Framkvæmd skipulags IV
Hér kemur færsla Sigurðar Thoroddsen nr. 4 sem fjallar um framkvæmd skipulags og deiliskipulag nýrra svæða.
En víkjum að framkvæmd skipulags eins og hún hefur verið. Þau skipulagsstig sem eru undanfari framkvæmda eru tvö, eða: Deiliskipulag nýrra svæða og endurgerð deiliskipulags í eldri hverfum, en á þessu tvennu er mikill munur. Í fyrra tilfellinu er um óbyggð svæði að ræða sem tekin eru til uppbyggingar og lóðahafar koma ekki inn í myndina fyrr en við úthlutun lóða, en í seinna tilfellinu eru lóða- og ýmsir hagsmunaaðilar komnir til sögunnar og gerir það framkvæmdina miklu flóknari. Hér á eftir mun ég fjalla um þann mikla mun sem er á þessu tvennu og einkum hvernig til hefur tekist í eldri hverfum.
Deiliskipulag nýrra svæða
Deiliskipulag nýbyggingarsvæða hefur nokkra sérstöðu miðað við endurgerð deiliskipulags í þegar byggðum hverfum. Yfirleitt er um að ræða óbyggt svæði sem viðkomandi sveitarfélag vinnur deiliskipulagsuppdrátt fyrir ásamt skipulags- og byggingarskilmálum, öðru nafni áætlun um uppbyggingu, og í framhaldi af því fer fram almennt athugasemdaferli og formleg afgreiðsla sveitarstjórnar. Sveitarfélagið annast gatna- og lagnagerð og síðan er lóðum úthlutað í kjölfar auglýsingar, og þá fyrst koma einstakir lóðahafar inn í myndina. Lóðagjöld eru greidd og hönnun húsa fer fram og gerðir eru lóðasamningar. Almennt má því segja að framkvæmd deiliskipulags á nýbyggingarsvæðum valdi ekki miklum deilum, nema ef gerðar eru breytingar á skilmálum vegna einstakra lóða, jafnvel án tillits til heildarinnar, eða að byggingaframkvæmdir hverfisins hreinlega stöðvist vegna óviðráðanlegra ytri orsaka, en þá geta viðkomandi hverfi verið ókláruð árum saman. Þess vegna er mikilvægt þegar í upphafi að gera ráð fyrir hæfilega stórum áföngum sem hægt er að ljúka á eðlilegum tíma. Nýleg dæmi um það eru ýmis hálfkláruð íbúðarhverfi á Höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum í kjölfar hrunsins.
En eins og áður sagði eru unnir skipulagsskilmálar fyrir lóðir og hlutverk þeirra að samræma útlit og yfirbragð hverfisins. Sveitarstjórnum er í sjálfsvald sett hversu strangir skilmálar eru, þ.e. hvort talið er eftirsóknarvert að yfirbragð byggðar sé heilsteypt eða hvort stjórnamálamenn telji rétt að frelsi lóðarhafa sé mikið, og þá á kostnað heildarinnar. Dæmi um stranga skilmála í Reykjavík eru: Melahverfi, Norðurmýri og Fossvogshverfi en um opna skilmála Grafarvogshverfin.
Á morgun fjallar Sigurður um endurgerð skipulags í eldri hverfum. Efst í færslunni er loftmynd frá Úlfarsárdal.
Þar sem skilmálarnir eru strangir þar næst besta samræmingin og heilsteyptustu hverfin. Melar, Norðurmýri. Fólk vill harmóníu í lífi sínu ekki óróleika. Oft er líka hátt fasteignaverð þar sem hverfin hafa einhverja sérstöðu eða séreinkenni eins og húsin á Melunum sem öll hafa sama þakfrágang og skeljasand sem ysta lag. Og ekki má gleyma steinveggjunum við gangstéttar.
Ég get ekki séð annað en að margar leyfisveitingar skipulagsyfirvalda, brjóti gróflega Skipulagslög á þeim sem búa næst þeim húsum sem fá breytingu á notkunarskilmálum.
Dæmi: Íbúðarhúsi, á deiliskipulögðu íbúarsvæði, breytt í Hótel eða gistiheimili. N´tursvefn viðkomandi nágrönnum getur truflast verulega því að mikill hávaði er oft þegar gestir koma eða yfirgefa heimilið, skrölt í dregnum töskum þegar þau eru dregin eftir hellum, skvaldur í gestunum og að ekki sé nú talað um hávaða og fnyk frá rútubílum sem eru í ,,pick uppi“.
Samkvæmt téðum lögum má leyfa léttan iðnað, verslun eða slíka starfesmi sem er til þjónustu við íbúa í grennd svo fremi að þjónustutími sé á eðlilegum fótaferðatíma.
Bensínstöðvar, sem opnar eru allan sólarhringinn og svo framvegis.
Þetta er ólíðandi fyrir íbúa borgarinna.
Einstaklingurinn vill ekki lúta valdboði frá skipulagsfræðingum en það þjónar heildinni betur. Ég styð stranga skilmála sem þjóna heildinni og öllu samfélaginu frekar en hinu svokallaða frelsi sem oftast bitnar á heildinni.
Svona í tilefni myndarinnar sem er birt með pistlinum hefði alveg mátt bæta Úlfarsárdalnum við í flokk hverfa með stranga skilmála.
Á sínum tíma var Úlfarsárdalurinn kynntur sem Þingholtið í úthverfi. Þetta var vegna þess hve þéttbyggt hverfið á að vera. Í þessu ljósi er illvilji borgaryfirvalda í garð hverfisins og íbúa þess illskiljanlegur…
„Þingholt í Úthverfi“
Hverjum dettur svona vitleysa í hug? Maður fer ekki í úthverfi til þess að fara niður í bæ.
Úthverfi er úthverfi og miðbæt miðbær. Það hefur hverfi tekist að skapa eitthvað gamalt á nýjum grunni.
Það er kannski hægt að skapa líflegt mannlíf í nýrri byggð en það verður ekki eins og gömul gróin byggð. Það er bara ekki hægt. Bara aldurssamsetning íbúa getur aldrei orðið sú sama í nýju hverfi eða gömlu.
Hvað hafa verið gerðar margar tilraunir til þess að skapa nýjan Glaumbæ?
Þú ert að misskilja Popp…
Það átti ekki að „endurskapa“ Þingholtin heldur átti þéttleikinn að vera svipaður og í Þingholtunum. Þetta sýnir einnig að það er ekkert lögmál að úthverfi séu drefibýl…
Þaulhugsaðir strangir skilmálar, gerðir af kunnáttufólki er málið. Þá veit maður hverju maður á von við hliðina á sér.