Miðvikudagur 12.10.2016 - 23:57 - 16 ummæli

Fagurfræðin í Borgarskipulaginu: „Er þetta ekki á svoldið háu plani?“

14606434_10155313036586679_4714426592622531255_n

Þegar frummælendur höfðu talað á fundi á Kjarvalsstöðum í gærkvöld spurði Hjálmar Sveinsson fundarstjórann Gunnar Hersvein fundarstjóra hvort þetta sé ekki á háu plani?

Gunnar svaraði ekki, en ég svaraði spurningunni fyrir sjálfan mig játandi.

Fyrsti frummælandinn var Hjálmar Sveinsson formaður Umverfis og skipulagsráðs. Hann er með BA-próf í heimspeki og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og er MA í heimspeki, þýskum fræðum og bókmenntum frá Freie Universität Berlin.

Næst tók til máls Guðbjörg R Jóhannesdóttir sem útskrifaðist með meistaragráðu í Values and the Environment frá Lancaster University og doktorsgráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands.

Mér fannst þau aldrei ná alminnilega niður á jörðina. Þau töluðu eins og gert var á Akademíunni í Kaupmannahöfn í gamla daga þegar ég var þar við nám. Þetta voru meira svona heimspekilegar skilgreiningar um fegurðina. Eins og að fegurðin sé í augum sjáandans og að fegurðin sé byggð á upplifun þar sem sagan skiptir kannski meira máli en formið. Að fegurðin væri víkjandi t.a.m. í myndlistinni og að fegurðin tengdist jafnvel frekar réttlæti og sannleika en forminu.

Kennisetningar á borð við „De gustibus non est disputandum“ eru fyrir löngu úreltar. Allir vita að t.a.m.  symmetrían er falleg. Sama á við um gullinsniðið. Hvorutveggja á rætur að rekja til manneskjunnar sem gengur upp í gullinsniðið og er symetrisk. Le Corbuslier sagði að ef við göngum útfrá að manneskjan sé falleg þá er allt sem gengur upp í manneskjuna fallegt. Svo er auðvitað alltaf „fallegt í Borgarfirðinum þegar vel veiðist“

Þetta eru auðvitað mjög spennandi pælingar og mér leiddist aldrei. En ég velti samt fyrir mér hvort svona fræðileg djúp pæling á erindi á borgarafund sem umhverfis- og skipulagssvið boðar til um fagurfræðina í borgarskipulaginu hér í borg.

Þá tók til máls Hjörleifur Stefánsson og loks Margrét Harðardóttir  en þau hafa bæði starfað sem arkitektar hér í borg á verið með hendurnar á öllum þeim viðfangsefnum sem varða byggingar nýrra húsa, endurnýjunnar gamalla og skipulag af öllu tagi. Þau hafa verið virk í umræðunni um fagurfræði borgarskipulagsins í sínum  raunveruleika. Þau náðu niður á jörðina í sínu máli. Töluðu um fjárfesta og græðgi.

Hjörleifur nefndi hina sögulegu vídd og þá staðreynd að fólk laðast að sögulegri gamalli byggð. Hann taldi almennt tíðarandann vondan ef ég skildi rétt og að menn hefðu tilhneigingu til að skemma það sem þeim þætti væntum. Hann sagði líka að ábyrðin lægi hjá stjórnálamönnum frekar en arkitektum og fjárfestum. Hann taldi stjórnmálamenn valda meiru um niðurstöðuna en arkitektar og athafnamenn  Þetta er líklega rétt hjá Hjörleifi. Arkitektar ganga til verka sinna með hagsmuni verkkaupa að leiðarljósi. Hvort heldur hann er sveitarfélag eða húsbyggjandi. (Arkitektar geta ekki á sama tíma þjónað heildarhagsmunum borgaranna og sérhagsmunum húsbyggjandans eins og allr vita). Arkitektar halda sér síðan innan þess ramma skipulagsins sem stjórnmálamennirnir hafa mótað með ráðgjöfum sínum.

Margrét taldi að hógværu byggingarnar væru oftast fallegastar og að fegurðin fengist ekki með einhverjum flýtiaðferðum, hún er ekki fljótfengin. Hún vék að Skuggahverfinu þar sem hugmyndin virtist vera „útsýnið er mitt en umhverfið þitt“.

Eftir framsögu vou leyfðar nokkrar fyrirspurnir.

Bjarni Reynarsson spurði um hið smágerða og fíngerða umhverfi sem fyrirheit eru gefin um í AR2010-2030 og var líklega með uppbyggingu við Austurhöfn í huga. Hjálmar valdi að nota Hljómalindarreitin milli Hverfisgötu og Laugaveg sem dæmi um framkvæmd þess makmiðs að skapa fíngert umhverfi fyrir fólk. Sem er eitt af frábærum markmi’ðum AR2010-2030. Þarna hefði Hjálmar getað notað tækifærið og skýrt skipulagið við Austurhöfn, sem mikið er í umræðunni,  fyrir fundargestum en láðist að nota tækifærið.

Gestur Ólafsson arkitekt gerði annarsvegar athugasemd við að það væru ekki fagmenn sem sætu í skipulagsráði og hinsvegar að það væri nánast orðin reglan að arkitektar tækju að sér að deiliskipuleggja fyrir borgina (eða lóðarhafa) og í framhaldinu teiknuðu þeir svo húsin fyrir lóðarhafa. Þetta taldi hann slæmt verklag. Sem vissulega er fullkomleg rétt hjá honum. Ég áttaði mig ekki á svari Hjálmars við þessu.

Magnús Skúlason arkitekt i og fyrrverandi formaður bygginganefndar í Reykjavík lýsti áhyggjum sínum af því að umfjöllun um byggingalist væri ekki markviss. Hún hefði ekki vissan stað í kerfinu. Áður var umfjöllunin tvískipt. Annarsvegar skipulagsnefnd sem fjallaði um skipulagið og hinsvegar bygginganefnd sem fjallaði um byggingamál.  Ég tek undir þetta hjá Magnúsi. Þetta var betra áður. Og svo skipuðu arkitektar og sklipulagsfræðingar meirihluta í þessum nefndum á árum áður ef ég man rétt. Sem var gott.

Pétur Árannsson arkitekt taldi þemað „fegurð“ reynsluvísindi og að hið fumlega ætti frekar að vera undantekning en reglan. Menn ættu að leggja meiri áherslu við hönnun að vera „venjulegur“ en „frumlegur“ ef ég skildi rétt. Hann nefndi frábærann hönnuð, Einar Erlendsson, í þessu sambandi. (Einar teiknaði Mjólkurfélagshúsið i Hafnarstræti o.m.fl.) Sennilega mundi þessi þankagangur hjálpa til við að auka fegurðina í borgarlanslaginu.

Fundarstjóri á fundinum  sem var óvenju vel sóttur af talsvert á annaðhundrað manns var Gunnar Hersveinn heimspekingur.

++++

Þetta var fróðlegur og ánægjulegur fundur en hann missti marks að mínu mati. Það hefði verið betra ef fundurinn hefði ekki verið á svo háu plani. Það hefði verið betra fyrir umræðuna hefði þetta verið lágstemmtara. Ekki var minnst á „Menningarstefnu hins opinbera í mannviskjagerð“ frá 2007 á fundinum sem vissulega tekur á þessum málum öllum.

++++

Ég velti fyrir mér af hverju umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar er að halda fund um fræðilega skilgreiningu fegurðarinnar svona almennt séð og svífandi. Þó hún þurfi auðvitað að vera skýr. Af hverju ekki er gengið beint í málin?

Ég hefði viljað fá umfjöllun um stjórnun, verklag til að hámarka fegurð borgarinnar okkar.  Einhverja umfjöllun um staðarandann og „regionalisma“ staðarins og menninguna hér. Hvert við viljum fara og hvernig við getum komist þangað. Hvar erum við stödd?

Ég er t.d. fullviss um að deiliskipulagið við Austurhöfn var vanreifað og lítið unnið. Það hefði verið heppilegt dæmi sem einskonar „case study“ hvað fagurfræði borgarskipulagsins varðar og gott umfjölluarefni og góður útgangspunktur á fundi sem þessum.

Það er í mínum huga ljóst að skilmálar skipulagsins við Austurhöfn voru slæmir. Höfundar þess misstu þar af miklu tækifæri sem lá fyrir framan þá. Þeir hefðu getað notfært sér skilgreiningar um staðarandann sem var í Kvosarskipulaginu frá 1986. Þeir hefðu getað lesið bók Hjörleifs um Anda Reykjavíkur. Þeir hefðu getað notað tækifærið og látið bolverkið sem falið var undir yfirborðinu vera forsendu í deiliskipulagsgerðinni.  Allavega tryggt að það kæmi ekki öllum á óvart þegar byrjað var að grafa.

Stjórnmálamenn tóku upplýsta ákvörðun og samþykktu þetta skipulag. Og ábyrgðin er þess vegna þeirra. Nú eru húsin nánast fullhönnuð og sitt sýnist hverjum. Ábyrgðin er ekki skipulagshöfundanna nema að takmörkuðum hluta og ekki heldur húsahönnuðanna. Ábyrgðin  stjórnmálamannanna sem samþykktu þetta fyrir okkar hönd.

Þegar ég segi að stjórnmálamennirnir tóku upplýsta ákvörðun um deiliskipulagið þá segi ég það vegna þess að þessar athugasemdir  (flestar) komu fram í athugasemdum þegar deiliskipulagið var auglýst.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

  • Kristján Arngrímsson

    Ég skal ekki segja neitt um fundinn, ég var því miður ekki á honum.

    Þú segir að menn hafi „reynt að finna út með rannsóknum hvað fólki finnst fallegt og í hvernig umhverfi þvi líður vel. Arkitektar þekkja niðurstöðurnar“.

    En skv. því sem Hjörleifur segir hafa arkitektar síðan í módernismanum beinlínis unnið gegn þess háttar umhverfi sem fólki líður vel í.

    Mér finnst það i meira lagi forvitnilegt. (En ég er ekki viss um að ég sé endilega sammála Hjörleifi).

  • Hilmar Þór

    Þakka þér fyrir að taka þátt í umræðunni Kristján.
    Ég átti reyndar von á að fá holskeflu af athugasemdum vegna þessa inngangs hjá mér, sem er kannski svoldið hrokafullur. Kannski ögrandi til þess að kalla á viðbrögð.

    En það er þannig að allir hafa vit á smekk fyrir sína parta. Ef þú tekur t.a.m. mat eða öllu heldur vín sem dæmi þá er það viðurkennt að smekkur manna er misjafn og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því hvað fólk lætur ofaní sig. En þegar kemur að byggingum og skipulagi þá varðar útkoman þar okkur öll. Það er ekkert einkamál þess sem byggir hvernig hann gerir það. Hinvegar er það einkamál hans hvað hann setur ofani sig.

    Þegar umræðan um fegurðina í byggingalistinni er uppi á borðum reynir maður að finna sameiginlegt mengi af því sem kallað er fegurð. Og það er oft þannig að fólki finnst það fagur sem virkar vel. Veiðimenn segja að það sé fallegt í Borgarfirðinum þegar vel veiðist.

    Nei það eru engir fagmenn í fegurð og allir hafa sitt um sitt prívat fegurðarskyn að segja. Og minn smekkur er ekki betri en þinn. Hinsvegar hafa rannsóknir sýnt að fólki líður betur í fallegu umhverfi. Í framhaldi af því hafa menn reynt að finna út með rannsóknum hvað fólki finnst fallegt og í hvernig umhverfi þvi líður vel. Arkitektar þekkja niðurstöðurnar.

    Varðandi fundinn þá fanns mér (og fleirum) að hann hefði átt að hverfast meira um þau sérstöku atriði sem gera Reykjavík fallega og hvernig okkur hefur tekist eða ekki tekist að styrkja þá þætti. Með dæmum þar sem ekkert er gefið eftir.

    Það var ekki gert á umræddum fundi. Það var gott að fá Guðbjörg R Jóhannesdóttir til þess að skilgreina fegurðarhugtakið svona fræðilega og láta þar við sitja. Önnur erindi og umræður hefðu verið gagnlegri ef þau hefðu snúist um hvað er að gerast í dag og hvernig það samrýmist hugmyndum okkar um anda Reykjavíkur og hverni styrkja mætti kostina og draga úr göllunum.

    Annars setti ég inn pistil um efnið í morgun. Hann er eftir Hjörleif Stefánsson og byggir á erindi hans á umræddum fundi. Endilega lestu hann og kommenteraðu

  • Kristján Arngrímsson

    Hvernig er hægt „að hámarka fegurð borgarinnar okkar“ nema fyrir liggi að minnsta kosti einhverskonar útlistun á hvað téð fegurð er? Og er hægt að fá þá útlistun fram öðru vísi en að ræða málin? Eða eru til fagmenn í fegurð? (Skyldu þó ekki vera arkitektar?)
    Ég viðurkenni á mig að vera heimspekingur þannig að það er kannski fyrirfram ekkert að marka mig.

  • Hilmar Þór

    Þetta er sennilega að mestu rétt hjá þér Stefán Benediktsson. Þú sannfærðir mig eiginlega með dæminu um að allir þingmenn væru lögfræðingar vegna þess að þeir hefðu meira vit á lagasmíðum en bakarar eða smiðir.

    Mig langar til þess að spyrja þig að öðru sem Gestur nefndi og það er hvort ekki sé óheppilegt að sami aðilinn geri deiliskipulagið og hanni samtímis eða í kjölfarið öll húsin á reitnum eða flest þeirra?

    Og svo eru það áhyggjur Magnúsar Skúlasonar yfir því að bygginganefnd sem mat sérstaklega byggingar var lögð niður? (elsta nefnd borgarinnar og sú merkilegasta)

  • Stefán Benediktsson

    Gestur Ólafsson og fleiri hafa oft tjáð þá skoðun að pólitísk ráð sem fjalla um skipulags og byggingarmál eigi að vera skipuð fagmönnum. Ég er ekki sammála því viðhorfi, en það er aukaatriði.
    Mikilvægara er að menn sýni fram á að skipan sérfræðinga í pólitísk byggingar-og skipulagsráð skili betri borg og betri húsum. Ég efast um að það sé hægt. Reynslan virðist ekki sanna það.
    Á öldinni sem leið var byggingarnefnd oftast nær eingöngu skipuð margskonar fagmönnum úr byggingarbransanum.
    Spurning: sjá menn þess merki í betri byggingum frá stríðslokum til aldamóta, en byggðar eru í dag?
    Í skipulagsnefnd voru að vísu stundum arkitektar en viðfangsefni nefndarinnar frá 1964 fólst að miklu leiti í að fjarlægja alla megindrætti umferðarskipulagsins sem var grunnur þess skipulags og megin forsenda. Verð að játa að ég eins og fleiri er frekar þakklátur fyrir það skemmdarverk í dag.
    Mest gagnrýnda stofnun landsins er Alþingi.
    Spurning: myndu verk Alþingis, lagasmíð, batna ef allir þingmenn væru lögfræðingar?
    Og já,Hjálmar misskildi Gest ekki, en undirstrikaði með svari sínu að fagleg vinna á að vera verkefni fagmanna, en pólitísk vinna verkefni kjörinna fulltrúa borgaranna.
    Pólitíkusar eru alls ófærir um að hanna skipulag eða byggingar á fundum. Þeirra hlutverk er að ábyrgjast að farið sé að leikreglum. Sérfræðingar stofnana eru ekki dæmdir að verkum sínum frekar en sjálfstætt starfandi sérfræðingar en pólitíkusar verða að leggja verk sín í dóm. Þar kemur siðferði og fagurferði (bráðsnjallt orð) mikið við sögu.
    Ég hef reyndar oft lýst þeirri skoðun minni, að ef menn vilji gott samræmi í skipulagi og hönnun borgar, eigi að skipa skipulags-og byggingaeinvald til langs tíma sem hefur það hlutverk að segja já og nei. Smekkur eins fagmanns tryggir samræmi, smekkur sjö fagmanna getur af sér hrossakaup og enn frekar ef þeir eru fagmenn og pólitíkusar í senn.

  • Guðrún Þorsteinsdóttir

    Það er ávísun á spillingu að sömu aðilarnir skipuleggi annarsvegar fyrir heildina og haldi svo viðstöðulaust áfram og hanni húsin á lóðina fyrir braskara. Hvar eru skilin eða mörkin milli almannahagsmuna og einkahagsmuna braskaranna? Þau eru ekki til eða allavega eru þau óskýr og bjóða uppa grasserandi spillingu!

  • Athyglisvert. Þegar kjarni málsins er gerður ósýnilegur í fræðilegu bulli. Þetta er alþekkt trikk. Sáum þetta oft í „já ráðherra“

    • Kristján Arngrímsson

      Athyglisverð skilgreining á bulli: Það sem ég skil ekki.

  • Sigrún Guðmundsdóttir

    Var meiningin að þessi fundur afgreiddi málið í eitt skipti fyrir öll? Eða verður þessu samtali haldið áfram af borgarinnar hálfu?

  • Ég man ekki betur en að skipulagsyfirvöld hafi svarað athugasemdum við deiliskipulagið á Landspítalalóðinni, þar sem vísað var til Menningarstefnunnar, efnislega þannig að það ætti ekki við því nýju byggingarnar væru í allt öðrum mælikvarða.

  • Eysteinn Guðmundsson

    Eftirfarandi stendur í menningarstefnunni sem undirrituð er af Illuga Gunnarssyni ráðherra:

    „Áhersla skal lögð á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð. Til að tryggja heildrænt og sögulegt yfirbragð húsa, götumynda og byggðamynsturs er nauðsynlegt að stjórnvöld framfylgi skýrri stefnu þar um.“

    Þetta setur byggðina við Austurhöfnina langt útfyrir allt velsæmi. Líka allt þetta Landspítaladæmi!

  • Sigurlaug

    Ég gúgglaði Menningarstefnuna sem var endurnýjuð 2014. Þar er fjallað um flest þau atriði sem koma fagurfræði borgarskipulagsins við.

    Hefur hún verið notuð og haft tilætluð áhrif? Hefur einhverjum byggingum verið breytt með vísun í stefnuna?

    Hér er slóð að stefnunni fá 2014:

    https://www.menntamalaraduneyti.is/media/frettir2014/Menningarstefna-i-mannvirkjagerd-Ny-utgafa-2014.pdf

    • Hilmar Þór

      Ég var í boði þegar menningarstefnan var gefin út og ráðherra afhenti hana með stuttri ræðu þar sem áhersla var lögð á mikilvægi stefnunnar fyrir allt okkar umhverfi.

      Ég hef ekki heyrt að hún hafi haft áhrif.

      Ég vísaði í hana fyrir svona 5-6 árum þegar deiliskipulag á Landspítala var auglýst og taldi að skipulagið stangaðist á við Menningarstefnuna, sem það gerði. Borgaryfirvöld töldu ekki ástæðu til þess að aðlaga deilikipulagið að stefnu hins opinbera í mannviskjagerð.

  • Það er reyndar ekki alveg rétt að það séu engir fagmenn í umhverfis- og skipulagsráði. Magnea Guðmundsdóttir er arkitekt og Sverrir Bollason umhverfisverkfræðingur.

  • Elín G. Gunnlaugsdóttir

    Varðandi fyrirspurn Gests þá greinilega misskildi Hjálmar hana, því hann svaraði þvi til að á skipulagssviði væri eingöngu fagaðilar sem ynnu þar. En Gestur var að vísa í að það væri enginn fagaðili í umhverfis-og skippulagsráð. Ég var hissa að Gestur hafi ekki leiðrétt þennan misskilning Hjálmars!

    Já, það væri áhugavert ef næsti fundur myndi fjalla um svæðið í kringum höfnina og kannski þessa neikvæða þróun sem orðið hefur í skipulagi borgarinnar þar sem hið „stórgerða“ er að gleypa „hið smágerða“ og er ég þá að vísa í hina einkennandi smágerðu litríku hús sem eru að hverfa og í staðinn koma stórir hótelkubbaldar.

    ….og takk fyrir samantektina, Hilmar 🙂

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn