Miðvikudagur 20.10.2010 - 14:42 - 11 ummæli

Eskifjörður – Úrskurður fallinn

 

Ekki verður samið við Einrúm um hönnun hjúkrunarheimilis á Eskifirði samkvæmt fyrstuverðlaunatillögu arkitektanna. 

 

Í samkeppni um nýtt hjúkrunarheimili á Eskifirði komu fram efasemdir um hæfi fagdómara í keppninni. Í framhaldinu var málið kært til Kærunefndar útboðsmála.

 

Nú liggur fyrir úrskurður kærunefndar þar sem felld er úr gildi ákvörðun kærða, Framkvæmdasýslunnar, um að semja við Einrúm arkitekta á grundvelli hönnunarsamkeppni um hjúkrunarheimili í Fjarðabyggð. Gera má ráð fyrir að samið verði við kærandann, arkitektastofuna Stúdíó Strik, sem hlaut önnur verðlaun.

 

Ágrenningur var um hvort Einar Ólafsson arkitekt og eigandi Arkiteo teiknistofunnar hafi verið vanhæfur sem dómari vegna hagsmunatengsla sinna við vinningshafann Einrúm  arkitekta. Arkiteo og Einrúm vinna nú saman að gerð leikskóla fyrir Garðabæ. Komið hefur fram að stofurnar hafi haft með sér umtalsvert samstarf. Áður hafa þær saman hannað Krikaskóla i Mosfellsbæ og fyrstuverðlaunatillögu að höfuðstöðvum Landsbankans.

 

Niðurstaða kærunefndar virðist manni sjálfsögð og eðlileg hvort heldur skoðuð er hefð í samkeppnismálum eða ef meira en 70 ára gamlar samkeppnisreglur Arkitektafélags Íslands eru skoðaðar. Þetta er líka eðlilegt samkvæmt réttlætiskennd siðaðra manna. Samkvæmt samkeppnisreglum Arkitektafélagsins á að svifta fyrstuverðlaunatillögunni verðlaunum og færa aðrar tillögur upp um eitt sæti. Allt annað er óeðlilegt.

 

Ef ekki verður brugðist við þessu leiðinda máli samkvæmt hefð og góðum siðum þá er hætta á trúnaðarbresti milli útbjóðenda og keppenda í samkeppnum með þeim afleiðingum að arkitektar hætta að taka þátt.

 

Það sem er merkilegt við þessa stöðu er að hún hefur aldrei komið upp áður. Að minnstakost hefur engum dottið í hug að halda uppi vörnum í svona stöðu fyrr en nú. Það eitt er umhugsunarvert áhyggjuefni. Kannski er þetta vísbending um hrakandi siðferði.

 

Ég spurði fyrr í sumar þegar málið var kært hvort hefði verið hægt að afstýra þessu? Svar mitt er það sama nú: Já, ég tel það. Ef samkeppnisreglur AÍ hefðu verið notaðar og virtar með allri sinni sögu, verklagsreglum og hefðum þá hefði þetta ekki gerst. Vinningshafinn hefði ekki lagt inn tillögu með samstarfsmann sinn í dómarasæti. Dómarinn hefði gert grein fyrir tengslum sínum við vinningshafann þegar nafnleynd var rofin og vikið. Og svo hefði trúnaðarmaðurinn stöðvað atburðarásina áður en lengra var haldið. Þarna kom til reynsluleysi og viðhorf trúnaðarmannsins. Þarna er líka á ferðinni skortur á skilningi og virðingu fyrir hefðum og góðum siðum.

Það var fjallað um þetta efni hér á þessum vettvangi fyrr í sumar á þessari slóð.

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/08/13/samkeppni-a-eskifirdi-kaerd/#comments

Í einni athugasemd er sagt:

”Það á ekki að líðast að ekki sé farið að reglum og góðum siðum. Íslenska þjóðin hefur farið illa út úr því að virða ekki leikreglur eða þykjast ekki skilja þær. Nú lifum við á tímum sem siðferði verður að hafa forgang sama hvernig og hvar er á litið………”

Ég tek undir þetta og fagna niðurstöðunni. Nú þarf bara að klára málið og færa verðlaunahafa upp í sín sæti.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Örnólfur Hall

    AF FYRRI KÆRUM UM SAMKEPPNIR:

    Í tilefni af nýlegri kæru um samkeppnina á Eskifirði rifjaðist upp fyrir mér hvernig fyrrverandi stjórn AÍ og samkeppnisnefnd afgreiddu eða réttara sagt afgreiddu EKKI kæru mína vegna gerræðislegs umsnúnings undir lok samkeppni um -Lógó- AÍ 2008.

    Kæran 2008:
    -19. september 2008 efndi A.Í. til samkeppni um hönnun á “lógói” félagsins samkæmt keppnislýsingu og samkeppnisreglun A.Í. Þann 6.nóv.átti að skila tillögum. Þeir sem höfðu unnið samkvæmt þessari keppnislýsingu og reglum og ætluðu að skila tillögum 6.nóv. fengu svo allt í einu yfir sig þá skynditilskipun frá stjórninni þ. 29.okt., að nú ætti að skifta um hest í miðri á og breyta öllu sem áður var ákveðið. Og það væri samkvæmt ótilgreindum ábendingum utan úr bæ.
    Skyndiákvörðun var sem sagt tekin og ný keppnislýsing var gefin út og sagt að það væri gert “með tilliti til nokkurra þátta og ábendinga”. Ekkert var sagt hverjir þessir þættir og ábendingar væru. Með þessu, og með því að skipa nýja stærri dómnefnd með utanaðkomandi aðilum í miðri samkeppninni, eru samkeppnisreglur A.Í. þverbrotnar. Brot þetta er einsdæmi í sögu samkeppna á vegum A.Í. og hér með kært.-

    PS Mér finnst alltaf hafa verið 2007-bragur á þessu: Arkitektum sem ætluðu að skila tillögum eins og til stóð (samkv.útboði og reglum) var sýnd lítilsvirðing og vanmat af hálfu áðurnefnda og utanaðkomandi ráðgjafa.
    Samkeppnisnefnd svaraði aldrei kærunni en forystan svaraði eftir 2 mánuði* og sagðist ekki telja sig seka og/eða ekki geta dæmt í eigin máli (* það var brugðist skjótar við ábendingunum utan úr bæ). – Vonandi er þetta líðin tíð.

  • EiríkurJ

    h.b. – svarið er auðvitað að líkur á svona árekstri hefði minnkað enn frekar með færri arkitektum í dómnefndinni.
    Við lestur á því sem skrifað hefur verið um þetta sérstaka mál sést að það eru mörg álitaefni. Td það sem Orri Árnason kvartar undan, að einn dómnendarmaður hafi haft of mikil áhrif í krafti sérþekkingar sinnar á málefninu sem hinir hafi ekki haft. Ekki tek ég þó undir sjónarmið hans um fjölga ætti arkitektum í dómnefndunum nema það sé gert þannig að verkkaupinn beri ábyrgð á öllum tilnefningunum.

  • Þorsteinn

    Það er líka sæmdarréttur sem er þarna á ferðinni. Þeir sem voru í fjórða sæti eiga að fara í þriðja sæti og annað sæti í það fyrsta. Þarna mætast sæmd og skömm. Menn eiga að njóta sæmdarinnar og finna fyrir skömminni.

    Svo eru auðvitað peningar í spilinu.

    Ég geri ráð fyrir að Einrum taki verkið af heimasíðu sinni hið fyrsta og biðji kollega sína afsökunnar.

  • EiríkurJ
    Það voru tveir arkitektar í þessari tilteknu dómnefnd, hinir höfðu aðra menntun. Hvernig passar það inn í þessa kenningu þínu?

  • EiríkurJ

    Það er ástæða til að benda Hans á að vandamálið með tengsl arkitekta og val á dómnefndarmönnum er auðleyst. Fækka arkitektum í dómnefndunum og fá verkkaupanum alfarið í hendur að velja dómnefndirnar. Hvernig sem á málin er litið stenst það alls ekki að arkitektar þurfi nánast örugglega að vera í meirihluta dómnefnda, það er ef verkkaupi vill hafa a.m.k. einn slíkan sem sinn trúnaðarmann í dómnefnd samkvæmt reglum Arkitektaf. Arkitektar eru ráðgjafar og eiga að líta á sig sem slíka, ekki sem forræðismenn verkkaupanna.

  • Hilmar Þór

    Þetta eru góð innlegg í umræðuna hjá Hans og Dennis hér að ofan. Þetta er sérstakt mál sem þarf samt að fá hefðbundna og trausta meðferð. Málið er sérstakt vegna þess hvað það er sjaldgæft. Sem betur fer. Og af hverju er það sjaldgæft? Það er vegna þess að það eru ekki margir sem taka áhættu á því að verða ekki „nappaðir“ eins og hér hefur komið á daginn.

    Áhyggjur Hans um skipan dómnefnda eru ástæðulausar. Þær eru ástæðulausar vegna þess að sá arkitekt sem tekur að sér dómarasæti útilokar alla viðskiptafélaga sína til þáttöku. Það er ekki flóknara en það. Þetta vita allir sem þekkja til reglna og góðra siða í samkeppnismálum. Viðskiptafélagar eða samstarfsmenn eru og voru alltaf fáir. Hinsvegar hefur hið opinbera og aðilar tengdir því auglýst forvalsforsendur sem eru þannig vaxnar að ríkið hefur þröngvað stofurnar til samstarfs fullkomlega að ástæðulausu sbr. Landspítalaforvalið. Þessi afstaða ríkisins þrengir stöðuna og samkeppnisumhverfið og skemmir auk þess fyrir ríkinu, samkeppnisforminu og arkitektunum.

    Ríkið og sveitarfélög hafa einnig látið framkvæmdir í einhverjar hjáleiðir þannig að reglur um opinber innkaup hafa ekki átt við. Þannig fækkar samkeppnum arkitekta. Arkitektaþjónustan hefur ekki farið eðlilegar leiðir af þeim sökum. Af þessu leiðir að samkeppnir fátíðari en vera skildi. Menn velja einkaframkvæmdir eða búa til opinber hlutafélög og þar fram eftir götum.

    Ekki væri óeðlilegt í okkar samfélagi að samkeppnir væru daglegt brauð. Ef skil samkeppna væru til að mynda einu sinni í mánuði væri ekki tiltökumál að sleppa einni af sökum hagsmuna einhverskonar eða setu viðskiptafélaga í dómnefnd.

    Að lokum tek ég undir með Arkitekt69 og upplýsi að miðað við lestur á þessum færslum um Eskifjarðarmálið og mikilvægi þess eru athugasemdafjöldinn hverfandi fáar.

  • Þá er kominn niðurstaða í þessu sérstaka máli. Ég fagna því hvað arkitektar eru samstíga í því að vinnubrögð sem koma að samkeppnum séu vönduð. En hvernig ætla menn að skipa dómnefndir í framtíðinni þar sem einstaka dómnefndarmenn eru ekki tengdir þeim sem taka þátt í slíkum samkeppnum án þess að útiloka meirihluta arkitekta til þáttöku. Við erum nefnilega fámenn þjóð og flestir innan þessarar stéttar hafa unnið saman eða eru tengdir að einhverju leiti. Einnig tel ég það erfitt að ákveða hve mikil tengsl megi vera milli manna sem útilokar þá til þáttöku.

    En í sambandi við niðurstöðu þessa máls um að semja við þá sem fengu annað sæti, sem jafnframt er kærandi í þessu máli tel ég vera verulega varhugaverð vinnubrögð. Ég tel að réttast væri að fella þá frekar allar niðurstöður samkeppninar úr gildi , fá nýja dómnefnd (algjörlega óháða) og endurtaka keppnina með öllum tillögum sem bárust. Þanning getum við reynt að tryggja vönduð vinnubrögð og sangjarna úrlausn mála.

  • Þetta er ekki aðeins hagsmunamál einstakra keppenda. Þetta er miklu stærra mál sem snýst um það hvort farið sé að lögum og reglum í hönnunarsamkeppnum hérlendis og hvort þær séu trúverðugar og þeim treystandi sem að þeim standa. Ef ekki er fylgt lögum og reglum er vegið að grundvelli hönnunarsamkeppna hérlendis og afleiðingin gæti orðið sú að arkitektar hætti að taka þátt í þeim. Það væri andstætt Menningarstefnu í mannvirkjagerð, stefnu íslenskra stjórnvalda í byggingarlist, þar sem lögð er áhersla á hönnunarsamkeppni um framkvæmdir á vegum hins opinbera.

  • Arkitekt69

    Ærandi þögn hérna að vanda þegar umræðan snýr beint að fólki sem starfar í stéttinni.

    Það er lítið mál að gagnrýna nýútskrifaða arkitekta en þegar svona mikilvægt og í raun einstakt mál kemur uppá borðið og maður myndi halda að umræður loguðu um málefnið þorir ekki nokkur maður að segja orð !

  • Það hefur lengi verið hálfgerður vandræðagangur þegar samkeppnir arkitekta hafa verið á vegum ríkisins. Það má segja að það hafi andað köldu á milli arkitekta og ríkisins sem kaupenda þjónustu arkitekta. Á því eru sennilega einhverjar skýringar. Í Fjarðarbyggð var haldin samkeppni án reglna. Hún var haldin á grundvelli “Draga að leiðbeiningum” Þetta er skrítin stjórnsýsla þegar í gildi eru þrautreyndar samkepppnisreglur Arkitektafélagsins. Ríkið vildi ekki nota þær.

    Svo vekur athygli að trúnaðarmaður sem á að gæta hagsmuna bæði keppenda og verkkaupa var starfsmaður Ríkiskaupa, sem enga reynslu hefur af því vandasama starfi. Hefur aldrei tekið þátt í samkeppni, hvorki sem keppandi, dómari eða trúnaðarmaður.

    Þetta var lika óþarfa klaufaskapur í stjórnsýslunni.

    Það má kannski segja að það sé ekki nema von að svona hafi farið þarna fyrir austan þegar stjórnsýslan vill ekki fara troðnar og traustar slóðir í þessum efnum og heldur kunnáttu og reynslufólki sem í boði er frá vinnunni og notar drög sem reglur til þess að fara eftir.

  • Búið að ákveða að önnur verðlaun fá verkefnið.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn