Föstudagur 04.12.2009 - 10:38 - 5 ummæli

Einbýlishús án útlits

 

 

 

Ungir japanskir arkitektar sem kalla sig “Suppose Design Office” hafa vakið athygli.

 

Þeir sem hafa komið til Japan og gengið um eldri íbúðahverfi, taka eftir þvi að húsin standa oft á mjög litlum lóðum þar sem útsýni er nánast ekkert.

 

 

Við þessum aðstæðum er brugðist með þvi að hámarka notkun dagsljóss og með því að spila með minimaliskt landslag japanskrar garðlistar. Í því húsi sem hér er lýst er einmitt þetta viðfangsefnið.

 

Vandamálið þarna eru fá gæði lóðarinnar, þrengsli og ekkert útsýni. Þetta er vel hannað hús sem sem vert er að skoða nánar.

 

 

Húsið sem er staðsett í Nagoya hefur sérstakt rými sem nánast er eingöngu ætlað örfáum plöntum, japanskur innigarður. Takið eftir að það er ekkert feimnismál að fara á snyrtinguna. Þess ber þó að geta að þegar hurð snyrtingarinnar er dregin fyrir verður glerið mjólkurlitað.

 

 

Lóðin er mjög mjó tæpra 4 metra breið og um 20 metra löng. Hús standa á lóðamörkum langhliðanna og annarrar stutthliðarinnar. Til þess að bæta upp galla lóðarinnar og nánast algeran skort á útsýni er dagsbirtu leyft að flæða niður eftir útveggjum þar sem hún upplýsir japanska smágarða sem helstu vistarverum hússins tengjast.

 

Rými hússins og “garðar” hafa fengið sömu áferð og efnistök. Athyglisvert er hvernig snyrtingin blasir við frá eldhúsi og borðstofu.

 

 

Steina- og blómabeð tengja saman stigahús borðstofu og blómastofuna.

Hönnuðirnir ungu láta blómagarðinn tengja saman húshlutana og báðar hæðir. Gluggarnir tveir eru án útsýnis. Einungis er um 100 cm að næsta húsvegg.

 

 

Eftir er að hengja myndlistina upp sem kemur á veggi hinna japönsku garða.

 

 

Húsið er eins og áður er getið byggt á mjórri, langri og leiðinlegri lóð sem hefur ekki uppá marga góða kosti að bjóða. En með sérstæðri nálgun hæfileikaríkra arkitekta hefur tekist að skapa skemmtilegt og þroskandi umhverfi sem hverjum manni er sæmandi.

 

 

 

Þetta er aðkomuhliðin. Húsið hefur í raun ekki annað útlit vegna aðstæðna þarna. Athyglisvert er að hönnuðurnir notuðu ekki tækifæri til þess að nota útsýnið frá þessari hlið. Það er sennilega vegna þess að það sem þar var að sjá er ekki aðlaðandi.

 

 

Að neðan fylgja nokkrar myndir og teikningar sem ég fékk sendar frá teiknistofunni og geta lesendur skoðað þær og ljósmyndirnar saman til þess að átta sig betur á húsinu. Það er sjaldgæft að teikningar fylgi með umfjöllun um þetta hús. Skýringuna er kannski einmitt að finna í þeim sjálfum.

 

 

 

Fyrsta hæð er 34,8 fermetrar og önnur hæðin er 41,8 fermetrar.

 

 

 

Ef áhugi er fyrir að skoða verk Suppose Design Office nánar þá er slóðin þessi: www.suppose.jp

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • hvorfor ikke:)

  • Árni Ólafsson

    Hjólastólar hvað?

    Áhugavert og fróðlegt að skoða heimasíðuna sem bent er á hér að ofan. Athyglisvert hve lítil ummerki eru um líf og búsetu í þessum húsum. Ef arkitektúr á að fjalla um fagurfræðilega mótun hins hagnýta veruleika má ekki gleyma því hagnýta. Ef það gleymist skiptir engu hversu listrænt húsið verður.
    Meðal þess “hagnýta” eru bæði aðgengismál og öryggi. Sums staðar eru flottir stigar sem lofthræddir kæmu aldrei nálægt og aðrir ekki nema í öryggislínu. Frumlegt að hafa klósettið í stofunni – spurning hvort það þjóni einhverjum tilgangi öðrum en “að vera öðruvísi”. Eru japanskir siðir e.t.v. ólíkir okkar að þessu leyti? Eða er ég svona hrikalega jarðbundinn?
    H.C. Andersen skrifaði einu sinni ævintýri sem tók á svona málum en það var ekki um hús heldur textíl.

  • Japanir eru upp til hópa fremur lágvaxið fólk og alvarleg offita virðist ekki vera stórkostlegt vandamál, a.m.k. ekki miðað við Vesturlönd. Örugglega hjálpar það til þegar kemur að ör-húsum sem þessum.

    Athygli vekur að arkitektinn mjókkar annars mjög mjótt rými með blómagarði meðfram langvegg, þ.e. í þessu rými sem virðist vera sameiginlegt eldhús og stofa. En kannski gefur þessi tiltölulegi langi blómagarður ákveðna tilfinningu fyrir fjarlægðum og lengdum í íbúð þar sem fjarlægðir og lengdir eru af mjög skornum skammti

    Enn og aftur: Japanir eru ugglaust vanir meiri þrengslum en við.

    En við íslendingar mættum örugglega gera meira af því að nýta okkur ofanbirtu, vera með þakglugga til að lífga upp á rými.

  • Eiríkur K.

    Ég mæli með að fólk skoði heimasíðu Support.

    http://www.suppose.jp

    Þar er hægt að skoða fjölda húsa sem þau hafa teiknað við mjög erfiðar aðstæður. Pínulítil húsin eru flest algerir demantar. Þau eru byggð á alskonar ómögulegum lóðum. Þetta er svo sannarlega hæfileikaríkt ungt fólk.

    Vonandi fer ekki fyrir þeim eins og Richard Meier eða Frank Ghery sem misstu hæfileikana við að fá stór verkefni. Þeir voru flinkir í minni byggingum en misstu það þegar verkefnin stækkuðu.

    Skoðið heimasíðu þessa kornunga fólks.

  • Það er alltaf gaman að skoða óhefðbundnar lausnir eins og þessa. Þarna kennir margra grasa og margt sem er frábærlega vel gert miðað við þessar þröngu aðstæður.

    Mikill árangur frábært flæði og rýmismyndun á aðeins 76 m2.

    Maður gæti hugsað sér svona einingu í til dæmis fjölbýlishúsi. Það væri frábært. En þá mundi maður auðvitað fá útsýni og nota það.

    Hinsvegar sýnist mér vanta bæði þvottahús og geymslur en það rýrir ekki þessa flottu íbúð að neinu marki og má bjarga.

    Það er hressandi að fá svona kynningu í allri meðalmennsku byggingarlistarinnar hér.
    Við þurfum meiri frumlegheit í gerð grunnmynda og rýma en skulum ekki vera of frumleg þegar hús eru formuð í viðkvæmu umhverfi. Þar á maður að vera íhaldssamur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn