Miðvikudagur 07.06.2017 - 11:40 - 13 ummæli

Enn eru byggingar rifnar í Reykjavík.

Það er alltaf erfitt að horfa upp á niðurrif eldri húsa sem eiga sér sögu.

Þar er oft saga og verk liðinna kynslóða þurrkuð út. Ég las í Morgunblaðinu áðan að nú er verið að rífa gömlu höfuðstöðvar Strætisvagna Reykjavíkur við Kirkjusand!  Húsin sem er verið að rífa eru tæplega 50 ára gömul og voru teiknuð af Guðmundi Þór Pálssyni arkitekt. Þetta eru, eða voru, ágæt hús hvernig sem á er litið.

Maður veltir fyrir sér hvort ekki hefði mátt fella þessi mannvirki inn í nýtt deiliskipulag og gefa því um leið nýtt hlutverk? Einhverja atvinnustarfssemi, hverfisverslun eða hverfismiðstöð. Kannski leikskóla eða grenndarskóla?  Einhvern veginn finnst manni þetta hús hefði getað sómað sér vel í nýrri blandaðri miðborgarbyggð og gefið byggðinni mikilvæga sögulega vídd í leiðinni.  Sennilega voru menn eitthvað að flýta sér og ekki gefið sér tíma til þess að hugsa sig um.

Líklegt er að fyrir þessu niðurrifi liggi vel rökstuddar ástæður þó þær liggi ekki í augum uppi. En ég hugsa til Völundar- og Kveldúlfsskálanna vestar við strandlengjuna sem rifnir voru fyrir aðeins nokkrum áratugum og margir sakna.

Á Kirkjusandsreit er fyrirhuguð blönduð miðborgarbyggð. Reitnum verður skipt upp í nokkrar lóðir og er byggingarmagn í heild áætlað um 75 – 85 þúsund fermetrar.  Um helmingur byggingarmagns verður atvinnuhúsnæði, skrifstofur og þjónusta, en gert er ráð fyrir um 300 nýjum íbúðum af fjölbreyttum gerðum á svæðinu.

 

 

Að neðan koma svo tvær tölvumyndir af fyrirhugaðri byggð við Kirkjusand. Þetta virðist ágætt skipulag með tiltölulega lágri og þéttri borgarbyggð með blandaðri atvinnustarfssemig og fjölbreyttu úrvali íbúðagerða en vandséð er nauðsyn þess að byggingar Strætisvagna Reykjavíkur, SVR, hafi þurft að víkja vegna meginmarkmiða skipulagsins um blandaða miðborgarbyggð. Þvert á mót var þarna möguleiki á að gefa byggðinni sögulegar rætur.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Ég þekkti vel til Fjalarkattarssins því þar var mitt leiksvæði utan sem innan. Húsið var komið í niðurníðslu og var ekki bjargandi en var mikill eldmatur en þar héldu til drykklumenn sem fóru ekki vel með eld innandyra. Slökkviliðið var með miklar áhyggjur vegna þessa og minnugt þess að miklir eldar höfðu verið þarna í miðbænum á árum áður en enginn bauð sig fram til bjargar húsinu því var húsið rifið. Vissulega þar um mikil menningarvermæti en þetta á ekki við um obban af húsum sem rifin eru.

  • Hilmar Þór

    Þétting byggðar er vissulega af hinu góða ef hún gengur ekki á grænu svæðin en hún hefur ekkert með þetta niðurrif að gera. Það má víða þétta verulega án niðurrifs eins og hér í því dæmi sem er tekið til umfjöllunar.

    • Það er þitt mat en borgin ræður. Málið er að það má alveg rífa ýmsa kumbalda sem ekki þjóna okkur að sama marki og áður. Ég er fæddur hér í borginni árið 1940 og man tímana tvenna og er mjög fylgjandi niðurrifi til þéttingu byggðar.

    • Hilmar Þór

      Þó svo að ég sé aðeins 5 árum yngri en þú þá sýnist mér við vera af sitt hvorri kynslóðinni.

      Þú ert af gamla skólanum meðan ég komst til þroska í stúdentabyltingunni.

      Það var einmitt á hennar tímum og hennar vegna sem vitundarvakning um eldri hús varð. Ég tók þátt í mörgum aðgerðum varðandi niðurrif húsa í Kaupmannahöfn á námsárum mínum og umræðu um niðurrif húsa í Reykjavík og á íslandi öllu. Þ.m.t. verndun Torfunnar, Fjalarkattarins og endurnýjun húsa í Flatey.

      Sannfæring mín hefur styrkst með hverju árinu um að það beri að gera allt til þess að halda í söguna og byggingaarfleyfðina.

      Mér sýnist nánast alltaf vera hægt að þróða borgir og nútímavæða án þess að grípa þurfi til þess að slátra húsum og slátra sögunni.

      Ég hef hinsvegar áhyggjur af yngri kollegum mínum og yngri stjórnmálamönnum sem virðast haldnir e.k. „nýbyggingafýkn“.

    • Sennilega er það rétt að ein enn fýknin er vaðandi uppi: „Nýbyggingafýknin“ sem engu hlýfir fyrir nýjan skammt af nýrri byggingu!!

      Gott hugtak: „Nýbyggingarfýkn“

  • Hilmar Þór.

    Þetta kallast þétting byggðar og er af hinu góða.

  • Þorsteinn Guðmundsson

    Það er vissulega eftirsjá af flestum þeim húsum sem eru látin víkja. En það verður ekki annað sagt en að oft tekst vel til þegar byggt er upp að nýju. Rammagerðin í Hafnarstæti er gott dæmi með sínu „straujárns“ horni til austurs.

    En niðurstaðan er sú að það er of mikið rifið. Það gengur allt of mikið á og menn eru of mikið að flýta sér. Sum húsin eru meira að segja rifin „óvart“

  • Hilmar Þór

    Þetta er einhvermisskilnngur hjá þér Magnús. Niðurrif er alls ekki forsenda uppbyggingar. Heldur oft og miklu frekar hið gagnstæða. Þessi fullyrðing þín er einhver flökusaga sem margsinnis hefur verið afsönnuð. Þetta sé maður í heilu borgunum vestan hafs og austan. Ég ætla ekki að nefna neinar en viðurkenni samt að sumar borgir hafa byggst á því að hús hafa verið rifin. Allt á sinn stað og sína stund. Stundum er niðurrif forsenda uppbyggingar og stundum hið gagnstæða. Þetta SVR hús sem hér er verið að fjalla um stendur ekki ívegi fyrir uppbyggingu á reitnum og niðrrifið á húsinu er ekki forsenda uppbyggingarinnar. það get ég fullyrt með vissu.

  • Dolli.

    Þú virðist ekki skilja málið. Niðurrifið er til að hægt sé að byggja nýtt og betra, skilið.

  • Þetta niðurrif og uppbygging er til fyrirmyndar og áfram skal haldið borginni til heilla.

    • Viljum við sem sagt frekar niðurrif en uppbyggingu, Magnús?

  • Sigríður Björnsdóttir

    Ég ber mikla virðingu fyrir sögunni og verkum forfeðra okkar. 50 ára hús eru ekki gömul en í okkar samhengi og okkar veruleika eru þau það. Það má líka minnast þess að SVR er ekki til lengur og gaman hefði verið að eiga þetta minni um það blómlega fyritæki sem var. Þarna hefði verið kjörið að hafa höfuðaðsetur nýju borgarlínunnar.

    • Hilmar Þór

      Aðalskrifstofur borgarlínunnar hefðu sómað sér vel þarna. En samkvæmt skipulaginu sýnist mér að atvinnustarfseminni sé einkum ætlaður staður norðaustar á svæðinu þar sem Glitnir var eða Íslandsbanki. En það útilokar ekki ágæta hugmynd þína Sigríður.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn