Þriðjudagur 26.01.2010 - 16:31 - 5 ummæli

Deiliskipulag Landspítalalóðar

Mér hefur borist til eyrna að skipulags- og byggingasvið borgarinnar sé nú að hefja vinnu við gerð forsagnar vegna gríðarlegrar uppbyggingar á lóð Landsspítalans við Hringbraut.
 
Hugmynd borgarinnar er sú að lýsa í forsögninni áherslum borgaryfirvalda um skipulagsgerðina og uppbyggingu á staðnum. 

 

Forsögnin verði unnin á skipulags- og byggingasviði með aðkomu sérfræðinga þar sem áhersla er lögð á landslagsmótun, samgöngur, yfirbragð byggðar o.s.frv.
 
Forsögnin verður að því loknu kynnt og samþykkt í ráðum og nefndum borgarinnar.
 
Í framhaldi verði svo unnið deiliskipuilag.
 
Það er að segja að ekki verður farið í samkeppnisferli fyrr en forsögn skipulagsyfirvalda liggur fyrir.  Af þessu sést að borgin er meðvituð um ábyrgð sína er varðar manngert umhverfi innan borgarmarkanna.
 
Áhyggjur af því að forræði skipulagsvinnunnar verði alfarið falið helsta hagsmunaaðlanum, verkefnisstjórn LSH, er því tilefnislaus.
 
Þetta eru góð tíðindi ef orðrómurinn á við rök að styðjast og fagfólkinu á skipulags- og byggingasviði tekst að vinna eftir fyrrgreindum markmiðum.
 
Á skipulags- og byggingasviði Reykjavíkurborgar vinnur nú hópur hæfileikaríkra fagmanna. Þeir vinna í umboði skipulagsráðs sem er skipað stjórnmálamönnum.
 
Undanfarin misseri hefur komið í ljós að allt þetta fólk hefur unnið að því að opna umræðuna um skipulagsmál í borginni. Það er mikil breyting frá því sem áður var.
 
Nú er bara að fylgajst með, sýna fagmönnum stuðning, stjárnmálamönnum aðhald og taka þátt í umræðunni.

Áhersla verður lögð á landslagsmótun, samgöngur og yfirbragð byggðar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Guðrún Bryndís

    Það eru ljómandi góðar fréttir að skipulags- og byggingasvið borgarinnar vinni að forsögninni. Í samkeppnislýsingu frá 2004 voru lagðar ríkar áherslur á ‘landslagsmótun, samgöngur, yfirbragð byggðar o.s.frv.’ Í forvalsgögnum er ekki gerð krafa um sérfræðinga í skipulags- og umferðarmálum. Áherslurnar liggja að mestu í hönnun risabygginga (50-100.000 fermetra) og sjúkrahúsa.

    Í framhaldi af þessari góðu vinnu sem á sér greinilega stað hjá skipulags- og byggingasviði borgarinnar kemur vonandi skýringin á því hversvegna staðsetning LSH við Hringbraut varð fyrir valinu. Það svarar þá spurningum á borð við:

    -Hvernig styrkir staðsetning LSH við Hringbraut miðborgina, háskólana og vísindi (algengustu rökin).

    -Hvernig öryggi landsmanna allra er best borgið með staðsetningu m.t.t. ferðatíma.

    -Hvort það þurfi að auka við umferðarmannvirki til að greiða fyrir umferð að lóð, þ.e. breikkun gatna, göng, mislæg gatnamót, stokkar ofl.

    -Með hvaða hætti er hægt að láta fara lítið fyrir þessum 175.000 fermetrum sem verða þarna í framtíðinni.

    Þetta eru meðal algengustu spurninga sem koma upp í umræðunni vegna staðarvals LSH við Hringbraut.

    Það má ekki gleyma því að ríki og borg komust að samkomulagi um staðsetngu LSH við Hringbraut á sínum tíma.

  • Árni Ólafsson

    Það er mikilvægur eiginleiki stjórnenda og stjórnmálamanna að geta skipt um skoðun – maður talar nú ekki um ef það er gert með rökum og skynsemi. Ekki síður er mikilvægt að kunna að hætta við slæmar eða rangar áætlanir, jafnvel þótt þær séu langt gengnar.

    Stöðumat, samanburður kosta og áhrifamat og í framhaldi af því endurskoðuð áætlun.

    Hver á að hafa frumkvæði að slíku endurmati? Er það of seint? Er sjálfvirknin í ákvarðanaferlinu alger? Kunna menn að hætta við án þess að missa æruna? Eða þora menn ekki að hætta við vegna þess að þá missi þeir trúverðugleika?
    Mér sýnist umræðan benda til þess að endurmat sé nauðsynlegt til þess að tryggja sátt um uppbygginguna, hvar sem hún verður.

  • Velvakandi

    “Í framhaldi verði svo unnið deiliskipuilag” Þetta eru góðar fréttir en ekki alveg nógu skýrar og það vakna spurningar.

    Verður deiliskipulagið lagt fullfrágengið af borgarinnar hálfu í hendur verkefnastjórnar LSH og keppenda í samkeppninni? Auglýst og staðfest?

    Verður bráðnauðsynleg hugmynd Arkitektafélagsins um að hluta spítalann niður, hluti af forsögninni?

    Það hlýtur að vera.

    Veit verkefnastjórn LSH af þessu? Þetta er ekki í samræmi við dæmalaus forvalsgögn LSH.

    Þetta er nokkuð sérhæf færsla en opnar tækifæri til mikilvægra bollalegginga sem gætu skilað okkur ómetanlegum árangri og afstýrt slysi.

    Og að lokum, ber að skilja þetta svo að staðarvalið sé „firm and final“…..óbreytanlegt sama hversu óskynsamlegt það kann að vera?

    Af hverju tjá arkitektar sig ekki um þetta? Eru þeir ekki meðvitaðir um „samfélagslega ábyrgð“ sína? Er þeim kannski bara skít sama?

    Staðfesting Stefáns Benediktssonar arkitekts er mikilvæg en það þarf meira til. Kanski veit Stefán meira um þetta eða að einhver hafi hvíslað svörum við þessum spurningum í eyru Hilmars.

  • Mig langar að vita hvort þetta verklag sem þarna er kynnt séu ný vinnubrögð? Voru forsendur t.d. skipulagsins við Höfðatorg unnið með sama hætti?

    Voru forsendur þess kynntar fyrir borgarbúum með sama hætti og áætlað er með LSH?

    Annars ber að fagna þessu þó svo að eðlilegast sé að skipulags- og byggingasvið klári deiliskipulagið áður en samkeppnin fer fram.

  • Stefán Benediktsson

    Ég get staðfest þennan „orðróm“ Hilmar og Skipulagsstjóri kannski enn betur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn