Sunnudagur 10.11.2013 - 12:22 - 22 ummæli

Deiliskipulag Landspítalans og Aðalskipulag Reykjavíkur

 

Í aðalskipulagi Reykjavíkur, AR2010-2030, koma fram athyglisverð markmið um húsahæðir.

Þar er sagt að húsahæðir skulu ákvarðast “af hnattrænni legu borgarinnar, nátúrulegri umgjörð hennar, sögulegu byggðamynstri, gatnaskipan og rýmismyndun og yfirbragði aðliggjandi byggðar”.   Þetta er skynsamleg stefna sem er  í samræmi vð opinbera stefnu í mannvirkjagerð frá 2007.

Einnig stendur í AR 2010-2030  að “á svæði innan Hringbrautar er ekki heilmilt að reisa hærri hús en 5 hæðir”.

Þetta eru tvö af mörgum góðum markmiðum sem fram koma í aðalskipulaginu.  Þess ber þó að geta að smá misræmis gætir  milli texta og uppdrátta í aðalskipulaginu hvað þetta varðar.

Þegar nýtt deiliskipulag fyrir Landspítalann, sem unnið var samhliða aðalskipulaginu, er skoðað sýnist manni að nýja deiliskipulagið  sé ekki í samræmi við markmið aðalskipulagsins i nokkrum veigamiklum atriðum.  Á því hlýtur að vera einhver skýring sem ekki blasir við lesendum þessa merka aðalskipulags og þarf nánari skýringu.

Nú þegar hlé er komið á áætlanir varðandi uppyggingu Landspítala hefur myndast svigrúm til þess að skoða þetta betur og samræma byggingaráformin og deiliskipulagið að meginmarkmiðum AR2010-2030.

Þá er ekki bara verið að hugsa til markmiða aðalskipulagsins um hæð húsa og aðlögun þeirra að yfirbragði nærliggjandi byggðar heldur ekki síður að þeim nýju tækifærum sem bjóðast með fyrirhuguðum þróunar- og samgönguás.  Þessi frábæri samgönguás opnar möguleika á nýrri og betri staðsetningu sjúkrahússins. En samgönguásinn á að stuðla að betri samgöngum og vistvænna umhverfi sem er megin þema aðalskipulagsins.

Sjálfsagt er að staðsetja umferðamiðstöð og fjölmennasta vinnustað landsins, nýjan Landspítala, við fyrirhugaðan samgönguás sem á eftir að binda Reykjavík saman í línulega borg, ef vel er á haldið.

En svo aftur sé vikið að markmiðum aðalsikipulagsins um aðlögun að byggð og húsahæðum innan Hringbrautar hefur því margoft verið haldið fram að deiliskipulag Landspítala falli illa að nærliggjandi byggð. Byggingarnar séu allt of stórar og fyrirferðamiklar á þessum stað. Ég deili þessum áhyggjum með fjöldamörgum og undra mig á því að þeir sem stóðu að smíði menningarstefnu í mannvirkjafgerð á sínum tíma, Arkitektafélagið, Listaháskólinn og fl. skuli ekki hafa gert formlega athugasemd við deiliskipulagið í samræmi við stefnuna. Þarna var og er tækifæri til þess að láta reyna á menningarstefnuna og sjá hvers hún er megnug og styrkja hana. Ef það er ekki gert er menningarstefnaf andvana fædd. Þessu tækifæri meiga aðstandendur hennar ekki láta  fram hjá sér  fara.

Ef deiliskipulagið er skoðað sést að hinn svokallaði meðferðarkjarni spítalans, sem stendur innan Hringbrautar, er mun hærri en hefðbundið 5 hæða hús. (venjulega 14-15 metrar á hæð)  Meðferðarkjarninn er 25,4 metrar á hæð eða sem nemur venjulegu 9 hæða húsi. Það er 80% hærra en viðmið aðalskipulagsins. Meðferðarkjarninn er nánast jafn hár og fjölbýlishúsið við Kleppsveg sem sýnt er á efstu myndinni í færslunni og í teikningu að neðan.  Og hann er líka þrisvar sinnum lengri en blokkin og um 17 sinnum fyrirferðameiri ef ég skil uppdrættina rétt!

Það þarf mikinn sannfæringarkraft til þess að fá mig til þess að fallast á að hús sem hefur sömu hæð og blokkin við Kleppsveg, margfalda dýpt hennar og þrefalda lengd falli að “rýmismyndun og aðliggjandi byggð” syðst í Skólavörðuholti eða geti talist 5. hæðir eins og markmið AR2010-2030 stefnir að. Svo ekki sé minnst á menningarstefnuna frá 2007. Það verður þó að segjast að allar stóru byggingarnar sem fyrirhugaðar eru á laqndspítalatorfunni drag eitthvað úr áhryfunum en það munu, ef að lókum lætur, líða margir áratugir það til þær rísa.

Mikið væri kröftum og peningum vel varið ef sá tími sem skapast hefur þar til framkvæmdir hefjast yrði notaður til þess að finna sjúkrahúsinu stað sem sátt er um og fellur að nýju aðalskipulagi borgarinnar í samræmi við meginmarkmið þess.

Ef ekki er skilningur á því að byggja þjóðarsjúkrahúsið í tengslum við samgönguásinn er full ástæða til þess að skoða nánar með faglegum hætti og í fullri alvöru deiliskipulagstillögu þeirra Magnúsar Skúlasonar arkitekts og Páls Torfa Önundarsonar yfirlæknis um aðra nálgun. Aðlaga deiliskipulagið fyrrgreindum markmiðum aðalskipulagsins um húsahæðir og aðliggjandi byggð. Tillofu Magnúsar og Páls Torfa má skoða á þessari slóð:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/02/24/husnaedisvandi-landspitalans-onnur-nalgun/

Að neðan eru myndir úr Deiliskipulaginu og af blokkinni við Kleppsveg sem hér er tekin til viðmiðunar til þess að betur megi átta sig á umfangi  fyrirhugaðrar byggingar vil Gamla Landspítalann og átta sig á hversu tröllaukin byggingin er á þessum stað.

Hér er slóð sem fjallar um þróunar- og samgönguás AR2010-2030

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/05/nyr-throunar-og-samgonguas-i-adalskipulaginu/

Hér er færla um mennningarstefnu í mannvisrkjagerð frá 2007

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/09/29/menningarstefnan-og-landspitalinn/

 

 

Langsnið

Meðferðarkjarninn um 200 metra löng bygging eða ríflega þrisvar sinnum lengri en blokkin við Kleppsveg og jafn há. Meðferðarkjarninn verður samkvæmt skipulaginu 68.500 m2 og sennilega um 270 þúsund rúmmetrar. Blokkin við Kleppsveg sem er jafnhá meðferðarkjarnanum og 1/3 af lengd hans er um 5.600 m2 og aðeins (!) um 15.000 rúmmetrar. Meðferðarkjarninn er um 17 sinnum fyrirferðameiri en þetta stóra fjölbýlishús við Klppsveginn. (ath. hluti meðferðarkjarnans er neðanjarðar eins og sjá má á hjálögðu sniði)

Spurt er: Stenst meðferðarkjarninn menningarstefnuna frá 2007 og markmið AR2010-2030 um aðlögun að „sögulegu byggðamynstri, (gatnaskipan) og rýmismyndun og yfirbragði aðliggjandi byggðar” og húshæð?

Landspþversn

 

untitledkjhkjhiuy

Það virðist blasa við þegar myndin að ofan er skoðuð að deiliskipulag Landspítalans er úr öllum tengslum við „sögulegt byggðamynstur, (gatnaskipan) og rýmismyndun og yfirbragði aðliggjandi byggðar” eins og aðalskipulagið stefnir að. Það virðist líka vera úr öllum hlutföllum við stærð þjóðarinnar og gerð hennar og fjárhagslega getu. Er ekki skynsamlegt að sníða sér stakk eftir vexti og aðlaga skipulagsáætlanirnar veruleikanum, fjárhagslegum möguleikum og öllu umhverfinu?  Er ekki rétt að brjóta odd af oflæti sínu og endurskoða skipulagið í heild sinni, minnka húsin svo þau passi á lóðina eða sem æskilegra er að finna því annan stað. Hefja síðan byggingu sjúkrahússins strax á þeim forsendum. Gildandi deiliskipulag og áætlanir virðast vera á villigötum þjóðinni ofviða auk þess að ekki er almenn sátt um málið.

 

Kleppsvegur cropsnid

Sneiðing í blokkina við Kleppsveg.

photoaaaa

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

  • Þetta verður að stöðva

  • Aðalsteinn

    Hryllilegt að sjá þetta og lesa.

    Og ég sem hélt að árið 2007 væri löngu liðið.

    🙁

  • Sigurður

    Treysti eninn sér til þess að verja þetta deiliskipulag eða skýra samhengi þess við aðalskipulagið?

    Dapurt og sýnir slæma málefnastöðu þeirra sem lagt hafa til þessa tillögu og brúkað til þess almannafé í milljarðavís.

    Svona var Ísland 2007 og er enn!

  • Jón Gunnarsson

    Hér er því lýst á sannfærandi hátt að þetta deiliskipulag gengur ekki og það þarf að endurmeta staðsetninguna. Við megum engan tíma missa og við verðum að byrja framkvæmdir strax.

    Hvað er þá til ráða?

    • Jón Gunnarsson

      Ég reyni að svara sjálgum mér:

      Ég spyr þá sem standa að þessu hvert sé „plan B“?

      Hvað hafa menn hugsað sér?. Þetta deiliskipulag hefur snúist í andhverfu sína og er í reynd niðurbrotsskipulag. Þessi 2007 hugsunarháttur er af þeirri stærðargráðu að ekkert verður úr framkvæmdum. Það þarf að áfangaskipta þessu á kröftugan hátt á nýjum stað. Og það er að Keldum eins og Magnús Skúlason bendir á. þannig væri áformin í samræmi við aðalskipulagið og frelsi skapast til þess að byggja eins og pygjan býður til næstu 100 ára.

      Og hægt að byrja strax.

  • Það er dapurlegt að við skulum hafa í vinnu hjá okkur, í skipulaginu, fólk sem virðist bulla í það endalausa og tekur ekki einu sinni mark á sinni eigin stefnu. Hvað viðvíkur þessum svokallaða „ás“ í núverandi aðalskipulagi þá man ég ekki betur en að um um 30.000 manns hafi mótmælt byggð í Laugardalnum, norðan Suðurlandsbrautar síðast þegar það var reynt. Annað í þessari framkvæmd yrði sennilega álíka erfitt.
    Hins vegar er að myndast hinn eiginlegi ás á höfuðborgarsvæðinu sem liggur frá NA – til SV – frá Mosfellsbæ (Akranesi / Borgarnesi) um Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð og alla leið til Keflavíkur.

    Hvernig væri nú að halda almennt málþing um þennan ás og þá starfsemi sem við viljum tengja við hann í framtíðinni?

    • Hilmar Þór

      Sammála þér Gestur um málþing um samgöngu og þróunarásinn.

      Skipulag er allt of lítið rætt í samfelagi okkar….nánast ekkert. Eins og heyra má af mér þá er ég mjög áhugasamur umn þennan samgönuás sem lagður er grundvöllur að í AR2010-2030 og sé ekki að hann útiloki þann ás sem þú nefnir hér.

      Ég kalla eins og þú eftir málþingi.

  • Hinn svokallaði meðferðarkjarni einn er stærri í fermetrum en allar núverandi byggingar Landspítalans samanlagt og mun stærri í rúmmetrum. Þá erum við að tala um þessa einu byggingu!!!!!!!!!!!!
    Fellur svona tröllsleg bygging að Reykjavík innan Hringbrautar?
    Þetta er galið deiliskipulag sem engin treystir sér til þess að verja….ekki verkefnastjórnin, ekki höfundarnir og ekki stjórnmálamennirnir. „Æxlið“ (ASM) lifir sínu sjálftæða lífi áfram í borgarlíkamanum óáreitt.

  • Magnús Skúlason

    Þetta er fín grein hjá Hilmari.

    Tillögur okkar Páls Önundar eru hugsaðar til fremur stutts tíma m.a. til að forða stórslysi í skipulagsmálum og um leið efla starfsemi spítalans hið allra fyrsta fyrir lágmarksfé.

    Framtíðarstaðsetning nýs sjúkrahúss á síðan vitaskuld að vera á þessum þróunarási sem liggur frá vestri til austurs og kemur þá Keldnasvæðið sterklega til greina.

    Það er einnig bráðnauðsynlegt vegna umferðar að byggja ný atvinnutækifæri austarlega í borginni. Staðsetning H.R. utan í Öskjuhlíðinni er gott dæmi um hið gagnstæða.

    • Nálgun ykkar,Magnús er mjög rökföst og sannfærandi:
      ekki er þrengt að „perlu“ Guðjóns Samúelssonar,sjarmi Þingholtsins verndaður,umferð dreifist skynsamlega í framtíðinni.
      Úrslit samkeppni um spítalann voru vonbrigði.
      En þessa nálgun,þessa undirstöðu má afhenda framtíðarkynslóðum borgarinnar með góðri samvisku.

  • Gallinn er bara sá Hilmar að ekki er búið að samþykkja nýja aðalskipulagið og atriðin úr Menningarstefnunni voru því ekki í gildi i Borginni þegar deiliskipulagið var unnið og samþykkt . Hins vegar er það rétt hjá þér að ríkisframkvæmd LHS fellur undir Menningarstefnuna og því væntanlega í verkahring Framkvæmdasýslu ríkisins að sjá til þess að henni verði framfylgt.

  • Deiliskipulagið er á ábyrgð Reykjavíkurborgar sem ekki er aðili að Menningarstefnu í Mannvirkjagerð – Stefnu íslenskra stjórnvalda í byggingarlist. Það sama gildir um önnur sveitrarfélaög í landinu, því miður enn sem komið er. Hins vegar veit ég að haft var samband við byggingarnefnd LHS á sínum tíma og henni kynnt stefnan þar sem byggingin sjálf fellur undir hana. Það var síðan dómnefnd sem valdi þessa tillögu til útfærslu.

    • Hilmar Þór

      Þetta er allt rétt hjá þér Dennis.

      En Reykjavíkurborg hefur tekið mörg atriði úr menningarstefnunni inn í markmið aðalskipulagsins AR2010-2030 sem er á margan hátt jafngott eða betra vegna þess að aðalskipulagið er samþykkt í sveitarstjórn og undirritað af skipulagsstjóra og ráðherra. Aðalskipulagið hefur því nánast lagagildi sem menningarstefnan hefur ekki.

      En svo má ekki gleyma því að samkvæmt nýlegum ákvörðunum alþingis eru framkvæmdirnar við LSH nú ríkisframkvæmd (ekki einkaframkvæmd eða PPP eins og áður ver stefnt að) Þess vegna er krafan um lága byggð sem fellur að nærliggjandi umhverfi tvítekin, eða jafnvel þrítekin hvað spítalann varðar. Það er menningarstefnan, aðalskipulag sveitarfélagsins og með undirritun ráðherra er komin lagaleg stoð undir markmiðin

  • Björn H. Jóhannesson

    Blokkinn við Kleppsveg sýnir ósamræmi reits LHS við yfirlýst markmið AR . Hægt væri að gera betur.
    Vituð ér enn eða hvat?

  • Þorbergur

    Staðsetningin við Hringbraut! Ég skil ekki þá staðsetningu. Sérstaklega þegar manni er orðið ljóst hve tröllvaxnar þessar byggingar verða. En voru ekki helstu ástæðurnar fyrir staðsetningunni að þar færu svo margir strætisvagnar framhjá. Nú er verið að leggja áherslu á almenningssamgöngur annarsstaðar. Verður þá Landspítalinn ekki úr tengslum við nýja kerfið? Svo voru þau rök, ef ég man rétt; að sjúkrahúsið þyrfti að vera nálægt Háskólanum. Þar er ætlast til að hagsmunnir margra víki fyrir hagsmunum fárra. Svo voru það flgvallarrökin. Þau eru ekki mikið atriði eftir að ákveðið er að flugvöllrinn fari árið 2022. Ein rökin voru að svo og svo margir byggju í reiðhjálafæri fra spítalanum…Það er nú bara dellurök.(þið fyrirgefið orðbragðið)

  • Pétur Örn Björnsson

    Takk Hilmar Þór fyrir þennan og alla þína góðu pistla um arkitektúr og skipulagsmál. Þeir vekja þá sem lesa ætíð til umhugsunar og það er það sem skiptir svo miklu máli að fólk hugsi … og jafnvel hugsi sig um … vonandi.

  • Fínn pistill hjá Hilmari Þór og góðar athugasemdir líka.

  • Guðrún Bryndís

    Í kynningum á þessum stórkostlegu áformum er tæknilegum útfærslum á aðlögun lýst á skemmtilegan hátt:
    1. Hringbraut er færð, þannig að tæknilega eru nýbyggingar innan Hringbrautar.
    2. Hæðir bygginga eru taldar frá kóða Hringbrautar.
    3. Húsahæð svæðisins miðast við hæðir húsa við Austurvöll.
    4. Aðlögun bygginga miðast við Vatnsmýrarskipulagið.
    5. Hugmyndafræði skipulagsins er skrifuð á skipulag Guðjóns Samúelssonar og þarmeð Gamla Spítalans, þ.e. randbyggð – sem var hafnað í seinni skipulagsuppdráttum.
    6. Það þarf ekki að fara í grenndarkynningu, því aðliggjandi lóð tengist spítalanum – þessvegna er heppilegt að setja allt byggingarmagnið þarna.
    7. Þungamiðja umferðar er á þessu svæði umferðarkerfisins.
    8. Það er lýðheilsulega hagkvæmt að allir hjóli (geti ekki ekið lengur) um borgina.
    9. Nefndin (áhugavert að rýna í þekkingu hennar á skipulagi borga) ákvað að spítalinn ætti að vera þarna.
    10. Spítalinn er búinn að vera þarna lengi og það verður stutt fyrir þá sem veikjast og búa í Vatnsmýrinni að komast á spítala.

    Ég tek sérstaklega fram að mér þykir staðsetning, stærð og hugmyndafræði spítalans varhugaverð. Vandinn við þetta verkefni er að það er á embættiskerfissjálfstýringu og við það verður ekki ráðið, þar á þjóðin við ofurefli að tefla, en fær enn eitt stórkostlegt tækifæri til að taka þátt í metnaði fárra….. HJÚKKET

  • Jón Ólafsson

    Ef stærsti vinnustaður landsins á að vera vel tengdur almenningsflutningum (samgönguás) og stofnbrautarkerfi borgarinnar (og landsins) koma tvö svæði il greina: Elliðárós og Höfðinn fyrir austan og svæðið við Keldur. Hvorttveggja frábærir staðir fyrir svona hús og staðir sem gefa mun meiri þróunarmöguleika en núverandi hugmynd getur boðið upp á. Skipulagsgsfók hlýtur allavega að komast að annarri niðurstöðu en að troða þjóðarsjúkrahúsinu niður í 101, innan Hringbrautar ef málið er skoðað af fagmennsku.

    • Guðrún Bryndís

      Spítalinn er betur staðsettur þannig í umferðarkerfinu að hann hafi frítt flæði og sé nærri notendum en þar sem umferðarþunginn er mestur.
      Það er vont að hafa öll umferðarfrekustu mannvirki borgarinnar á sama svæði og auka enn á álagið með því að gera BSÍ að samgöngumiðstöð.
      Ártúnshöfðinn fleirri staðir austan Ártúnsbrekku hafa margar stórar lóðir og eru betur tengdar umferðarkerfinu m.t.t. notenda spítalans (starfsfólk, sjúklingar) en Hringbraut.
      Það verður dýrt að fara í þær breytingar á stofnbrautakerfinu þegar afleiðingar staðsetningarinnar koma í ljós – en fjör hjá vegagerðinni og hefur jákvæð áhrif á …..

  • Hörður H

    Persónulega finnst mér Vífilstaðasvæðið best fyrir þjóðarspíitala .Margir hafa bent á það.
    Myndi líka tappa af einstefnuvirkni umferðar sem stefnir í 101 á morgnana og svo til baka í úthverfin á kvöldin . Myndi spara tíma og umferðarmannvirki.

  • Sigurður

    Þetta bara verður að endurskoða. Það er engin önnur leið fær.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn