útfærðar grunnmyndirnar saman við sniðið og ferðast í huganum um húsakynnin og hverfið. Við skulum svo sannarlega vona að nýja byggingarreglugerðin fari beinustu leið í tætarann, enda teldist allt þetta hverfi og húsakynni kolólögleg samkvæmt henni. Takk enn og aftur Hilmar fyrir þínar frábæru pistla, sem ætíð eru örvandi til andans og myndrænnar sýnar.

  • Tek eftir að þarna eru engar gangstéttar. Hverfið er með víkjandi bílaumferð sem er frábært í húsagötu.

  • Frábær færsla og glimrandi íbúðahverfi. Þrátt fyrir að þetta sé að langmestum part sérbýli næst þessi mikla nýting á landinu.

    56 íbúðir á ha.

    Maður trúir þessu varla!

    En gullkornið er þetta:“Húsin eru laus við alla stæla og tilgerð og sem meira er þá eru þau byggð úr staðbundnum efnum sem hæfa staðarkúltúrnum“.

  • Steinarr Kr.

    Þetta erum mjög skemmtilegar hugmyndir.

  • Jón Guðmundsson

    Þetta breska skipulag og húsahönnun er greinilega unnið í einum áfanga. Það er að segja að ekki er unnið skipulag fyrst og það staðfest og síðan ráðist í húsahönnun.

    Gera íslensk byggingalög ráð fyrir að þetta sé hægt?

    Annars er éh bókstaflega heillaður af þessu hverfi og skil að það hafi hlotið verðlaunin sem besta íbúðabyggð breta.

    Já, og menn þurfa að fara sér hægt í Vatnsmýri og hafa kjark til að endurmeta það sem fyrir liggur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn