Laugardagur 15.12.2012 - 23:07 - 12 ummæli

Eyðibýlin – viðskipatækifæri komandi ára?

Undanfarin tvö ár eða svo hefur orðið viss vakning í umræðu um eyðibýli hér á landi . Sum eyðibýlanna, sem eru á þriðja þúsund, standa uppi meðan önnur eru nánast rústir einar eða jafnvel bara tóftir. Flest eiga þau það sameiginlegt að bæjarstæðin eru falleg og hafa uppá mörg tækifæri að bjóða í sínu nánasta umhverfi.

Ég birti hér myndir af fallegu  slíku húsi á Írlandi sem sýnir hvernig umbreyta má gömlu húsi og færa það til nútímans án þess að anda þess né einkennum sé misboðið að marki.  Arkitektastofan Peter Leggen Asosiates http://www.plaarchitects.ie/ sem sérhæfir sig í endurbyggingu og viðbyggingar við eldri hús er höfundur.

Færslunni fylgja ljósmyndir af umræddu húsi.

Á Íslandi eru nokkrar stofur (ARGOS, Gullinsnið og fl) sem hafa valið sér þetta sérsvið, að endurbyggja gömul hús og byggja við þau. Þá er að koma upp hópur ungs fólks sem hefur sinnt þessu vel í sinni rannsóknarvinnu og gefið í því sambandi út  þrjá bæklinga um efnið sem má nálgast á bóksölu Þjóðminjasafnsins. Nánari upplýsingar má finna hér: http://www.eydibyli.is/

Vonandi tekur fólk sig á og bjargar þessum vcrðmætum frá algerri glötun. Reyndar hef ég ekki sérlega miklar áhyggjur af því vegna þess að hér fer saman húsverndun, verndun menningararfsins og aldeilis ágætt viðskiptatækifæri fyrir þolinmótt fé. Eftirspurn eftir endurbyggðum eyðibýlum mun, að mínu viti, aukast stórlega á komandi árum.

En þess ber að gæta að hér eins og annars staðar þarf að vanda til verka ef  á til að takast. Því miður er samt ástæða til þess að óttast nýja byggingareglugerð  þegar þessi mál eru til umræðu eins og sjá má af grein Magnúsar Sakúlasonar sem birtist nýlega í fjölmiðlum: http://www.visir.is/ny-byggingarreglugerd—husvernd/article/2012712129937

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/08/24/hver-a-eydibylin-og-hvad-eru-thau-morg/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/08/06/eydibyli-vaxandi-ahugi/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/08/03/eydibyli-a-melrakkaslettu/

 

 

 

 

Malarvegurinn, trjáleysið, hesturinn, húsið og víðáttan er sjarmerandi. Svona aðstæður er víða að finna við íslensk eyðibýli.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Eru þetta ekki ný hús?

    Hvernig geta nýhönnuð og nýsmíðuð hús verið ,,augnstungin?“

    • Hilmar Þór

      Það má kannsi spyrja þessarrar spurningar. Þessi hús eru ekki ný en þau voru nánast rústir einar þegar uppbyggingin hófst.

    • jens helga

      Ef húsin voru „nánast rústir“, eru tvær leiðir til uppbyggingar. Annars vegar að endurbyggja þau sem „tilgátuhús“ eða nýta það sem eftir er af þeim og gera allt það nýja sem nýtískulegast með nútíma gluggum m.m?

      Var það ekki niðurstaðan í þessu írska dæmi?

  • Hilmar Þór

    Þetta gistihus á Írlandi er staðsett í viðkvæmri náttúru. Nú las ég í Morgunblaðinu í dag að mönnum standi hugur til að dreifa vinnubúðum frá Kárahnjúkum um landallt, á hina viðkvæmustu staði og selja þar gistingu.

  • Stígvélin í anddyrinu sýna að þarna er útivistarfólk á ferð. Þette er hvorki hús né umhverfi fyrir lakkskó. Flott endurgerð.

  • Her koma leikmannsþankar.

    Mér finnst meginstyrkur þessa Írska húss felast í þrennu:

    1. Það er gamalt að stofni til og efnisval er skotið sögulegum rótum
    2. Það truflar ekki umhverfið og er „reginaliskt“ í allri sinni gerð
    3. Þau atriði sem eru endurnýjuð eru gerð samkvæmt þvi sem best þekkist á okkar dögum hvað varðar tækni, þægindi og útlit.

    Samkvæmt þessu hef ég ekkert á móti því að húsið sé „augnstungið“ eða að glerbyggingarnar eru nútímalegar og léttar.

    Umræðan um eyðibýlin á þessum bissnissnótum er mikilvæg og þannig þarf að ræða alla byggingalist.

    Ég vona að ég særi engan með því að koma með þessi sjónarmið á þessum líka stórfína vef sem ég les alltaf.

  • Árni Ólafsson

    Áhugaverð samtök í þessu samhengi:
    http://www.landmarktrust.org.uk/

  • Vel meint

    Þetta er hörkugóður pistill hjá þér Hilmar. Hann mun opna augu fólks fyrir eyðibýlunum og möguleikum þeirra. En ég held að vinir þínir hjá Gullinsnið og ARGOS eigi ekki eins auðvelt með að malamiðla og irarnir.

    • Hilmar Þór

      Sem betur fer eru þeir sem sýsla með þessi verkefni hér á landi tillitssamari en írarnir. Þeir hefðu til dæmis ekki augnstungið húsin eins og gert er í þessu írska dæmi og sennilega farið af meiri nærgætni varðandi glerhýsin, millibygginguna og „karnappinn“.

      Það má kannski geta þess að umrætt hús er viðskiptahugmynd sem hefur verið framkvæmd. Húsið er til leigu fyrir ferðafólk.

  • Sigtryggur

    „án þess að anda þess né einkennum sé misboðið að marki“

    Þetta var góður fyrirvari.

    Best er samt ef hægt er að vera nærgætnari. Þetta er flott hús og gagnleg sjónarmið sem koma fram í pistlinum

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn