Þriðjudagur 28.05.2013 - 06:37 - 2 ummæli

Eldri hugmyndir í skipulagi

005_04_04_800Eldri hugmyndir í skipulagi

 

Framkvæmd skipulags II

 Sigurðar Thoroddsen heldur áfram frá í gær og fjallar hér um eldri hugmyndir í skipulagi:

 

En víkjum stuttlega að fortíðinni.  Fyrsta heildarskipulag fyrir Reykjavík  er frá  1927 og nefnt „Skipulagsuppdráttur af  Reykjavík innan Hringbrautar „ og var á næstu  árum  í stórum dráttum farið eftir þessari áætlun,   en  þegar kom   fram til  ársins  1933   var farið að ræða   í  bæjarstjórninni að taka skipulagið  til endurskoðunar.  Í  janúar 1934  birtast athugsemdir  við skipulagið í Lesbók Morgunblaðsins eftir Sigurð Guðmundsson arkitekt, og mun það vera í  fyrsta sinn sem  athugasemdir við skipulag  heils  bæjarsamfélags  eru gerðar.  

Í  athugasemdum Sigurðar kemur fram   að hann fjalli eingöngu um Miðbæinn,  eða  gömlu  kaupstaðarlóðina frá 1786-1892,   vegna þess að hann  hafi orðið fyrir ýmsum skipulagslegum skakkaföllum,  og sé því í yfirvofandi hættu, eins og hann orðar það,  en að hægt sé að bjarga ýmsu,  ef fljótt er brugðist  við.  Með athugasemdunum fylgir áðurnefndur  skipulagsuppdráttur  frá 1927, og   inn á hann eru færðar   með „rauðum strikum“  nokkrar tillögur um breytingar. Helstu athugasemdir hans varða  breytingar á legu gatna í  skipulaginu frá 1927, breikkun þeirra og   framlengingu,  en minna um fyrirkomulag byggðarinnar.   Sem dæmi leggur  hann til að Austurstræti verði framlengt inn í Grjótaþorp,  uppundir Garðastræti og þar byggt Ráðhús. Ennfremur telur hann rétt að gera greinarmun á hlutverki gatna með hliðsjón af umferðarþunga, þ.e. skiptingu í umferðargötur  og   íbúðargötur. Hér er m.ö.o. kominn  fyrsti vísir að flokkun gatna. Ennfremur gerir hann athugasemd við að í nýjum hverfum sé ekki gerðar tillögur um afmörkun lóða.   

Kirkjustræti telur hann að þurfi að breikka milli Austurvallar og Aðalstrætis, bæði vegna umferðar og útlits,  og að framlengja Kirkjustræti beint yfir í Lækjargötu.  Ennfremur að Austurvöllur sé orðinn leiðinlegur sem lokað torg,  og verði sennilega ekki hjá því komist að breyta stórum hluta vallarins  í bílastæði. Sigurður leggur til að Lækjagata verði „hlykkjulaus“ til norðurs,  þannig að Esjan blasi við.

Hér hefur verið stiklað á stóru varðandi athugasemdir Sigurðar, en segja má að þær varði fyrst og fremst að rétta úr „hlykkjóttum“ götum til að mynda góðar sjónlínur og útsýni eftir þeim. Ekki er beinlínis fjallað  um þörf á bílastæðum nema ef vera skyldi á Austurvelli. Of langt yrði að telja upp allar athugasemdir sem hann  gerði, en þær voru margar og sumar athyglisverðar.  Hinsvegar  er mér ekki kunnugt um að   bæjarstjórnin hafi tekið  mið af þeim við uppbyggingu Miðbæjarins.  

Mánuði eftir að athugasemdir Sigurðar Guðmundssonar arkitekts  birtust  í Lesbókinni,    berst atvinnumálaráðuneytinu  bréf dagsett í febrúar  1934  frá Jóni Þorlákssyni verkfræðingi og  borgarstjóra,   þar sem hann gerir grein fyrir viðhorfi Reykjavíkur til skipulagsins frá 1927 og ástæðum þess að það var  ekki staðfest.  Helstu rök borgarstjórans gegn skipulaginu eru að sumu leyti þau sömu og Sigurður,  þ.e.  að götur séu of mjóar og muni ekki anna þeirri umferð sem þegar sé orðin  í bænum. Auk þess sem að götur standist ekki á.  Einnig að gert sé ráð fyrir breyttu  fyrirkomulagi byggðar  í eldri  hlutum   bæjarins,  sem séu  þegar  byggðir, og  að það  gangi ekki upp.  Ekki sé ástæða til að fara  út í endurbyggingu  eldri hverfa  í Reykjavík.

Í þessu sambandi má geta þess að nokkru  áður,  eða árið 1933,  hafði birst  greinarflokkur eftir Jón Þorláksson  í Morgunblaðinu um nokkur bæjarmál,  þ.m.t. endurskoðun skipulagsins frá 1927,  en þá voru bæjarstjórnarkosningar framundan. Í einni greinanna  ræðir hann sérstaklega um byggingu flugvallar fyrir Reykjavík og mælir með að hann verði gerður í Vatnsmýri,  vegna þess að þar sé  mikið dýpi niður á fast, þannig að  svæðið    henti vel fyrir flugvöll.  Hér er í fyrsta skipti lagt til,  að  í skipulagi Reykjavíkur verði gert  ráð fyrir flugvelli. Og eins og kunnugt er,  var það skipulagt  framkvæmt, en áður  höfðu  ýmsir  verið með  bollaleggingar um sama efni, og  tún í Vatnsmýri  öðru hverju nýtt sem lendingarstaður.  

 

 

Vegna þess að þarna er minnst á flugvöll  sem skipulagður var í Vatnsmýri um 1933 bendi ég á eftirfarandi slóð:

 http://blog.dv.is/arkitektur/2011/12/08/reykjavikurflugvollur-flokkusaga/

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Hilmar Þór

    Samskipti þeirra Sigurðar Guðmundssonar arkitekts og Jóns Þorlákssonar borgarstjóra vekja athygli.

    Þarna kemur fram að þeir vilja ekki skipulag sem stangast á við gömlu byggðina eða það sem fyrir er. En skipulagið frá 1927 gerði ráð fyrir að gamla byggðin viki að mestu fyrir nýju skipulagi (rjótaþorp m.m.).

    Það sem lika er athyglisvert er að borgarstjóri styður gagnrýni arkitektsins.

    Þessi grein Sigurðar Guðmundssonar í Lesbók Morgunblaðsins 1933 var sennilega áhrifameiri um framtíð borgarinnar en margan grunar.

  • Ólafur Jónsson

    Flugvöllurinn í Vatnsmýri er á dagskra í pistli Sigurðar. Hann er líka á dagskra varðandi aðalskipulag Reykjavíkur.
    Nú hefur hann verið verið í Vatnsmýrinni í 94 ár samfellt. Flugvöllurinn þarna hefur átt mikinn þátt í vexti og stöðu borgarinnar innanlands og á alþjóðavetvangi. Og hann á eftir að hafa hana áfram ef skynsamlega er haldið á spöðunum. Ganga þeir heilir til skógar sem ætla að leggja Reykjavíkurflugvöll niður innan 10 ára án þess að annað nothæft tækifæri komi í hans stað?
    Ég bara spyr.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn