Föstudagur 05.03.2010 - 21:11 - 9 ummæli

DESIGNA arkitektar – kynning

aberdeen

 

DESIGNA er íslenskt arkitektafyritæki sem er til helminga í eigu VA arkitekta og Á Stofunni arkitekta. Fyritækið var stofnað með það markmið að ná fótfestu á breskum arkitektamarkaði. Til að byrja með var DESIGNA stofnað til þess að halda utan um tryggingar og fjármál verkefnanna.

Óhætt er að segja að DESIGNA hafi náð góðum árangri og hafa verið reystar þrjár skólabyggingar í Skotlandi hannaðar af stofunum tveim undir merkjum DESIGNA.

Á undanförnum árum hafði Á stofunnar komist í gegnum tvö forvöl áður en VA arkitektar voru fengnir til samstarfs. Auk þess  hafa stofurnar verið kallaðir  til verka í fjórða sinn, á Hjaltlandseyjum. Forvölin voru í héruðunum Angus, Scottish Border og Aberdeen. Fengu íslensku stofurnar  mjög góða dóma fyrir verk sín á öllum stöðunum og báru loks sigur úr bítum í Aberdeen. DESIGNA var kallað til Hjaltlandseyja vegna skólabyggingar þar og áttu fundi með yfirvöldum. En það náðust ekki samningar.

Hjálagt eru myndir af einni skólabyggingu  sem hönnuð var undir merkjum DESIGNA og opnuð var síðastliðið haust í Aberdeen.  Þetta er Cults Academy sem er um 20 þúsund fermetra framhaldsskóli með fullkominni íþróttaaðstöðu. Skólinn er ætlaður 1150 nemendum. Gerður er góður rómur að byggingunni og hefur verið lofsamlega fjallað um hana í sjónvarpi, dagblöðum og tímaritum.

Þetta er eitt dæmi af mörgum sem sýnir og sannar að íslenskir arkitektar standa erlendum starfsbræðrum sínum erlendis hvergi að baki. Þvert á móti.

Eftir bakslag í efnahagsmálum heimsins og lægð í byggingariðnaði hafa tækifærum DESIGNA erlendis fækkað. En öll él styttir upp um síðir.

DESIGNA er dæmi um íslenskt fyrirtæki í arkitektaþjónustu sem hefur ekki burði til þess að vera ábyrgðaraðili í samkeppni um hönnun nýs Landspítala Háskólasjúkrahúss að mati þeirra sem sömdu forvalsgögnin. DESIGNA  hefur ekki hannað þrjú 500 sjúkrarúma spítala á síðustu 10 árum, eins og verkefnastjórnin óskar helst.

Maður veltir fyrir sér hvað vakir fyrir íslenskum stjórnvöldum og viðhorfi þeirra til atvinnulífs hér á landi þegar kröfur á borð við þessar eru á borð bornar.

New Image4

052d2e72b3[1]

New Image5

 

e325462e2a[1]

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Einar Guðjónsson

    Finnst þetta vera hinn íslenski skúr með glerveggjum. Skrýtið að hinn íslenski skúr og hið séríslenska skúrþak sé orðið að útflutningsvöru.

  • Hilmar Þór

    Úlfar Bragason segir í kommenti að ofan:

    “Sem sagt, allt í lagi með íslenska arkitekta erlendis en á Íslandi vill Arkitektafélagið halda erlendum arkitektum burtu, ma. með því að beita tungumálinu! Var einhver að tala um samkeppni á jafnréttisgrundvelli!”

    Kommentið gefur tækifæri til þess að leiðrétta miskilning.

    Það er ekki ósk Arkitektafélagsins að íslenska sé tungumál samkeppninnar.

    Sú krafa kemur annarstaðar frá en er að mér skilst í samræmi við venjur. Þ.e.a.s. að þegar danir auglýsa samkeppni þá er tungumálið danska og þegar bretar auglýsa samkeppni þá er tungumálið enska o.s.frv.

    Aðalmálið er varðandi athugasemd Úlfars er að Arkitektafélagið fór ekki fram á að tungumálið yrði íslenska.

    Almennt varðandi forval um hönnunarsamkeppni um nýtt Háskólasjúkrahús við Hringbraut er að Arkitektafélagið kom ekki að samningu forvalsgagnanna.

    Arkitektafélagið sá ekki forvalsgögnin fyrir auglýsingu þeirra og birtingu á netinu.

    Hinsvegar gerðu arkitektar athugasemdir við gögnin eftir auglýsingu og þeim var komið til skila á æðstu stöðum. Í athugasemdunum gagnrýndu arkitektar að forvalsnefndin gerði kröfur til þáttakenda sem voru þannig að enginn íslensk arkitektastofa gat fullnægt þeim. Nefni ég kröfu um reynslu í hönnun sjúkrahúsa, meðferð höfundarréttar, mannafla að baki ábyrgðaraðila og m.fl.

    Íslenskir arkitektar óttast ekki samkeppni erlendra kollega sinna og hafa aldrei gert, enda óþarfi eins og dæmin sanna.

    Það er mér fyrirmunað að skilja hvaðan þessi miskilningur er runninn sem Úlfar Bragason er haldinn. Arkitektafélagið kom ekkert að forvalsgögnunum, svo það sé endurtekið enn og aftur.

    Kannski Úlfar geti upplýst hvaðan hann hefur þetta sem hanngerir að umfjöllunarefni hér.

    En ég vil árétta það hér að aðdragandi samkeppninnar ber af sér slæman þokka og er vitnisburður um slæma stjórnsýslu.

  • Úlfar Bragason

    Sem sagt, allt í lagi með íslenska arkitekta erlendis en á Íslandi vill Arkitektafélagið halda erlendum arkitektum burtu, ma. með því að beita tungumálinu! Var einhver að tala um samkeppni á jafnréttisgrundvelli!

  • Í pósti til Félags Sjálfstætt Starfandi Arkitekta (FSSA) lagði ég til að ef ekki fengist leiðrétting á forvalsgögnunum ættu arkitektastofurnar að snúa bökum saman og sniðganga þetta forval sem mér sýnist að sé afar óaðgengilegt fyrir margra hluta sakir ekki síst framsali höfundarréttar. Einhliða ákvöðun útbjóðanda varðandi afsal höfundarréttar arkitekta finnst mér vægast sagt ruddaleg og ég er afar ósáttur við hana. Þessi skilmáli markar tímamót og mun hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar til framtíðar vegna þess fordæmis sem það gefur. Í skilmálum forvalsins vantar augljóslega mikið upp á að jafnræðis sé gætt og margt í þeim er beinlínis órökrétt. Því miður fékk tillaga mín heldur dræmar undirtektir hjá stjórn FSSA. Ég geri mér grein fyrir því að, að það var mikill þrýstingur að fara í þessar framkvæmdir en það verður engin framkvæmd án aðkomu íslenskra arkitekta.

  • Þorseinn

    Var ekki alltaf sagt; „Enginn er spámaður í sínu föðurlandi“

    Ég veit að öll verkefnastjórn LSH les þessa síðu og öll komment.

    Hvers vegna tekur þetta fólk ekki þátt í umræðunni hér?

    Er málstaðurinn slakur?

    Er þöggun í gangi?

  • Hilmar Þór

    Magnús.

    Þitt innlegg er umhugsunarvert en á sér skýringar. Oftast er reiknað með um 10 m2 á nemenda í grunnskólum. En það tekst ekki alltaf og yfirleitt eru aðilar sáttir við 11 m2 á nema.

    Hinsvegar er þetta öðruvísi í framhaldsskólum þar sem koma til margskonar sérgreinastofur , félagsleg aðstaða og þ.h.

    Í Cults Academi er mjög mikið gert úr íþróttaaðstöðu með margskonar sölum og sundlaug. Þessu til viðbótar er þarna viðamikið bókasafn og nokkur þjónusta við grenndarsamfélagið.

    Ég nefni til dæmis að aðstaða hverfislögreglunnar er oft tengt skólum í Skotlandi.

    Til viðbótar er ég sammála Kára um að umræðan ber meriki þess að sjálfsmynhd arkitekta er ekki uppá marga fiska. Þeir kunna ekki að bera hönd yfir höfuð sér, að því er virðist. Taka ekki þátt í umræðunni og ekki fá þeir stuðning frá verkfræðingum.

    Þetta eru daprir tímar hjá arkitektum.

  • Þetta lýtur allt vel út en það er annað sem stakk mig. Tæplega 1200 nemendur og 20.000 m2 eða 17,39 m2 á nemenda er það ekki vel í lagt eða er þetta eðlilegt? Hver er staðan í Íslenskum framhaldsskólum? Eða á þetta sér bara eðlilegar skýringar.

  • stefán benediktsson

    Auðvitað skapa frábærir arkitektar, frábæran arkitektúr. Það sem er ekki frábært er að aðstandendur Landspítalans skuli ekki vera raunsærri og jákvæðari í kröfum ssem þeir gera til hönnuða.

  • Þetta virðast frábær hús sem eru til sóma fyrir íslenska arkitekta og sýna að þeir þola alla samkeppni sem þeir fá tækifæri til að etja kappi við.

    Þurfa stjórnvöld ekki að gera grein fyrir kröfum í forvalsgögnum og arkitektar að gera grein fyrir ástæðu þess að þeir létu þetta yfir sig ganga?

    Er sjálfsmynd arkitekta svona langt undir velsæmismörkum?

    Spyr sá sem ekki veit.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn