Miðvikudagur 02.03.2011 - 12:15 - 7 ummæli

Deiliskipulag við Vatnsstíg

Fyrir nokkrum árum voru þrjár arkitektastofur fengnar til þess að gera deiliskipulag af lóðunum á horni Vatnsstígs og Laugavegar. Annarsvegar var það ARKD-Arkitektar Hjördís og Dennis og hinsvegar arkitektastofan Arkibúllan. Ég man ekki hver þriðja stofan var. Markmiðið var að tvinna saman aukið byggingamagn í deiliskipulaginu og samtímis að gera sögulegu umhverfi Laugavegar hátt undir höfði. Í skipulaginu eru gerðar kröfur til gæða bygginganna við Laugaveg.  Tillögurnar sýndu að það er mögulegt að tvinna saman uppbyggingu og varðveislu.  Í bók Snorra F. Hilmarssonar “101 Tækifæri” er fjallað um þetta skipulag og talað um að “varðveisla geti líka verið uppbygging” og kveður þar við nýjan tón.

Eftir samanburð var ákveðið að fela Arkibúllunni áframhaldandi vinnu og er skipulag þeirra nú í kynningu sem lýkur 7. mars.

Það er til margs að líta í skipulagsmálum og sjónarmiðin mörg þar sem stundum rekst hver á annars horn. Til viðbótar koma fjárhagslegir hagsmunir og samningar margskonar þar sem ýmsir fyrirvarar og ákvæði fylgja hverjum eigendaskiptum. Þegar vegfarandi gengur göturnar og dáist að umhverfinu aða hryllir við því þá byggist upplifunin á því sem hann sér og skynjar. Lögfræðiálit, reglugerðir og samningar milli einkaaðila er allt vegfarandanum ósýnilegt þó allt þetta hafi haft veruleg áhryf á niðurstöðuna. Hann dæmir eftir því sem hann sér.

Í Tillögunni er gert ráð fyrir að húsin Vatnsstígur 4 og Laugarvegur 33 A víki fyrir nýbyggingu. Efst í færslunni er mynd sem tekin var í kjölfar hústöku og bruna fyrir nokkrum árum. Það er þekkt aðferð víða um heim að láta byggingar eða hverfi „slummast“  og níðast niður til þess að vinna fylgi við stórar og arðbærar framkvæmdir.  Ég er ekki að segja að sú aðferðarfræði sé viðhöfð hér en það læðist að manni sá grunur að aðferðinni sé beitt í Reykjavík eins og víða annarsstaðar.

Ef skýringarmynd, sem vísað er til að neðan, er skoðuð sér  maður hvernig höfundar sjá fyrir sér götumyndina að framkvæmdum loknum. Þar er staðaranda breytt með nýbyggingu og tvær eldri byggingar fjarlægðar.  Ég velti fyrir mér hvort ekki sé farið og geyst í deiliskipulagi á stundum. Eins og hér. Ef horft er á götuna þá kallar hún ekki á deiliskipulag. Það sem þarf að gera er að finna húsunum og götunni hlutverk og gera húsin upp í samræmi við það. Það væri sómi af götunni með þeim byggingum sem þarna standa vel endurbyggðum.

Því miður hef ég ekki undir höndum tölvutækar myndir af skipulaginu og vísa því á eftirfarandi tengla:

Deiliskipulagstillagan (PDF)

Skýringaruppdráttur (PDF)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Nú er ég búinn að fara á staðinn og skoða aðstæðir og ég er sammála Dennis og Hjördísi um að hér sé enn eitt skipulagsslysið í uppsiglingu. Það er ótrúlegt að menn vilji rífa upp götumyndina frá Hverfisgötu til Laugavegs á þennan hátt. Það sést vel á fyrir/eftir myndunum í skipulagstillögunni og mér sýnist höfundar ekki hafa treyst sér til að sýna ljótleikann í þrívíddarmyndinni á skýringarblaðinu. Ég hélt í barnaskap mínum að við værum komin miklu lengra en þetta.

  • Upphafleg tillaga Arkibúllunar gerði ráð fyrir að öll hús á lóðinni yrðu rifin eins og lóðarhafi óskaði eftir með tilheyrandi byggingarmagni. Tillaga ARKHD gerði hins vegar strax ráð fyrir að vernda götumyndina við Laugveg og bakhúsið við Laugaveg 33b með tilheyrandi torgi. Við vitum ekki hvers vegna seinni tillaga Arkibúllunnar var valin en fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og F-lista greiddu atkvæði gegn henni og létu m.a. bóka eftirfarandi „Við allar ákvarðanir um uppbyggingu og skipulag í miðborginni ber að virða anda miðborgarinnar og samhengi sögunnar eftir því sem framast er nokkur kostur“. Það er okkar skoðun að „slum“væðing reitsins sé nú hafin með núverandi deiliskipulagstillögu.

  • stefán benediktsson

    Tillaga Hjördísar og Denna var góð. Mig minnti að tillaga Arkibúllunnar hafi verið samþykkt af því að hún verndaði Götumyndina Laugavegsmegin. Vatnsstígstorgið með skrýtna steypta húsinu var alltaf sannfærandi, en ég sé ekki hvaða forsendur knýja á um að rífa Einars Erlendssonarhúsið.

  • Þar sem málið er okkur skylt þá viljum við koma eftirfarandi á framfæri.
    Um vorið 2008 voru þrjár stofur fengnar til að gera samanburðartillögur. Þær voru Arkibúllan, ARKHD-Arkitektar Hjördís & Dennis og VA arkitektar. Samanburðartillaga ARKHD var eina tillagan sem gerði ráð fyrir að varðveita götumyndina við Laugaveg 33 og 35 og vernda bakhúsið Laugaveg 33b í samræmi við Húsverndarskrá Reykjavíkur. Tillaga ARKHD gerði jafnframt ráð fyrir að fyrirhuguð uppbygging við Vatnsstíg yrði á anda nærligjandi byggðar og auðvelt yrði að áfangaskipta henni. Meirihluti var fyrir því í Skipulagsráði að velja tillögu ARKHD og var höfundum tilkynnt það símleiðis og þau boðuð á fund daginn.
    Þegar ljóst var hvert stefndi, þá bregður svo við að Arkibúllan sendir inn til Skipulagsráðs nýja tillögu, frítt, sem gerir ráð fyrir að götumyndin við Laugaveg verði vernduð en að Vatnsstígur 4 og steypta bakhúsið Laugavegur 33b verði látin víkja úr götumyndinni svo og litla torgið fyrir framan það. Næsta sem fréttist af málinu var að einum manni í skipulagsráði, Sigmundi Davíð, hefði snúist hugur og var tillaga Arkibúlunnar samþykkt í Skipulagsráði í nóv. 2008 með sérbókun frá þremur í minnihlutanum og Magnúsi Skúlasyni.
    Nú árið 2011 er kominn fram enn ný tillaga (breyting á deiliskipulagi) frá Arkibúllunni. Sú tillaga gerir nú ráð fyrir að bakhúsið við Laugaveg 33b fái að standa en steypta viðbyggingin á Laugavegi 35, eftir Einar Erlendsson arkitekt, verði rifin og húsið Laugavegur 33 fært til sem því nemur með tilheyrandi raski. Ef viðbyggingin á Laugavegi 35 verður rifin, þá dettur götumyndin niður og verður flatneskjuleg. Það er einmitt þessi misháu hús á Laugavegi 33 og 35 sem gefa götumyndinni karakter. Það að leyfa niðurrif á þessu húsi setur alla götumyndina og endurnýjun hennar í uppnám. Heldur ólíklegt er að eigendur húsana við Laugaveg 33 og 35 viðhaldi þeim eða endunýji þau þegar niðurif hangir yfir einu þeirra. Auk þess er þetta dýr og óhagvæm framkvæmd sem afar ólíklegt er að farið verði í á næstu árum og því hætta á að húsin við Laugaveg drabbist niður. Hér er enn eitt skipulagslysið í uppsiglingu og ábyrgð skipulagsráðs er mikil. Fyrirhuguð nýbygging við Vatnsstíg er í engu samræmi við gömu byggingarnar á reitnum og tekur ekki mið af byggðamynstrinu sem þar er. Skýringarmyndin sýnir lokaða nýbyggingu sem er allt of fyrirferðarmikil og klossuð, allt að því brútal í umhverfi sínu. Hún bókstaflega kæfir Laugaveg 33b og gerir þeirri bygginu lágt undir höfði. Engin tilraun er gerð til að brjóta upp massann eins og sést á skýringarmynd sem er ósannfærandi. Þar er auk þess sýndur langur og fyrirferðamikill veggur, sem við teljum að sé til lýta og jafnvel hættulegur umferð. Hann virkar ruddalegur í umhverfi sínu og á engan veginn heima á þessum stað.
    Við erum að vonum hugsi yfir vinnubrögðum skipulagsyfirvalda varðandi þetta mál allt saman. Í fyrsta lagi varðandi vinnubrögðin og valið í samanburðartillögukeppninni, sem var, að okkar mati, ófaglegt. Í öðri lagi ofbýður manni hringlandahátturinn og virðingarleysið gagnvart gömlu húsunum, sem endurspeglast m.a. í tillögum Arkibúllunnar þar sem ýmist á að rífa þau öll eða sum til skiptis. Lítið tillit virðist vera tekið til Húsverndarskrár Reykjavíkur og Húsakönnunar Árbæjarsafns og þeirra verndunarsjónarmiða sem þar koma fram. Páll Hjaltason, núverandi formaður skipulagsráðs, sagði í ágætu erindi sem hann hélt í Hafnarhúsinu í febrúar 2010, að það hefði löngum verið óráðegt af arkitektum að gagnrýna skipulagsyfirvöld af ótta við að fá ekki verkefni á þeim bænum. Við ætlum nú samt að láta þetta flakka, ef það gæti orðið til að bæta vinnubrögðin hjá skipulagsyfirvöldum og efla skipulagið í Borginni, sem okkur þykir vænt um. Hér eru hagsmunir Borgarinnar í fyrirrúmi.

  • Samúel Torfi Pétursson

    „Ekki veit ég hvað menn höfðu í huga þegar reitir miðborgarinnar voru deiliskipulagðir“

    Eru þetta ekki dreggjar af þróunaráætlun miðborgar og áætluninni um „Uppbyggingu og verndun“ við Laugaveginn, rétt eins og mörg önnur svipuð dæmi frá Laugaveginum og þar um kring?

    Nú, þegar kaupæðisbólan er sprungin og rykið sest, er ekki gott tækifæri til að ræða stöðu og hlutverk Laugavegarins á ný? Og í framhaldi af því, megindrætti við endurskoðun á skipulagi svæðisins?

  • Það sem hefur gerst er að í deiliskipulagi margra reita í miðborginni er gefið fyrirheit um mikla aukningu á fermetrum bygginga. Oft svo mikla aukningu að lóðin og byggingarétturinn verður meira virði en húsið sem á lóðinni stendur.

    Þegar svoleiðis stendur á er ekki fjárhagslegur ávinningur af því að halda gömlu húsunum við og reitirnir slummvæðast.

    Þessa þróun sér maður víða í miðborginni. Þess vegna er deiliskipulagið orsakavaldur. Ekki veit ég hvað menn höfðu í huga þegar reitir miðborgarinnar voru deiliskipulagðir .

    Húsaverndun og staðarandi var ekki framarlega á forgangslistanum. Það sem borgin á að gera er að vernda götumyndir og heimila mikla uppbyggingu á baklóðum. Flytja gömul hús í öll göt í húsaröðinni meðfram götum.

    Skipulag á borð við það sem hér er kynnt er slæmt fyrir einkenni staðarins.

    Það voru gerð mistök í deiliskipulagi margra reita í miðborginni. Húsaverndun og staðarandinn var ekki framarlega á forgangslistanum. Þessu þarf að snúa við og endurdeiliskipuleggja með öðrum áherslum. Gildandi deiliskipulög stuðla að slummvæðingu eins og dæmin sanna.

  • Guðmundur

    Smá leiðrétting og smámunasemi: Myndin er frá því eftir hústökuna og aðgerðirnar gegn henni (þar sem lögregla gekk hart fram: http://torfusamtokin.blog.is/blog/torfusamtokin/entry/859313/). Bruninn varð hins vegar nokkru síðar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn