Miðvikudagur 03.08.2011 - 11:33 - 12 ummæli

Eyðibýli á Melrakkasléttu

Í síðustu færslu nefndi ég eyðibýli á Melrakkasléttu sem ég tók eftir á ferðalagi þar um slóðir fyrir nokkru.  Hjálagt eru  nokkrar myndir af einu þeirra.

Ég skoðaði húsið lítillega og sá að það hafði verið vandað til þess í upphafi. Viðir voru vel valdir og smíðin til fyrirmyndar. Til að mynda var stiginn í húsinu völundarsmíð (sjá ljósmynd) og efni valið af þekkingu og reynslu. Sömuleiðis var útidyrahurðin þannig smíðuð að lítil hætta var á að hún mundi vinda sig eða verpast.  Húsin þarna á bænum eru tvö, annað stendur á háum steyptum kjallara sem gefur fallegt útsýni í allar áttir úr björtum og fallega hlutfölluðum rýmum á aðalhæð hússins.

Það vöknuðu margar spurningar.

Ég veit ekki hvað bærinn heitir eða hvenær hann var byggður eða hvenær hann fór í eyði?

Hvers vegna hann var byggður þarna og hvers vegna hann var yfirgefinn?

Hver byggði hann og hver hannaði?

Hverjir bjuggu þarna og hvar eru niðjar þeirra niðurkomnir?

Hverjir fæddust í húsinu og hverjir létust þar?

Þessi hús hafa vafalaust mikla sögu og það er þyngra en tárum taki að horfa uppá þessi vönduðu hús  grotna niður. Væri ekki ráð fyrir félög eða félagasamtök að taka svona hús í fóstur.

Í Flatey á Breiðafirði eru það oftast 3-5 fjölskyldur sem hafa tekið húsin að sér með frábærum árangri og gert úr þeim gersemi sem njóta má um ókomna tíð.

Mörg eyðibýli og eldri hús í þorpum um land alt  eru mun áhugaverðari kostur til þess að verja frítíma sínum en flestar nútíma sumarhallirnar í skipulögðum frítímabyggðum. Það þarf að opna augu fólks fyrir þessum gæðum.

Kannski er þarna áhugaverð tækifæri fyrir Torfusamtökin, starfsmannafélög, fjölskyldur og einstaklinga? 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Hjalti Sigurðsson

    Ég kem alltaf við þarna þegar ég fer um þetta svæði. Var þarna 2007 og þá hitti ég á konu sem var skild síðasta ábúandanum í tréhúsinu. Núna í byrjun febrúar kom ég aftur og þá er búið vinna heilmikið í tréhúsinu. Komið nýtt þak og gluggar og búið að loka því fyrir veðri og vindum.

    hér eru myndir

    http://sphotos-a.ak.fbcdn.net/hphotos-ak-prn1/885371_10151496243562941_454564972_o.jpg

    http://sphotos-g.ak.fbcdn.net/hphotos-ak-frc1/860018_10151496243527941_214814361_o.jpg

    http://sphotos-d.ak.fbcdn.net/hphotos-ak-prn1/882242_10151496243767941_1773542475_o.jpg

    http://sphotos-f.ak.fbcdn.net/hphotos-ak-frc1/887102_10151496243842941_2113459181_o.jpg

  • Björn Erlings

    Nú er tíminn þegar timburhúsin eru á leið í glatkistuna, – það má líka huga að steinhúsunum sem mörg hver eru ekki síðri.

  • Súsanna Finnbogadóttir

    Þetta er frábær fróðleikur Hallur (væntanlega frændi). Gaman að sjá myndir af Skinnalóni frá „einhverjum“ (bið bloggeiganda afsökunar) úti í bæ þar sem mín reynsla er sú að fáir vita hvar Melrakkaslétta er nema þeir hafi eitthvað þangað að sækja 🙂

  • HallurÞorsteinsson

    Sæll Hilmar Þór

    Það er mér ljúft og skilt að svara þessum spurningum þínum eftir efnum og ástæðum!!

    1. Jörðin heitir Skinnalón eins og frænka mín Sigríður hefur áður minnst á. Húsin voru nefnd Skinnalón I og Skinnalón II (steinhúsið) Steinhúsið fór í eyði 1947 er afi minn og amma fluttu til Raufarhafnar með sína fjölskyldu. Reyndar var búið í húsinu af og til fram undir 1960 og eftir það var það notað sem gisti staður vegna sauðburðar fram til 1974 að ég hygg. Timburhúsið fór í eyði 1953 þegar afabróðir minn og hans fjölskilda fluttu einnig til Raufarhafnar.

    2. Fyrrihlutanum af þessari spurningu ætla ég að leyfa þér að velta fyrir þér!! Svarið við seinnihlutanum gæti verið á þessa leið. Skinnalón er sennilega nyrðsta jörð á Íslandi og ákaflega harðbýl. Svo gríðarlega grýtt að örðugt hefur reynst að gera þar nokkrar jarðarbætur á þeim tímum þegar menn gáfust upp við búskap þarna!! Eða eins og segir í bókinni, Landið þitt Ísland: ,, Víða er svo grýtt á jörðinni að þar er jafnvel torfarið fótgangandi“.

    3. Steinhúsið byggði afi minn Hallur Þorsteinsson með dyggri aðstoð frænda míns Kristjáns Guðmundssonar sem vann við trésmíðar, og hygg ég að hann hafi að einhverju leyti hannað húsið, þó án ábyrgðar. Timburhúsið var byggt fyrr en mér er ekki kunnugt um byggingaarár þess. Það gengur í daglegu tali undir nafninu Mangahús, og tel ég að frændi minn Magnús Stefánsson hafi látið byggja fyrir sig húsið eða jafnvel byggt það sjálfur.

    4. Síðustu ábúendur í steinhúsinu voru afi minn og amma, Hallur Þorsteinsson og Kristín Gunnþóra Haraldsdóttir, ásamt börnum sínum sem þá voru fædd. Í timburhúsinu bjuggu síðast afabróðir minn Friðþjófur Þorsteinsson ásamt konu sinni Rannveigu Ólöfu Magnúsdóttur (dóttir þess er byggði húsið) ásamt börnum sínum sem þá voru fædd.
    Niðjar þessara heiðurshjóna eru niðurkomin um allan heim, s.s. USA, Spáni, Danmörku, Tyrklandi, Þýskalandi auðvitað að megninu til á Ísland og vafalaust víðar!!

    5. Svarið við fyrripart þessar liðar er að ég get fullvissað þig um að það líður varla sá dagur að maður syrgi ekki það getuleysi að gera steinhúsið ekki upp. En koma tímar og koma ráð!! Seinnihlutinn er þannig að hann er varla svaraverður, en sennilega vel meint. Það er jú eignarréttur í landinu.

    Varðandi það sem Kiddi segir.
    Þá veit ég ekki til þess að Friðrikka langafahálfsystir mín hafi fæðst í Skinnalóni. Hún kom undir í Kílsnesi á vestur-Sléttu þegar langalangafi minn Jón Sigurðsson var vinnumaður þar ásamt Sesselju móður Friðrikku. þær mæðgur fluttu til Norður-Ameríku. Verð þó að viðurkenna að ég er ekki nógu vel að mér varðandi þessa frænku mína!

    Skipalóns nafnið hefur aðeins verið að þvælast fyrir sumum en þar eru menn að rugla saman við Skipalón í Eyjafirði en það bjó meðal annars Þorsteinn hákarlaveiðimaður.

    Vona að þetta svali þörfinni á að fræðast lítillega um þessa áningu. Hafðu bestu þökk fyrir að gefa þér tíma til að skoða þessa perlu lands okkar.
    bestu kveðjur
    Hallur Þorsteinsson

  • Hilmar Þór

    Eftirfarandi fróðleik fékk ég frá ágætum lesanda síðunnar:

    “………….En aðalerindið í dag er að upplýsa þig um eyðibýlið á Melrakkasléttur en ég er ættaður úr Norður-Þingeyjarsýslu eins og þú ef til vill veist.

    Mér fróðari menn segja mér að eyðibýlið sem þú birtir mynd af sé Skinnalón. Þaðan eru m.a. ættuð Vigdís Grímsdóttir rithöfundur, dr. Guðmundur Þorgeirsson fremsti hjartasérfræðingur þjóðarinnar og bróðir hans Gestur Þorgeirsson læknir, Hilmir Jóhannesson leikskáld og trúbadúr á Sauðárkróki en afar og ömmur þessa fólks var fætt í Skinnalóni auk margra annara.

    Margt einstaklega velgefið fólk er ættað frá Skinnalóni. Veit ekki hver teiknaði húsin – því miður.Vona að þetta upplýsi hluta af því sem þú varst að leita eftir.”

    Annar sem hafði samband segir að Skinnalón hafi farið í eyði árið 1947 eða fyrir 64 árum.

  • Hér er textinn sem Jón G. Vitnar í og segir hluta úr sögu eins ábúanda að Skinnalóni. Þetta er skrifað 1926, fyrir 85 árum:

    „HEIMSKRINGLA
    WINNIPEG, 1- SEPT. 1926
    Æfiminning
    Þann 14. júlí þ. á. andaðist á sjúkrahúsinu í Grafton, N. D. húsfrú Friðrika Jónsdóttir Hjálmarsson, til heimilis i Hallson bygð. Og þar sem hún var fyrst ög fremst mörgum góðum kostum búin, þá var hún líka ein af frumbyggjunum í þessu landi. Hún kom með eftirlifandi manni sínum, Hjálmari Hjálmarssyni, frá Islandi árið 1873. I þá daga voru mjög fáir Landár í þessari heimsálfu. —Þau settust að í Toronto, Canada, og bjuggu þar í 15 ár. Arið 1888 fluttu þau hér vestur og settust að 5 mílur norðvestur af Hallson, og hafa búið þar síðan og farnast vel. Þeirra heimili hefir verið ætið veitandi, aldrei þiggjandi. Friðrika var fædd á Skipalóni á Melrakkasléttu í Þingeyjarsýslu árið 1848 og var því nálægt 78 ára gömul, en hér í landi hafði hún dvalið nálega 53 ár. Friðrika hafði meðfædda mikla hæfileika. Hún hafði ekki því láni að fagna að fá mentun í uppvextinum, því það var lítið um skólagöngu á Melrakkasléttu þegar hún var að alast upp. Faðir hennar bjó á Skinnalóni mörg ár sómabúi, en eitthvað af börnum hans býr þar nú“.

  • Stefá guðmundsson

    Margar frábærar ljósmyndir af þessu góða húsi, Skinnalóni 1, má sjá á eftirfarandi slóð:

    http://www.google.is/search?q=Skinnalón&oe=utf-8&rls=org.mozilla:is:official&client=firefox-a&um=1&ie=UTF-8&tbm=isch&source=og&sa=N&hl=is&tab=

    Það er ánægjulegt að heyra að verið sé að gera það í stand.

  • Sigríður Finnboga

    Býlið heitir reyndar Skinnalón og var á sínum tíma stórbýli á sléttu þar sem hlunnindi voru mikil á jörðinni. Það er verið að gera það upp núna veit ég svo það er vel 🙂
    Fjökyldan mín nýtir einmitt annað eyðibýli þarna á sléttu sem sumarhús.

  • Ég hef einmitt oft velt þessu fyrir mér þegar ég sé eyðibýli á ferð um Ísland, að þetta myndu vera miklu meira spennandi sumarbúðstaðir en skipulögðu sumarhúsabyggðirnar.

    Ef maður sér eyðibýli sem manni líst vel á, hvert á maður að snúa sér til að komast að því hver eigandinn er?

    • Signý Gunnlaugsdóttir

      Til að fá upplýsingar um þinglýsta eigendur eyðibýla er best að hafa samband við sýslumannsembætti á hverju svæði.

  • Jón G Snæland

    Bærinn heitir Skipalón, hér eru smá upplýsingar: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2160197

  • Anna Sigurðardóttir

    Orð í tíma töluð.

    Þarna eru mörg góð tækifæri á leið í glatkistuna.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn