Föstudagur 01.10.2010 - 16:37 - 15 ummæli

Facadismi

800px-Facadism_in_bucharest[1]

Stefnurnar eru margar í byggingalistinni.

Ég nefni nokkrar; Funktionalismi, Brutalismi, Postmodernismi, Regionalismi, Metafysik, Minimalismi, Dekonstruktivismi, New Wave, Biomorf arkitektúr, Nýrationalismi, Internationalismi.

Og nú sé ég að farið er að tala um Facadisma.

Facadisma!

Facadismi virðist mér ganga út á að láta útlitið ráða ferðinni.  Ég vissi ekki að hugtakið væri til í nútíma arkitektúr.

Eftir að hafa kynnt mér stefnuna lítillega sé ég að þetta á einkum við um það þegar nánast ónothæf hús eru endurbyggð þannig að ekkert stendur eftir af gamla húsinu annað en útveggirnir. Þetta er til þess gert að vernda anda staðanna og gefa byggingunum nýtt hlutverk og líf án þess að trufla umhverfi sem fólk er sátt við.  Maður hefur séð þetta víða í eldri hverfum stórborga og þótt það fara ágætlega.

Þetta gengur stundum langt en það er ekki nokkur vafi á því að þessi nálgun á oft rétt á sér.

Hjálagt eru myndir frá Vínarborg og víðar. Neðst er mynd sem höfundur tók í Suður-Afríku og sýnir hvernig einn veggur húss er látinn standa til þess eins að hlýfa götumyndinni. Handan við veggin er bifreiðastæði.

5029025524_7cc4a3825e_zlett

 

facadism_krischanitz[1]

Sudur Afrika 563lett

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Rögnvaldur Jónsson

    „pótemkin tjöld“ þýðir ekki það sem þú heldur að það þýði, RLIH.

    Það er einnig merkingalaust hjal að tala um „eitthvað sem var ekki til“, enda gerir það ráð fyrir því að arkitektúr sé bundinn mjög ákveðnum tíma og/eða stöðum.

    Sem er rakin vitleysa.

    Menn geta ákveðið að byggja „eitthvað sem var ekki til“ í Aðalstræti Reykjavíkur og þá er það arkitektúr XXI aldarinnar, og kemur Disney nákvæmlega ekki neitt við.

    Þetta er þekkt frá hinum ýmsu tímum, hinum ýmsu öldum.

  • held að oftast sé talað um eklektískan (e. eclectic) byggingarstíl sem var ríkjandi á 19. öld. hann vann með þekkt minni úr arkitektúr frekar en að apa eitthvað upp þannig skipti útlit bygginga ekki máli þar sem hægt var að velja hvaða útlit sem er yfirleitt voru kirkjur gottneskar, stjórnarbyggingar rómverskar o.s.frv. þegar pugin hannaði westminster höll breska þingsins var hún höfð gottnesk til að höfða til breskra gilda og ekki síður af hræðslu eftir byltinguna í frakklandi og breska stjórnkerfið vildi ekki taka upp útlit frönsku konungsstjórnarinnar.

    annað dæmi um eklektískan arkitektúr er ward kastali á norður írland bakhliðin er gottnesk en framhliðin klassísk. þessar byggingar eru ekki eftirlíkingar af byggingum heldur vinna með minni úr arkitetektúr á því er munur.

  • Húsin við Aðalstræti (Hótel Reykjavík Centrum) eru að hluta upprunaleg, að hluta Potemkintjöld og að hluta byggð á minnum. Þannig er Aðalstræti 16 upprunalegt hús en aðlagað að nútímaþörfum, öll hús breytast í tímans rás. Fjalakattar-facaden á nyrsta húsinu er eftirlíking af forhlið húss sem var við Aðalstræti en að öðru leyti er það nútímalegt hús. Minnin eru gleryfirbyggingin þar sem móttaka hótelsins er, hún minnir á svokallað húsport sem var í Fjalarkettinum sáluga og syðsta húsið með turni minnir á Uppsalahúsið sem þar stóð áður en er mjög stílfært minni. Hér er talað um Disneyvæðingu, má þá ekki alveg eins tala um renesansinn og nýklassíkina sem Disney-væðingu þar sem upp eftirlíkingu af húsum Grikkja og Rómverja er að ræða. Eru kannski allar stjórnarbyggingarnar í Washington DC ásamt Hvíta húsinu Disney-væðing síns tíma?

  • Úr því að ég dró Ziemsenar-húsið inní umræðuna og svo öllu sé til haga haldið er réttast að skilja eftir þessa slóð um endurbygginguna frá Minjavernd:

    http://www.mbl.is/media/48/1848.pdf
    Þar kemur fram bæði saga endurbyggingar, forsendur og nánari skýringar á útfærslunni. Hin ágætasta lesning.

    Kveðjur,

  • Þetta er skemmtileg umræða – hafðu þakkir fyrir Hilmar!
    Hér eru mín tvö cent:

    Ziemsen húsið er kórónan á stærra anleggi undir og í kring. Og því hægt að setja það í sama flokk og „fasöðu-ismann“ sem Hilmar tæpir á.
    Eitt og sér er húsið endurbyggt, en í borgarsamhenginu er verkið mun stærra. Kjallara er bætt við, torgi o.s.frv. Húsið er reyndar staðsett sérkennilega á lóðinni; með bakið á móti Grófinni, þar sem er glerútbygging yfir stigahús (og bakinngang?). Umgjörðin í kringum útisvæðið; niðurgrafna „torgið“, grindverk, handrið, tröppur og pallar eru óaðlaðandi (og illa ferlifært). Þarna hefði getað verið afslappað útitorg þar sem nándin við hið endurbyggða hús væri álíka og t.d. Fálkahúsið í Hafnarstrætinu. En það er kannski smekksatriði. Hins vegar verður að slá vara við að setja þessi gömlu hús endalaust upp á uppbyggða og stækkaða kjallara, þar sem t.d. hlutföll og efniskennd verða önnur en á upprunalega verkinu.

    Hótelið á horni Aðalstrætis og Túngötu er hreinna afbrigði „fasöðu-ismans“. Það sést best þegar frágangur á framhlið Aðalstrætis 8 (Fjalakötturinn) er skoðaður. Þar er gluggaræma sem gengur niður eftir hliðinni sem aðskilur framhlið frá húskroppi.
    Samskonar framhlið (en í öðrum stíl) var að finna á Brunabótafélagshúsinu í Hafnarfirði, (sjá bls. 106 í bók Hjörleifs Stefánssonar, Andi Reykjavíkur).
    Í Hafnarfirði, ca 1965, vildi BÍ vera nútímalegt og framsækið fyrirtæki og smellti því framhlið í stíl við hina eftirsóttu ímynd framan á húsið.
    Enn fyrr var þessu bragði beitt á mörgum metnaðarfullum torfbæjum til sveita og kölluðust þeir þá burstabæir.

    Ef við lítum út fyrir landsteinana má finna nýlegt dæmi (1980-90) á Carl Johans götu í Oslo þar sem framhliðin var endurgerð en bakhús byggð skv. nútíma kröfum.
    Og ef farið er lengra tilbaka í söguna, þá er Place Vendome í París byggð upp á þennan máta, þ.e. samhæfð framhlið, húskroppar bakvið eftir hentisemi hvers og eins. Og það var 1720. http://en.wikipedia.org/wiki/Place_Vendôme.

    Í þessum tilvikum á Zeitgeist kannski frekar við en Genius loci. Og andi tímans getur allt eins verið að rífa niður án fyrirhyggju og samhengis.

    Allt er þetta góðra gjalda vert þegar vel er gert. Þó óskar maður þess á stundum að góður arkitektúr okkar tíma (t.d. viðbygging Studio Granda við Evu á Laugaveginum) yrði gert hærra undir höfði, frekar en eltingarleikur við sögu sem við áttum kannski aldrei.

    Að lokum: kannski má kalla stílinn burstastíl upp á íslensku? Burstastíl hinn síðari?
    Og hugsanlega þá í þeim skilningi „að draga burst úr nefi e-m“. Þ.e. að gera einhvern að ginningarfífli.
    Sjá http://snara.is/s4.aspx?sw=efsti&start=60&action=search

    Enn á ný: bestu þakkir Hilmar!

  • öskubusku kastali disney er bygging sem er byggð á ímynd kastalans þ.e. kastala sem aldrei hefur verið til (þó kannski bavaríu kastali lúðvíks komist nálægt því) þessar byggingar sem ég tók sem dæmi eru einmitt bygggingar sem reyna að líkja eftir einhverju sem aldrei var til. á þann hátt eiga þær samleið með títtnefndum kastala sem hefur verið endurtekin oft og er ímynd. kastali öskubusku er þó merkilegri arkitektúr en endurgerðirnar í reykjavík fyrir t.a.m. hlutfalla leikinn sem er í gangi til að ýkja stærð kastalans. sá hlutfallaleikur minnir um margt á nýjustu verk david adjay sem er ágætur arkitekt.

  • Hallgrímur

    Góð og á margan hátt falleg færsla og ummæli, en bloggarinn sleppir „Modernismanum“ í upptalningunni!!

  • Sigurður Árnason

    Gott að heyra að þetta skuli vera oðið að viðurkenndum stíl. Ég googlaði hugtakið og fann þessa mynd:

    http://capitolhillhousing.org/12thave/wp-content/uploads/2009/08/cristalla2.jpg

    Það hefði verið mikil Guðs gjöf hefði Pálmar Kristmundsson áttað sig á þessu og gefið Höfðatorgi “facadisma” þannig að húsið meðfram Höfðatúni og Borgartúni hefði kallast á við umhverfið og sjálfan Höfða.

    Og þessu til viðótar ráðlegg ég RLIH að hugsa mál sitt betur. Disney er úr öllu samhengi við allan genius logi meðan húsin við Túngötu/Aðalstræti eru eimitt það.

    Disney er drasl meðan húsin við Aðalstræti/Túngötu eru genius logi

  • það má einmitt ekki rugla þessari stefnu saman við disney væðinguna sem sjá má í húsum eins og hótelinu á horni túngötu og aðalstrætis og framkvæmdanna á horni austurstrætis og lækjargötu, öskubusku kastalinn í disney world hvort sem er í florida, kaliforniu, frakklandi eða japan, er merkilegri arkitektur en þær framkvæmdir.

    á kannski líka eitthvað skilt við potemkin arkitektúr.

  • stefán benediktsson

    Zimsen er upprunalegt, uppgert hús með viðbyggingum, Aðalstræti er eftirlíking og Nýja Bíó líka. Ef ég skil Hilmar rétt er hann að tala um dæmi þar sem gamalgróin hús eru „skrælluð“ að innan, innréttuð í samræmi við nútíma þarfir en útveggir, „fasaðan“, látin halda sér. Þar sem ég hef séð þetta erlendis hefur þetta verið leyst á sannfærandi hátt.

  • Mætti ekki bæta Zimsen húsinu í myndasafnið, nú eða hótelinu á horni Aðalstrætis og Túngötu? Nýjabíó?

  • I have always really loved buildings like this, the creativity and construction challenges that were overcome to create them, the way they both hide and reveal at the same time, they are wonderful.

  • Fólk er íhaldsamt á sitt vanabundna umhverfi og sættir sig við sjónhverfingar ef ekki er að betra völ. Mér skilst líka að það sé algengt víða í evrópskum borgum og bæjum að eftirstríðsárabyggingar (funksjónalisminn) sé jafnaðar við jörðu og reistar að nýju byggingar eins og þær voru fyrir stríð. Þetta á þó varla við nema um ytra byrði húsanna. En fólki virðist líða betur
    i umhverfi sem er umvafið húsum með sögulegum og svokölluðum þjóðlegum stíltegundum (nýklassisma, nýbarokk, jugend o.s.frv) heldur en húsum fúnksjónalismans sem einmitt var þó hugsaður til að fólki liði sem best. En kannski var þetta bara slæmur fúnksjónalismi.

  • Þorvaldur A.

    Ég var í Glasgow fyrir nokkru og sá að þetta var frekar reglan en undantekning þegar byggt er í miðborginni þar. Í Parísarborg hafa heilu göturnar verið endurbyggðar með þessari aðferð. Það er oftast sómi að þessu þó stundum sé langt gengið.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn