Mánudagur 02.10.2017 - 08:58 - 12 ummæli

Eru arkitektar misnotaðir?

Það veit það enginn hversu mikil vinna liggur að baki einnar samkeppnistillögu arkitekta, nema að hafa reynt það á sjálfum sér.

Venjulegur vinnustundafjöldi að baki hverrar tillögu er milli 400 og 600 tímar. Þessu til viðbótar kemur prentunarkostnaður  og fl. sem eru hrein útgjöld upp á milli 50-100 þúsund krónur á hverja tillögu.

Ég var í fjölskipaðri dómnefnd í arkitektasamkeppni fyrir nokkru þar sem komu 64 tillögur. Ætla má að vinnuframlagið hafi verið samtals um  32.000 stundir vegna allra tillagnanna. Alla þessa vinnu má  verðleggja  upp á tæpann hálfan milljarð króna ef  innheimt væri samkvæmt algengum tímataxta.

Niðurstaða fékkst í samkeppninni og var almenn ánægja með hana.

En að niðurstöðunni fenginni var verkið afhent einhverjum arkitekt sem ekki var einu sinni þátttakandi í samkeppninni. Hvaða arkitekt mundi slá hendinni á móti slíku boði?

En arkitektar létu þetta yfir sig ganga möglunarlaust eins og ekkert væri.

Þetta var samkeppni um hótel við Ingólfstorg/Víkurgarð og Austurvöll ásamt útfærslu borgarrýmanna, Víkurgarð og Ingólfstorg.

Í samkeppninni var mikil áhersla lögð á borgarrýmin og þess vegna var landslagsarkitekt í dómnefndinni. Þetta var fjölskipuð dómnefnd með sjö dómurum. Þar af þrem borgarfulltrúum og aðila frá Listaháskólanum. Allt mjög metnaðarfullt.

Það komu eins og áður sagði 64 mismunandi hugmyndir um framtíð Vikurgarðs.  Sumar aldeilis ágætar.

Nú 5 árum síðar dettur borginni í hug að auglýsa aftur samkeppni um Víkurgarð. Líklega til þess að leysa vandamál sem upp hefur komið vegna málefnalegrar garnrýni á fyrirhuguðum framkvæmdum þar.

Í mínum huga er þetta alger veruleikafirring. Fyrir mér  liggur beint við að endurmeta hinar 64 tillögur af tilliti til nýrra sjónarmiða varðandi Víkurgarð og fela þeim sem skiluðu bestu tillögunni verkið í stað þess að etja arkitektastéttinni allri aftur út á foraðið vegna málsins.

+++++

Tilgangur með arkitektasamkeppnum er í aðalatriðum tvíþættur. Annarsvegar er um að ræða hugmyndaleit og hinsvegar leit að arkitekt til þess að taka að sér verkið.

Það gerist oft eftir að dómnefnd kemst að niðurstöðu að það verða breytingar á  aðstæðum sem bregðast þarf við. Þetta er mjög algengt. Ég nefni í þessu sambandi samkeppni um skrifstofuhús Alþings fyrir svona tveim áratugum. Fyrstu verðlaun hlaut Sigurður Einarsson arkitekt hjá Batteríinu ásamt félögum sínum. Það er skemmst frá því að segja að ekkert var notað af hugmyndum Sigurðar í samkeppninni í endanlegri útfærslu.  En helsti árangur samkeppninnar var að Alþingi fann arkitekt sem var hæfur og hafði áhuga á að taka að sér verkið. Það gerði hann og og tókst það með miklum ágætum.

+++++

Nú stefnir Landsbanki Íslands á að útskrifa samkeppni meðal arkitekta um höfuðstöðvar sínar í miðborginni í annað sinn á tæpum áratug.

Að mínu mati er þetta óþarfi og ósanngjarnt gagnvart arkitektastéttinni og öllum þeim sem tóku þátt í samkeppninni fyrir stuttu. Sérstaklega fyrstuverðlaunahöfunum sem eru með þeim þekktustu í faginu í heiminum í dag. Sigurvegarinn var Bjarke Ingels Gruop í Danmörku ásamt íslensku arkitektunum hjá Arkiteo. Það er sjálfsagt að leita beint til sigurvegaranna í fyrri samkeppninni og fela þeim að aðlaga verk sitt að nýjum aðstæðum og nýjum þörfum líkt og gerðist með Alþingi og fl. Það er að mínu mati ósanngjarnt að auglýsa nýja samkeppni um þetta sama verk.

Arkitektar ættu að sýna stéttvisi og standa með vinningshöfum í afstaðinni samkeppni um verkið og sannfæra útbjóðanda um að semja við BIG og Arkiteo á grundvelli þeirrar vinnu sem þegar hefur veripð unnin.

++++

Þriðja dæmið sem ég vil nefna og nú er á döfinni er samkeppni um nýja umferðamiðstöð við Hringbraut. Borgin ákvað nú í sumar, ef marka má Morgunblaðið um helgina, að etja arkitektum út í samkeppni um þetta mikla og mikilvæga mannvirki.

Þetta er merkilegt verkefni og í raun sjálfsagt að setja það í opna samkeppni þegar að því kemur. En málið er alls ekki komið það langt að tímabært sé að leggja það á herðar arkitekta að etja kappi um þetta.

Í fyrsta lagi er hin ágæta Borgarlína á frumstigi. Það eru enn að minnstakosti 3 ár þar til þær áætlanir verða komar á beinu línuna og tímabært að leggjast í hönnunarvinnu vegna aðalskiptistöðvarinnar. Í öðru lagi er fluglestin enn á hugmyndastigi og engan vegin ábyrgt að gera ráð fyrir henni enn sem komið er í samkeppni um húsið. Í þriðja lagi er það flugvöllurinn, sem er satt best að segja í vindinum og ekki vitað hvort hann verði lagður niður eða nýr byggður í hans stað annarsstaðar.  Og í fjórða lagi er ekki búið að tryggja fjármagn fyrir nokkru af  þessu, hvorki Borgarlínunni,  fluglestinni eða nýjun flugvelli á nýjum stað ef það verður ofaná. Það er heldur ekki búið að fjármagna sjálfa Umferðamiðstöðina nýju sem keppa á um og óvíst er hvernig hún á að þjóna öllu þessu.

Vissulega er hægt að vera með einhverjar upplýstar ágiskanir um þetta allt en það er óábyrgt að leggja alla þess vinnu á arkitekta á þeim grundvelli.

Það liggur ekkert á að setja þetta í samkeppni. Fyrst þarf að ljúka þeirri vinnu sem fyrr er getið.

+++

Eru arkitektar misnotaðir eða láta arkitektar misnota sig?

Eða er þetta bara allt í lagi?

+++

Hér strax að neðan eru tvær myndir sem sýna tillögu Norbert Grabensteiner að Víkurgarði sem hann lagði með tillögu sinni í samkeppni um Vikurgarð, Ingólfstorg og Austurvöll ásamt húsunum þar á milli árið 2012. Um tillöguna sem er byggð á vönduðum hugmyndagrunni má lesa nánar hér:

 

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/08/30/vikurgardur-tillaga-grabensteiner/

 

 

Eins og sjá má af hugmyndum Grabensteiner þá er tekið með miklum þokka og hugmyndaauðgi á þessum helga stað.


Að Lokum er svo ein mynd frá fyrstuverðlaunatillögu af  höfuðstöðvum Landsbankans sem haldin var fyrir tæpum 10 árum. Vinninghafinn er einn færasti og þekktasti arkitekt veraldarinnar í dag, daninn Bjarke Ingels sem vann keppnina í félagi við  íslensku teiknistofunni Arkiteo.  Það væri fengur fyrir Reykjavíkurborg og íslendinga alla að fá byggingu eftir þennan merka arkitekt byggða hér í Reykjavík.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Kristinn J

    ER ekki bara málið fyrir arkitekta að vera vindhanar í meira mæli.

  • BIG á að hanna Landsbankann, punktur, það var haldinn samkeppni og óþarfi að halda aðra.
    Er algerlega sammála þessu með þessa misnotun í svona samkeppnum, ekki myndu td. lögfræðingar taka þátt í svona rugli. „sá sem kemur með besta lögfræðiálitið td. vinnur smápening, og færð „kannski“ verkið“…… ekki boðlegt

  • Tillaga Grabensteiner er eitthvað sem ég vil sjá þarna sem fyrst. En snýr kirkjuhugmyndin ekki öfugt á myndunum? Á kórinn og altarið ekki að vera í austurendanum samkvæmt ritúalinu?

  • Áhugaverð pæling.

    En það er líka stór spurning hversu langt er liðið frá samkeppni. Að taka 10 ára gamla samkeppni uppúr skúffu og semja við vinningshafa, sem fengu nota bene greitt fyrir sína vinnu með sigri, finnst mér skjóta skökku við.

    Þá er meðal annars verið að útiloka yngri arkitekta sem höfðu ekki tækifæri að taka þátt í þeirri samkeppni á sínum tíma. Yfirleitt er það nú þannig að þeir sem sigruðu umræddar samkeppnir fengu vinningsfé, sem stendur að hluta til undir þeirri vinnu sem lögð var í verkið.

    Það eru svo örar samfélagsbreytingar sem við lifum við á þessum tímum að það eru kannski allt aðarar forsendur sem gilda í nútíma þó ekki séu liðin nema örfá ár.

    Gott dæmi er kannski þessi blessaði spítali okkar þar sem greinarhöfundur hefur verið ötull í þeirri baráttu að benda á breyttar forsendur.

    Þessi samkeppnismál eru svo kapituli útaf fyrir sig.

    • Hilmar Þór

      STH

      Allt á sinn stað og sina stund.

      En eins og segir í pistlnum þá er megintilgangur samkeppna að leita lausna eða hugmynda annarsvegar og finna arkitekt sem hefur áhuga og tilfinnigu fyrir verkefninu hinsvegar.

      Við erum líklega ósammála þarna.

      En ég tel að í fyrri samkeppninni hafi Landsbankinn fundið frábæra arkitekta til verksins og ættu að nýta sér þann ávinning.

      Varðandi sjónarmiðið að ungir arkitektar hafi ekki lengu aðgang að þessu verki ef samið yrði við fyrri verðlaunahafa þá er það auðvitað rétt. Það er líka of seint fyrir unga arkitekta að taka þátt í samkeppninni um Operuna í Sydney eða Grafarvogskirkju.

      Og þar að auki er nóg af samkeppnum framundan fyrir unga fólkið.

      Og svo er ég líka þeirrar skoðunnar að sá sem vinnur samkeppni hefur örugglega hæfileika til þess að aðlaga tillögu sína að þeim samfélagsbreytingum sem verða á næstu 10-20 árum.

      Og varðandi spítalann þá hef ég verið þeirrar skoðunnar að það ætti alls ekki að fara í nýja samkeppni ef og þegar spítalinn verður fluttur. Sama góða teymið ætti að halda áfram með verkið á nýjum stað. Hinsvegar ætti að skipta allri stjórnsýslunni sem komið hefur að spítalanum út fyrir aðila sem þurfa ekki sífellt að vera að verja verk sitt eins og sú sem nú situr.

      En um þetta allt má skiptast um skoðanir og jafnvel deila,

      Takk fyrir athugasemdina

  • Gunnar Gunnarsson

    Þetta er úr Greinargerð Grabensteiner:

    „VÍKURGARÐUR (Gamli kirkjugarðurinn) þar sem andinn mætir sálinni og lífsandinn tifar

    Útlínur fornleifa verði gerðar sýnilegar, þannig að fólk skilji þær og þekki. Þannig verða þær eðlilegur hluti af umhverfinu og lífi fólks.

    Rólegur og jafnvel andlegur garðurinn mun verða slakandi andstaða við hið hraða miðbæjarlíf. Útlínur og hlutar gömlu kirkjunnar verða gerðar sýnilegar og geta myndað bekki til að hvílast á eftir að hafa heimsótt t.d. markaðinn eða skoðað Landnámssýninguna Reykjavík 871 við Aðalstræti. Jafnvel haldið þar útibrúðkaup.

    Útlínur kirkjunnar mætti mynda með steinarönd (blágrýti/grágrýti). Íslenskur lágur trjágróður, eins og var við upphaf byggðar, umlykur kirkjugrunninn og myndar tilfinningu um borgarskóg“.

    Það er fullkomlega skynsamlegt að kynna þessa tillögu til þeirra sem mest hafa haft sig í frammi um þennan merkilega stað. Hér er mikil sáttatiillafga uppi á borðum.

  • Hjördís

    Ég mæli með linkinum að tillögu Grabensteiner. Þetta er borðleggjandi.

  • Gunnar Gunnarsson

    Það er greinilegt að Grabensteiner (já, hann heitir Grafsteinn) hefur mikla tilfinningu fyrir kirkjugörðum og staðnum. Það væri mikil gæfa og farsæl lausn að fela honum verkið. Hann tekur fullkomið tillit til hins forna grafreits og styrkir hann með nútímalegum hætti. Þetta verður ekki gert betur.

    • Hilmar Þór

      Já.Gunnar Gunnarsson.

      Tillaga Grabensteiner er góð og það má eflaust finna fleiri af þessum 64 sem mætti vinna frekar.

      Það sem fengist út úr annarri samkeppni er frekari útfærsla á hugmyndunum sem vissulega er mikils virði.

      En ég tel að það séu svo mikil tækifæri að finna í öllum þeim auð að ekki sé ástæða til þess að útskrifa aðra samkeppni.

      Tillaga Grabensteiner tekur á öllum aðalatriðunum sem um hefur verið deilt í opinberri umræðu um Víkurgarð undanfarna mánuði og ekki bara það heldur tengir hann þetta bæjarstæði Ingólfs.

      Auðvitað á að fara skynsama leið og fela Grabensteiner verkið.

    • 🙂

      Sammála!

  • „Það liggur ekkert á að setja þetta í samkeppni“ er fullyrt í blogginu.

    Jú það liggur mikið á.

    Það eru kosningar til borarstjórnar eftir tæpa 7 mánuði og þá er gott að eiga glansmyndir af nýrri umferðamiðstöð og nýjum Víkurgarði.

    Umferðamiðstöðin nýja með votum draumum um fluglest og borgarlínu sem gerir höfuðborgarsvæðið að myndrænni heild er einhvert sterkasta áróðurstækifæri sem hugsast getur.

    Fluglestin mun koma þarna sterk inn og færa um leið rök fyrir að enginn Reykjavíkurflugvöllur verði í framtíðinni. Bara Keflavíkurflugvöllur.

    Og svo er það Landsbankinn.

    Og þetta allt á að leggja á herðar arkitekta.

    Arkitektar eiga að segja „Hingað og ekki lengra“

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn